Gjald af erlendum lánum vegna skipasmíða
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það liggur fyrir að að óbreyttum lögum er ekki heimilt að endurgreiða gjald af erlendum lántökum vegna skipasmíða hér á landi sem innheimt var og tilgreint er í frv. Yfirlýsing um að það sé óheimilt var gefin af hæstv. fjmrh. hinn 21. des. sl. Ég hef síðan innt hann eftir því persónulega hvort hann hafi breytt um skoðun og það er ljóst að hann telur ekki heimilt að endurgreiða gjald af erlendum lántökum. Þess vegna er óhjákvæmilegt að þetta frv. sé flutt ef á annað borð stendur til að endurgreiða þetta gjald. Ég vil minna á að þetta gjald var lagt á á sínum tíma til að reyna að hamla á móti þenslu sem talin var of mikil í þjóðfélaginu. Slíkar röksemdir eiga auðvitað ekki við í sambandi við innlendar skipasmíðar og allra síst nú þegar svo er komið að Slippstöðin á Akureyri t.d. getur ekki selt það skip sem þar hefur verið í smíðum af ástæðum sem ég hef áður rakið og sé ekki ástæðu til að rekja enn á ný. Hér er ekki um háa fjárhæð að ræða ef hugsað er út frá hagsmunum ríkissjóðs en á hinn bóginn getur þessi upphæð munað miklu fyrir einstök fyrirtæki. Ég vil minna á að innlendar skipasmíðastöðvar eru í harðri samkeppni við sambærilegar stöðvar í löndum Evrópubandalagsins sem njóta verulegra ríkisstyrkja. Ég trúi því ekki, herra forseti, að meiri hl. deildarinnar sé þeirrar skoðunar að enn eigi að vega í þann knérunn sem íslenskar skipasmíðar eru og legg auðvitað til að frv. verði samþykkt.