Yfirstjórn umhverfismála
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Ég verð að segja að það vekur dálitla undrun mína að hæstv. umhvrh. skuli ekki vilja tjá sig strax um tillögur hæstv. forsrh. Við því er ekkert að gera. Ég get flutt mitt mál þótt ég viti ekki alveg með vissu hver afstaða hæstv. umhvrh. er til þessara tillagna og get þá ekki miðað við annað en það sem ég hef síðast heyrt frá honum um þetta mál allt saman.
    Hæstv. forsrh. hefur nú við 3. umr. þessa máls lagt fram brtt. við frv., brtt. sem hann hefur gert grein fyrir. Hæstv. forsrh. hefur rætt þetta mál ítrekað við okkur fulltrúa í stjórnarandstöðunni og ég vil segja það strax að ég met viðleitni hæstv. forsrh. til þess að ná samkomulagi um einhverja lausn á þeim deilum sem hafa verið hér í þinginu um þetta mikilvæga mál. Þessi viðleitni hæstv. forsrh. er vissulega virðingarverð og ekki síst í ljósi þess að hæstv. umhvrh. hefur ekki lagt sig mjög fram um að ná um þetta samkomulagi, svo ég taki nú vægt til orða. Og ég held ég megi reyndar hnykkja svolítið á þessu og segja að hann hafi þvert á móti gert hæstv. forsrh. nánast ómögulegt að ná um þetta nokkru samkomulagi við þá sem hafa lýst andstöðu við frv. eins og það er úr garði gert.
    Í einni utanför hæstv. umhvrh. gerðum við hæstv. forsrh. alvarlega tilraun til þess að ná samkomulagi um þetta mál. Ég held ég megi segja að við höfum verið komnir býsna nálægt því. Það var að vísu ekki samkomulag sem náði til stjórnarandstöðunnar allrar, enda hafði ég ekkert umboð til að ræða það. En ég veit að þingflokkur sjálfstæðismanna og ég held ég megi segja þingflokkur frjálslyndra hægrimanna hefði, með lítils háttar breytingum við þann grunn sem þar var lagður, getað fallist á brtt. sem hæstv. forsrh. var þá með. Eftir því sem ég best veit voru þær till. ræddar á fundi í ríkisstjórninni. Einhverjum ráðherranna varð það á að hringja í hæstv. umhvrh. til útlanda og bera málið undir hann en hann harðneitaði og sagðist ekki mundu samþykkja þann grunn sem
þarna hafði verið lagður. Það var sem sagt ekki aldeilis því að heilsa að um samkomulag yrði að ræða í það sinnið.
    Þess vegna fór það svo að þennan sama dag sem þetta mál var hér á dagskrá var það ekki tekið fyrir, eðlilega ekki, vegna beiðni hæstv. forsrh. þar sem hann vildi ekki mæla fyrir þessum brtt. að umhvrh. fjarstöddum og í beinni andstöðu við hann. Þetta er nú ástæðan fyrir því að þetta mál hefur ekki hreyfst nú um nokkurt skeið. Ég man ekki alveg hvenær þetta var. Ég geri ráð fyrir því að liðnar séu einar tvær vikur síðan.
    Ég tók þessa synjun hæstv. umhvrh. alvarlega og taldi alveg ljóst að ekki yrði um neitt samkomulag að ræða um lausn þessa máls. Ég gerði satt að segja ekki ráð fyrir því að hæstv. forsrh. mundi fara að leggja hér fram till. sem hæstv. umhvrh. hefði alfarið hafnað. En nú veit ég ekki með vissu hvað hefur gerst. Ég veit ekki hvort hæstv. umhvrh. hefur fallist á þessar till. forsrh., hann hafnaði þeim þegar þær voru bornar

undir hann eftir ríkisstjórnarfundinn, þá hafnaði hann þeim. Meira veit ég ekki en á meðan hann hefur ekki tjáð sig hlýt ég að ganga út frá því sem gefnu að hann hafi ekki samþykkt þessar till.
