Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Fram hefur komið að nokkrir reimleikar hafa upphafist hér í Kvosinni í framhaldi af skoðunarferð á Hótel Borg hér á dögunum. Hér liggja fyrir tvær tillögur sem vandi er nokkur að skera úr um þegar maður er samþykkur hluta en ósamþykkur öðru. Ég verð því að gera grein fyrir atkvæði mínu varðandi þessa tillögu.
    Í tillgr. er sagt í upphafi að kanna eigi hvaða möguleikar eru til aukinnar hagkvæmni í húsnæðismálum Alþingis. Það væri skynsamlegt, en þegar kemur í framhaldinu að það skuli leitað úrlausna í grennd við Alþingishúsið fer í verra því auðvitað er alveg ljóst að með þeirri afstöðu sem tekin hefur verið af forustu Reykjavíkurborgar í þessu máli, og er það raunar ekki í fyrsta sinn sem þrengt er að þessari stofnun af hálfu forustu Reykjavíkurborgar, þá verða mál fyrir Alþingi ekki leyst hér á þessum stað og ég efast mjög um að eðlileg úrlausn fáist fyrir þingið í þessu sveitarfélagi. Því verði að leita víðar. Ég hef bent á úrlausn í því efni. Það er nóg landrými á Austurlandi undir þessa virðulegu stofnun og ég held að menn verði að horfa til þess í ljósi þess sem fram hefur komið hér að undanförnu, fyrst með byggingu ráðhúss hér ofan í lóð Alþingis og síðan með því að hremma Hótel Borg frammi fyrir nefinu á forustu þingsins. Ég segi nei.