Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Sá hæstv. forseti sem vék hér úr stólnum kvað sig vera óþarflega bláeygan í samskiptum við annað fólk. En ég held að það sé verið að vinna hér gott verk, m.a. með því samstarfi sem hefur verið og þeim samningi sem var verið að lýsa milli Reykjavíkurborgar og Alþingis. Ég held að þjösnaskapur í þessum málum hefði ekki verið til neinna þæginda fyrir Alþingi eða fyrir nokkra menn yfirleitt. Ég held að hún þurfi ekki að biðjast afsökunar á því að hún sé eitthvað bláeygð og hafi ekki notað einhver bolabrögð eða einhvern kvikindishátt í sambandi við þessi skipti.
    Því miður ber hér á góma að nýju að hugsanlega hafi borgaryfirvöld --- ja, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði hér áðan: Borgarstjórinn lýgur. Ég vona að hann leiðrétti það. Þetta kom nú allt saman til umræðu hér þann 7. des. sl. einmitt á milli mín og hæstv. forseta Sþ. Þó að ég fari ekki langt út í að lesa það upp því að það er ekkert skemmtilegt út af fyrir sig, engin sérstök skemmtilesning, þá liggur það ljóst fyrir að þetta plagg, sem nú er enn þá verið að draga fram úr skúffunni, er minnismiði skrifstofustjóra Alþingis um fund með Jóni Tómassyni fulltrúa hjá borgarstjóra. Og síðan er sagt að borgarstjóri fari með lygar o.s.frv. Í umræðunum 7. des. segir hæstv. forseti orðrétt þetta um þetta merkilega plagg:
    ,,Skrifstofustjóri Alþingis kom til forseta Sþ. með skilaboð frá Jóni Tómassyni borgarlögmanni, því að við höfðum beðið borgarstjóra að láta okkur vita hvort eitthvað nýtt kæmi fram sem hindraði frekari framgang málsins. Og skrifstofustjóri Alþingis bar þau skilaboð frá Jóni Tómassyni, allnokkuð löngu síðar, að það mundi ekkert nýtt koma fram. Þannig stæðu þessi mál. Borgin hygðist hvorki kaupa né styrkja neinn rekstur í húsinu og ekki fremur en um var talað leggja stein í götu Alþingis.``
    Þetta er nú allt og sumt sem að baki þessu liggur. Meðan þessar sömu umræður stóðu yfir hringdi ég til borgarstjóra og hann leyfði mér að hafa þar eftir sér, líka orðrétt, --- það var verið að tala um að borgarráð hefði einróma samþykkt mótmæli gegn því að breyta Hótel Borg í skrifstofuhús eða til annars reksturs en þar hefði verið, algerlega einróma mótmæli sem allir vissu um, þá segir orðrétt í Alþingistíðindum 7. des. um þennan ágreining: ,,Borgarráð samþykkti einum rómi að andmæla þessum fyrirætlunum á sínum tíma. Af þessu tilefni hafði ég samband við borgarstjórann í Reykjavík og hann staðfesti það að sú ályktun [borgarráðsins alls um að mótmæla þessum breytingum] stæði óhreyfð en hins vegar hefði verið spurt á fundi, væntanlega þeim sama sem hæstv. forseti Sþ. sagði hér frá áðan, hvort Reykjavíkurborg hygðist kaupa Hótel Borg.`` Því svaraði borgarstjóri einfaldlega þannig að um það hefði engin ákvörðun verið tekin. Það vissu líka allir. Borgarráð hafði ekki tekið neina ákvörðun um kaup á Hótel Borg. Það hefur ekkert verið svikið, hvorki með kaupum né án kaupa á Hótel Borg, enginn svikið nokkurn mann.

