Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 51 29. maí 1981, um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum. Frv. er á þá leið að við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verði 2. mgr., svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Til að standa straum af kostnaði við eftirlit með innflutningi plantna samkvæmt lögum þessum er ráðherra heimilt að láta innheimta sérstakt eftirlitsgjald af öllum innfluttum plöntum og má gjaldið vera tiltekin krónutala á hverja þyngdareiningu eða hlutfall af tollverði vörunnar. Þó má eftirlitsgjaldið aldrei vera hærra en nemur 2% af tollverði vörunnar. Eftirlitsgjald þetta má taka lögtaki. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gjaldskyldu, innheimtu, gjalddaga, lögvernd og annað er lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldsins. Þá setur ráðherra í reglugerð ákvæði um eftirlitsgjald á útfluttar plöntur.``
    Það er tilefni þessa máls að það hefur orðið æ betur ljóst á undanförnum árum að eftirlit með innflutningi plantna er ófullnægjandi og þarf að stórefla, en til þess hefur skort mannafla og fjármuni. Það þykir eðlilegast að afla þannig fjár að innflutningurinn sjálfur greiði með gjaldi það eftirlit sem óhjákvæmilegt er að halda uppi. Það er sú tilhögun sem flestöll nágrannaríki viðhafa í þessum efnum, að láta innflutninginn sjálfan, vöruna sjálfa, standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að halda uppi fullnægjandi eftirliti með gæðum og heilbrigði innflutningsins. Þess vegna er það svo, og hefur reyndar verið sérstaklega kannað, að gjald þetta er í fullu samræmi og góðu samræmi við þær alþjóðasamþykktir og samtök sem við Íslendingar erum aðilar að og lúta að viðskiptamálum og, eins og ég segi, er sambærileg tilhögun víðast hvar við höfð.
    Hv. landbn. Ed. fjallaði allítarlega um þetta mál og fékk til viðtals við sig fjölmarga aðila eins og sjá má í nál. á þskj. 1049. Nefndin náði fullkominni samstöðu um málið og lagði til þá afgreiðslu á því sem ég hef hér kynnt. Það er fyrst og fremst ein breyting sem felst í till. landbn. Ed. frá því sem áður var. Var sú breyting gerð í fullu samráði við mig og með hliðsjón af því að ekki þótti eðlilegt að afgreiða lögin með gildistöku þannig að til greina kæmi að hefja þessa gjaldtöku á gildistíma núverandi verðlagseftirlitstímabils, þ.e. innan þeirra tímamarka sem sérstakar verðlagsviðmiðanir eru og tengjast gildandi kjarasamningum. Það varð því að ráði að færa gildistöku laganna til 1. jan. 1991 og má reyndar segja að það sé að mörgu leyti heppileg tilhögun í sjálfu sér vegna þess að þá gefst nokkur tími til undirbúnings og setningar reglugerða o.s.frv.
    Á hitt vil ég leggja áherslu að lokum, herra forseti, að það er mjög brýnt að við Íslendingar sinnum þessum málum betur en gert hefur verið. Það er okkur ekki á nokkurn hátt sæmandi að vera nánast ruslakista fyrir vörur sem jafnvel er vísað frá nágrannalöndunum. En því miður hefur það viljað

brenna við að okkar innflutningseftirlit, þar á meðal eftirlit með heilnæmi og varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á lífrænum innflutningi, er svo veikt að við höfum ekki náð að standa almennilega í stykkinu í þessum efnum. Þessu frv. m.a., ásamt með ítarlegri reglugerð um innflutningsmálefni sem landbrn. hefur nýverið gefið út, er ætlað að bæta úr því.