Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Það er ekki seinna vænna að þetta mál komi hér á dagskrá. Ég harma þann seinagang sem orðið hefur á þessum málum í höndum hv. fjvn. sem leiddi til þess að Alþingi missti af kaupum á Hótel Borg. Ég tel tvímælalaust að það hafi verið skynsamlegur kostur miðað við þá stöðu sem komin var upp í húsnæðismálum Alþingis. Er það orðið verulegt áhyggjuefni fyrir okkur alþingismenn hver staða þessa máls er í dag.
    Mér sýnist ljóst að fjvn. hafi með störfum sínum komið í veg fyrir að kaupin á Hótel Borg næðu fram að ganga, meira að segja svo hastarlega að Alþingi sjálft náði ekki að fjalla um þetta mál og greiða um það atkvæði. Það eru mikil völd og vafasöm sem þessi nefnd, trúlega á að segja hæstv. fjvn., hefur tekið sér. Erindi mitt hingað upp er að láta í ljós það álit mitt að ég dreg í efa að fjvn. hafi það vald sem hún hefur tekið sér. Hún hefur þvælst fyrir þessum málum, trúlega vísvitandi, til þess að koma í veg fyrir að Alþingi geti tekið ákvörðun í þessu máli, hver og einn alþingismaður fyrir sig. Menn eru nú farnir að tala um að kaupa eða gera við einhver hús í allra næsta nágrenni sem enginn veit hver eru. Þetta eru fáránleg vinnubrögð.