Lánasýsla ríkisins
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð við 1. umr. um þetta mál sem hér er á dagskrá og verið er að ræða. Um þetta varð samkomulag í Ed. eins og hæstv. ráðherra gat um í sinni stuttu og skýru framsöguræðu. Við munum skoða þetta mál með fullum velvilja í nefndinni, sjálfstæðismenn, og teljum að hér sé verið að taka skref í rétta átt. Það væri vissulega ástæða til að hefja hér umræður um ríkisfjármálin og lánastarfsemina á undanförnum árum, ekki síst í tilefni af orðum seðlabankastjóra á aðalfundi Seðlabankans nýlega þar sem hann sagði sína skoðun á því sem gerst hefði í ríkisfjármálunum að undanförnu og hvað væri gagnrýnisvert að því er varðaði lán ríkisins og er þá ekki verið að tala nákvæmlega um þá lánaumsýslu sem þetta frv. snýst um. Ég hygg að sú ræða hafi verið þörf áminning til okkar allra og kannski sérstaklega til þeirra sem hafa tekið að sér að stjórna ríkisfjármálunum, kannski til hæstv. ríkisstjórnar allrar sem í raun og veru hefur gefist upp á því að stjórna þessu landi. Og fyrst ég hef hérna hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. nærstadda held ég að fullkomlega sé ástæða til að það komi mjög skýrt til skila að í raun og veru er hægt að sitja í ríkisstjórn endalaust ef menn hafa engan metnað til að bera, hafa engan skilning á því að þeim er falið það verkefni fyrst og fremst að reka ríkissjóð og ríkisstarfsemina með sama hætti og allir ætlast til þess að aðrir reki fyrirtæki og heimili. ( ÓÞÞ: Hvað segir Eykon um þetta?) Eyjólfur Konráð er þessu að sjálfsögðu sammála. Hann vill að ríkið sé rekið með sama hætti og góðir og gegnir einstaklingar reka sín heimili og sín fyrirtæki. Ríkisstjórn sem gefst upp á því að láta enda ná saman í ríkisfjármálum er í raun búin að gefast algjörlega upp á öllu sínu ætlunarverki.
    Það væri lítill vandi fyrir mig ef einhver kæmi til mín og bæði mig um það að reka fyrir sig fyrirtæki ef það skipti ekki nokkru máli hvort það væri rekið með halla eða ágóða. Það er nú þannig með eigendur flestra fyrirtækja, sem betur fer, að þeir kjósa að ráða til stjórnunarstarfa þá menn sem reka fyrirtækin a.m.k. þannig að þau fari ekki þráðbeint á hausinn. En hvað gera þeir sem hafa tekið að sér ríkisbúið nú um stundir? Jú, þeir lýstu því yfir, þegar þeir komust að, að nú skyldi verða tekið á, nú átti að sýna öllum öðrum hvernig rekstur ætti að vera í landinu, hvernig ætti að reka þjóðarbúið, stórfelldar yfirlýsingar um það að nú yrði ekki halli lengur, skattar stórlega hækkaðir, um marga milljarða kr. Hvað gerðist? Útgjöldin hækkuðu miklu meira en skattarnir og svo fór að næst þegar þessi hæstv. ríkisstjórn þurfti að setja saman fjárlög var allt í einu komið nýtt markmið, þ.e. loka ekki fjárlögum öðruvísi en með stórfelldum halla.
    Nú væri það allt í lagi ef menn um stundarsakir segðu sem svo: Við verðum að reka ríkissjóð með halla. Við ætlum okkur að ná fyrir þetta á einum eða tveimur árum. Við skulum hugsa okkur að það væri markmiðið, þá væri þetta í lagi, og síðan fylgdu menn einhverjum áætlunum, en þessi hæstv. ríkisstjórn sem

nú situr hér hefur ekki gert þetta svona. Hún er gjörsamlega metnaðarlaus því að hún stórhækkar skattana og síðan hækka útgjöldin langt umfram skattana. Og eins og hv. þm. Pálmi Jónsson hefur glögglega sýnt fram á í sínum síðustu ræðum, þá er staðan orðin sú að útgjöld ríkisins eru orðin yfir 29% af vergri landsframleiðslu. Þegar þessu var spáð á sl. ári stóðu menn upp og sögðu: ,,Þetta er bara ekki rétt.`` Við héldum þessu fram þá. Þá var sagt: ,,Nei, þetta er ekki rétt. Þetta verða ekki nema um 27%.`` En sannleikurinn er sá að þrátt fyrir allar sínar fögru yfirlýsingar hefur hæstv. ríkisstjórn engan metnað til að bera í þessum efnum.
    Ég ætla nú ekki, virðulegur forseti, að setja á langa tölu um þetta atriði. Það væri þó vissulega tilefni til. Ég vil aðeins segja að ég tel að þeir hættir sem hér er stungið upp á að verði teknir upp í fjmrn. séu til bóta og ég hygg að hv. nefnd muni komast að jákvæðri niðurstöðu eftir að hún hefur skoðað þetta mál og ég mun a.m.k. gera mitt til að þetta mál fái afgreiðslu í nefndinni ef einhver fundur verður haldinn í henni það sem eftir lifir þingsins.