Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Á laugardaginn urðu skoðanaskipti á milli mín og hv. 1. þm. Suðurl. Það kom fram hjá honum að hann taldi að meginhluti stjórnar Áburðarverksmiðju ríkisins hefði unnið með eðlilegum hætti að því að afgreiða þetta mál. Ég svaraði honum því þannig að ef ég hefði verið þarna í stjórninni hefði ég frestað málinu. Ég hefði viljað fá svör, hvernig ætti að leysa þetta mál, vegna þess að þetta er ekki eingöngu samningur við verkalýðsfélögin eða aðila vinnumarkaðarins, heldur líka við bændur, við Stéttarsamband bænda. Og eðlilegast hefði verið að þeir hefðu beðið með ákvörðun þangað til kæmi fram trygging frá ríkisstjórn um það hvernig þetta mál yrði leyst, ef það er rétt, sem ég get ekki dregið í efa, að með 12% hækkun yrði um 113 millj. kr. halli á rekstrinum þetta ár ef salan væri 52 þús. lestir. Og jafnvel þó það væru 18% væri hallinn samt 25 milljónir.
    Í bréfi sem landbrn. skrifar Áburðarverksmiðju ríkisins og dagsett er 1. mars er tekið fram að ef í ljós komi að halli verði á rekstrinum muni verða gerðar ráðstafanir til þess að bæta þann halla því að ef það verður ekki gert er verið að ýta þessu á undan sér og verðið yrði að hækka um næstu áramót meira en annars hefði verið. Það er auðvitað ekki hægt að reka þessa verksmiðju með halla ár eftir ár.
    Ég vil því fara fram á það að hæstv. forsrh. og fjmrh. svari því hvernig þeir ætli að leysa þetta mál. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. landbrh. vill standa við sitt bréf, en einhverra hluta vegna hefur það þvælst fyrir hæstv. ríkisstjórn að koma sér niður á hvernig þetta mál verður leyst. En ég tel nauðsynlegt, hér og nú, að fá svör við þessu. Að vísu skiptir það kannski ekki meginmáli hvort það er endilega í kvöld eða þegar málið kemur til 2. umr., en það liggur mjög mikið á því að ákveða verðið vegna þess að það verður enginn áburður seldur fyrr en lausn er komin í þessu máli.