Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 3. minni hl. sjútvn. (Karvel Pálmason):
    Virðulegur forseti. Nú mun svo ástatt að boðaður er fundur í Sþ. innan tiltölulega stutts tíma og er alveg augljóst að ég mun að litlu leyti ljúka minni ræðu á þeim tíma og það er auðvitað spurning um hagræðingu hvort tími vinnst á því að ég hefji mál mitt nú, en ef forseti óskar þess, mun ég gera það. ( Forseti: Já, ég held að það væri ágætt að hv. frsm. gæti hafið sitt mál núna. Það er upp undir korter til fundar í Sþ.) Já, virðulegur forseti. Ég skal verða við því.
    Í fyrsta lagi byrja ég á að þakka formanni sjútvn. Ed., og ég vænti að hann hlusti, fyrir nefndarstarfið. Mér er það ljóst að það var erfitt starf að sinna þeim þætti. Það hef ég sjálfur komist í fyrir nokkuð löngu að vísu. Einnig vil ég þakka mínu meðnefndarfólki fyrir samstarfið og ég vil einnig þakka sérstaklega fulltrúa sjútvrn. sem sat velflesta fundi nefndarinnar og sinnti sínum skyldum að mínu viti með prýði. Auðvitað er það misjafnt hvaða mat t.d. hv. þm. hafa á embættisfólki, en í þessu tilviki vil ég lýsa yfir fyrir mig að þessi starfsmaður ráðuneytisins, Kristján Skarphéðinsson, sinnti sínu hlutverki með prýði.
    Áður en ég fer að rekja hér aðdraganda þess sem hér er að gerast og nál., hvað hefur gerst í þessum málum undangengin ár, hverjir hafa staðið að þessu og hverjir ætli nú að standa að því, þá finnst mér rétt að byrja á því að víkja að spurningu sem til mín var beint áðan af hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur og varðaði mig og þingflokk Alþfl. sem mikið hefur verið til umræðu. ( DS: Brennandi spurning). Brennandi spurning, ekki efast ég um að það sé brennandi spurning hvort menn dansi alveg á línunni eða ekki.
    Eins og menn vita, og ég hélt nú að hv. þm. vissi það, hef ég verið í allt að þrjú ár í talsvert mikilli andstöðu við þingflokk Alþfl. í stórum málum, þar á meðal þessu ekki hvað síst. Hér má nefna fleiri mál, matarskattinn, tekjuskatt o.fl., samningamál. Þetta eiga þingmenn auðvitað að vita og þurfa ekki að spyrja. Þetta er ekki nógu gott að hv. þm., búnir að sitja hér í þrjú ár, hafi ekki haft vitneskju um slíka hluti. En svona hefur málið verið. Það hefur síðan þróast í þá veru, þegar hv. þm. Skúli Alexandersson dreifði leiðara úr Alþýðublaðinu á sjávarútvegsnefndarfundi fyrir stuttu síðan ... ( Gripið fram í: Það var gæfulegt ...) Já, gæfulegt, það verða menn að meta hversu gæfulegt það var. En þar fannst mér vegið æðihart að mínum sjónarmiðum og ekki bara mínum, heldur og fleiri innan þingflokks Alþfl. ( SkA: Með því að ég væri að dreifa þessu?) Nei, í leiðaranum. Og enn bið ég menn um að hugsa og skilja.
    Í þessum leiðara er raunar sagt að þingflokkur Alþfl., það er engin undantekning gerð, hafi samþykkt það samkomulag sem hér virðist nú liggja fyrir varðandi fiskveiðistefnuna á næstu árum og það með veiðileyfasölu og auðlindaskatti að fyrirheiti í náinni framtíð. Þetta fannst mér nánast setja punktinn yfir iið að því er þetta varðaði og ég ritaði síðan formanni

þingflokks Alþfl. bréf, um það vita allir, ég ætla ekki að ræða um það. Þetta hefur þingflokkurinn rætt og formaðurinn hefur síðan ritað mér sem ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni vegna þess að hann er ekki í landinu, en allir hafa trúlega heyrt viðtalið við hann í sjónvarpinu á mánudagskvöldið. (Gripið fram í.) Ja, flestir. ( SalÞ: Brosandi ljúfan.) Brosandi dúfan? ( Gripið fram í: Ljúfan.) Ljúfan. Já, ég er ekki að greina neitt frá útliti manna. Það er hvers og eins. En þar mun hann hafa gert grein fyrir þessu.
