Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Fyrir liggja tvær brtt., á þskj. 1104 frá meiri hl. fjvn. og á þskj. 1118 frá minni hl. fjvn. Báðar þessar tillögur eiga það sameiginlegt að vera tillögur um að þingsályktunartillagan orðist svo sem þar segir. Forseti hefur kannað hvor tillagan skyldi borin upp fyrst og hvort tveggja er að tillaga meiri hl. fjvn. hefur lægra númer en þess utan gengur hún lengra. Það er því skoðun bæði forseta og þeirra embættismanna sem ráðgast hefur verið við að eðlilegra sé að bera upp tillögu meiri hl. fjvn. fyrst. Verði því ekki mótmælt mun forseti gera svo. ( EKJ: Ég vil fá skýringu á því í hvaða tilviki hún gangi lengra.) Hún gengur lengra því hún er þess efnis að Alþingi álykti að heimila forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup eða leigu á húsnæði fyrir Alþingi en tillaga minni hl. fjallar um að fela forsetum Alþingis að kanna hvaða möguleikar eru til hagkvæmni í húsnæðismálum Alþingis og skila um það skýrslu. Ég held að það fari ekki á milli mála að tillaga meiri hl. fjvn. gangi lengra og samkvæmt öllum þingsköpum held ég að hér sé eðlilega að farið.