Raforkuver
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég vildi vegna þess að það er verið að taka hér stórt mál á dagskrá, 8. málið, sennilega langdýrasta frv. sem hefur verið sýnt þessu þingi, það er verið að taka það á dagskrá hér rétt fyrir miðnætti og mér skilst að það séu áform forseta að ljúka fundi hér um miðnætti vegna þess að þá rennur upp 1. maí og ekki er það óeðlilegt. Af þessu tilefni vildi ég inna hæstv. forseta eftir því hvernig hugmyndin væri að haga framhaldi umræðunnar. Ég ætla ekki að setja mig á móti því í önnum þingsins að þessi umræða hefjist ef það liggur ljóst fyrir að henni verður haldið áfram rakleitt í upphafi næsta fundar í deildinni. En ég teldi það með öllu óviðunandi ef ætti að fara að slíta þessa umræðu enn frekar sundur en leiðir af slitum fundar og setningu nýs.
    Ég vek athygli á því að það er greinilega ekki mikill áhugi á þessu máli hjá ríkisstjórninni, eins og málum hefur verið raðað hér á dagskrá í dag en það er út af fyrir sig ekki mitt áhyggjuefni. Hins vegar hefði ég kosið að þetta mál fengi meðferð í þingnefnd og hef ætlað mér að reyna að láta vinna í því í þeirri nefnd sem ég er formaður í. En mér finnst algert skilyrði fyrir því, ef þingnefnd á að fara að taka á máli og umræða að hefjast nú, að það verði ljóst að hún haldi áfram í byrjun fundar á miðvikudag. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvort því megi treysta. ( Forseti: Vegna þessarar spurningar vill forseti taka það fram að það er rétt að hér verður fundi lokið fyrir kl. 12. Ég get lofað hv. ræðumanni því að þetta mál verður mjög framarlega á dagskrá þess fundar sem verður haldinn í deildinni n.k. miðvikudag.)
    Virðulegi forseti. Ég tek það svo að það verði á fyrsta hálftíma þess fundar. Ef atkvæði eru greidd um einhver mál fyrst, þá ætla ég ekki að gera athugasemdir við það, en ég skil orð forseta þannig að þetta verði fyrsta efnislega málið sem verður rætt hér á fundi n.k. miðvikudag. ( Forseti: Forseti vill ekki gefa bindandi loforð um það hvort þetta verður fyrsta efnislega málið sem á dagskrá verður, en hann skal standa við að það mun koma fyrir snemma á fundi á miðvikudag.)
    Virðulegur forseti. Í trausti þess að þetta verði tekið fyrir mjög fljótlega eftir að fundur hefst á miðvikudag þá ætla ég ekki að setja mig á móti því að hæstv. iðnrh. hefji mál sitt og mæli fyrir málinu.