Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég rengi auðvitað ekki þær upplýsingar sem komu af forsetastóli, að hæstv. fjmrh. væri nú á áróðursfundum úti á landi og hefði skipað þeim í forgangsröð verkefna þó að ég hafi ekki trúað því í upphafi. Ég geri ekki athugasemdir við nærveru hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. hér á þessum þingfundi en ég ítreka það að þetta er fjárhagsmálefni, þetta er mál sem ekki verður leyst nema með fjárgreiðslum úr ríkissjóði. Þetta er mál sem ekki verður leyst nema með ákvörðunum sem fyrst þarf að ræða í fjvn. og Alþingi þarf síðan að taka afstöðu til við afgreiðslu fjáraukalaga.
    Það er ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur viðurkennt að þetta er fjárhagsmálefni með því að vísa því til fjh.- og viðskn. Og það liggur fyrir, af þeim upplýsingum sem hér hafa verið gefnar og ekki var greint frá í gær, að hæstv. fjmrh. og þar með hæstv. ríkisstjórn hafa skipað öðrum málum í forgangsröð en þessu, hafa kosið að setja áróðursfundi Alþb. í forgangsröð. Að bjóða Alþingi upp á það, þegar verið er að fjalla um mál sem þetta, að þingmenn sitji hér og ræði um fjárhagsmálefni ríkisins og ríkisstofnana og fjmrh. sé á áróðursfundum úti á landi, þó að þeir séu borgaðir fyrir Alþb. af skattgreiðendum, er með öllu óviðunandi. Og ég ítreka það að ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. komi til fundar við 1. umr. þessa máls og svari hér fyrir afstöðu sína í þessu efni. Það er algerlega óásættanlegt að önnur vinnubrögð séu viðhöfð, algerlega óafsakanlegt.
    Við erum hér á síðustu dögum þinghalds og hæstv. ráðherrar eru á þönum út um landið til að halda áróðursfundi á kostnað ríkissjóðs. Ég geri ekki athugasemdir við það að ráðherrar fari til að gegna opinberum skyldum sínum, eins og ég veit að hæstv. landbrh. hefur þurft að gera fyrr í dag þar sem um er að ræða opinberar móttökur. En að hæstv. ríkisstjórn skuli setja áróðursfundi af þessu tagi í forgangsröð, það hygg ég að sé algert einsdæmi og
ég man ekki eftir að slík verkstjórn hafi verið á höfð á lokaspretti þinghalds. En það er mál sem hæstv. ríkisstjórn verður að gera upp við sig, það er mál sem hún og ríkisstjórnarflokkarnir verða að ræða innbyrðis.
    Eina krafan sem ég get gert hér, herra forseti, er sú að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur umræðu um fjárhagsmálefni ríkisfyrirtækis og svari fyrirspurnum um afstöðu sína til þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið og þess viðfangsefnis sem augljóslega blasir við fjvn. og Alþingi vegna afgreiðslu fjáraukalaga ef meiri hlutinn á Alþingi ætlar ekki að koma í veg fyrir að loforð við verkalýðshreyfinguna verði efnt. Það er ekkert smámál sem hér er á ferðinni. Hér er á ferðinni frv. sem felur í sér að hæstv. ríkisstjórn ætlar að fá uppáskrift meiri hluta Alþingis um að henni sé heimilt að svíkja með lögum samkomulag við aðila vinnumarkaðarins. Það er ekki nóg að svíkja loforðin nú orðið, það þarf að svíkja þau með lögum. Og ef það er ekki skylda hæstv. fjmrh. að vera viðstaddur umræður á Alþingi þegar mál eru komin í þennan

farveg, þá veit ég ekki hvenær hæstv. fjmrh. á að vera viðstaddur. Ég ítreka þess vegna ósk mína, herra forseti, að fá að gera hlé á ræðu minni þangað til hæstv. fjmrh. kemur til fundarins. ( Forseti: Ég hygg að ræðumanni sé jafn vel ljóst og forseta hver staða þessa máls er, ráðherrann er ekki innan seilingar. Hins vegar er hv. formaður fjvn. mættur til fundar og sömuleiðis hv. formaður fjh.- og viðskn. sem mun fá þetta mál til meðferðar. Forseti telur ekki unnt að verða við ósk ræðumanns eins og nú standa sakir og telur að hæstv. forsrh. og aðrir ráðherrar sem hér eru eigi að vera í stakk búnir til að svara fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að því er þetta mál varðar.)
    Herra forseti. Ég hygg að þessi úrskurður sé einsdæmi og ég mótmæli honum harðlega. Ég hygg að það verði ekki til að greiða fyrir framgangi málefna hæstv. ríkisstjórnar að hún skuli vinna og stýra þinginu með þessum hætti. Hér er um mjög einstakan atburð að ræða og alveg einstakt verklag og einstaka verkstjórn. Ég tel að þingmenn eigi rétt á því að hæstv. fjmrh. gegni skyldum sínum við þessa umræðu og svari hér þeim fyrirspurnum sem til hans verður beint og þingið á rétt á að fá svör við. Ég vil því ítreka það hvort forseti er ekki reiðubúinn til að endurskoða afstöðu sína í þessu efni. ( Forseti: Forseti hefur engu að bæta við það sem fram er komið. Það er að vísu hægt að halda áfram að skiptast á skoðunum úr ræðustóli og forsetastóli, en úrskurður forseta liggur fyrir.)
    Herra forseti. Þá er nauðsynlegt að halda þessari umræðu áfram og ekki skal ég víkja mér hjá því að gegna þeim skyldum. Ég hef ekki upplýsingar um það hvenær hæstv. fjmrh. er væntanlegur frá fundahöldum sínum á kostnað skattborgaranna í þágu Alþb. En ef mál eru með þessum hætti er auðvitað óhjákvæmilegt að halda umræðunni áfram þar til hæstv. fjmrh. kemur til fundarins. Og við skulum þá aðeins rifja upp aðdraganda málsins og fara yfir það með hvaða hætti þetta mál bar að, hvernig stjórn Áburðarverksmiðjunnar tók á því máli, hver voru afskipti hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstjórnar af málinu meðan það var til meðferðar hjá stjórn Áburðarverksmiðjunnar, hver voru síðan viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar þar við og hvernig málið kemur hér inn á
Alþingi. Við skulum svo einnig fara nánar yfir það með hvaða hætti þetta tengist almennri efnahagsstjórn hæstv. ríkisstjórnar, á hvern veg sú ákvörðun sem hér liggur fyrir lýsir efnahagsstjórninni. Við skulum svo fara yfir það hvaða áhrif þessi efnahagsstefna hefur á almenna efnahagsstjórn, verðbólgu og skuldasöfnun, hver verður gjaldþrotastaða millifærslusjóða ríkisstjórnarinnar og einstakra fyrirtækja eins og Áburðarverksmiðju ríkisins og hvert íslenskt þjóðarbú stefnir ef fram heldur sem horfir. Og við skulum svo, herra forseti, gera nokkurn samanburð á því hvernig þessi stjórn hefur starfað í samanburði við aðrar vinstri stjórnir í landinu og hvaða afleiðingar þær hafa haft fyrir þróun efnahags- og atvinnumála í landinu.
    Það væri e.t.v. rétt að byrja þá á ferli vinstri

stjórnarinnar 1956 og fara nokkrum orðum um efnahagsstefnu hennar og afleiðingar. Ég vék að því hér í upphafsorðum mínum hvert ... ( Forseti: Áður en lengra er haldið þeirri upprifjun þá vill forseti óska eftir því við ræðumann að hann geri hlé á ræðu sinni meðan fundinum verður frestað í nokkrar mínútur meðan forseti og aðrir þingdeildarmenn gera ráð sitt í þessu efni. Fundinum er frestað í 10 mínútur.) Loks kom að því að ég gerði ekki ágreining við forseta. --- [Fundarhlé.]