Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Frú forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Norðurl. v. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf hér og eru sannleikanum samkvæmar. Mér virtist að það væru aðeins tveir þingmenn í fjvn. sem auk mín væru reiðubúnir til þess að afgreiða tillögu þá sem kom frá forsetum óbreytta. Aðrir ýmist lýstu því yfir að þeir væru á móti því ellegar þá að þeir teldu ekki tímabært að bera málið upp. Því var ljóst að þær tilraunir sem ég gerði til að fá málið afgreitt náðust ekki því að meiri hl. nefndarinnar var ekki reiðubúinn til að afgreiða málið. Þá kom, eins og oft gerist, upp sú krafa, eða sú beiðni, sú ósk, að reynt yrði að ná samkomulagi um þetta mál þannig að hægt væri að afgreiða það með sæmilegum friði til Alþingis sem auðvitað tekur ákvörðun þannig að því yrði ekki stefnt í voða að Alþingi gæti ekki afgreitt tillögu frá forsetum, fengi ekki færi á því vegna þess að hún fengist ekki afgreidd út úr fjvn. Það varð samkomulag um að afgreiða þessa tillögu nokkuð samhliða afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1990. Það náðist friður um það í fjvn. að standa þannig að afgreiðslu málsins.
    Ég man það vel að þegar sú ósk kom frá hv. 2. þm. Norðurl. v. að þannig yrði staðið að málinu tóku undir þá ósk ýmsir aðrir þingmenn, þar á meðal þingmenn úr stjórnarliðinu. Ég taldi því að það lægi fyrir hver væri niðurstaða meiri hl. fjvn. í því efni. Það gerðist hins vegar sá ánægjulegi viðburður að það tókst á síðustu stigum málsins að ná samstöðu, að ná meiri hl. um þá afgreiðslu sem hér er lögð til af meiri hl. fjvn.
    Virðulegi forseti. Hefði verið vilji til þess að knýja málið mun hraðar fram, forsetum var það ljóst að ekki var meiri hluti fyrir málinu í hv. fjvn., þeim var tjáð það, ef þeir hefðu þá viljað grípa til þess ráðs að knýja málið engu að síður fram til atkvæða, þá hefði náttúrlega verið hægur vandinn að flytja brtt. um það við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1990 að inn í heimildargrein þeirra fjárlaga yrði sett heimild, inn í 6. gr. þeirra fjárlaga yrði sett heimild um kaup á þessu húsnæði. Það var hins vegar ekki gert, og ástæðan hefur án efa verið sú að forsetar vildu láta reyna á það að fá afgreiðslu á málinu í fjvn., afgreiðslu sem fjvn. gæti öll staðið að, hvort heldur sú afgreiðsla yrði á þá lund að allir fjárveitinganefndarmenn yrðu sammála um niðurstöðuna ellegar þá hitt að nefndin mundi klofna um afstöðuna eins og hún gerði.
    Ég ítreka það hins vegar enn að yfirleitt ríkir gott samstarf í fjvn. milli manna. Nefndin getur ekki starfað öðruvísi en að þar ríki traust og tillitssemi milli manna og menn reyni að ná samkomulagi um afgreiðslur mála því það er hægur vandi fyrir minni hl. í fjvn. að tefja svo fyrir afgreiðslum stórra mála þar að nefndin hafi ekki tíma til þess að ljúka afgreiðslu þeirra á tilsettum tíma. Þetta hefur hins vegar alltaf tekist, að ná slíku friðsamlegu samkomulagi í nefndinni, og það tókst nú, og ég

ítreka það. Ég þakka hv. 2. þm. Norðurl. v. fyrir að hafa skýrt málið og vil alfarið hafna því að þetta sé með einhverjum hætti ámælisverð afgreiðsla af hans hálfu sem formanns fjvn., sú afgreiðsla sem í nefndinni varð.