Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég má til með að koma með nokkrar athugasemdir í tilefni þeirrar umræðu sem hér fer fram. Það er að vísu alveg sjálfsagt að hv. þm. ræði um langvarandi húsnæðisvandræði Alþingis og hafa ýmsar upplýsingar um gang þeirra mála komið hér fram. Það er fróðlegt að heyra um það þótt skiptar séu skoðanir. Það er þó málefnaleg umræða. En það er ekki hægt að segja að sumir hv. þm. stjórnarliðsins hafi slíkt að leiðarljósi þegar litið er til orða þeirra sem hér hafa fallið og snerta borgarstjórn Reykjavíkur og einkum Davíð Oddsson borgarstjóra. Það er ekki bara furðulegt heldur líka sorglegt að hlusta á þær ávirðingar sem sumum hv. þm. þykir sæma að bera lýðræðislega kjörinn borgarstjóra Reykjavíkur. Það er ótrúlegt að mönnum þyki sæma að halda hér uppi slíkum áróðri og óhróðri gegn oddvita Sjálfstfl. í Reykjavík. Allt þetta mál ber raunar furðulega að. Hótel Borg hefur verið seld og því verður ekki breytt. Samt sem áður er þessi tillaga hér til umræðu. En það er rétt að benda á það að núna þegar alþingismenn eru mjög hlaðnir störfum og mörg mikilvæg mál bíða afgreiðslu þá skuli þessi umræða taka slíkan tíma. Ég tel að það sé hinu háa Alþingi til lítils sóma að ástunda slíkan málflutning sem hér hefur orðið og vona að á því verði ekki framhald.
    Í þessu sambandi er rétt að hafa það í huga, hæstv. forseti, að skoðanakannanir hafa sýnt það að Reykvíkingar kunna vel að meta störf Davíðs Oddssonar, en ekki verður það sama sagt um hæstv. ríkisstjórn og störf hennar.