    Við höfðum ekki samþykkt þær heldur, en eins og ég sagði áðan þá vantaði ekki mikið á að við næðum samkomulagi við hæstv. forsrh. um þetta atriði. Í raun og veru stóð ekki mikið meira en eitt atriði eftir og það var þetta hvort 8.--14. gr., sem hæstv. forsrh. leggur nú til að öðlist ekki gildi fyrr en að lokinni endurskoðun og eftir samþykkt breytinga á lögum sem rakin eru í 3. tölul. ákvæða til bráðabirgða eins og segir á þskj. 1065. Við höfðum ekki fallist á þessa lausn og töldum miklu eðlilegra að þessar greinar yrðu hreinlega felldar brott, eins og við fulltrúar Sjálfstfl. og frjálslyndra hægrimanna höfðum lagt til við 2. umr. málsins. Ég kem kannski betur að því síðar.
    Um önnur atriði var sem sagt ekki svo fjarri því að við gætum á þau fallist og þá í samhengi við frekara samkomulag um lausn á öðrum málum. En þetta strandaði allt saman á afstöðu hæstv. umhvrh.
    Ég þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum um þessar brtt. hæstv. forsrh. Þær eru um að 8.--14. gr. öðlist ekki gildi fyrr en að lokinni endurskoðun og eftir samþykkt breytinga á lögum sem rakin eru í 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða. Þau lög eru, eins og hæstv. ráðherra gerði hér grein fyrir, lög um Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins, með síðari breytingum, lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, lög um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, lög um Geislavarnir ríkisins, nr. 117/1985, lög um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 20/1986, lög um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd alþjóðasamning gegn mengun sjávar af völdum olíu, nr. 14/1979, og að lokum lög um bann við losun hættulegra efna í sjó, nr. 20/1972. Sem sagt, 8.--14. gr. skulu ekki öðlast gildi fyrr en öll þessi lög hafa verið endurskoðuð og samþykktar breytingar á þeim hér á hv. Alþingi.
    Þetta er út af fyrir sig spor í rétta átt. En þetta er hins vegar lagasetning sem þingið ætti ekki að láta fara frá sér. Það er ekki eðlileg
lagasetning að ákveða í lagafrv. eins og þessu að þessar og hinar greinarnar skuli samþykktar en ekki öðlast gildi fyrr en einhver runa af lögum hefur verið endurskoðuð og þessi endurskoðun leitt til samþykkis nýrra laga eða breytinga á eldri lögum hér á þinginu einhvern tímann í framtíðinni. Að vísu er gert ráð fyrir að þessari endurskoðun skuli hraðað en það er engin trygging fyrir því að svo verði og því síður trygging fyrir því að næsta þing samþykki slíkar breytingar. Þetta er því lagasetning sem Alþingi á ekki að temja sér. Ég veit að þetta hefur gerst áður en það er ekki þinginu til sóma. Á þessa till. getum við því ekki fallist.
    Þá er hér í till. hæstv. forsrh. gert ráð fyrir bráðabirgðaákvæðum. Þar er í fyrsta lagi að umhvrh. skuli á haustþingi leggja fram frv. til laga um

umhverfisvernd og umhverfisverndarstofnun. Í því skal m.a. ákveðið skipulag mengunar- og geislavarna á landi, í lofti og sjó. Síðan kemur þessi setning: ,,Umhverfisráðherra skal þó við gildistöku þessara laga hafa með höndum yfirstjórn og samræmingu hvers konar mengunarvarna og getur ákveðið aðgerðir í því sambandi.`` Þetta ákvæði sýnist mér alveg ótækt að samþykkja. Og ég sé ekki í raun og veru hvernig að þessu megi standa ef svona ákvæði er samþykkt. Annaðhvort höfnum við því eða frestum gildistöku þeirra ákvæða sem kveða á um yfirfærslu þessara verkefna til umhvrn. Í till. forsrh. er beinlínis gert ráð fyrir að þeim ákvæðum öllum verði frestað. En svo kemur í bráðabirgðaákvæði að þrátt fyrir þetta allt saman þá eigi hæstv. umhvrh., þegar við gildistöku þessara laga, að hafa með höndum yfirstjórn og samræmingu hvers konar mengunarvarna og geti ákveðið aðgerðir í því sambandi.
    Það er engin mynd á svona lagasetningu frá Alþingi. Þetta getur ekki gengið. Það er alveg gjörsamlega óhugsandi að þingið samþykki svona nokkuð. Að minni hyggju stenst þetta alls ekki, það stenst ekki að gera svona.
