Heilbrigðisþjónusta
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Því er ekki að leyna að mjög mikill ágreiningur hefur verið víða um þá stefnu í heilbrigðismálum sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. heilbr.- og trmrh. hafa staðið fyrir að undanförnu. M.a. hafa sjálfstæðismenn gert margvíslegar athugasemdir og er rétt að minnast þess að á síðasta landsfundi Sjálfstfl. urðu miklar umræður um þessi mál og komu fram miklar athugasemdir. Ekki síst var rætt um lögin um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem menn töldu að væri brýn þörf á að endurskoða nú þegar. Ég hef hér undir höndum athugasemdir við frv. til laga um breytingu á heilbrigðisþjónustu, m.a. frá Ingólfi Sveinssyni lækni sem er fulltrúi í heilbrigðisráði Reykjavíkurborgar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í upphafi má minnast þess að vorið 1989 voru samþykkt lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Var það mjög margslunginn pakki sem rann í gegnum Alþingi án þess að tími ynnist til þess að kanna málin. Menn einblíndu á vissar fjárhagshliðar, en gættu ekki að því að alls konar réttindi sveitarfélaga, og mannréttindi yfirleitt, tóku þarna miklum breytingum og sumir mundu segja að þau hafi farið forgörðum, vald ríkisins stórefldist og sveitarfélögin fengu ekki sinn hlut sem þau vonuðust eftir sem var peningar. Svipað má nú segja um frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Hér er um að ræða gífurlega mikinn fjölda mála og róttæka breytingu á stofnunum og alls konar þjónustu sem verið hefur í gangi mjög lengi með einu formi og yrði nú breytt yfir í annað. Þetta á sérstaklega við um Reykjavík.``
    Það kom mjög skýrt fram í þeim umræðum sem áttu sér stað í þeirri málefnanefnd, sem fjallaði um heilbrigðis- og tryggingamál á landsfundinum, að menn töldu ekki ástæðu til þess að láta sömu reglur gilda um Reykjavík og alla landsbyggðina hvað þetta snertir vegna þess að það væri um svo sérstakar aðstæður að ræða að það væri ekki sambærilegt.
    Það er einnig rétt að vekja athygli á fleiru sem kemur fram í þeim athugasemdum sem ég rakti kafla úr áðan. Þar segir m.a.: ,,Mikilvægt er að skerða ekki sjálfstæði einkastofnana í heilbrigðisþjónustu. Meðan uppbygging heilsugæslustöðva hefur farið fram úti á landi síðustu tvo áratugina hafa Reykvíkingar mestmegnis beðið og sinnt sínum málum á eigin spýtur. Hér er rík hefð að ýmsu leyti og hér eru aðstæður gersamlega aðrar en á landsbyggðinni. Það er fullkominn óþarfi að troða upp á Reykvíkinga heilsugæslukerfi sem hentar úti á landsbyggðinni sérstaklega, þar sem heimilislæknaskortur er ekki lengur í Reykjavík.`` Og fleira er sagt um þetta mál.
    Væntanlega eru nokkuð skiptar skoðanir á þessu en svo virðist sem hv. heilbr.- og trn. Ed. hafi unnið mjög vel að gerð þessa frv. og þeim breytingum sem þar koma fram. Hins vegar eru kannski nokkur atriði, og þá einkanlega hvað snertir Heilsuverndarstöðina í Reykjavík, sem vekja athygli og er ekki alveg ljóst

hvernig með skal fara. Þó munu þessar breytingar í heild sinni hafa verið gerðar með nokkru samkomulagi við borgarstjórn Reykjavíkur, enda ítrekaði hæstv. ráðherra hér áðan að það væri stefnt að enn frekara samkomulagi við Reykjavíkurborg.
    Það er rétt að taka undir þá ábendingu sem kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur áðan um atriðið á bls. 2 í brtt. þar sem segir: ,,Þrátt fyrir skiptingu Reykjavíkur í heilsugæsluumdæmi geta íbúar borgarinnar jafnan valið sér heilsugæslulækni eða heimilislækni utan heilsugæslustöðva og leitað læknishjálpar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni.`` Ég held að það hafi verið eftir ábendingu sjálfstæðismanna í þessari nefnd sem þetta orð ,,heimilislæknir`` kom inn í þessa grein til þess að gera það alveg skýrt að það væri ekki þvingað upp á menn að fara undir eitthvert ákveðið kerfi eða ákveðna aðila, heldur hefðu þeir val í þessu efnum rétt eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir hér áðan.
    Hins vegar verður að taka undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram um Heilsuverndarstöð Reykjavíkur þar sem ekki er alveg ljóst að hér sé eingöngu um skipulagsbreytingar að ræða, enda segir í frv. að starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar skuli haldast óbreytt þar til heilsugæslustöðvar hafi verið skipulagðar til að annast hana, en þó ekki lengur en til ársloka 1991.
    Nokkru neðar segir að stjórnin skuli í umboði heilbr.- og trmrh. annast rekstur Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og í samráði við héraðslækni og stjórnir heilsugæsluumdæmanna í Reykjavíkurhéraði undirbúa að starfsemi stöðvarinnar leggist niður eigi síðar en 1. jan. 1992. Það er alls ekki ljóst hvað hér er átt við. Þess vegna er rétt að gera hér grein fyrir ályktun heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar, sem dags. er 27. apríl og mun hafa verið dreift til allra þingmanna. Þar segir um þessa brtt., sem ég minnist á hér áðan:
    ,,Heilbrigðisráð Reykjavíkurborgar mótmælir harðlega fyrirætlun um að leggja niður með lögum starfsemi Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, eins og fram kemur
í tillögum heilbr.- og trn. Ed. Alþingis. Á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur hefur þróast margvísleg, sérhæfð heilsuverndarþjónusta sem borgarbúar nýta í stórum stíl. Mikið af þessari starfsemi er þess eðlis að henni yrði ekki nægilega sinnt annars staðar. Heilbrigðisráð bendir á að Heilsuverndarstöðin annast stóran hluta af heilsuverndarstarfsemi fyrir Reykvíkinga og heilsugæslustöðvar hafa aðeins tekið við hluta af því starfi. Ekki er fyrirsjáanlegt miðað við fjárveitingar ríkisins á umliðnum árum að heilsugæslustöðvar taki við allri heilsuverndarstarfsemi fyrr en eftir aldamót.``
    Auk þess bendir heilbrigðisráð á að jafnvel þótt fleiri heilsugæslustöðvar verði byggðar verði áfram þörf fyrir sérhæfða starfsemi í heilsuvernd. Heilbrigðisráð hefur áður gefið umsögn um ofangreint frv. en þá hljóðaði ákvæðið um Heilsuverndarstöðina á annan veg. Heilbrigðisráð samþykkti þá m.a.:
    ,,Við teljum nauðsynlegt að Heilsuverndarstöð

Reykjavíkur gegni samræmingarhlutverki í ákveðnum þáttum heilsuverndar, svo sem heilsugæslu í skólum og barnavernd. Jafnframt verði þar áfram sinnt atvinnusjúkdómum, kynfræðslu, lungna- og berklavörnum. Frá Heilsuverndarstöðinni verði einnig unnið að þróunarverkefnum í heilsuvernd. Heilbrigðisráð lýsir áhyggjum sínum vegna þessa máls og mótmælir þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð.``
    Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að gera grein fyrir þessum athugasemdum frá heilbrigðisráði Reykjavíkurborgar og vænti þess að þær verði teknar til athugunar í hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar.