Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Vegna þessarar ræðu hv. 8. þm. Reykn. vil ég gjarnan taka fram og ítreka, sem áður er raunar fram komið, að fyrir þeirri tillögu sem hæstv. forsetar Alþingis fluttu um kaup á Hótel Borg var ekki meiri hluti í fjvn. Ég vil líka taka fram að ég lagði fram þá eindregnu ósk til formanns nefndarinnar að afgreiðslu á þeirri tillögu yrði hagað með þeim hætti að hún yrði nokkurn veginn samferða afgreiðslu á frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990. Þetta var eðlileg ósk og eðlileg krafa vegna þess að fjáraukalagafrv. fyrir 1990 felur í sér tillögur hæstv. ríkisstjórnar um niðurskurð ríkisútgjalda og það er eðlilegt að tengja saman tillögur hæstv. ríkisstjórnar um niðurskurð ríkisútgjalda og þá umdeildu tillögu hæstv. forseta Alþingis sem flutt var um kaup á húsnæði Hótel Borgar.
    Ég lít svo til að hv. formaður fjvn. hafi með eðlilegum hætti orðið við þessari ósk minni og ef hv. formaður fjvn. hefði gengið gegn þessari ósk um leið og það lá fyrir að minni hluti var fyrir tillögunni innan fjvn. hefði hann stefnt þessu máli í harða umræðu og mikil átök hér í þinginu. Þetta var ekki mál sem var efni til þess að fara að hefja slíkan leik um hér á hinu háa Alþingi. Ég tel að sú niðurstaða sem nú er fengin í tillögu minni hl. sé raunar það sem við þær aðstæður sem nú eru sé eðlilegt að fram gangi og hefði raunar verið hægt að vinna að málinu í þeim farvegi af hálfu hæstv. forseta Alþingis þrátt fyrir að ekki væri gerð um það sérstök ályktun á hinu háa Alþingi. En ég vil að þessi atriði liggi hér alveg fyrir þannig að formaður fjvn. liggi ekki undir einhverju ámæli fyrir það að hafa ekki rutt málinu út úr nefnd einhvern tíma fyrr á þessu þingi í andstöðu við meiri hl. fjvn. og í andstöðu við það vinnulag sem ég lagði fram kröfur um við meðferð þessa máls.