Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 2. minni hl. sjútvn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Trúlega er ekki algengt að stjfrv., eins og það sem hér er til umræðu, fái sams konar afgreiðslu og raunin varð á um þetta frv. um stjórn fiskveiða þar sem segja má að nefndin hafi klofnað í frumeindir sínar. ( Gripið fram í: Hér um bil.) Svona hér um bil. Það eru tvímenningsfrumeindir í tveimur tilvikum. Má vera að það sé vegna þess að hv. stjórnarliðar í sjútvn. Ed. séu ekki allir dæmigerðir fulltrúar fyrir sína þingflokka. ( Gripið fram í: Ætli það sé ekki vegna þess að þeir hafa kynnt sér málið betur en þingflokkarnir sjálfir.) Ég kann ekki fullkomna skýringu á því. Þeir geta væntanlega skýrt það hér á eftir. Hins vegar er mér ekki ljóst á þessari stundu hvernig þeirra þingflokkar standa á bak við þau nál. sem þeir hafa staðið að. Þar á ég við hv. 4. þm. Vesturl. og hv. 3. þm. Vestf. sem reyndar gefur tilefni til að til hans sé beint ákveðnum spurningum um stöðu hans nú, hvort hann hefur stofnað einmenningsþingflokk hér á þinginu, eins og reyndar er búið að setja reglur um að löglegt sé og leyfilegt. ( KP: Það gætu verið fleiri.) Gætu verið fleiri, segir hv. þm. Karvel Pálmason. Það kom fram í fréttum nú á mánudag að hann hefði með bréfi tekið leiðaraskrif Alþýðublaðsins, sem er málgagn hans flokks, á þann veg að um brottrekstur úr þingflokknum væri að ræða. Hins vegar hefur komið fram í sjónvarpsfréttum að hv. 3. þm. Vesturl., formaður þingflokks Alþfl., telur sig ekki hafa staðið að brottrekstri hv. 3. þm. Vestf. Það væri því ef til vill upplýsandi hér í umræðunni á eftir að fá upplýsingar frá hv. þm. um það hver staðan er í þessum málum.
    Áður en ég mæli fyrir því nál. sem ég hef lagt fram á þskj. 1113 vil ég þakka hv. fulltrúum í sjútvn. Ed. samstarfið sem við höfum átt undanfarnar vikur að þessu máli. Við höfum reyndar eytt töluverðum tíma inn á milli til þess að ræða vinnubrögð í nefndarstarfinu þar sem allan tímann var ljóst að
það var mikill skoðanamunur og kom það reyndar fram í þeim sérálitum og bókunum sem fylgdu frv. frá nokkrum þingflokkanna.
    Þá vil ég einnig þakka þær upplýsingar sem okkur bárust, bæði frá sjútvn. og ýmsum þeim aðilum sem komu til fundar við okkur. Það stóð ekki á því að við fengjum þær upplýsingar sem beðið var um. Þær bárust jafnóðum og höfum við nú mikið og gott safn upplýsinga um ýmsa þætti sjávarútvegsins í fórum okkar sem við eigum ef til vill eftir að nota í umræðunni og vitna til.
    Virðulegur forseti. ég mæli þá fyrir nál. því sem ég hef lagt fram fyrir hönd Kvennalistans og er að finna á þskj. 1113. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Verkefni þeirrar nefndar, sem sjávarútvegsráðherra skipaði 13. júlí 1988 til að leggja drög að þessu frv., var margþætt. Skyldi hún samkvæmt skipunarbréfi m.a. ,,... athuga tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki séu bundnar við skip``. Í umræðunni, sem fram fór í nefndinni, var greinilegt að hugmyndinni

um byggðakvóta hefur stöðugt vaxið fylgi frá setningu núgildandi laga. Nefndin skilaði drögum að nýju frv. til sjútvrh. 26. jan. 1990.
    Eins og fram kemur í þeim 13 sérálitum og bókunum, sem fram koma frá einstökum nefndarmönnum og birt eru sem fskj. með frv., fer því fjarri að samkomulag hafi náðst í nefndinni um þau drög að frv. sem hún skilaði af sér og sjútvrh. lagði fram óbreytt á Alþingi 15. febr. 1990. Ljóst er af þeim athugasemdum sem fram koma að ágreiningur er um veigamikla þætti. 2. minni hl. bendir á þá staðreynd að í sérálitum og bókunum tíu aðila af 13 kemur fram stuðningur við hugmyndir um byggða- eða fiskvinnslukvóta.
    Í mörgum þeirra umsagna, sem sjútvn. Ed. bárust um frv., koma einnig fram áskoranir til Alþingis um að hyggja að byggðasjónarmiðum og koma í veg fyrir að örfáir aðilar geti höndlað með sameiginlega auðlind landsmanna í eigin þágu algjörlega án tillits til byggðar í landinu og hagsmuna þjóðarinnar í heild.
    2. minni hl. telur að með tilliti til reynslu undanfarinna ára og þeirra réttmætu athugasemda sem fram hafa komið sé óhjákvæmilegt að Alþingi geri byggðasjónarmiðum hærra undir höfði en stefnt er að við afgreiðslu málsins. Minnir 2. minni hl. í því sambandi einnig á þá stefnumarkandi yfirlýsingu sem fram kemur í 1. gr. frv. þar sem segir:
    ,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``
    2. minni hl. er sammála því að þetta séu þau markmið sem að skal stefnt að viðbættum atriðum eins og betri kjörum, aðbúnaði og öryggi þeirra sem starfa í sjávarútvegi. Kvennalistakonur telja frv. þó í mótsögn við þessi markmið þar sem enn er stefnt að því að úthluta veiðiheimildum beint til einstaklinga og útgerðarfélaga sem geta ráðskast með þær að eigin geðþótta án tillits til sameiginlegra hagsmuna þjóðarinnar.