    Síðan kemur svolítið skondið ákvæði, það er nr. 2 í ákvæði til bráðabirgða og það er þetta: ,,Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins skulu, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., starfa óbreytt þar til lög um þær stofnanir hafa verið endurskoðuð.`` Já, þetta er svo sem mögulegt, svona í stærra samhengi, að fallast á bráðabirgðaákvæði af þessu tagi. En þegar við skoðum þetta allt í samhengi þá er í raun og veru verið að segja með þessari till. í bráðabirgðaákvæðinu að ekkert sé að marka 1. gr., að 8.--14. gr. skuli frestast. Það stendur í raun og veru lítið eftir af frv. annað en það að hæstv. umhvrh. fær Náttúruverndarráðið undir sinn hatt og hann fær refinn og minkinn og vargfuglinn. Og ekki má gleyma Veðurstofunni, hann fær hana, væntanlega vegna þess að ekki voru nokkur rök fyrir því að samþykkja að flytja Veðurstofuna frá hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni, sem ég sé hérna fyrir framan mig og brosir eðlilega að. Það voru engin rök fyrir því, engin. En samt skyldi þessu komið í gegn og það var samþykkt við 2. umr. málsins.
    Svona er þetta í allra stærstu dráttum, það sem felst í brtt. hæstv. forsrh. Og ég segi ósköp einfaldlega að við getum ekki fallist á að þetta mál fari út úr þinginu með þessum hætti, það getum við ekki gert. Þessi lagasetning, ef af verður, er Alþingi til vansæmdar.
    Herra forseti. Við 2. umr. málsins fluttum við nokkrar brtt. Ásamt mér voru flm. hv. þm. Friðjón Þórðarson og Ingi Björn Albertsson. Þessar till. voru við 1. gr. og atkvæði gengu við 2. umr. um þá brtt. og brtt. okkar var felld. En við kölluðum aftur til 3. umr. aðra brtt. sem fól í sér að 6.--14. gr., að báðum meðtöldum, féllu brott. Og þriðja brtt. var að 18. gr. félli brott, en hún fjallar um Veðurstofuna. Atkvæði gengu um þá brtt. og brtt. okkar var felld í atkvæðagreiðslunni, eins og ég sagði áðan.

    Ein brtt. okkar var kölluð aftur til 3. umr. og kemur því nú til meðferðar hv. þingdeildar. Það stendur sem sagt, fyrra þskj. 726 þar sem till. okkar standa. Ég veit ekki hvað ég þarf að eyða löngum tíma í að tala aftur fyrir þessum till. Ég sakna þess að vísu hversu fáir eru hérna í salnum. ( Gripið fram í: Það er einn til viðbótar úr Ed.) Já, það er mjög gott ef efrideildarmenn mundu nú koma hérna. Það kann að fara þannig, án þess að ég vilji spá um það, að þeir fái málið til meðferðar. Ég er ekki mjög bjartsýnn á það en það væri út af fyrir sig skemmtilegt viðfangsefni svona á lokadögum þingsins fyrir efri deild að glíma við þetta mál. Hún hefur kannski ekki svo mikið annað að gera þessa síðustu daga.
    Mér sýnist á öllu að nauðsynlegt sé að ég fari um þessar brtt. örfáum orðum. Ég tek þó skýrt fram að ég ætla ekki að fara að endurtaka ræðu mína frá því við 2. umr. þótt ég telji að ýmsir þingmenn og ráðherrar hefðu gott af því að heyra hana aftur ef það mætti verða til þess að auka skilning þeirra á því sem hér er til umræðu. Það virðist skorta mjög enn þá á að þeir átti sig á því hvað við erum að tala um. Í því sambandi hlýt ég að lýsa furðu minni á þeim ummælum hæstv. umhvrh., sem hann hefur ítrekað látið frá sér fara í fjölmiðlum, að hann skilji bara ekkert í um hvað sé verið að deila, bara hreint ekki neitt. Hann hefur jafnvel látið í það skína að þessi deila standi bara um hans persónu. Að það sé af einhverri meinbægni út í hann persónulega sem menn standi hér gegn því að samþykkja þetta frv. Ég er satt að segja mjög
undrandi á að heyra ítrekað svona ummæli. Og það er mikill misskilningur ef hæstv. ráðherra heldur að við sem hér höfum verið að tala gegn þessu frv. í ræðustól á Alþingi höfum svo gífurleg áhrif úti í þjóðfélaginu að við getum stýrt ummælum fjölda aðila sem hafa sent til hv. þingnefndar umsagnir sem hér hafa rækilega verið raktar við 2. umr. málsins. Nei, svo mikið er vald okkar nú ekki.
