Gjald af erlendum lánum vegna skipasmíða
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég held að það séu mörg ár síðan ég heyrði jafnlítilfjörlegan málflutning og þann sem hæstv. fjmrh. viðhafði núna. Ég man ekki til þess að ég hafi heyrt jafnómerkilegan málflutning í þinginu. Hæstv. fjmrh. er að tíunda það hér að ríkissjóður hafi orðið að greiða byggingarverð Breiðafjarðarferju og ríkissjóður hafi orðið að standa skil á kaupverðinu og kallar það útvegun fjármagns sem nemur tugum milljóna króna. Það hefur ekki verið varið úr ríkissjóði einni einustu krónu til skipasmíðastöðvanna. Ég skora á hæstv. fjmrh. að koma og tíunda það. Þetta eru hrein ósannindi. Ég held að ég fari rétt með það, herra forseti, að fjáraukalög séu nú til athugunar í fjvn. Hér er staddur maður úr fjvn. Ég spyr hann og bið hann að svara úr sæti sínu: Er það rétt hjá hæstv. ráðherra að borist hafi beiðni frá ríkisstjórninni um sérstakar aukafjárveitingar svo skipti tugum milljóna vegna skipasmíðastöðva á þessu ári? Er það rétt? ( Fjmrh.: Má ég skýra þetta með framíkalli?) Ég var að spyrja þingmanninn; er það rétt? ( EgJ: Það hefur ekki, held ég, verið fjallað um það á sameiginlegum fundi.) Já, það hefur ekki verið gert þannig að þetta eru allt hrein ósannindi. ( Fjmrh.: Nei.) Þetta eru hrein ósannindi og náttúrlega alveg makalaust að hæstv. fjmrh. skuli bjóða upp á annað eins og þetta. Alveg makalaust. Ég man satt að segja ekki eftir öðru eins. En það getur vel verið að það fullnægi óskum stjórnarmanns Slippstöðvarinnar á Akureyri að hlusta á bullið í ráðherranum. Og það má vel vera að stjórnarmaður í Slippstöðinni á Akureyri, sem á sæti í þessari hv. deild, sjái heldur ekki ástæðu til að útskýra þau sérstöku vandamál sem Slippstöðin stendur nú frammi fyrir og af hvaða sökum þau vandamál eru runnin. Ég veit ekki hvort stjórnarmaðurinn ætlar að taka upp hanskann fyrir sitt fyrirtæki þegar veist er að því með þeim hætti sem hér hefur verið gert af hæstv. ráðherra, t.d. með því að halda því fram að það skipti ekki máli með hvaða hætti fjármagn komi til þessarar starfsemi og er að tala um að eðlilegt sé að setja skipasmíðaiðnaðinn á sérstakan spena hjá ríkisvaldinu, undir
opinbera forsjá, í staðinn fyrir að gefa skipasmíðaiðnaðinum svigrúm til að starfa með eðlilegum hætti.
    Ég ætla að rekja þá fjóra punkta sem hæstv. fjmrh. fór hér með og tíndi upp. En ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að kalla til hæstv. iðnrh. því það fæst ekki eitt einasta orð af viti úr hans munni þegar rætt er um málefni skipasmíðaiðnaðar. Hann gerir ýmist að halda því fram að málefni skipasmíðaiðnaðarins séu í stakasta lagi --- það sagði hann á ársþingi Félags ísl. iðnrekenda og gaf í skyn að nú horfði til þess að næg verkefni væru hjá þeirri starfsgrein --- en að hinu leytinu viðurkennir hann þá sérstöku erfiðleika sem skipasmíðaiðnaðurinn stendur frammi fyrir.
    Fyrir nokkrum dögum sagði hæstv. fjmrh. að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um 8 millj. kr.

ríkisframlag til markaðssetningar fyrir íslenskar skipasmíðar. Ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun um svipað leyti og ég lagði á það ríka áherslu að fjh.- og viðskn. samþykkti það frv. sem hér liggur fyrir. Þetta er auðvitað gömul aðferð hjá ríkisstjórnum til þess að drepa málum á dreif, að stinga einhverri dúsu upp í atvinnugreinina til þess að réttlæta sjálfa sig þegar hún er að standa á móti nauðsynjamálum og réttlætismálum, eins og ég er hér að ræða um. Ef þessar 8 millj., sem hæstv. ráðherra er að guma af að skipasmíðastöðvarnar eigi að fá til markaðssetningar, eiga að vera á kostnað skipasmíðaiðnaðarins sjálfs þá sé ég satt að segja ekki að þær skipti miklu máli. Þá skipta þær auðvitað engu máli og eru fullkomlega hlægilegar. A.m.k. er alveg ljóst að að því leyti sem þessir peningar koma til þarfa Slippstöðvarinnar á Akureyri þá er þar um lægri upphæð að ræða en endurgreiðslu af lántökugjaldinu. Það er a.m.k. öldungis ljóst. Og hæstv. fjmrh. hefur auðvitað ekki nein tök á því að leggja annað á borðið.
