Skipan prestakalla
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Við 2. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir því að allshn. hefði fengið umsögn frá sóknarnefnd utan af landi eftir að hún hafði afgreitt málið út úr nefndinni. Við vildum gjarnan skoða þetta umrædda mál betur og athuga hvort grundvöllur væri fyrir því að nefndin flytti viðbótarbrtt. til að koma til móts við athugasemdir þær sem bárust frá umræddri sóknarnefnd.
    Ég hafði ekki, hæstv. forseti, gert ráð fyrir því að ræða efnislega um það mál sem hér um ræðir og gerði reyndar grein fyrir því hér eftir ræðu hæstv. sjútvrh. um þetta mál. En af gefnu tilefni tel ég rétt að lesa þessa umsögn sem nefndinni barst og ég vænti þess að þannig sé komin skýring á því hvers vegna við vildum athuga þetta einstaka mál og báðum þess vegna um frestun við 2. umr. þess. Ég ætla þá, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þetta bréf sem nefndinni barst frá sóknarnefnd Bjarnanesssóknar í Skaftafellsprófastsdæmi. Ég hafði ekki nefnt þessa sókn fyrr því ég ætlaði mér að komast hjá því að ræða þetta. En nú ætla ég að leyfa mér að lesa þessa umsögn sem er stíluð til formanns allshn. Ed. Jóns Helgasonar. Umsögnin er dagsett 22. apríl 1990:
    ,,Tilefni þessa bréfs er frétt sú sem borist hefur hér í sókn um umfjöllun hæstv. Alþingis á frv. að lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma. Sóknarnefnd Bjarnanesssóknar fagnar áhuga stjórnvalda á málefnum kirkjunnar og væntir góðs árangurs í kjölfar þess. Hins vegar kemur áðurnefndri sóknarnefnd mjög á óvart sú breyting sem þar er á orðin varðandi staðsetningu prestsseturs í Bjarnanessprestakalli. Er gert ráð fyrir í téðu frv. að prestssetur verði á Höfn en ekki í Bjarnanesi, eins og verið hefur, samkvæmt þeim lögum sem enn eru í gildi. Sýnist sú ráðstöfun mjög vafasöm og vart í anda ríkjandi stefnu stjórnvalda um byggðajafnvægi eða sjálfsákvörðunarrétt hinna dreifðu byggða. Því þótti nefndinni ástæða að kanna nánar hverju þetta sætti.
    Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að ástæðan fyrir þeirri breytingu sem hér um ræðir er sú að hv. 1. þm. Austurl. Halldór Ásgrímsson hafði gefið út tilskipan þess eðlis á síðustu dögum sínum í embætti kirkjumrh. Kemur þessi gjörningur hæstv. fyrrv. kirkjumrh. mjög á óvart. Leyfir sóknarnefnd Bjarnanesssóknar sér að efast um réttmæti hans. Að vísu segir í gildandi lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma frá 9. maí 1970, 14. gr.: ,,Heimilt er ráðherra að ákveða, að fenginni umsögn biskups og hlutaðeigandi héraðsprófasts, sóknarnefndar og sóknarprests, að flytja skuli prestssetur á hentugri stað í prestakallinu.``
    Ekki þarf að draga í efa að fullt tillit hafi verið tekið til umsagnar biskups og héraðsprófasts við afgreiðslu málsins. Sama er ekki að segja varðandi umsögn sóknarnefndar Bjarnanesssóknar frá 24. sept. 1989 sem, samkvæmt laganna hljóðan, er sá umsagnaraðili sem taka ber tillit til. Enda sá hæstv. fyrrv. kirkjumrh. ekki ástæðu til að leita samráðs við

hana við afgreiðslu málsins. Jafnframt virðist þessi ákvörðun ekki í samræmi við óskir sóknarprestsins, séra Baldurs Kristjánssonar, ef miðað er við ummæli hans í bréfi frá 10. nóv. 1987 til þáv. kirkjumrh. Jóns Sigurðssonar varðandi byggingu nýs embættisbústaðar í Bjarnanesi. Einnig má vitna í ummæli hans í 30. tölublaði Eystra-Horns frá 31. ágúst 1989 þar sem hann gerir málefni prestsseturs í prestakallinu að umræðuefni.
    Því er það álit okkar að afgreiðsla þessa máls standist vart lagalegar og þaðan af síður þær siðrænu kröfur sem ætlast er til að séu viðhafðar við afgreiðslu slíkra mála. Jafnframt hörmum við þá leynd sem virðist yfir allri meðferð málsins en teljum hana nokkuð eðlilega afleiðingu þess hvernig að afgreiðslu málsins hefur verið staðið. Því leyfir sóknarnefnd Bjarnanesssóknar sér hér með að senda hv. allshn. Ed. Alþingis afrit af umsögn sinni varðandi staðsetningu prestsseturs í Bjarnanessprestakalli frá 24. sept. 1989 ef það kynni að varpa ljósi á ýmsar staðreyndir þess máls sem hér er fjallað um.
    Jafnframt væntum við þess að háttvirt allsherjarnefnd hlutist til um að málið fái réttláta meðferð þannig að horfið verði frá þeim breytingum sem þar eru boðaðar og Bjarnanes endurheimti sinn stað í kirkjusögunni.
    Í sóknarnefnd Bjarnanesssóknar, Margot Gamm formaður, Hreinn Eiríksson og Ragnar Jónsson.``
    Þessari umsögn fylgir ljósrit af bréfi til biskups Íslands og jafnframt greinargerð sem vitnað er til, þar sem sóknarnefndin færir rök fyrir beiðni sinni. Einnig ljósrit af bréfi Baldurs Kristjánssonar sóknarprests sem hann hefur sent fjárveitinganefndarmönnum Alþingis og þingmönnum Austurlands í nóvember 1987.
    Ég ætla ekki að lesa þessi fylgiskjöl, hæstv. forseti, og ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Við sem höfum verið að fjalla um þessa umsögn og vildum athuga hvort hægt væri að leita leiða til að verða við óskum sóknarnefndar höfum tekið þá afstöðu að láta kyrrt liggja að þessu sinni og munum því ekki flytja brtt. við frv. eins og það liggur nú fyrir eftir 2. umr. hér í hv. deild. En mér þótti nauðsynlegt að gefnu tilefni að láta þetta bréf, sem varð til þess að málið tafðist, koma hér fram í ræðustóli í hv. deild.