    Ég sagði áðan að hæstv. umhvrh. hafi ekki lagt mikið af mörkum til þess að reyna að ná einhverri sátt um þetta mál hér í þinginu. Hann hefur gengið á vegginn við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Það er í raun og veru það sem hann hefur verið að gera, hann hefur neitað öllum samkomulagsumleitunum hæstv. forsrh., hvort heldur hann hefur verið staddur hér á landi eða erlendis. Ég verð því miður að segja að mér sýnist þessi afstaða hæstv. umhvrh. hafa rennt stoðum undir þann orðróm að áhugi hans á umhverfismálum sé í raun og veru í lágmarki. En á ráðherradómi hins vegar alveg í hámarki. Framganga hans í málinu öllu hefur ekki orðið þessu máli til framdráttar heldur þvert á móti til óþurftar. Og svo skilur hann ekkert í um hvað sé verið að deila, bara hreint ekki neitt. Ég bendi enn í þessu samhengi á allar umsagnirnar sem mér liggur við að fullyrða að hafi ekki verið lesnar af þeim hv. þm. og hæstv. ráðherrum sem vilja fá þetta mál óbreytt í gegnum þingið.

    Til viðbótar hefur í dag borist bréf sem hæstv. forsrh. gerði hér lauslega grein fyrir. Ég ætla að leyfa mér að lesa það. Það er til forsrh. Steingríms Hermannssonar en er sent formönnum þingflokkanna. Bréfið er dags. 30. apríl og hljóðar svona:
    ,,Afgreiðsla Alþingis á frv. til laga um breytingu á lögum er fjalla um verkefni umhverfisráðuneytis, 128. mál.
    Undirritaðir forsvarsmenn stofnana, sem tillaga liggur fyrir um að flytjist undir yfirstjórn umhverfisráðuneytis að hluta til eða að öllu leyti, óska eftir að þær greinar 128. máls sem ágreiningur er um verði ekki afgreiddar á þessu þingi heldur fái frekari faglega umræðu.
    Afrit af þessu bréfi er sent formönnum þingflokka.``
    Undir þetta bréf rita forstöðumenn og fulltrúar eftirtalinna stofnana. Ég verð að telja þær upp. Það er Hollustuvernd ríkisins, eiturefnanefnd, Siglingamálastofnun ríkisins, Landmælingar Íslands, veiðistjóri, Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins, skipulagsstjóri ríkisins og Geislavarnir ríkisins. Enn sakna ég nú, herra forseti, umhverfisráðherrans sem mér þykir þó svona og svona að þurfa að viðurkenna í annað sinn. Ég býst við að hann sé eitthvað upptekinn í Ed. og er tilbúinn að gera hlé á ræðu minni vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að hann hlusti aðeins á þetta vegna þess að ég hef hann grunaðan um að lesa ekki heimaverkefnin sín. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. umhverfisráðherra komi í rétt umhverfi.) Já, það er einmitt það.
    Ég var að lesa upp bréf sem forsrh. barst. Ég þarf ekki að lesa það aftur, ég geri ráð fyrir að umhverfisráðherra sé það kunnugt. Og ég taldi upp, án þess að lesa nöfnin, hvaða stofnanir óskuðu eftir að þessu máli yrði frestað, eða þeim greinum sem varða þessar stofnanir. Ég vek alveg sérstaka athygli á
því að undir skrifa fulltrúar þriggja stofnana sem höfðu ekkert við það að athuga á fyrri stigum málsins að þeirra stofnanir flyttust til umhverfisráðuneytisins, en núna óska þeir eftir, ásamt hinum, að þessu máli verði frestað.
    Þetta eru í fyrsta lagi Landmælingar Íslands. Forstöðumaður Landmælinga Íslands hafði með sinni umsögn gefið það í skyn að hann hefði svo sem ekkert við það að athuga að hans stofnun flyttist undir umhverfisráðuneytið.