    Þegar líða tók að afgreiðslu málsins eftir marga fundi um það í sjútvn. Ed. fór loks að koma upp á yfirborðið sá mikli ágreiningur sem er um málið í ríkisstjórninni og innan einstakra flokka sem aðild eiga að henni. Þrátt fyrir
fjölda funda í sjútvn. Ed. er vart hægt að segja að umræða hafi farið fram um grundvallaratriði, svo sem úthlutun veiðiheimilda, fyrr en allt var komið í eindaga. Þá fyrst hófst hin raunverulega umræða um málið, þó ekki í nefndinni, heldur fyrst og fremst meðal formanna stjórnarflokkanna sem gerðu með sér samkomulag um afgreiðslu málsins. Í kjölfar þess samkomulags voru nefndarmönnum kynntar brtt. ríkisstjórnarinnar við frv. þetta og frv. til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Þessar tillögur virðast aðallega miða að því að leita úrræða til að sætta sjónarmið innan ríkisstjórnarinnar í bili.
    Þótt í brtt. ríkisstjórnarinnar við þessi tvö frv. örli á viðurkenningu á réttmæti byggðasjónarmiða eru þær þó langt frá því að geta talist raunveruleg lausn og

enn er mikill ágreiningur um málið innan ríkisstjórnarflokkanna.
    Samkvæmt brtt. ríkisstjórnarinnar er enn ætlunin að úthluta meginhluta kvótans beint til einstaklinga og útgerðarfélaga í algjörri mótsögn við þá yfirlýsingu 1. gr. frv. að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og enn er lögð ofuráhersla á yfirráð sjútvrn. og sjútvrh. á öllum stigum við stjórnun fiskveiða.
    Brtt. kvennalistakvenna við afgreiðslu núgildandi laga um stjórn fiskveiða fyrir rúmlega tveimur árum eru enn í fullu gildi og eru grundvöllur þeirra brtt. sem þær flytja nú. Þá eins og nú töldu kvennalistakonur fyrst og fremst nauðsynlegt að rjúfa óeðlilegt samband milli skips og veiðiheimilda og vildu úthluta veiðiheimildum til byggðarlaga. Með því móti væru hagsmunir þeirra og þess fólks, sem starfar í sjávarútvegi, best tryggðir, auk þess sem slík tilhögun drægi úr óhóflegri miðstýringu. Reynslan hefur sannað réttmæti þessara sjónarmiða og flestir annmarkar núgildandi tilhögunar, sem þá var bent á, eru nú komnir fram. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir vaxandi skilning og stuðning við áðurnefndar hugmyndir sem fram hefur komið meðal fulltrúa í nefndinni, sem vann að undirbúningi frv., í umsögnum um frv. og í umræðunni í þjóðfélaginu er lítið sem ekkert komið til móts við þær í frv.
    Þingkonur Kvennalistans flytja því brtt. við frv. í anda þeirrar stefnu að fiskimiðin séu í raun sameign þjóðarinnar og fela enn sem fyrr í sér eftirtalin meginatriði:
    1. Sjútvrh. verði ekki heimilt að víkja meira en 2% frá tillögum Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla á ári hverju.
    2. 80% heildaraflans verði úthlutað til sveitarfélaga með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára og reiknuðu meðaltali aflakvóta skipa skrásettra í sveitarfélaginu á sama tímabili.
    3. 20% heildaraflans renni í sérstakan sameiginlegan sjóð, veiðileyfasjóð, og verði til sölu, leigu eða sérstakrar ráðstöfunar til sveitarfélaga. Tekjum af sölu eða leigu veiðiheimilda verði varið til fræðslu sem nýtist sjávarútvegi, fyrirbyggjandi aðgerða vegna atvinnusjúkdóma fiskvinnslufólks, rannsókna tengdum sjávarútvegi og verðlauna til handhafa veiðiheimilda fyrir lofsverðan aðbúnað starfsfólks eða sérstaka frammistöðu við nýtingu og meðferð aflans.
    4. Eftirlit með nýtingu fiskstofna verði fært frá hagnýtingarráðuneyti atvinnugreinarinnar til umhverfisráðuneytis.
    2. minni hl. lítur svo á að brtt. ríkisstjórnarinnar séu örlítil viðurkenning á nauðsyn þess að taka á þeim grundvallarágreiningi sem ríkir um málið. Í ljósi þess telur 2. minni hl. óviðunandi að ekki gafst nauðsynlegt svigrúm til að útfæra þær nánar og gefa gaum öðrum þeim hugmyndum sem fram hafa komið og kynna þær betur bæði fyrir hagsmunaaðilum og úti í þjóðfélaginu.
    2. minni hl. telur að vegna þeirrar viðurkenningar á veigamiklum grundvallaratriðum málsins, sem fram

kemur í brtt. ríkisstjórnarinnar, sé ærin ástæða til að vísa málinu aftur til þeirrar nefndar sem vann að frv., þó aðeins með því skilyrði að litið verði á allar þær hugmyndir og tillögur sem fram hafa komið og þær útfærðar nánar og mat lagt á þær.`` --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Það var vegna óska þingmanna um að fá að hlusta á umræðuna, skildist mér, sem var gert hlé þannig að ég óska eftir því að a.m.k. fulltrúar í sjútvn. yrðu hér viðstaddir og hæstv. sjútvrh. að sjálfsögðu.
    Virðulegur forseti. Ég held þá áfram lestri nál. míns og hef lesturinn þar sem frá var horfið. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,2. minni hl. vill taka fram að þrátt fyrir það að kvennalistakonur hafni frv. í heild sinni telja þær ýmis atriði þess til bóta miðað við núverandi fyrirkomulag. Má sem dæmi nefna brtt. ríkisstjórnarinnar við 1. gr. frv. um að úthlutun veiðiheimilda myndi hvorki eignarrétt né óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum, breytt mörk fiskveiðiárs og afnám sóknarmarks sem var ein af þeim brtt. sem Kvennalistinn lagði fram við núgildandi lög. Þá telja kvennalistakonur ákvæði frv. um vigtun sjávarafla spor í rétta átt, en hefðu viljað ganga lengra og gera skylt að vigta allan afla innan lands.
    Markmiðið með brtt. Kvennalistans er fyrst og fremst að rjúfa það óeðlilega samband sem nú er milli skips og veiðiheimilda, að taka tillit til byggðasjónarmiða, að draga úr ofstjórn og miðstýringu, að efla rannsóknir, að hvetja til betri nýtingar og bættrar meðferðar sjávaraflans og búa betur að
fólki í sjávarútvegi. Í fskj. með nál. þessu er frv. birt í heild sinni að teknu tilliti til brtt. Kvennalistans.
