Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist vegna þeirrar undarlegu stöðu sem komin er upp í svokölluðu Hótel Borgar máli. Það kom mér ákaflega mikið á óvart þegar mér bárust fregnir af því að borgarstjórinn í Reykjavík hefði ákveðið, fyrir sína hönd væntanlega vegna þess að ákvörðunin hefur ekki verið staðfest af borgarráði Reykjavíkurborgar, að kaupa húsið Hótel Borg. Ég hafði aldrei, sem forseti í neðri deild, heyrt á það minnst í öllum þeim viðræðum sem fram fóru við Reykjavíkurborg um lóðamál Alþingis, heyrt á það minnst að Reykjavíkurborg hefði minnsta áhuga á kaupum á Hótel Borg. Af þeim sökum kemur mér það mjög á óvart að borgarstjórinn í Reykjavík skuli nú hafa ákveðið að kaupa hótel fyrir fé borgaranna.
    Mér er ekki alveg ljóst hvað virðulegur borgarstjóri ætlar að gera við þetta hús, hvort hann ætlar að endurleigja það til hótelreksturs og veitingahalds. En menn skyldu hafa það hugfast að rekstur Hótels Borgar á undanförnum árum hefur gengið með þvílíkum ósköpum að þar hafa veitingasalir verið leigðir hvað eftir annað nýjum og nýjum rekstraraðilum vegna þess að grundvöllurinn fyrir rekstri hótelsins hefur ekki verið fyrir hendi. Og ég spyr auðvitað sjálfan mig að því: Hvaða hvatir liggja þarna að baki? Í fyrsta lagi gæti það verið, án þess að ég vilji fullyrða, að áhugi sé á því að hækka söluverð Hótel Borgar, að upp komi sú staða að þingið bjóði á móti Reykjavíkurborg í Hótel Borg. Þetta er auðvitað hugsanlegur möguleiki. Hinn möguleikinn er sá að Reykjavíkurborg hafi ekki áhuga á því að hýsa Alþingi Íslendinga í miðborginni. Og það finnst mér vera miklu alvarlegri þáttur í þessu máli ef það er svo að forusta Reykjavíkurborgar hefur ekki áhuga á því að hafa löggjafarsamkunduna, Alþingi þjóðarinnar, í miðborg höfuðborgarinnar.
    Ég get ekki sagt annað en það að mér hitnaði í hamsi eftir að hafa verið búinn, sem forseti neðri deildar, að ganga frá samningi við Reykjavíkurborg um lóðamál við Alþingishúsið vegna bílastæða þar sem aldrei kom inn í umræðuna nokkur minnsti áhugi af hálfu Reykjavíkurborgar á kaupum á þessu húsi, að þremur dögum eftir undirritun samningsins gerir borgarstjóri kaupsamning við söluaðila. Þetta er, með fullri virðingu fyrir borgarstjóranum í Reykjavík, aðferð sem ég kann ekki að meta og er tilkomin af einhverjum hvötum sem ég skil ekki.
    Stundum finnst mér að ýmsir hv. þm. hafi ekki verulega mikinn metnað fyrir hönd sinnar löggjafarsamkundu. Ég er persónulega sannfærður um það að kaupin á Hótel Borg, fyrir þá tilboðsupphæð sem forsetar þingsins höfðu fengið í hendur, voru reyfarakaup. Þingið hefði ekki getað gert betri kaup og ekki getað komið sínum húsnæðismálum betur fyrir en með kaupunum á Hótel Borg. Þar er öll sú aðstaða sem þingið skortir stórlega núna. Þingið er með skrifstofur fyrir sína þingmenn úti um allar trissur hér á lóðum í kringum Alþingishúsið. Það eitt og sér er

mjög slæmt og skapar ýmsa erfiðleika í sambandi við vinnuaðstöðu og stóraukinn kostnað fyrir Alþingi, vegna þess að allir þessir vinnustaðir þurfa að hafa nauðsynlega þjónustu sem þingmenn óska eftir.
    Ég segi það nú að þingmenn hefðu mátt taka á þessu máli af meiri rausnarskap og meiri festu vegna þess einfaldlega að það hefði verið langsamlega besta lausnin fyrir Alþingi Íslendinga að kaupa Hótel Borg. Þar hefðu þingmenn fengið góða skrifstofuaðstöðu, þar var hús við hæfi þingsins, en ekki sá kotungsbúskapur sem við höfum horft upp á í allt of mörg ár í rekstri þingsins, þar sem hv. þm. hafa hvað eftir annað, því miður, gefið eftir vegna umræðu úti í samfélaginu, gefið eftir vegna þess að það hefur verið sagt við þá að þeir væru að eyða, sóa og spenna fjármunum þjóðarinnar. Og þingmenn hafa guggnað allt of oft. Þingmenn eiga að hafa þann metnað fyrir hönd löggjafarsamkundunnar að gera það sem gera þarf til þess að vinnuaðstaða og önnur aðstaða þingsins sé sómasamleg.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en ég get ekki neitað því að mér finnst í þessu máli hafa komið fram lágkúra, hrein og klár lágkúra. Menn hafa farið með þetta mál í háfgerðar felur, dregið ákvarðanatökuna eins og unnt hefur verið með þeim árangri sem nú blasir við. Og ég spyr þá hv. þm. sem eru á móti kaupunum á Hótel Borg: Hverjar eru þeirra tillögur um lausn á húsnæðisvanda Alþingis? Ég vil fá þá hér upp í stólinn með tillögurnar. Vilja þeir fara að byggja milljarða hallir? Vilja þeir byggja milljarða hallir? Ég spyr. Er það það sem þeir vilja? Eða vildu þeir kaupa það hús sem fyrir hendi var og var hentugast, ódýrast og langbesta lausnin á húsnæðismálum Alþingis? Ég heyri að hv. þm. Alexander Stefánsson hefur einhverjar athugasemdir við mál mitt og ég skal hlusta á þær á eftir og þá væntanlega svara honum ef ástæða þykir til.
    Ég hygg að þingið sé í raun búið að glutra niður tækifærinu til þess að eignast þetta góða hús sem hefði hentað þinginu afskaplega vel og ég tel það mjög miður.