    Í öðru lagi er hér veiðistjóri. Hann hafði heldur ekkert við það að athuga að hans embætti flyttist undir umhverfisráðuneytið. Nú óskar hann eftir að þessu atriði verði frestað og það fái frekari faglega umfjöllun.
    Í þriðja lagi skrifar skipulagsstjóri ríkisins undir frestunarbeiðni. Hann hafði með sinni umsögn, ég hef hana því miður ekki við hendina, mælt með því að embætti hans færi undir umhverfisráðuneytið. Nú er hann eitthvað í vafa og óskar þess að málinu verði frestað.
    Ég vil í því sambandi taka fram að við 2. umr. málsins fluttum við ekki tillögu um að 16. og 17. gr.

frv. féllu brott en nú við 3. umr. boða ég brtt. um þau atriði. Mér vannst ekki tími til að koma þeim brtt. á blað en það verður tími til þess á síðari stigum málsins við 3. umr. að flytja þær brtt. og tala fyrir þeim. Þessar greinar fjalla um það að skipulagslögin og allt sem þeim tilheyrir, og sem nú fellur undir félmrn., fari undir umhverfisráðuneytið.
    17. gr. fjallar um byggingarlögin, sem núna heyra undir félmrn., og að þau komi undir umhverfisráðuneyti. Satt að segja treystum við okkur ekki til þess við 2. umr. málsins að leggja til að þessar greinar féllu brott vegna þess að einu umsagnirnar sem við höfðum voru frá skipulagsstjóra ríkisins sem mælti með því að þessi háttur yrði hafður á. Hins vegar hefur það nú gerst að skipulagsstjóri ríkisins óskar eftir að þessum þætti verði frestað. Og í öðru lagi hefur Samband ísl. sveitarfélaga ályktað um þetta atriði. Það hafði það
ekki gert þegar við vorum með þetta mál til 2. umr. Í raun og veru hafði ekkert heyrst frá sveitarfélögunum um þetta atriði. Kom það satt að segja mjög á óvart að sveitarfélögin skyldu ekkert hafa um það að segja hvort skipulagsmál og byggingarmál skyldu flutt frá félmrn. og til umhverfisráðuneytis. En nú hefur fulltrúaráðsfundur Sambands ísl. sveitarfélaga ályktað um þetta atriði. Fulltrúaráðsfundurinn, 41. fundur, var haldinn dagana 22. og 23. mars. Þar er ályktað með þessum hætti, ég les ályktunina, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í frv. til laga um breytingu á nokkrum lögum varðandi málaflokka sem fella á undir yfirstjórn umhverfismála, 128. þingmál, er m.a. gert ráð fyrir því að yfirstjórn byggingarmála og skipulagsmála flytjist úr félmrn. í umhverfisráðuneytið. Fulltrúaráðið telur þessi mál svo nátengd allri yfirstjórn sveitarfélaga að eðlilegt sé að þau verði áfram hjá ráðuneyti sem fer með málefni þeirra. Fulltrúaráðið lýsir einnig efasemdum um að rétt sé að flytja yfirstjórn Hollustuverndar og heilbrigðiseftirlits frá því fagráðuneyti sem fer með heilbrigðismál.``
    Svo mörg voru þau orð. Fulltrúaráðsfundur Sambands ísl. sveitarfélaga hefur ályktað einum rómi að ekki skuli gert það sem frv. gerir ráð fyrir. Með öðrum orðum, það er ósk þeirra að 16. og 17. gr. falli brott. Eins og ég sagði áðan mun ég síðar við þessa umræðu flytja brtt. um það efni.