    Verði brtt. Kvennalistans samþykktar mun 2. minni hl. styðja frv. en greiða atkvæði gegn því ella.
    Alþingi, 30. apríl 1990. Danfríður Skarphéðinsdóttir.``
    Það er ljóst af því sem þegar hefur komið fram hér í umræðunni að við erum með viðamikið frv. sem tekur til þátta sem snerta daglegt líf og afkomu allra Íslendinga og því ef til vill ekki að undra að uppi séu mörg sjónarmið og ágreiningur um ýmis atriði. En það sem auðvitað er verst og málinu alls ekki til framdráttar er sá grundvallarágreiningur, sem ríkir greinilega, um hvaða háttur skuli hafður á úthlutun veiðiheimilda. Ég lít svo á að auðlindirnar í hafinu umhverfis landið séu sameign íslensku þjóðarinnar. Því er ljóst að taka verður tillit til hinna fjölmörgu sjónarmiða sem upp koma þegar ákvörðun er tekin um svo veigamikið mál sem skipulag og stjórn á nýtingu þessara dýrmætu auðlinda er. Framar öllu verður að líta til framtíðar, að hugsa til komandi kynslóðar með því að taka aðeins vextina af auðlindinni en láta höfuðstólinn ósnertan. Lífríki hafsins er tvímælalaust dýrmætasta auðlindin sem við Íslendingar höfum aðgang að. Hún er eign allrar þjóðarinnar og við verðum að umgangast hana þannig að ekki sé hætta á ofnýtingu.
    Sú fiskveiðistjórn sem verið hefur við lýði

undanfarin ár hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Heildarþorskafli hefur á ári hverju farið langt fram úr því hámarki sem fiskifræðingar hafa lagt til. Fiskiskipum hefur fjölgað og ný skip eru í flestum tilvikum stærri en þau sem úrelt eru. Er afkastageta fiskiskipastofnsins þannig orðin mun meiri en fiskstofnarnir þola. Sjávarafli er langt frá því að vera fullnýttur innan lands og miklu af nýtilegu hráefni er kastað á glæ í orðsins fyllstu merkingu.
    Kjör starfsfólks í sjávarútvegi eru óviðunandi og lítið sem ekkert tillit er tekið til hagsmuna fiskvinnslufólks og byggðarlaga um mótun fiskveiðistefnunnar. Þeir sem fiskinn vinna í landi virðast ævinlega gleymast, en þó hlýtur öllum að vera ljóst að ráðstöfun aflans getur aldrei talist mál útgerðarmanna og sjómanna eingöngu. Þar verður að taka tillit til fiskvinnslufólksins.
    Úthlutun veiðiheimilda hefur mjög borið á góma í þeirri umræðu sem fram hefur farið að undanförnu og það er greinilega alls ekki vilji þjóðarinnar að aflanum sé úthlutað til örfárra aðila. Með því fyrirkomulagi sem nú er í gildi og fyrirhugað að festa í sessi er einstaklingum og útgerðarfélögum úthlutað veiðiheimildum sem þeir geta ráðskast með að vild. Með því að selja skip og þar með kvóta líta þessir aðilar svo á að þeir eigi fiskinn í sjónum. Hið svimandi háa verð fiskiskipa stafar ekki einungis af því að ekki er leyfilegt að fjölga í flotanum eins og oft hefur verið haldið fram. Þar hefur kvótinn einnig mikið að segja, enda algengt að sjá eða heyra auglýsingar um að tiltekið magn af kvóta sé til leigu eða sölu á ákveðnu verði. Þetta þýðir auðvitað ekki annað en það að kvóti gengur kaupum og sölum á ákveðnu markaðsverði og þess finnast jafnvel dæmi að hann sé bókfærður í bókhaldi fyrirtækja sem eign.
    Það er alkunna að þeir sem þannig hafa fengið kvóta úthlutað, eins og gert hefur verið undanfarin ár, hafa getað hagnast um tugi milljóna eða jafnvel hundruð með því að selja skip sín og í mörgum tilvikum horfa íbúar byggðarlaga á eftir einu atvinnu sinni án þess að fá rönd við reist.
    Í ljósi þeirra galla sem hér hefur verið bent á er óhjákvæmilegt að leita nýrra leiða sem samrýmast betur þeim markmiðum sem stefna ber að með stjórn fiskveiða. Sala á skipum og þar með veiðiheimildum hefur þegar valdið mikilli byggðaröskun og dregið mátt úr mörgum byggðarlögum og með öllu ófært að það skuli geta verið ákvörðun einstakra manna hvort heilu byggðarlögin missa e.t.v. sitt eina atvinnutækifæri. Nauðsynlegt er að móta fiskveiðistefnu sem tekur mið af hagsmunum allra landsmanna en ekki eingöngu hagsmunum fárra útvaldra. Við verðum að finna leið til þess að stefna að sanngjarnri dreifingu atvinnu og arðs, sanngjarnari leið til dreifingar atvinnu og arðs en hingað til hefur verið reyndin.
    Við umfjöllun um núgildandi lög á Alþingi fyrir rúmlega tveimur árum lögðu þingkonur Kvennalistans fram viðamiklar brtt. Í hnotskurn var efni þeirra tillagna eins og nú verður frá greint:

    Að gera byggðarsjónarmiðum hærra undir höfði með því að úthluta veiðiheimildum til sveitarfélaga í því skyni að tryggja atvinnu og koma í veg fyrir að einstaklingar geti verslað með sameiginlega auðlind okkar án tillits til heildarhagsmuna.
    Að draga úr miðstýringu og ofstjórn.
    Að bæta stöðu starfsfólks í sjávarútvegi.
    Að stuðla að bættri meðferð og betri nýtingu sjávarafla.
    Að auka rannsóknir í sjávarútvegi.
    Þær staðreyndir sem við blasa í atvinnulífi margra byggðarlaga og rekja má til fiskveiðistefnunnar, svo og sú umræða sem fram hefur farið í þjóðfélaginu
að undanförnu um sjávarútvegsmál, hafa sýnt fram á gildi þeirra hugmynda sem kvennalistakonur kynntu við umfjöllun núgildandi laga og hér hefur verið lýst.