Borgin ákveður núna um daginn að kaupa Hótel Borg. Reykjavíkurborg ákveður að kaupa Hótel Borg nú fyrir nokkrum dögum. Reykjavíkurborg hafði aldrei áður ákveðið að kaupa Hótel Borg. Það er allt fyrir opnum tjöldum, ekkert gert sem hægt er að tala um sem brigðir á einhverjum hlutum, að einhver sé að fara aftan að öðrum eða neitt í þá áttina. Þetta er allt saman tómur barnaskapur og tilbúningur hjá hv. þm. sem hafa æst sig hér upp með ekki litlum látum og þá sérstaklega Ólafur Þ. Þórðarson að sjálfsögðu sem auðvitað ber að biðja afsökunar á þessu og kannski því fremur þar sem ég leyfi mér að lesa hér enn upp úr þessu plaggi tvær línur. Þegar ég er að árétta þetta sem ég var að segja áðan, hver væru tildrög þessarar yfirlýsingar sem er yfirlýsing Friðriks Ólafssonar, skrifstofustjóra Alþingis, eftir viðtal við Jón Tómasson, fulltrúa Davíðs. Það er nú búið að fara í gegnum þessa liði og engar fullyrðingar af neinu tagi heldur bollaleggingar hjá þessum mönnum. Þegar ég er að lýsa þessu, þá kallar hæstv. forseti, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, fram í og segir við mig af sínum drengskap orðrétt: ,,Ég var ekki að vitna orðrétt í borgarstjóra.`` Staðfestir það sem ég er að segja. ,,Ég var ekki að vitna orðrétt í borgarstjóra.`` Hún var að skýra frá þessum munnlegu ummælum og óformlegu fundum sem farið höfðu fram. Svo þenja menn sig hér og segja: Borgarstjórinn lýgur, borgarstjórinn lýgur. Ég skil eiginlega ekki hvers lags vinnubrögð þetta eru orðin á Alþingi. Og svo eru þessir sömu menn stundum að tala um virðingu Alþingis. Það er dálítið vandmeðfarið, þetta orð ,,virðing``, hvort menn eru að bera virðingu fyrir sjálfum sér eða ætlast til að aðrir beri virðingu fyrir sér, eða hverju þeir yfirleitt bera virðingu fyrir. En það getur varla verið virðing við Alþingi að hafa þessi ummæli hér um hönd og helst ber ekki að hafa á Alþingi menn sem ekki þá biðja afsökunar á því að vera með slíkt orðbragð, eins og gerðist í þessu tilfelli.
    Að því er varðar ummæli Árna Gunnarssonar þingmanns hins vegar, þá er ég honum náttúrlega mjög þakklátur fyrir hans mikla áhuga á störfum Alþingis og virðingu Alþingis og efast ekki um að það er allt af góðum huga gert. Og það
veit ég raunar líka að þetta er af góðum huga gert hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni þó að þetta dytti nú upp úr honum og ég veit að hann á eftir að biðja afsökunar á þessum mistökum sínum. En það er ekki rétt að engir þingmenn hafi komið fram með neinar tillögur um lausnir á málefnum Alþingis. Ég er hér með t.d. í hendinni kort sem reyndar birtist í Morgunblaðinu 12. apríl 1989, fyrir ári. Og þar sem nú er lýst svona harkalega eftir því að hver og einn þingmaður skýri nú frá því hvað hann vill hér úr ræðustóli, þá býst ég við að hæstv. forseti muni ekki hafa mikið við það að athuga að ég biðji starfsfólk þingsins um að fjölrita þetta plagg og sýna hvað um er að ræða. Þetta er mjög einfalt mál í mínum huga. Tilefni þess að ég skrifaði þessa grein og lét gera þetta kort --- hér er ráðhúsið neðst og hér er nú þinghúsið okkar blessað og hér er nokkuð sem ég

kalla ráðhústorg. Það er þar sem Oddfellow er nú, að Oddfellow megi gjarnan fjarlægja. Það er nefnilega ódýrara að brjóta niður steinhús en að rífa gömul timburhús og meira efni í þeim til fyllingar í höfnina o.s.frv. og ekkert mál að gera það. Alþingi hefði getað notað það um einhvern tíma en það hús er mjög óhentugt. Mér er leyfilegt að segja það hér að Oddfellowar sem hafa þegar fengið fyrir alllöngu síðan lóð hjá borginni eru þegar búnir að láta teikna og eru í útboðum um að byggja sér nýtt heimili og þurfa þar af leiðandi að selja þetta hús. Það verður falt og þá er komið þarna mjög mikið svigrúm, mjög fallegt torg gæti þarna myndast og hér við Kirkjustræti á horni þessa torgs má byggja hús sem er mun stærra en Hótel Borg. Það mætti byrja að byggja það nærri því á morgun. Það gæti fallið nærri því saman við tillögu tvö sem fékk 2. verðlaunin. Stíllinn á þessu húsi gæti verið í líkingu við það. Það er ekkert vandamál að byrja að byggja slíkt hús, byggja það kannski í tveimur eða þremur áföngum sem nægir Alþingi algerlega. Og svo höfum við auðvitað lóðirnar hér við Kirkjuhvol, sem má auðvitað rífa, og lóðir þar sem Alþingi á að bæta við skrifstofuhúsnæði.
