Lánasýsla ríkisins
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa orðið verulegar breytingar á peningamarkaði, bæði hérlendis og erlendis, og ljóst er að á þeim tímum sem í hönd fara eiga þær breytingar eftir að verða enn meiri. Þessar breytingar hafa það m.a. í för með sér að ríkissjóður verður að heyja samkeppni við innlenda og erlenda aðila um lánsfjárútvegun til þess að fjármagna rekstur ríkisins á hverjum tíma og mjög mikilvægt er að stuðla að hagkvæmniútvegun erlendra lána, bæði fyrir ríkissjóð og aðra opinbera aðila.
    Það frv. sem hér er flutt er flutt í þeim tilgangi að færa þessi mál hér hjá okkur á Íslandi í svipaðan búning og gerist í nágrannalöndum okkur. Það kerfi sem við höfum búið við lengst af, að Seðlabanki annars vegar og embættismenn fjmrn. hins vegar annist þetta verkefni, hentar augljóslega ekki lengur í þeim breytta heimi sem við búum nú við. Hlutverk Seðlabanka hefur tekið breytingum og mun taka enn frekari breytingum þannig að hlutverk hans sem beins fulltrúa ríkisvaldsins í erlendum lántökum hefur nú þegar tekið stakkaskiptum. Sama gildir um það að sala spariskírteina ríkisins og ríkisvíxla getur ekki með góðu móti átt heima í höndum embættismanna ráðuneytis og eðlilegra að fella það í farveg þar sem sérstakur aðili annast þetta verkefni.
    Þetta mál var flutt í hv. Ed. og var afgreitt þar með þeim hætti að fulltrúar allra flokka í fjh.- og viðskn. Ed. mæltu með því að það yrði samþykkt og vona ég að frv. fái jafngóðar viðtökur í þessari hv. deild.
    Ég mælist svo til þess að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.