Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er þurfti ég að víkja hér af fundi sl. laugardag og gat því miður ekki hlýtt á alla ræðu hv. þm. Þorsteins Pálssonar né heldur þær ræður sem Pálmi Jónsson og fleiri fluttu hér í þeirri umræðu. Ég er alveg reiðubúinn að eiga viðræður við þá sem í umræðunni tóku þátt um þau viðhorf sem komu fram hjá þeim og við getum í sameiningu þar til þing hefur aftur störf, annan dag maímánaðar, farið yfir þessi mál og skoðað það hvort hægt er að ná niðurstöðu í þessu máli sem fer saman við þau sjónarmið sem sett hafa verið fram af hálfu fulltrúa ríkisstjórnarinnar í þessum umræðum og tekur einnig mið af því sem fram kom hér í umræðunni á laugardaginn. Ég vil hins vegar ekki á þessu stigi fara nánar út í það mál en teldi heppilegt að við gætum notað tímann fram að því að nefndir hefja störf aftur annan dag maímánaðar og fundum hér í deildum til þess að skoða það mál nánar og er reiðubúinn að taka þátt í því.