    Ég vil hins vegar segja um þetta mál: Að um misskilning hjá mér sé að ræða, það er rangt. Það er rangt. Það er hægt með tvennum hætti að gera fólk viðskila við þingflokk. Formlega hliðin er auðvitað sú að ef menn vilja reka beint, þá samþykkir þingflokkurinn slíka samþykkt. En hin leiðin, sem mér hefur fundist vera valin, er sú að gera mönnum lífið það leitt að það væri nánast ógerningur í mikilvægum málum að vera þar innan dyra. Þetta á kannski ekki fyrst og fremst við þingflokkinn sem slíkan. Þetta á miklu frekar við forustu Alþfl. Með þessu hygg ég að ég hafi leiðrétt að hér hafi verið um nokkurn misskilning af minni hálfu að ræða. Þetta mál hefur tvær hliðar eins og flest önnur og þær eru svona: Annars vegar eru formlegheitin, að reka beint, hins vegar að beita þannig vinnubrögðum að að því komi, seint eða um síðir, að leiðir skilji. Svona er málið einfalt í mínum huga og ég hygg að þetta svari fullkomlega fyrirspurn hv. þm. Danfríðar Skarphéðinsdóttur um mína veru og návist við Alþfl. og þingflokk hans, þannig að það sé ljóst.
    Ég verð að segja að mér hafa fundist þessar umræður, sem hér voru fyrir nokkru hafnar, vera heldur dauflegar miðað við þær sem stóðu hér yfir í desember 1987. ( Gripið fram í: Við erum bara að byrja.) Það er rétt. Við erum bara að byrja og nú gengur einmitt í salinn hæstv. umhvrh. sem hafði sig hvað mest í frammi á þeim tíma að berja á kvótanum og afneita honum fyrir fullt og allt. Hæstv. ráðherra skynjar því sinn vitjunartíma nú, að ganga í salinn. ( HBl: Já. Hann hefur mengast af sjútvrh.) Ja, við skulum koma að því á eftir.
Við tölum nú meira um það. ( GHG: Hann hefur allt sitt á þurru, þessi hæstv. ráðherra.) Það kemur strax fjörkippur í þetta þegar umræða um þetta hefst.
    Nei, það er auðvitað ljóst að það hefur verið bullandi ágreiningur um fiskveiðistefnuna allt frá því 1984, bullandi ágreiningur, mismunandi mikill en líklega aldrei meiri ágreiningur en núna eftir það sem hefur gerst á síðustu dögum í málinu. Ég tók eftir því að hv. þm., frsm. 1. minni hl. nefndarinnar, sagði að menn hefðu haft fastmótaðar skoðanir frá upphafi og til loka. Hvort hv. þm. átti við nefndarmenn eða ... ( StG: Nefndarmenn.) Nefndarmenn, já. Þá kann þetta að eiga við. Annað á við um suma aðra og að því verður þá komið síðar. Það var auðvitað ljóst strax þegar nefndin fékk málið, og var raunar vitað fyrir, að ágreiningur var um það, ég tala nú ekki um þegar grundvallaratriðum málsins er gjörbreytt á síðustu dögum þvert ofan í það sem sérfræðinganefndin hafði

unnið á mörgum vikum ef ekki mánuðum og árum, frv. kollsteypt frá því sem sérfræðinganefndin gekk frá því, þvert ofan í allar hugmyndir sem áður höfðu komið að því er þetta varðaði.
    Það er auðvitað augljóst núna að menn standa frammi fyrir því við þessa 2. umr. að verulegur hluti hagsmunaaðila er andvígur málinu eins og það er núna fram sett af 1. minni hl. í sjútvn. Ed. Velflestir hagsmunaaðilar sem komu á fund nefndarinnar í síðustu hrotunni eru því gjörsamlega andsnúnir, t.d. hagræðingarsjóðurinn sem menn kalla núna, var úreldingarsjóður í allan vetur.
    Og ég vil nú spyrja, herra forseti, ég hefði átt að gera það strax, af því að þessi tvö mál eru á dagskrá hlið við hlið og raunar samtengd, hvort gerð sé athugasemd af hálfu forseta við það að þau séu rædd sameiginlega. Það mun stytta tímann frekar en hitt. ( Forseti: Það sem efnislega fellur að frv. verður hv. frsm. að sjálfsögðu að ræða.) Ég skil forseta svo að hann sé sammála mér í þessu að þetta muni bæta vinnuandrúmsloftið. Og ég ítreka það því að í þessum meginmálum eru hagsmunaaðilar ósammála því frv. sem hér er nú til umræðu og þá er það kannski fyrst og fremst úreldingarsjóðurinn sem menn kannski vilja kalla enn en er nú orðinn hagræðingarsjóður. Og hvað eru menn í raun og veru að gera þar? Var ekki sagt fyrst þegar kvótinn var settur á 1984: Þetta er gert til þess að minnka skipaflotann, hlúa að stofnunum í hafinu, draga úr sókninni. Meðalið til þessa átti að vera kvótinn og hann er búinn að vera í gildi síðan. Og enn er fiskiskipastofninn að vaxa. Og hann auðvitað dafnar undir kvótastefnunni. Það er það sem hefur gerst. Og nú eru menn að koma með einhverja plástra sem þeir telja að eigi að geta gilt í þá veru að plástra þennan óskapnað sem búinn er að vera í gildi allan þennan tíma til óhagræðis og skemmdar velflestum Íslendingum. Finnst mönnum það t.d. líklegt? Við skulum taka dæmi. ( Forseti: Vegna fundar í Sþ. vildi ég biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni um stund þangað til að loknum fundi í Sþ.)