Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Forseti (Geir H. Haarde):
    Forseti vill upplýsa eftirfarandi vegna þessara ummæla að svo hafði að vísu talast til að þetta mál kæmi fyrst á dagskrá í morgun að loknum atkvæðagreiðslum. En forsrh. féllst á það að beiðni samráðherra sinna tveggja að þeirra mál kæmu á undan og var það að sjálfsögðu í góðu samkomulagi við forseta. Þær umræður urðu að vísu heldur lengri en ráð hafði verið fyrir gert en við því er ekkert að segja á þessu stigi.
    Forseta er kunnugt um það að fyrirhugaður er fundur í fjvn. kl. 12.15. Í ljósi þess og í ljósi þeirrar óskar sem fram er komin frá hv. 1. þm. Suðurl. finnst forseta eðlilegt að gera hádegishlé þegar fundur í fjvn. hefst til kl. 13.30. En hann ætlast síðan til þess að fjvn. taki tillit til starfa hér í deildinni og geri hlé á fundum sínum kl. 13.30 svo nefndarmenn geti mætt hér til starfa. Hádegishléið er að auki ekki óeðlilegt í ljósi þess að ætlunin er að sitja hér fram eftir degi. Ég vænti þess að þessar upplýsingar svari spurningu hv. 1. þm. Suðurl. varðandi þinghaldið hér í dag.
    Forseti vill beina því til hv. 1. þm. Suðurl., sem er næstur á mælendaskrá í dagskrármálinu, hvort hann vilji taka til máls nú fram til kl. 12.15 eða hvort hann óskar eftir því að fresta ræðu sinni þar til eftir hádegishlé. ( ÞP: Ég kýs að fresta henni þar sem formaður fjvn. er ekki mættur hér.) ( Gripið fram í: Er ekki hægt að fá fjvn. til að fresta fundi?)
    Forseti telur að í ljósi þessara aðstæðna allra sé skynsamlegast að taka hádegishlé nú þegar og í ljósi þess að það sparast hér 15 mínútur er eðlilegt að hléið verði gert til kl. 13.15.