Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Frú forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. er farinn að minna mig á hverinn Strokk. Hann gýs hér í þinginu með jöfnu millibili en menn verða ekkert varir við hann þess á milli. Síðast þegar hv. þm. gaus hér í þinginu út af máli er varðaði fjvn. --- það var frv. sem fjvn. flutti um fjárgreiðslur úr ríkissjóði --- þá hreytti hann úr sér þeim ónotum sem hann er þekktur fyrir og hljóp svo úr salnum og gætti þess mjög vandlega að vera ekki viðstaddur þegar menn þurftu að svara honum. Nákvæmlega sama hátt hefur hv. þm. á nú. Hann hreytir hér úr sér ónotum, gýs upp úr sér ónotum og hleypur svo í burtu og sést ekki meir, lætur sér ekki til hugar koma að hlusta á málflutning annarra, t.d. þeirra sem vildu svara honum einhverju. Hann er því eins og hverinn Strokkur. Hann gýs hér með jöfnu millibili, en menn verða ekkert varir við hann þess á milli.
    Það má segja það sama um málflutning hv. 1. þm. Norðurl. v. nú eins og þá hann gaus hér fyrri, en það er það að honum virðist sýnna um margt annað frekar en að lesa þingmál. Og nú eins og þá er hann uppvís að því að hann les ekki þau þingmál sem hann er að ræða um hér í pontu. Efnislega gerði hann tvær athugasemdir við þá afgreiðslu sem hér er lögð til af meiri hl. fjvn. Fyrsta efnislega athugasemdin var sú að hér væri horfið frá kaupum á Hótel Borg og tekin upp kaupaheimild, ótiltekin, vegna annarra bygginga. Frú forseti, þetta var svona í fyrri tillögunni. Fyrri tillagan, sem lá fyrir þinginu, var á þá leið að forsetum Alþingis væri heimilað að kaupa Hótel Borg, eða annað húsnæði í næsta nágrenni Alþingishússins ef hagkvæmara þætti. Sú kaupaheimild miðaðist því ekki eingöngu við Hótel Borg heldur einnig annað húsnæði í næsta nágrenni Alþingishússins ef hagkvæmara þætti. Efnislegur ágreiningur hv. 1. þm. Norðurl. v. út af þessu atriði byggist þess vegna á því að hann hefur ekki lesið upphaflegu tillöguna ellegar man ekki lengur texta hennar og hefur ekki fyrir því að afla sér tillögutextans hér í skrifstofum Alþingis. Þarna hefur engu verið breytt að öðru leyti en því að fellt er út þar sem sérstaklega var minnst á Hótel Borg í fyrri tillögunni sem hæstv. forsetar lögðu fyrir. En það er ekki þar með sagt að það sé ekki unnt fyrir hæstv. forseta að festa kaup á Hótel Borg ef þessi tillaga verður afgreidd, ef Hótel Borg skyldi verða til sölu. Og það kynni kannski svo að fara þegar hæstv. borgarstjóri hugar betur að málinu og lítur betur á rekstrarforsendur þeirra aðila sem reynt hafa að reka þetta hótel, þá komist hann að þeirri niðurstöðu að það sé ekki ýkja hagkvæmt fyrir Reykjavíkurborg og skattborgara hér í
Reykjavík að kaupa þetta hús, endurgera það, byggja við það dýra viðbyggingu og ætla síðan að leigja einhverjum aðila húsið til rekstrar. Vegna þess að það hefur komið fram hjá rekstraraðilum hússins og eignaraðilum í viðræðum við fjvn. að rekstraraðstæður Hótel Borgar eru ekki betri en svo að leigutakarnir geta ekki greitt hærri leigu fyrir þessa fasteign en þeir

gera í dag, sem samsvarar því að eigendur Hótel Borgar hafa ekki einu sinni í leigutekjur nægilegt fjármagn til þess að hægt sé að standa undir fasteignagjöldum og lágmarksviðhaldi. Það kynni því ef til vill svo að fara þegar hæstv. borgarstjóri athugar málið betur að hann sæi að það væri ekki skynsamlegt frá sjónarhóli skattgreiðenda í Reykjavík að fara að setja stórfé í það að endurbyggja Hótel Borg, byggja dýrar viðbyggingar þar við og ætla síðan að leigja húsnæðið út til einhvers rekstraraðila á verði sem nægir ekki einu sinni til þess að standa undir fasteignagjöldum af þessari byggingu.
    Frú forseti. Skattborgarar í Reykjavík eiga nú fjögur veitingahús. Þeir eiga veitingahús, sem var danshús mikið hér á árunum áður, upp við Ármúlann og Reykjavíkurborg keypti fyrir nokkrum árum og átti að nota m.a. sem félagsmiðstöð fyrir aldraða. Þeir eiga stærsta diskótek í Evrópu. Hæstv. borgarstjóri er nýbúinn að kaupa stærsta diskótek í Evrópu fyrir skattfé Reykvíkinga og rekur það diskótek. Og skattborgarar í Reykjavík eru nú að byggja eitt dýrasta veitingahús landsins uppi á Öskjuhlíð. Það hefur komið fram hjá hæstv. borgarstjóra að tilgangur hans sé sá að leigja einhverjum einkaaðila þetta hús á leigukjörum sem eru langt undir því sem þyrfti að vera til þess að leigan stæði undir fjármagnskostnaðinum við byggingu hússins. Það hefur komið fram opinberlega í viðræðum við hitaveitustjóra í Ríkisútvarpinu. Þarna eru þrjú hús, þrjú veitingahús sem búið er að láta skattborgara í Reykjavík kaupa af einkaaðilum, þar af er eitt nýbygging sem skattborgarar hafa keypt fyrir ærið fé og afhent svo þriðja aðila til reksturs gegn leigugjaldi sem hvergi nærri nægir til þess að standa undir byggingarkostnaði eða kaupverði.
    Er það til fyrirmyndar að mati Sjálfstfl. að standa svona að málum? Og nú stendur til að láta skattborgara í Reykjavík kaupa Hótel Borg, endurbyggja hana, reisa við hana heilmikla viðbyggingu og selja síðan fjórða veitingahúsið af þessu tagi á leigu til einkaaðila þegar fyrir liggur að væntanlegir rekstraraðilar geta ekki greitt nema brot af því sem þyrfti að greiða ef leigan ætti að standa undir kaupverði, endurbyggingarverði og fasteignagjöldum af slíku húsi.
    Er þetta til fyrirmyndar? Er það undir þessu flaggi sem borgarstjórnin í Reykjavík ætlar sér að sigla til sigurs í næstu borgarstjórnarkosningum? Hvað ætlar hún að kaupa mörg veitingahús fyrir skattfé höfuðborgarbúa á næsta kjörtímabili? Ætlar það kannski að enda þannig að skattborgararnir í Reykjavík hafi keypt upp öll veitingahús í borginni og framselt þau síðan einkaaðilum til rekstrar á miklu, miklu lægra leiguverði en borgin þyrfti að fá til að standa undir fjármögnunarkostnaði sínum við þessi kaup? Er þetta frjálshyggjan sem á að halda völdum í Reykjavík og standa sig á næsta kjörtímabili í uppkaupum á veitingahúsum með álíka miklum glæsibrag og gert hefur verið á þessu?
    Ég vil líka taka fram í þessu sambandi og staðfesta