    Hæstv. fjmrh. var að telja það eftir að viðgerðin á Árna Friðrikssyni skyldi fara fram hér á landi og tíundaði það sem einhvern sérstakan greiða ríkisstjórnarinnar við skipasmíðaiðnaðinn. Ég hélt að þetta verk hefði verið boðið út. Ég hélt að þau verð sem í tilboðunum fólust hefðu ekki verið það há að þar væri um einhverjar sérstakar gjafir til þessa iðnaðar að ræða. Síður en svo. Sá málflutningur dæmir sig því sjálfur. En fjmrh. getur auðvitað sagt: Gjafir eru yður gefnar --- og þóst sýna mikið örlæti. Hann talar um að tvisvar sé búið að ákveða að veita viðbótarframlag vegna Breiðafjarðarferju. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. hafi ekki greitt meira en hann hefur heimild til sem fjmrh. Þess vegna hygg ég að greiðslur hans séu í samræmi við þann smíðasamning sem um var samið.
    Í fjórða lagi sagði hæstv. fjmrh. að vandi Slippstöðvarinnar á Akureyri ætti sér langan aðdraganda. Það er auðvitað hárrétt hjá hæstv. ráðherra að vandi skipasmíðaiðnaðarins á sér langan aðdraganda ef við segjum að nokkur missiri séu langur aðdragandi. Við munum eftir því, eins og ég hef margsinnis tíundað, að hæstv. iðnrh. lagði svo á ráðin við myndun þessarar ríkisstjórnar að raungengi var allt of hátt hér á landi sem bitnaði mjög illilega á
samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar. Síðan var það til viðbótar á árinu 1989 að mjög verulegt lántökugjald var lagt á lán sem tekin voru vegna smíði raðsmíðaskips á Akureyri. Það var þess vegna ekki nóg með að raungengi væri á þessum tíma um 15% hærra en efni stóðu til vegna eðlilegrar samkeppnisstöðu við sambærilegan iðnað í öðrum löndum, heldur bætti ríkisstjórnin gráu ofan á svart með því að leggja sérstakt lántökugjald á þau lán sem tekin voru vegna skipsins.
    Ég vil líka, herra forseti, minna stjórnarmann Slippstöðvarinnar á Akureyri á það að þegar við vorum að ræða um það hér í deildinni að eðlilegt væri að endurgreiða lántökugjald, sem tekið var af

lánum vegna meiri háttar viðhalds og endurbóta á fiskiskipum, þegar framkvæmdin væri unnin hér á landi, var því lýst yfir a.m.k. af hæstv. iðnrh. --- ég skal ekki draga hæstv. fjmrh. inn í það mál --- að þessi endurgreiðsla tæki einnig til innlendrar skipasmíði. Einnig til innlendrar skipasmíði. Það væri fróðlegt að fá álit hæstv. fjmrh. á því hvaða efnahagslegu rök, hvaða skattalegu rök eru fyrir því að taka hátt lántökugjald af þeim lánum sem tekin eru vegna innlendrar skipasmíði, en taka hins vegar ekki lántökugjaldið vegna meiri háttar endurbóta og viðhalds sem unnin eru hér á landi. Hvers vegna er það sem við sækjumst eftir því að verulegar endurbætur séu unnar hér á landi? Og hvers vegna er það sem við teljum nauðsynlegt að skip séu smíðuð hér á landi? Er það af því að við séum í einhverjum lúxus? Er það af tilviljun sem ákveðið var að hefja smíði skipsins, eða má vera að það hafi verið vegna þess að ekki er hægt að brúa það bil verkefnaleysis sem er t.d. hjá Slippstöðinni á Akureyri yfir háveturinn, yfir vertíðartímann, nema eitthvert slíkt alhliða verkefni liggi fyrir? Það voru þau sérstöku rök sem lágu fyrir því að í raðsmíðaskipið var ráðist.