    Það er engin þröng hér hvorki um þinghúsið né ráðhúsið ef menn fara skynsamlega að ráði sínu og skoða í rósemi og stillingu hvað best sé í þessu að gera, en ætla sér ekki að fara að grafa sig tvær mannhæðir, kannski fjórar mannhæðir niður í jörðina endilega hér undir öllu þessu svæði sem er gífurlega dýrt mannvirki að byggja bílastæði á tveimur hæðum. Hins vegar er sárabillegt að hafa bílastæði undir húsum á einni hæð. Það gefur auðvitað auga leið að það er þrýstingurinn frá sjónum sem gerir það að verkum að neðri hæðin og allur sá styrkleiki er þar þarf að vera og þungi er auðvitað allt annar ef menn ætla að fara að grafa sig langt niður, en það bílastæðavandamál má auðvitað leysa með því að hafa þau meira og minna undir öllum þeim opnu svæðum sem hérna væru. Þetta ætti að vera auðveldast af öllu sem hugsast getur, að borgaryfirvöld og ríkisyfirvöld, Alþingi sjálft, settust niður og athugaðu og semdu um sín á milli.
    Og svo eru menn jafnvel að halda því fram að það séu til einhver borgaryfirvöld sem kannski vilji ekki hafa Alþingi hérna í Kvosinni. Ég þekki ekki einn einasta Reykvíking sem ekki vill hafa Alþingi í Kvosinni. Það voru uppi raddir um það hér áður fyrr að um þrengsli yrði hér að ræða en þær hafa mikið til hjaðnað. Þær raddir sem koma um að flytja Alþingi úr Kvosinni eru ekki raddir Reykvíkinga, miklu frekar raddir annarra manna sem telja óþarft að hafa Alþingi hér. Ég held að hægt sé að ná fullkominni sátt í þessu máli með rólegheitum ef menn setjast niður.
    Mér er alveg sama hvort atkvæði ganga um þær vitlausu tillögur sem hérna eru í bak og fyrir. Það verður auðvitað aldrei eftir þeim farið. Húsið sem upphaflega var talað um að byggja var auðvitað allt of stórt, sú mynd gat aldrei gengið upp, það var drungalegt. Við skulum ekki fara að ræða það frekar,

það er liðin tíð og verður auðvitað aldrei neitt úr því.
    Ég ætla þá að þiggja þau boð og ég vona að a.m.k. forseti Nd. styðji það að ég eyði pappír frá Alþingi og láti ljósrita þetta kort og bið hann um og býð öðrum að skoða og ræða hvaða hugmyndir þarna eru á ferðinni. Og það má merkilegt heita að menn sem voru mjög æstir um aðrar lausnir hafa tekið því vel, þegar ég hef sýnt þeim þetta kort, að athuga þetta nánar og snúa sér að því að byggja dálítið huggulegt hús fyrir þingið hérna úti þar sem Skjaldbreið er núna. Síðan má fjarlægja Oddfellow þegar þar að kemur, það liggur ekkert á. Þá verður hér komið dýrðlegt svæði, Austurvöllur tengdur saman við Ráðhústorg við Tjörnina, allt í hóflegri tengingu sem engan mann getur meitt, allt fagurt og yfirlætislaust.