Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu mikið og ætla ekki að eyða tíma í að ræða hér störf fjvn., sem mikið hafa verið til umræðu og eru sennilega kveikjan að því hversu löng þessi umræða er orðin. Ekki hyggst ég heldur fjalla efnislega um málið, kaupin á Hótel Borg. Ég tel mig hafa skýrt frá mínum sjónarmiðum hér fyrr í umræðunni og lýsti þar mjög ákveðinni andstöðu við kaupin á Hótel Borg, m.a. í ljósi þess að ég taldi það verða nánast banabita á menningarlífið í miðborginni og miðbæjarrómansinn, ef svo má að orði komast, fyrir utan það að ég tel húsið að mörgu leyti mjög óhentugt fyrir þessa starfsemi.
    Hér hafa menn komið upp og verið ansi stóryrtir og hvassyrtir og þá alveg sérstaklega þeir alþýðuflokksmenn sem hér hafa talað. Einnig hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sem bar nú hreinar lygar upp á borgarstjórann í Reykjavík, sem ég vil leyfa mér að mótmæla og get ekki setið undir slíku. Hv. þm. vísaði í því sambandi til greinargerðar er fylgir þáltill. þar sem vitnað er í viðræður forseta Alþingis við borgarstjóra og að í þeim viðræðum hafi verið ljóst að borgaryfirvöld mundu ekki hafa í hyggju að kaupa Hótel Borg né stuðla að fjárhagslegum rekstri þess sem hótels. Í næstu setningu á eftir kemur síðan að flm. telji eðlilegt að till. þessi hljóti afgreiðslu nú á haustþingi. Ég vil leyfa mér að segja að borgarstjórinn í Reykjavík hefði þá alveg eins mátt gagnálykta, að úr því að ekki var tekin ákvörðun á haustþingi þá gæti hann talið sig mega endurskoða sína afstöðu. Það tel ég mjög einsýnt. Hins vegar fagna ég ákvörðun borgarstjóra. Ég tel að hann hafi bjargað andliti Alþingis með því að stíga fram fyrir skjöldu og kaupa Hótel Borg. Og ég tel að hann hafi einnig bjargað með því miðbæjarlífinu. Fyrir það vil ég þakka hv. borgarstjóra, að bjarga andliti okkar á þá lund.
    Ég lýsi stuðningi mínum við þá till. sem minni hl. fjvn. leggur fram. Ég tel hana mjög eðlilega og mjög ásættanlega fyrir alla, jafnvel hv. þm. Árna Gunnarsson, forseta neðri deildar, sem var vægast sagt mjög argur í ræðustól og notaði mjög stór orð. Hann lét að því liggja --- eða lét ekkert að því liggja, hann sagði það berum orðum --- að hér væru annarlegar hvatir að baki og ásakaði þingmenn hér um metnaðarleysi og lágkúru. Á skrattanum átti ég von en ekki slíkum málflutningi frá hv. þm. Árna Gunnarssyni. Ég skal alveg taka undir það með honum að kaupin eru í sjálfu sér reyfarakaup. Verðið á Hótel Borg er ekki ýkja hátt, en það breytir því ekki að í mínum huga er það húsnæði óhentugt fyrir þessa starfsemi, fyrir utan þá skemmd sem það veldur á menningarlífi miðborgarinnar.
    Hv. þm. kallaði mjög ákveðið eftir því að menn kæmu hér með sínar tillögur. Ég viðraði þær nú reyndar í fyrri umræðu um þetta mál en séu menn fastir við það að leita að bráðabirgðalausnum, og það hér í kringum okkur, er náttúrlega einfaldast að horfa hér til Pósts- og símahússins sem ég hygg að mundi

taka nánast alla starfsemina, mundi losa okkur undan þeim 7--8 húsum sem við erum nú að nota, en ekki aðeins tvö hús, eins og Hótel Borg mundi gera. Það væri þá skömminni skárra að líta í þá áttina og kaupa það hús, ef hægt væri og ef hægt væri að flytja þá starfsemi sem þar fer fram annað.
    Hvað rekstrargrundvöll Hótel Borgar varðar þá kemur það þessari stofnun nánast ekkert við og það á ekkert að vera hér í umræðunni. Það kemur okkur ekkert við hvort rekstrargrundvöllur er fyrir hóteli þarna úti eða ekki, það er ekkert innlegg í þetta mál.
    Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gagnrýndi borgarstjórann í Reykjavík fyrir kaup á veitingahúsum og skemmtistöðum. Ég vil aftur fá að þakka borgarstjóranum fyrir, hann keypti það sem hv. þm. vildi kalla stærsta diskótek í Evrópu, sem sýnir að hann hefur ekki heimsótt þau mörg undanfarin ár, því það er víðs fjarri að svo sé. Þetta keypti hv. borgarstjóri og borgarstjórn til þess að hýsa unglingana í Reykjavík sem hafa verið á götunni og í húsnæðisvandræðum. Hafa þurft að leita hér niður á Hallærisplan og inn á Hlemm og lent þar í alls konar útistöðum og vitleysu. Þetta vilja þeir alþýðuflokksmenn, sem einu sinni buðu fram í borgarstjórn en geta það ekki lengur, gagnrýna. Þeir vilja halda krökkunum áfram á Hallærisplani, þeir vilja halda þeim áfram á Hlemmi. Það er félagsskapur sem þeir kjósa börnum Reykjavíkur. En það er bara ekki félagsskapur sem hægrimenn kjósa fyrir börn og framtíð Reykjavíkurborgar.
    Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson kom hér með sínar hugmyndir um framtíðarskipan húsnæðismála Alþingis. Ég tel að allar hugmyndir séu athyglisverðar og það beri að skoða þær. Ég lýsti því hins vegar yfir í fyrri umræðunni, og tel mig þá kannski örlítið gamaldags, að hinn ákjósanlegasti staður fyrir Alþingi að mínu mati væri á Þingvöllum. Og ég tel að ekki þurfi að færa nein rök fyrir því, þau sjá allir. Helstu rökin eru að sjálfsögðu sögulegs eðlis. Þar vildi ég allra helst sjá þessa starfsemi. En ég geri mér alveg grein fyrir því að menn líta það misjöfnum augum.
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins ítreka andstöðu mína við þá till. sem hér var lögð fram um kaup á Hótel Borg. Og ég vil lýsa andstöðu minni við till. meiri hl. fjvn. þar sem veita á opna heimild til handa forsetum Alþingis til að kanna og jafnvel ganga til kaupa á einhverju húsnæði fyrir þessa stofnun.