Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Eggert Haukdal:
    Herra forseti. Svo sem kunnugt er tóku aðilar vinnumarkaðarins höndum saman við að afgreiða kjarasamninga á lágum nótum sl. vetur og eiga þökk fyrir. Við afgreiðslu fjárlaga nokkrum vikum áður en kjarasamningar tókust hafði ríkisstjórnin sett sér markmið um miklu hærri verðbólgu árið 1990 en lá fyrir að verða mundi að afgreiddum kjarasamningum. Ríkisstjórnin tók því eðlilega vel í hjálparhönd Einars Odds, Ásmundar og Guðmundar jaka. Það gerði og þjóðin öll. Hún fagnaði þessum kjarasamningum. En rétt er að undirstrika að vissulega eru lægstu laun ekki til að hrópa húrra fyrir. En þeir sem verst eru settir í þjóðfélaginu þurfa ekki síst á því að halda að verðbólgunni sé haldið niðri, eins og að var stefnt með þessum kjarasamningum.
    Við afgreiðslu samninganna var lagt til grundvallar að áburðarverð hækkaði ekki um meira en 12%. Þá lá fyrir að áburðarverð þurfti að hækka mun meira eða um 22% til þess að verksmiðjan yrði rekin án halla samkvæmt upplýsingum verksmiðjustjórnar. Ég fagnaði hækkun áburðarins um 12% í tengslum við kjarasamninga í stað þess að 22% hækkun færi í gegn og þar með stórhækkun búvöruverðs sem hvorki leiddi til góðs fyrir bændur eða neytendur. En ríkisstjórnin mátti ekki skilja við málið á þessum punkti. Það þurfti að brúa bilið 12--22%, fara m.a. ofan í saumana á því hvort verksmiðjan þyrfti svona mikla hækkun. Tímann átti að nota frá því að kjarasamningar voru gerðir í vetur þar til nú að áburðarverð þyrfti nauðsynlega að liggja fyrir, m.a. með samningum við Stéttarsamband bænda og stjórn Áburðarverksmiðjunnar svo sem áður er sagt. En tíminn virðist hafa verið illa notaður og m.a. þess vegna er þetta mál í klúðri. Stjórn Áburðarverksmiðjunnar átti hins vegar þrátt fyrir það að samþykkja 12% hækkun með harðri kröfu til ríkisstjórnarinnar um að hún útvegaði fé til að greiða fyrir vanda verksmiðjunnar, án þess að velta honum á bændur eða neytendur eða á næstu ríkisstjórn.
    Með þessu frv. sem hér liggur fyrir sést því miður ekki hvernig ríkisstjórnin ætlar að brúa þetta bil. Það duga ekki einungis fögur orð. Það verður að reyna á að úr þessu verði bætt með afgreiðslu úr nefnd við 2. umr.