    Kjarnann í mörgum þeirra umsagna sem sjútvn. Ed. bárust um málið er að finna í bókun sem samþykkt var á hreppsnefndarfundi í Presthólahreppi 23. apríl 1990 en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Við skorum á þingmenn að taka fullt tillit til byggðasjónarmiða við gerð nýrra laga um stjórn fiskveiða.``
    Við kvennalistakonur viðurkennum nauðsyn mannlegrar stjórnunar á nýtingu fiskimiðanna með hliðsjón af þeim rannsóknum sem vísindamenn gera og þeim ráðleggingum sem þeir gefa stjórnmálamönnum þegar meta skal hversu mikið má nýta hverju sinni. Það er líka ljóst að með öruggari tækni verða niðurstöður vísindamanna æ traustari og nákvæmari og því erfitt að sniðganga þær tillögur sem sérfræðingar gera hverju sinni.
    Hins vegar er ljóst að með úthlutun veiðiheimilda eins og verið hefur á undanförnum árum fer fram einhver mesta tekjustýring og verðmætaúthlutun í þjóðfélaginu sem stjórnvöld hafa í hendi sér í því kerfi sem gilt hefur og verið er að festa enn frekar í sessi og að þessu sinni ótímabundið. Þann mikla ágreining sem ríkir um málið má rekja einmitt til þessarar staðreyndar, þ.e. þessara gífurlega valda sem stjórnvöld hafa til þess að dreifa bæði tekjum og verðmætum um landið. En eins og ég hef komið að áður í máli mínu virðist mér grundvallarágreiningurinn fyrst og fremst ríkja um úthlutun veiðiheimildanna og þau órjúfanlegu tengsl þeirra miklu verðmæta sem í þeim felast við fiskiskipin eins og málið er sett fram núna, þ.e. þar sem gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi, að veiðiheimild fylgi skipi, og það vekur athygli að það virðist í raun ekki hafa verið fjallað mikið um þetta atriði í ráðgjafarnefndinni sem vann að undirbúningi frv. þó að vissulega bæri þar á góma þessar hugmyndir um byggðakvóta en þær fengu einhvern veginn litlar undirtektir af hálfu kerfisins ef svo má segja. Hins vegar hljóta allir að sjá í hversu mikilli hrópandi mótsögn núverandi úthlutun er við þau lög sem nú eru í gildi og kveða á um að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar.
    Við kvennalistakonur höfum allt frá því að við kynntum tillögur okkar um byggðakvótann fundið fyrir miklum áhuga fyrir þeim og stuðningi vítt og breitt

um þjóðfélagið. Hins vegar er því ekki að neita að okkur finnst ríkja um þær nokkur þögn þegar kemur að kerfinu sjálfu. Það er svo sem kannski ekki undarlegt eftir að maður hefur orðið vitni að því, hvað eftir annað reyndar, hvernig kerfið, ef ég má nota þetta orð, sem mér þykir nú reyndar ekki mjög jákvætt eða gott orð til þess að nota, það kerfi sem við höfum byggt yfir okkur, engist í viðleitni sinni til þess að viðhalda sjálfu sér og ég held að það sé mikið umhugsunarefni fyrir okkur á öllum sviðum í okkar stjórnsýslu og í þeim stofnunum sem við höfum byggt yfir okkur hér í þessu landi.
    Varðandi frv. sem við hér ræðum má segja að ekki hafi verið léð máls á að ræða að gagni neinar hugmyndir eða hugsanlegar breytingar fyrr en allt var komið í óefni, bæði vegna fyrirsjáanlegs tímaskorts, vegna þeirra áætlana sem gerðar voru í upphafi þings um þinghald hér fram á vorið og svo auðvitað fyrir þrýsting frá ýmsum þingmönnum stjórnarliðsins. Það var nokkuð fróðlegt en ég verð að segja síður en svo uppörvandi að horfa upp á það hvernig tekið var á málum á formannafundum þar sem formenn ríkisstjórnarflokkanna gerðu með sér samkomulag um nokkrar brtt. og þar með afgreiðslu málsins. Svo virtist sem jafnvel ekki allir svokallaðir stjórnarliðar væru þar í miklum eða beinum tengslum við þær ákvarðanir sem teknar voru. Og ég verð að segja að því fór nú eiginlega fjarri að umræða um nýjar hugmyndir, sem svo sannarlega hefði verið tilefni til, færi fram inni í sjávarútvegsnefndinni og ekki virðist heldur hafa farið mikið fyrir hugmyndafræðilegri umræðu innan stóru nefndarinnar sem vann að frv. en hugmyndir koma þar helst fram í þeim fjölda bókana og séráliti sem fylgja frv. En í stóru nefndinni virðist megináhersla hafa verið lögð á tillögur ráðuneytisins og að ná samkomulagi við svokallaða hagsmunaaðila um þær.
    Sjútvn. Ed. og reyndar sjávarútvegsnefndir beggja deilda eyddu síðan drjúgum hluta starfstíma síns í að leita upplýsinga og álits hjá þessum sömu aðilum. Sem sagt, það var í raun og veru stöðugt verið að hræra sama grautinn í sömu skálinni þó í sitt hvoru eldhúsinu væri þangað til formenn ríkisstjórnarinnar komu með örlítið salt og stráðu út í pottinn. (Gripið fram í.) Ég vonaði reyndar sjálf í lengstu lög að einhver glufa myndaðist til þess að ræða þær hugmyndir sem hafa verið í umræðunni en ákvað síðan að kynna tillögur okkar á fundi í sjútvn. nokkru áður en ljóst var að við færum að afgreiða málið frá nefndinni. Það voru svo sem ekki nein stórkostleg viðbrögð við þeim eða umræður og ekki lögð nein áhersla á að athuga efni þeirra eða útfærslu á einn eða annan hátt, ekki af hálfu nefndarinnar, og ég verð eiginlega að segja það að þetta er dálítið undarleg tilfinning fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að standa frammi fyrir slíkum staðreyndum.
    Við teljum okkur skylt að ræða á málefnalegan hátt allar tillögur og öll frv. og hugmyndir sem komu frá ríkisstjórninni og verjum reyndar miklum tíma
og kröftum í þá vinnu, og kannski allt of miklum í

mörgum tilvikum, en á móti skynjum við lítið annað en tómlæti og áhugaleysi gagnvart þeim hugmyndum og tillögum sem við höfum fram að færa. Allt er fyrir fram ákveðið og í skjóli meirihlutavalds halda menn sínu striki og láta sig hugmyndir og tillögur annarra engu varða.
