Launasjóður stórmeistara í skák
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég get ekki séð að hin almennu ákvæði laganna um stórmeistaratitil séu neitt minna hvetjandi fyrir konur en karla. Og ég held að konur hljóti að setja sér sömu markmið og karlar, að ná, ég vil segja, yfirburðaárangri í skák, ef þær á annað borð kjósa að leggja þá íþrótt fyrir sig. Ég hef að öðru leyti ekki meira um þetta mál að segja. Vil þó minna á að ýmsar konur hafa sett sér það að keppa ekki á hinum sérstöku kvennamótum heldur kjósa að taka þátt í skákmótum með körlum. Ég vil líka minna á, svo maður taki aðra íþrótt þó hún krefjist ekki jafnmikillar atorku og skákin, ef við tölum um bridds, sem er sambærileg íþrótt, þá hefur það nú verið svo að konur hafa komist í úrslit í heimsmeistarakeppni í bridds. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að konur geti einnig náð þeim árangri að keppa til úrslita eða verða heimsmeistarar í skák. Ég hélt að andlegir burðir kvenna væru ekki minni en karla og ef þær kysu að leggja skáklistina fyrir sig þá bentu engar líkur til þess að það ætti að setja þær á annan bekk.
    Ég vil líka í þessu samhengi aðeins benda á að ákvæðið um konu er mjög lauslegt og ég skil satt að segja ekki hvernig framkvæmd þess verður háttað.