    Herra forseti. Ég er í dálitlum vafa um hvað ég á að fara ítarlega út í það við þessa umræðu núna að tala fyrir brtt. okkar sem voru kallaðar aftur til 3. umr. og ég gerði nokkuð glögga grein fyrir við 2. umr. málsins, en sem mér sýnist að menn ætli ekki svo sem að taka mikið tillit til. Nema það er ákveðin viðleitni þó sem kemur í ljós hjá hæstv. forsrh. með tillöguflutningi hans að vilja fresta gildistöku þessara greina nema 6. og 7. gr. sem hann sýnilega telur afar mikilvægt að komist strax í hendur umhverfisráðherrans, þ.e. eyðing svartbaks og eyðing refa og minka. Ég get út af fyrir sig kannski skilið að það séu verðug viðfangsefni fyrir umhverfisráðuneytið að hafa þau mál á sinni könnu þó að ég efist mjög

um að þau fari betur þar en þar sem þau eru í dag, undir stjórn Búnaðarfélags Íslands og heyra þannig undir landbrn. En það má vel vera að í augum hæstv. ríkisstjórnar sé það afar mikilvægt mál, og mikilvægara en ýmsar aðrar greinar frv., að þessi atriði komist strax í hendur hæstv. umhverfisráðherra. En látum það vera. Við látum reyna á þetta við 3. umr. (Gripið fram í.) Já, það er allt í lagi. Ég þarf ekki að gera hlé á ræðu minni þó ég efist um að hann hafi heyrt fyrri ræðu mína um þessi atriði. Það gefst kannski færi á því síðar við umræðuna að fara aftur yfir þau atriði sem farið er yfir meðan hann er fjarstaddur.
    Ég legg afar mikla áherslu á að menn kynni sér betur þann ágreining sem uppi er um þessi atriði öll og varðar heilbrrn. og þær alvarlegu athugasemdir sem komið hafa frá hinum ýmsu stofnunum sem þetta varðar. Athugasemdirnar eru mjög alvarlegar og ítrekaðar nú með þessu stutta bréfi sem ég var að lesa áðan.
    Ég held ég stilli mig núna um að fara lið fyrir lið í þessar greinar allar sem við leggjum til að falli brott. Nú sakna ég svolítið hæstv. heilbrrh. Ætli hann sé í húsinu? ( Forseti: Nei. Samkvæmt viðverutöflu er heilbrrh. ekki í húsinu.) Þar fór í verra. Hann var hérna nefnilega áðan. Ég hefði kannski átt að sjá við þessu og reikna með að hann mundi stinga af. Ég hélt satt að segja að hann mundi nú sitja vegna þess að ég beindi til hans ákveðnum fyrirspurnum við 2. umr. málsins og hann hefur ekki svarað þeim enn þá. Ég má til með að ítreka þessar fyrirspurnir vegna þess að ég verð að fá svör við þeim. ( Forseti: Forseti mun kanna hvort unnt er að hafa upp á hæstv. ráðherra og fá hann hingað.) Þarf ég að standa hérna þegjandi meðan beðið er eftir því? Ég get vel gert það. ( Forseti: Það er auðvitað ástæðulaust fyrir ræðumann. Ég veit að honum liggur mikið annað á hjarta.) Ég get kannski farið aðeins yfir í aðra hluti á meðan beðið er eftir hæstv. heilbrrh.
    Ég get á meðan nefnt aðeins um hvað þessar greinar fjalla sem við leggjum áherslu á að falli brott úr frv. Ég er búinn að tala lauslega um 6. og 7. gr. 6. gr. sem fjallar um svartbakinn og 7. gr. sem fjallar um refi og minka. Við viljum sem sagt áfram láta á það reyna hvort hv. þingdeild fellst á það að þessir málaflokkar flytjist til umhverfisráðuneytisins.
    Ég vil aðeins í framhjáhlaupi, af því að minnst var á það þegar bréfið sem fulltrúar þessara stofnana sendu forsrh. í dag var lesið upp, að Náttúruverndarráð hafi ekki skrifað undir það bréf, geta þess að ég kannast vel við það og bendi á, sem ég hef reyndar gert áður, að það er enginn ágreiningur um þetta atriði. Það er enginn ágreiningur um það að Náttúruverndarráð falli til umhverfisráðuneytisins. Það er nánast það eina sem menn eru sammála um hér í þinginu að falla skuli til umhverfisráðuneytisins. Auðvitað er mér ljóst að fleiri þættir koma til með að falla til umhverfisráðuneytisins en Náttúruverndarráð eitt og refir og minkar og svartbakur og Veðurstofan. ( Forseti: Forseti vill koma á framfæri þeim

upplýsingum að það hefur verið haft samband við hæstv. heilbrrh. og hann býr
sig undir að koma hingað til fundarins.) Ég þakka fyrir. Ég hlakka til að hitta hann.