    Þegar svo er komið að menn eru ekki einu sinni reiðubúnir til að hlusta á tillögur og hugmyndir þeirra sem þeir eiga að heita að vera að vinna með að sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar, þá hlýtur auðvitað sú spurning að vakna hvort þeir hlusti þá yfirleitt á það fólk sem þeir eru kjörnir fulltrúar fyrir. Og lokaspurningin verður þá auðvitað líka sú hvort þeir séu þá í raun fulltrúar fyrir þetta ríkjandi kerfi sem stöðugt er verið að reyna að viðhalda eða fólkið sem byggir þetta land.
    Eins og ég gat um áðan hafa brtt. Kvennalistans þegar verið kynntar efnislega og þær hafa verið hér á þingskjali síðan á mánudaginn en ég ætla að fara um þær nokkrum orðum eins og þær liggja nú fyrir á þskj. 1114.
    Við 1. gr. höfðum við reyndar áður en þessi tillaga kom fram frá ríkisstjórninni í okkar hópi sett inn það ákvæði sem nú er komið fram af ríkisstjórnarinnar hálfu um að úthlutun veiðiheimlda skuli ekki mynda eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum þannig að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þann málslið. En eins og fram kemur í nál. teljum við þessa breytingu til bóta því að hún undirstrikar á vissan hátt þann skilning að fiskimiðin séu sameign, en spurningin sem eftir stendur hlýtur auðvitað að vera sú á hvaða forsendum sé samt mögulegt að úthluta veiðiheimildum til einstaklinga og útgerðarfélaga án þess að eigandinn, lögum samkvæmt, þ.e. þjóðin, hafi nokkuð um málið að segja. Og það er nú reyndar oft svo í mörgum málum sem við erum að vinna að að við erum alltaf að fjalla um atriði við fulltrúa stofnana. Það er mjög erfitt, virðist vera, að fá einmitt skoðanir fólksins og í því sambandi má auðvitað minna á tillögu sem Kvennalistinn hefur flutt um að rýmka ákvæði um kosningar í sveitarfélögum um ákveðin málefni og einnig um þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Önnur tillagan sem er hér á þskj. 1114 snertir 3. gr. frv. og felst einungis í því að undirstrika nauðsyn þess að samráð sé haft við Hafrannsóknastofnun ef ráðherra ákveður að auka eða minnka aflann og einnig það að við úthlutun á heildarafla fyrir hvert ár sé honum ekki heimilt að víkja meira en 2% frá þeim tillögum sem Hafrannsóknastofnun gerir en rökin fyrir þessari tillögu eru að sjálfsögðu fyrst og fremst verndunarsjónarmið.
    Í anda þeirrar stefnu okkar að rjúfa skuli samband milli veiðiheimilda og skips eru gerðar nauðsynlegar breytingar á 4. gr. en brtt. gerir ráð fyrir að 4. gr. verði svohljóðandi:
    ,,Að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun getur ráðherra ákveðið með reglugerð:
    a. að veiðar á ákveðnum tegundum nytjastofna, veiðar í tiltekin veiðarfæri, veiðar ákveðinna gerða

skipa eða veiðar á ákveðnum svæðum skuli háðar sérstöku leyfi ráðherra,
    b. að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta með í aflamarki.``
    Kvennalistakonur viðurkenna og hafa lýst því að þær telja að ákveðin miðstýring sé nauðsynleg í ljósi þeirra heildarhagsmuna sem um er að tefla og því nauðsynlegt að fela ráðherra að setja reglugerð um þau atriði sem hér hafa verið nefnd.
    Þá má segja að ég sé komin að kjarnanum í okkar tillögum sem gera ráð fyrir að á eftir 4. gr. komi fimm nýjar greinar og ég ætla að lesa þær hér, með leyfi forseta.
    5. gr. verði sem hér segir:
    ,,Heimildir til botnfiskveiða skulu vera tvenns konar:
    a. 80% þess heildarafla, sem ákveðinn er skv. 3. gr., skal skipt milli sveitarfélaga (útgerðarstaða) með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára og reiknuðu meðaltali aflakvóta skipa skrásettra í sveitarfélaginu á sama tímabili.
    b. 20% heildaraflans skulu renna í sérstakan sameiginlegan sjóð, veiðileyfasjóð, og vera til sölu, leigu eða til sérstakrar ráðstöfunar til sveitarfélaga, sbr. 8. gr.``
    Og 6. gr. verði sem hér segir:
    ,,Sveitarstjórnir skulu selja, leigja eða ráðstafa veiðiheimildum, sem þeim er úthlutað skv. a-lið 5. gr., til útgerða, fiskvinnslustöðva eða einstaklinga eftir þeim reglum sem þær setja sér.
    Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða gjald fyrir framsal veiðileyfa, sem þær fá skv. b-lið 5. gr., og skal gjaldið eigi vera lægra en það sem þær greiða fyrir þau í veiðileyfasjóð.``
    Og þá er það 7. gr. þar sem segir:
    ,,Sveitarstjórnum er heimilt:
    a. að úthluta tilteknu aflamarki til útgerða, fiskvinnslustöðva eða einstaklinga,
    b. að setja skilyrði um að afli, sem flytja á óunninn úr landi, verði veginn í íslenskri höfn,
    c. að ákveða að afli á ákveðnum fisktegundum, sem fluttur er óunninn á erlendan markað, skuli reiknaður með álagi, allt að 20% á þorsk og ýsu, en allt að 15% á aðrar tegundir, þegar metið er hversu miklu af aflamarki er náð hverju sinni,
    d. að leyfa færslu veiðiheimilda, allt að 5%, milli ára,
    e. að setja reglur um veiði smábáta,
    f. að setja reglur um tómstundaveiðar,
    g. að telja fisk, sem veiðist á línu í janúar, febrúar, nóvember og desember aðeins að hálfu með í aflamarki fiskiskips,
    h. að framleigja veiðiheimildir til annarra sveitarfélaga, enda verði aflanum að einhverju leyti landað í því sveitarfélagi, sem framleigir veiðiheimild, ef viðkomandi sveitarstjórn óskar; tekjum af leigunni verði varið í þágu sjávarútvegsins.``
    Eins og hv. þm. sjá og heyra gera tillögur okkar ráð fyrir nær algjöru framsali úthlutunarvalds til byggðarlaga þó segja megi að leiðarvísir fylgi

pakkanum, þ.e. að sveitarstjórnir geti sett reglur um ýmis atriði eins og fram kemur í liðum a til h.