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að Slippstöðin stendur höllum fæti vegna þess að ekki var hægt að ganga frá samningum um sölu skipsins til Hvammstanga nú í vetur. Hvers vegna var það ekki hægt? Hvers vegna sóttist það mál svo illa? Hvers vegna dróst það mál svo mjög á langinn? Vegna þess að ríkisstjórnin lofaði að greiða fyrir málinu en gerði það ekki. Vegna þess að einstakir ráðherrar, og ekki síst iðnrh., lýstu því yfir hér í ræðustól í sameinuðu þingi að búið væri að ganga frá fullnægjandi lánum upp á 80%. Ég get rifjað það upp að fyrir stjórn Byggðasjóðs lá erindi frá forsrh. þess efnis að Byggðasjóður lánaði allt að 80% af smíðaverði. Þau skilaboð bárust inn á fundinn frá ríkisstjórninni að búið væri að leysa málið með öðrum hætti. Ríkisstjórnin ber þess vegna alla ábyrgð á því að það skip skyldi ekki hafa selst í vetur. Og það er ein höfuðástæðan fyrir þeim erfiðleikum sem Slippstöðin á Akureyri stendur frammi fyrir núna. Eða hvað heldur hæstv. fjmrh. að Slippstöðin hafi tapað miklum fjárhæðum á því að ekki var hægt að ganga frá sölusamningnum strax í desembermánuði eins og efni stóðu til? ( Fjmrh.: Þetta er bara rugl.) Þetta er allt rétt, hvert einasta orð er rétt. Það er hægt að leiða ráðherrann í gegnum umræður hér á Alþingi. Það er hægt að hefja vitnaleiðslu um málið. Það er algjörlega vandalaust.
    Ég heyri, herra forseti, að hæstv. fjmrh. óskar eftir því að ég tíundi í ræðu hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að þessu sérstaka máli hér í deildinni og tíundi hvaða loforð ríkisstjórnin hefur gefið í þessum efnum, m.a. blaðafulltrúi hæstv. fjmrh. í viðtali við Dag í febrúarmánuði sl., af því gefna tilefni. Vegna þess að ég sé að sá stjórnarmaður í Slippstöðinni sem á sæti í þessari deild hefur snúist gegn frv. og ég sé að af þeim sökum er borin von að frv. nái fram að ganga, þá óska ég eftir því að ég fái að gera hlé á ræðu

minni til þess að ég geti náð í þau gögn sem hæstv. fjmrh. er að skora á mig að leggja fram í mínum málflutningi. Ég mun þá ljúka ræðu minni þegar svigrúm gefst til á fundi deildarinnar og geri ráð fyrir því að eftir að búið er að afgreiða frv. um stjórn fiskveiða og frv. um Úreldingarsjóð fiskiskipa, hvort sem þau frv. verða samþykkt eða ekki, þá fái málið að koma aftur á dagskrá þannig að mér gefist svigrúm til þess að ná í þau gögn sem hæstv. fjmrh. sagði að ekki væru fyrir hendi. Þá óska ég jafnframt eftir því að hæstv. iðnrh. verði viðstaddur umræðurnar þannig að hægt sé að rifja upp það sem þeir hafa sagt um viðskipti Slippstöðvarinnar á Akureyri við væntanlega kaupendur á Hvammstanga. Ég vil taka það fram að í deildinni er stjórnarmaður í Slippstöðinni á Akureyri sem getur þá leiðrétt ef ég halla þar réttu máli.
    Ég ítreka, áður en ég geri hlé á ræðu minni, að við erum ekki að tala um neitt smámál, neitt hégómamál. Við erum að taka afstöðu til þess prinsipps hvort íslenskar skipasmíðar eigi að vera skattlagðar sérstaklega umfram það sem gert er varðandi viðhald og endurbætur á fiskiskipum hér á landi. Það er skoðun fjmrh. að það eigi að gera. Hann vill að aukaskatturinn á skipasmíðunum haldist þó svo að þessi iðngrein standi frammi fyrir þessum miklu erfiðleikum. Það liggur fyrir að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, sem hafa lítinn sjálfstæðan vilja satt að segja, eru sömu skoðunar og vilja kannski flestir taka undir þann skæting sem einstakir ráðherrar hafa af og til látið fjúka þegar íslenskur skipasmíðaiðnaður er hér til umræðu.
    Ég óska eftir því að fá að gera hlé á máli mínu til þess að ég geti safnað saman þeim gögnum sem hæstv. fjmrh. óskaði eftir að ég gerði. ( Fjmrh.: Ég óskaði ekki eftir neinum gögnum.) Með því að rengja það sem ég sagði. ( Forseti: Ég mun verða við beiðni hv. þm. Hann mun fresta ræðu sinni og er málið þá tekið út af dagskrá.