    Þau atriði sem við deilum um þarfnast einfaldlega miklu frekari faglegrar umfjöllunar. Það sem við höfum verið að leggja áherslu á er hversu rangt það er að fara út í þessa miklu skipulagsbreytingu í beinni styrjöld við alla þá sem hlut eiga að máli. En það er einmitt það sem verið er að gera með því að þvinga þetta mál svona í gegnum þingið.
    Ég geri mér alveg grein fyrir að stofnun umhverfisráðuneytis er staðreynd og ég geri mér alveg grein fyrir að þetta ráðuneyti mun fá fleiri viðfangsefni í framtíðinni en við gerðum ráð fyrir á þessu þingi að falli til þess. En til þess þarf miklu meiri og faglegri umfjöllun en hefur átt sér stað.
    Við gerum það sem sagt að tillögu okkar að þessar greinar allar, 6.--14. gr. að báðum meðtöldum, falli brott úr frv. en ekki verði aðeins frestað gildistöku þeirra eins og hæstv. forsrh. leggur til. Þetta eru allt greinar sem varða heilbr.- og trmrn., þ.e. Hollustuverndin sem þar er fyrirferðarmest og svo Geislavarnir ríkisins sem 14. gr. fjallar um. Síðan eru það atriði sem varða mengun sjávar og heyra undir samgrn. Það er 9. og 10. gr. reyndar líka sem fjallar um mengun sjávar af völdum olíu og heyrir einnig undir samgrn. í dag og svo 11. gr., um bann við losun hættulegra efna í sjó, og 12. gr. sem snertir einnig Siglingamálastofnunina og þar með samgrn. 13. gr. fjallar einnig um heilbr.- og trmrn., þ.e. lög um eiturefni og hættuleg efni og svo 14. gr. sem ég hef þegar nefnt og varðar Geislavarnir ríkisins.
    Ég legg sem sagt afar mikla áherslu á þær umsagnir sem bárust hv. allshn. Nd. um þessi atriði. Þar var nánast hver einasti aðili sem tjáði sig andvígur því að þessar greinar yrðu samþykktar. Það var aðeins einn forstöðumaður hjá Hollustuvernd ríkisins, forstöðumaður mengunarvarnasviðsins, sem lýsti sig fylgjandi því að Hollustuverndin, alla vega sá þáttur sem undir hann heyrði, yrði fluttur til umhverfisráðuneytisins. En þá stöndum við aftur frammi fyrir því að menn eru ekki á einu máli um hvort kljúfa eigi Hollustuverndina í tvo eða fleiri hluta. Þar eru menn ekki á einu máli. Sumir telja að slíkt sé mögulegt. Þar held ég að sveitarfélögin eigi eftir að tjá sig betur en þau hafa þegar gert, þótt þau hafi gert það, eins og ég las upp hér áðan úr samþykkt fulltrúaráðsfundarins þar sem þeir tjáðu sig ekki aðeins um yfirstjórn byggingar- og skipulagsmála, heldur einnig um þetta atriði þar sem segir: ,,Fulltrúaráðið lýsir einnig efasemdum um að rétt sé að flytja yfirstjórn Hollustuverndar og heilbrigðiseftirlits frá því fagráðuneyti sem fer með heilbrigðismál.``
    Ég held að menn þurfi að skoða þetta miklu betur vegna þess að það hlýtur að kalla á tvöfalt kerfi ef kljúfa á Hollustuverndina með þessum hætti milli tveggja ráðuneyta. Það held ég að sé mjög varhugavert svo ekki sé fastar kveðið að orði. Ég held

að ég sé ekki að endurtaka þetta frekar varðandi málefni Hollustuverndarinnar. Þetta hefur komið allt saman mjög skýrt fram hér í umræðunum, ekki bara af minni hálfu heldur hafa fleiri ræðumenn lagt ríka áherslu á að tekið verði tillit til þess sem þessir aðilar hafa sagt um þennan mikilvæga málaflokk. Satt að segja þykir mér með ólíkindum að hæstv. ráðherrar skuli skella skollaeyrum við því sem þessir aðilar segja. Þetta eru þeir aðilar sem hafa unnið með þennan málaflokk í áraraðir, eru öllum öðrum kunnugri hvernig með þetta skuli farið, en það er sem sagt skellt alfarið skollaeyrum við því sem þeir segja og ekkert gert úr þeirri miklu reynslu sem þeir hafa.