    Með þessari tillögu okkar, með því að flytja ákvörðunarréttinn um úthlutun veiðiheimilda til fólksins, erum við trúar hugmyndum Kvennalistans um valddreifingu sem við viljum reyndar færa út á öll svið þjóðfélagsins. Það er hin raunverulega valddreifing að gefa íbúum í hinum ýmsu byggðarlögum tækifæri til að taka sínar eigin ákvarðanir og taka ábyrgð á þeim. Með því að taka slíkar ákvarðanir í heimabyggð er hægt að taka tillit til aðstæðna og útgerðarhátta á hverjum stað. Hér er líka óhikað talað um að selja, leigja eða ráðstafa veiðiheimildum en það er rétt að fram komi að ekki er ætlun okkar að byggðarlögin verði fyrir fjárútlátum vegna þessa heldur komi þau í besta falli út á sléttu eða geti hagnast á sölu eða leigu veiðiheimilda. Ef um tekjur yrði að ræða í einhverjum mæli leggjum við til að þeim verði varið í þágu sjávarútvegsins, bættrar aðstöðu í höfnum og betri þjónustu við útvegsgreinarnar svo dæmi séu nefnd.
    Það er einnig rétt að vekja athygli á möguleikum til þess að skilyrða úthlutun veiðiheimilda með löndun í viðkomandi byggðarlagi en svo geta
aðstæður líka verið á þann veg að þess þurfi ekki eða sé ekki óskað og þá er auðvitað jafnfrjálst að hafa það óbundið.
    Með þessu fyrirkomulagi er þetta allt frjálslegra og sveigjanlegra og það er auðveldara að aðlaga kerfið aðstæðum á hverjum stað án þess að hagsmunir heildarinnar séu fyrir borð bornir.
    Þá er komið að 8. gr., en efni þeirrar greinar er mjög mikilvægur þáttur í tillögum okkar. Það er að okkar mati undarlegt og í raun alveg ótækt að íslenska þjóðin sem lifir á fiski skuli að svo takmörkuðu leyti hafa sinnt rannsóknum og fræðslu í sjávarútvegi sem raun ber vitni og miðað við þau verðmæti sem um er að ræða. Það má fullyrða að þetta hirðuleysi hafi áreiðanlega orðið okkur til tjóns og haft sín áhrif á það að störf í sjávarútvegi njóta ekki þeirrar virðingar sem þeim ber. Þetta verður að lagfæra með því m.a. að efla menntun og fræðslustarfsemi í þessum greinum, en 8. gr. kveður á um hvernig ráðstafa skuli gjaldi fyrir veiðiheimildir, þ.e. tekjum af þessu gjaldi. Ég ætla að lesa hana hér, með leyfi forseta, en þar segir:
    ,,Gjald fyrir veiðiheimildir frá veiðileyfasjóði, sbr. b-lið 5. gr. skal miðast við ákveðið meðalverð á afla upp úr sjó.
    Tekjum af sölu eða leigu veiðiheimilda skal varið til eftirtalinna verkefna:
    a. fræðslu sem nýtist sjávarútvegi, fiskvinnsluskóla, símenntunar fiskvinnslufólks og fyrirbyggjandi aðgerða vegna atvinnusjúkdóma fiskvinnslufólks, sjómannaskóla og öryggisfræðslu sjómanna,
    b. rannsókna tengdum sjávarútvegi, grunnrannsókna á lífríki sjávar, rannsókna á ónýttum og vannýttum tegundum, vöruþróunar í sjávarútvegi, markaðsöflunar og markaðshönnunar fyrir sjávarafurðir,
    c. verðlauna til þeirra sem veiðiheimildir hafa fyrir

sérstaka frammistöðu við nýtingu og meðferð aflans eða fyrir lofsverðan aðbúnað starfsfólks.``
    Ég vil vekja sérstaka athygli á því hversu mikilvægt það er að búa vel að því fólki sem vinnur í fiskvinnslunni. Vil ég undirstrika sérstaklega nauðsyn þess að hefja átak í fyrirbyggjandi aðgerðum vegna atvinnusjúkdóma fiskvinnslufólks og minni á svartar skýrslur sem sýna fram á ýmsa atvinnusjúkdóma og óhóflegt vinnuslit þeirra sem vinna í fiskvinnslunni eins og aðstæður eru núna.
    Það þarf auðvitað ekki að hafa mörg orð um það hversu miklu máli skiptir að umhverfi á vinnustað sé gott og hvaða áhrif það hefur á andrúmsloftið og einnig vinnubrögðin að vinnustaðir séu vel búnir og vinnuskilyrði góð. Það skilar sér að sjálfsögðu í betri vinnubrögðum.
    Í 9. gr. er aðeins verið að samræma það sem stendur í frv. ríkisstjórnarinnar og sömuleiðis tekið upp ákvæði vegna skipa sem farast en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sveitarfélagi er skylt að tilkynna sjútvrn. um framleigu veiðiheimilda til annarra sveitarfélaga. Sé um slíka framleigu að ræða í þrjú ár samfleytt skerðist aflamark sveitarfélagsins sem því nemur við næstu úthlutun.