að það kom fram á fundum í fjvn., þar sem hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson spurði sérstaklega eftir því, þegar fulltrúar borgarstjórans í Reykjavík og borgaryfirvalda gengu á fund nefndarinnar, að það væru engin áform hjá þessum aðilum að kaupa Hótel Borg né afhenda hana nokkrum öðrum aðila né leggja fram úr borgarsjóði nokkra fjármuni til þess að tryggja það að áframhaldandi hótelrekstur yrði í þessu húsi. Það var spurt sérstaklega um það á fundum fjvn. með fulltrúum borgarstjórans í Reykjavík hvort einhverjar slíkar áætlanir væru uppi og því var staðfastlega neitað og sagt að það kæmi ekki til greina. Það er því víðar en við forseta sem frá borgarstjóranum í Reykjavík hafa komið fréttir um annað en reyndist vera hans niðurstaða þegar upp var staðið.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. forseta Nd. að það er ástæða fyrir Alþingi Íslendinga til að skoða það hvort það geti verið að borgaryfirvöldin í Reykjavík vilji ekki hafa Alþingi í miðbæ Reykjavíkurborgar. Það er miklu fleira heldur en þetta sem þar kemur til. Allir þingmenn þekkja þær útistöður sem Alþingi hefur átt við Reykjavíkurborg út af bílastæðismálum. Þær deilur voru farsællega til lykta leiddar, eins og forseti sagði, aðeins þremur dögum áður en sá atburður gerðist sem hefur orðið mönnum að umræðuefni hér.
    Það er líka rétt að það komi fram að borgarstjórinn í Reykjavík hefur óskað eftir því við Alþingi til að rýma betur til í umhverfi hins nýja ráðhúss, að ýmis þau hús sem Alþingi á í næsta nágrenni ráðhússins verði flutt í burtu til þess að rýmra svæði fengist í kringum þessa nýbyggingu borgarstjórans. Og það voru allar horfur á því og rætt um það lauslega að það gæti vel komið til greina þegar og ef Alþingi festi kaup á Hótel Borg að gera þetta fyrir borgarstjórann, að flytja Alþingi burtu úr næsta nágrenni hins nýja ráðhúss svo að það gæti skinið enn fegurra en það ella mundi gera og fengið að vera í friði fyrir byggingum Alþingis. Það er ósköp eðlilegt að menn spyrji sig þegar vitað er hver afstaða borgaryfirvalda í Reykjavík til Alþingis er, hvort það geti verið að borgarstjórinn í Reykjavík, og þeir sem að honum standa, vilji það gjarnan að Alþingi flytjist úr miðborg höfuðborgarinnar og þá væri ástæða til að spyrja þá hvert.
    En það var líka annað sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. sem sýndi að hann hafði ekki einu sinni lesið hina upphaflegu tillögu ellegar hafði gleymt henni. Hann ræddi um það að síðasta setningin í tillögu meiri hl. fjvn. væri til marks um það vald sem fjvn. ætlaði að taka sér. Sú setning hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hafa skal samráð við fjvn. um ákvarðanir.`` Þetta er óbreytt setning sem var í tillögunni í hinni upphaflegu gerð hennar. Þar stóð einnig að hafa skyldi samráð við fjvn. Alþingis um þær ákvarðanir sem teknar kynnu að verða ef Hótel Borg eða eitthvert annað húsnæði í nágrenni Alþingishússins yrði keypt. Þarna hefur fjvn. engu við bætt. Hún hefur ekki aukið sinn hlut eða sín afskipti af þessari ákvörðunartöku frá tillögunni í upphaflegri gerð hennar nema síður væri. Fjvn. tók þetta ákvæði

óbreytt upp úr tillögum hæstv. forseta.
    Það er mjög æskilegt, virðulegi forseti, þegar menn kveðja sér hljóðs og flytja mál sitt, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði hér áðan, að þeir sýni samstarfsmönnum sínum hér á Alþingi þá lágmarkskurteisi að lesa þau málsskjöl sem lögð eru fram til afgreiðslu, ef þeir eru þá læsir.