    Fyrst ég er farinn að tala um það hvernig hæstv. ríkisstjórn skellir skollaeyrum við því sem umsagnaraðilar hafa um þessi mál að segja þá verð ég aðeins að nefna Landgræðsluna og Skógrækt ríkisins og fleiri aðila í þeim málaflokki sem hafa tjáð sig mjög ákveðið. Síðast heyrði ég viðtal, ég held í fjölmiðlum í gær, við fyrrv. skógræktarstjóra Sigurð Blöndal. Málefni Skógræktar ríkisins og Landgræðslunnar hafa verið mjög til umræðu nú að undanförnu vegna átaks í skógrækt og alls þess sem um það mál hefur verið talað. Það hefur einmitt komið mjög skýrt fram í þessari umræðu hversu góð sátt hefur tekist milli bændastéttarinnar í landinu og Skógræktar og Landgræðslunnar. Nú á að setja allt það mál í uppnám vegna þess að Skógrækt ríkisins og Landgræðslan eiga að fara a.m.k. að hluta til undir umhverfisráðuneyti.
    Fyrrv. skógræktarstjóri tók einmitt fram í þessu viðtali að Skógræktin hefði heyrt undir landbrn. og þar ætti hún að vera. Þar vildu þeir vera einmitt vegna þess hver sátt hefði tekist með þessum aðilum. En á þetta er ekki hlustað. Það er ekki hlustað á þetta. Það er reynt að teygja sig núna svolítið til móts við þessa aðila með því að segja í 2. lið 5. gr. brtt. hæstv. forsrh.: ,,Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins skulu, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., starfa óbreytt þar til lög um þær stofnanir hafa verið endurskoðuð.``
    Þessir aðilar eiga sem sagt að fá einhvern frið og það er vissulega af hinu góða. Engu að síður stendur það í lagagreininni að ráðið skal, eins og þar
stendur, ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd og hafa eftirlit með ástandi gróðurs. Getur ráðið falið gróðurverndarnefndum slíkt eftirlit.
    Í öðru lagi skal ráðið ásamt Skógrækt ríkisins vinna að verndun og eftirliti með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar.
    Þarna á sem sagt umhverfisráðuneytið að koma að verki við hliðina á landbrn. þótt þeir aðilar sem um þessar stofnanir fjalla og stjórna þeim vilji ekkert með þetta hafa. Þeir hafa gert alvarlegar athugasemdir við þessa grein en á það er ekki hlustað.
    Herra forseti. Ég hef núna farið yfir þessi atriði, eins og mér sýnist nauðsynlegt við þessa umræðu. Ég ætla ekki að endurtaka neitt frekar það sem ég sagði við 1. umr. þegar ég var að tala fyrir brtt. okkar. En ég á enn eftir að ítreka fyrirspurnir mínar til hæstv. heilbrrh. Og ég veit ekki hvað dvelur hann. Býr hann

svona langt í burtu? Veit forseti það? Ég get gert hlé á ræðu minni frekar en að vera að tala hér um eitthvað sem ég vil ekki endurtaka. ( Forseti: Forseta er kunnugt um að hæstv. heilbrrh. býr í Breiðholti. Hins vegar óskaði hann eftir fjarvistarleyfi fram eftir kvöldi og reiknaði ugglaust ekki með því að vera ávarpaður sérstaklega undir þessari umræðu en ég mun láta hann vita að óskað sé eftir hans nærveru. Ég gef ræðumanni kost á því að fresta þessari ræðu ef hann óskar.) Já, ég ætla að þiggja það. Ég ætla bara að láta þess getið til þess að fyrirbyggja allan misskilning að ég var búinn, en sennilega hefur hæstv. forseti ekki verið þá í stólnum heldur varaforseti, að gera grein fyrir því að ég hefði beint ákveðnum fyrirspurnum til hæstv. heilbrrh. við 2. umr. málsins. Hann svaraði mér ekki og ég þarf þess vegna að ítreka þessar fyrirspurnir og ég ætlast til þess að hæstv. ráðherra svari mér. En ég þigg þá að gera hlé á ræðu minni.