    Farist skip skal útgerð þess halda aflamarki skipsins í 12 mánuði talið frá upphafi næsta mánaðar eftir að skip fórst enda þótt nýtt eða nýkeypt skip hafi ekki komið í þess stað innan þess tíma.``
    Með tilliti til þeirra breytinga sem við leggjum til er eðlilegt að 5. og 6. gr. falli niður og sömuleiðis tvær síðari mgr. 7. gr. þannig að breytt hljóðar 7. gr. svo, en hún verður reyndar 10. gr. samkvæmt okkar tillögum, með leyfi forseta:
    ,,Veiðar á þeim tegundum sjávardýra sem ekki sæta takmörkun á leyfilegum heildarafla samkvæmt 3. gr. eru frjálsar öllum sem leyfi fá til veiða samkvæmt 6. gr. með þeim takmörkunum sem leiðir af almennum reglum um veiðisvæði, veiðarfæri, veiðitíma og reglum settum samkvæmt 4. gr.``
    Næsta brtt. er við 8. gr. sem verður 11. gr. Með hliðsjón af úthlutun veiðiheimilda til sveitarfélaga en ekki skipa er þessi breyting gerð og enn er hnykkt á að samráð skuli haft við Hafrannsóknastofnun við ákvörðun um aflahlutdeild einstakra sveitarfélaga.
    Og það sama má segja um 9. gr., sem verður 12. gr., að þar er lagt til að í stað ,,fiskiskipa`` komi sveitarfélaga bæði í a- og b-lið og það eru tæknileg atriði sem fylgja í kjölfarið og lagt er til til þess að samræma þetta okkar tillögum að þá falli niður 10., 11., 12. og 13. gr. frv.
    Við 14. gr. þar sem fjallað er um sérstaka samráðsnefnd til þess að fara með eftirlit með framkvæmd laganna leggjum við til að á eftir orðunum ,,einum tilnefndum af samtökum útvegsmanna`` komi auk þess fulltrúi tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga og einn tilnefndur af Verkamannasambandi Íslands.
    En í samræmi við þessa valddreifingu til byggðarlaga er auðvitað rétt að ætla Sambandi ísl.

sveitarfélaga aðild að þessari samráðsnefnd þar sem verkefni hennar er m.a. að fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi veiðileyfi og það er auðvitað jafnsjálfsagt að Verkamannasamband Íslands eigi þar fulltrúa.
    Ég bendi á að þó tillögur okkar sem á undan þessari komu yrðu ekki samþykktar sé ég ekkert því til fyrirstöðu að þessi grein geti staðið eftir sem áður því að það er reyndar örlítið aukin áhersla á sveitarfélög alla vega inni í þeim brtt. sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og það er auðvitað sjálfsagt að reyna að tryggja rétt fiskvinnslufólksins með því að það eigi líka sinn fulltrúa til þess að fjalla um þessi mál.
    Á 15. og 16. gr. er aðeins um tæknilegar breytingar að ræða til samræmis við tillögur okkar.
    Við 17. gr. frv. gerum við þá brtt. að eftirlitið með nýtingu auðlindarinnar verði fært frá hagnýtingarráðuneyti atvinnugreinarinnar til umhvrn. Er það í samræmi við stefnu okkar um verkefni umhvrn. sem sett var fram í þáltill. á síðasta þingi þar sem við lögðum fram okkar tillögu um það hvaða skipulag við vildum sjá á umhvrn. og hver verkefni þess skyldu verða. En það hlýtur að vera eitt af meginverkefnum umhvrn. verði það einhvern tímann burðugt að fylgjast með nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna. Alveg á sama hátt og eðlilegt er að flytja Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins til umhvrn. hlýtur það að vera framtíðarstefna að Hafrannsóknastofnun fari þangað líka og var það reyndar samdóma álit margra þeirra umsagnaraðila sem komu til allshn. við umfjöllun um umhvrn. fyrr í vetur.
    Í samræmi við þessa breytingu er gerð tillaga um að umhvrh. og sjútvrh. ákveði í sameiningu með reglugerð gjald fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli laganna. Og með hliðsjón af okkar tillögum er eðlilegt að þriðja málsgrein greinarinnar falli brott.
    20. gr. er tæknilegs eðlis. Miðað við okkar tillögur er sjálfgefið að ákvæði til bráðabirgða eitt og tvö falli niður en þriðja bráðabirgðaákvæðið verði númer eitt og kveði á um úthlutun heildarafla til sveitarfélaga en ekki skipa. Það sama gildir um breytingu á fjórða ákvæði til bráðabirgða sem samkvæmt okkar tillögum verður þá bráðabirgðaákvæði tvö, en síðustu tvö bráðabirgðaákvæðin falla niður af augljósum ástæðum.
    Virðulegur forseti. Ég hef lýst í meginatriðum brtt. sem við leggjum fram hér við 2. umr. málsins og ég undirstrika það og ítreka að ég tel að þær eigi enn fullan rétt á sér. Þær komu fram fyrir tveimur og hálfu ári fyrst. Þær eru enn í fullu gildi og þess vegna leggjum við þær að sjálfsögðu óhikað hér fram og væntum þess að þingmenn kynni sér þær gaumgæfilega og skoði áður en til atkvæðagreiðslu kemur.
    Ég vil síðan aðeins víkja nokkrum orðum að einu atriði sem fram kom í nál. mínu þar sem segir að miðað við stöðu málsins nú teldi ég eðlilegt að málinu yrði frestað. Það er ljóst að nú á síðustu dögum hefur myndast einhver örlítil

opnun fyrir því að meðtaka nýjar hugmyndir og gefa svigrúm og tækifæri til þess að ræða þær betur en hingað til hefur verið gert. Það er auðvitað háð því skilyrði og það hlýtur, ef tillaga um það sem hér liggur frammi verður samþykkt og ég hef lýst yfir að ég gæti stutt, auðvitað að verða verkefni nefndarinnar fram að þeim tíma sem henni er gefinn til þess að skila áliti að taka fyrir á ný, vegna þeirrar stöðu sem nú er upp komin, allar þær hugmyndir og tillögur sem fram hafa komið og að í alvöru verði gerð tilraun til þess að leggja mat á þær og útfæra.
    Ég ætla líka að gera ráð fyrir að þessi opnun sem hefur orðið hafi auðvitað komið fyrir þrýsting úr ýmsum áttum og væntanlega ekki síst fyrir þær ákveðnu tillögur sem við höfum borið hér fram. Við gerðum okkur grein fyrir því síðast þegar fjallað var um málið að e.t.v. væru ekki miklar líkur á að fá þær samþykktar en ég tel að nú hafi skapast grundvöllur til þess að ræða þær og reyna að leggja mat á og útfæra eins og ég hef vikið að hér áður. En með atburðum síðustu daga hefur greinilega komið fram örlítil viðurkenning á þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið og þá sérstaklega tengt byggðasjónarmiðum og að ekki sé sú ráðstöfun algjörlega ófrávíkjanleg að tengja saman skip og veiðiheimildir og úthluta þeim síðan endurgjaldslaust til eigenda veiðiskipanna.
