Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég vildi aðeins spyrjast fyrir um það hvernig ætlunin er að halda áfram umræðu um þetta mál. Svo hafði að vísu talast um í gær milli mín og hæstv. forsrh. að a.m.k. af hálfu okkar sjálfstæðismanna væri ekkert því til fyrirstöðu að þessi umræða byrjaði hér kl. 10 í morgun en af ýmsum ástæðum sem ég þekki ekki hafa önnur mál verið hér til umræðu og geri ég engar athugasemdir þar við.
    Það er ljóst að við þessa umræðu er nauðsynlegt að hv. formaður fjvn. sé viðstaddur og ég geri ráð fyrir því að ýmsir fjárveitinganefndarmenn vilji taka þátt í henni. Ég hef fengið þær upplýsingar að nú í hádeginu eigi að hefjast fundur í fjvn. Ég tel alveg útilokað að þessari umræðu verði fram haldið meðan fundur stendur í hv. fjvn. Að mínu mati er aðeins ein leið til að leysa það mál sem hér er til umræðu. Það mál sem er til meðferðar hér í þinginu og hægt er að nota til að leysa málið á raunhæfan hátt er til meðferðar í fjvn. Fyrir þá sök tel ég nauðsynlegt að a.m.k. formaður fjvn. sé viðstaddur umræðuna og beini því til forseta að gert verði hlé á umræðunni meðan fundur stendur í hv. fjvn.