Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að sú afgreiðslutöf sem varð á þessu máli hefur orðið til þess að Alþingi Íslendinga mun ekki taka afstöðu til þess hvort Hótel Borg sé keypt eða ekki. Hér hafa menn nokkuð rætt um skýringar á því og þær komið fram að meiri hluti hafi ekki verið til staðar í fjvn. og eins að nokkur ófriður gæti af hlotist ef þetta væri afgreitt inn í þingið. Ég tel það síðara ekki efnislega þess virði að taka tillit til þess því að mjög væri erfitt að afgreiða mál almennt út úr nefndum yrði aldrei á það hætt að það kostaði ófrið á Alþingi, en það fyrra er staðreynd, að mál eru ekki afgreidd út úr nefndum nema meiri hluti sé fyrir því.
    Mig langar að lesa hér upp úr greinargerð með þessari till. til þál. Í ljósi þess að greinargerðin er stutt má ætla að nokkuð hafi verið vandað til þeirra fáu orða sem þar eru og þess vegna vil ég, með leyfi forseta, lesa hér upp hluta af greinargerðinni:
    ,,Eftir viðræður forseta Alþingis við borgarstjóra nýlega er ljóst að borgaryfirvöld hafa hvorki í hyggju að kaupa Hótel Borg né stuðla fjárhagslega að rekstri þess sem hótels.
    Flutningsmenn telja eðlilegt að tillaga þessi hljóti afgreiðslu nú á haustþingi, áður en fjárlög næsta árs verða samþykkt.``
    Hér er ekki sagt að forseti hafi átt einkaviðræður við borgarstjóra heldur forsetar og þeir eru þrír. Ég tel óhjákvæmilegt að þingheimur inni forseta eftir því hvenær þessar viðræður fóru fram og hverjir voru viðstaddir því það er alvarlegt mál að setja hluti í greinargerð sem alls ekki fá staðist. Örlögin minna aftur á móti á gamla vísu sem hljóðar svo:
Kakan hló í huganum
og hoppaði upp á trýnið.
Aldrei komst hún yfir um.
Illt var að treysta á svínið.