    Ég ætla aðeins að benda á að auðvitað er mikill ágreiningur enn þá. Það er hér bráðabirgðaákvæði með lögunum um að fram fari hagkvæmnismat og samanburður við önnur lönd. Ég tel það mjög jákvætt. Það hefði auðvitað átt að vera búið að gera þetta miklu fyrr. Þetta var ekki inni í frv. upphaflega. Mér sýnist að greinin eins og hún var lögð fram, eða bráðabirgðaákvæðið, hefði verið ágætis efni í þáltill. fyrir þann sem átti hugmyndina, en þetta er nú komið hér inn með frv. Það hefði mátt vera búið að því fyrr, ég held að allir geti verið mér sammála um það.
    Síðan er hér endurskoðunarákvæði enn einu sinni. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að endurmeta og skoða lög sem við erum að setja með tilliti til reynslunnar, en þetta sýnir auðvitað að það eru mjög margir óvissuþættir. Það á að fara að setja ótímabundin lög en samt með svona skömmum fresti til þess að endurskoða. Það sýnir auðvitað að það er margt óöruggt og óljóst og það viðurkennir ríkisstjórnin með því að setja þetta ákvæði inn.
    Ég vil aðeins víkja að því áliti Lagastofnunar sem okkur fulltrúum í sjútvn. Ed. barst í hendur í gærkvöldi. Eins og fram kom í máli hv. formanns sjútvn. var eftir því leitað að beiðni níu þingmanna í bréfi sem skrifað var til formanna nefndanna 4. apríl sl. en það var reyndar ítrekun á annarri beiðni sem lögð var fram nokkrum dögum fyrr af einum hv. þm. í Nd. Ég verð nú að segja það að það sem er grundvallaratriði í okkar brtt. tengist mjög náið síðustu spurningunni sem varpað var til Lagastofnunar og mér sýnist á öllu að það álit sem við fengum veki í raun upp fleiri spurningar en það svarar því það er ekki tekið algjörlega af skarið, í hvoruga áttina, hvort um

eign sé að ræða eða ekki. Ég ætla að fá að vitna aðeins í þetta plagg, með leyfi forseta. Á bls. 16 segir:
    ,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru langmikilvægasta auðlind þjóðarinnar og forsenda þess að hún geti lifað eðlilegu lífi í landinu, enda kostar mikla baráttu að ná yfirráðum yfir henni. Með því að skipuleggja nýtingu þeirra eftir því sem aðstæður krefja á hverjum tíma er löggjafinn að fullnægja þessari nauðsyn, ekki í þágu þeirra einna sem hafa atvinnu af fiskveiðum heldur þjóðarinnar allrar. Af þessu leiðir að hæpið telst að atvinnuréttindi við fiskveiðar njóti verndar sem stjórnarskrárvarin einstaklingseign. Sameiginlegir þjóðarhagsmunir hljóta að vega þyngra en atvinnuhagsmunir einstaklinga.``
    Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu og sérstaklega þar sem dregið er saman álit þessara ágætu lögfræðinga sem um málið fjölluðu. Þar segir á einum stað að fræðimenn hafi ekki verið á einu máli um það hvort atvinnuréttindi teljist eign í merkingu 67. gr. stjórnarskrárinnar, segja reyndar að þeirri skoðun hafi vaxið fylgi og hún sé almennt viðurkennd, en hvað þýðir almennt viðurkennt í þessu efni? Síðan segir hér í lokaorðum þessarar álitsgerðar, ef ég má vitna beint, með leyfi forseta:
    ,,Á hinn bóginn afmarka þau [þ.e. atvinnuréttindin] og skilgreina nánar þau eignarréttindi í formi atvinnuréttinda sem við teljum að kunni að vera fyrir hendi.``
    Í þessu áliti fáum við ekki afdráttarlausa túlkun á þessu atriði sem ég tel vera grundvallaratriði og þurfa að athuga betur. Og þetta er auðvitað líka spurning um það að við höfum setið hér með nefnd sem er að endurskoða stjórnarskrá Íslands í mörg ár, að mér skilst. Það væri fróðlegt að vita hvar hún er nú stödd í starfi sínu og spurning hvort ekki þyrfti að fá upplýsingar um hvernig hennar starfi miðar, en það segir hér líka skömmu síðar þar sem fjallað er um að fræðimenn séu ekki sammála um hvort atvinnuréttindi teljist eign: ,,Löggjafinn og dómstólar hafa að vísu ekki markað hér skýra stefnu.`` Það virðist vera mjög margt óljóst í þessu atriði og 1. gr. frv. segir það skýrt
og skorinort að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign allra Íslendinga. Það er með tilliti til þessa og þess sem ég hef áður sagt hér nauðsyn þess, fyrst á annað borð var loksins léð máls á því, og ég fagna því reyndar, að fjalla aðeins um aðrar áherslur og opna farvegi fyrir nýjar hugmyndir að ég tel að það yrði þjóðinni allri til meiri gæfu að bíða og fá þetta mál allt skoðað betur með tilliti til þessara hugmynda og kalla síðan saman þing snemma í haust, eins og tillaga sú sem hér liggur frammi gerir ráð fyrir, með það fyrir augum að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem fleiri og vonandi flestir og jafnvel allir, ef ég leyfi mér að vera bjartsýn, geta sætt sig við. Og það er
þess vegna sem ég freistast til þess að styðja þessa tillögu um að málinu verði vísað til nefndarinnar. Auðvitað verða borin hér fram rök eitthvað í þá áttina

að þeir sem í útgerð standa þurfi að gera sínar áætlanir og skipuleggja reksturinn og þetta verði þeim mjög til tjóns. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er ekki auðvelt að vita aldrei hvað tekur við næst. Hins vegar, ætli maður að vera ábyrgur með hagsmuni allrar þjóðarinnar í huga, er það að mínu mati skynsamlegri og ábyrgari afstaða að vísa þessu máli til stuttrar skoðunar í nefndinni og koma hér saman á ný og afgreiða málið þá.