Minning Sverris Júlíussonar
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Sverrir Júlíusson, fyrrverandi alþingismaður, andaðist í fyrradag, mánudaginn 30. apríl, á sjötugasta og áttunda aldursári.
    Sverrir Júlíusson var fæddur í Keflavík 12. okt. 1912. Foreldrar hans voru hjónin Júlíus, sjómaður þar, Björnsson, verkamanns í Hafnarfirði, Björnssonar og Sigríður Sveinsdóttir, sjómanns í Keflavík, Einarssonar. Hann stundaði barna- og unglingaskólanám í Keflavík, sótti námskeið í bókhaldsfræðum við Háskóla Íslands 1941 og nam tungumál í Bandaríkjunum 1946. Hann var símstöðvarstjóri í Keflavík frá 1928 til 1940. Útgerðarmaður og hluthafi í ýmsum útgerðarfélögum var hann frá 1934 og formaður margra þeirra. Hann var framkvæmdastjóri fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækisins Garðs í Sandgerði 1941--1942, stofnandi og annar eigandi heildsölunnar Jónsson og Júlíusson í Keflavík 1941--1946 og stofnandi og framkvæmdastjóri Hraðfrystistöðvar Keflavíkur 1942--1947, rak síðan fyrirtækið með öðrum til 1952. Hann var í viðskiptanefnd á árunum 1947--1950, forstjóri sölunefndar innflutningsréttinda
bátaútvegsins 1951--1956 og varaforseti Innflutningsskrifstofunnar 1956--1960. Forstjóri Verðlagsráðs sjávarútvegsins var hann 1961--1963.
    Í alþingiskosningunum 1963 og aftur 1967 var hann í kjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjaneskjördæmi og hlaut í bæði skiptin sæti landskjörins alþingismanns, sat á Alþingi til 1971, á átta þingum alls. Síðla árs 1970 varð hann forstjóri Fiskveiðasjóðs Íslands og gegndi því starfi til ársloka 1982.
    Sverrir Júlíusson var formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna 1944--1970 og í stjórn Fiskimálasjóðs 1947--1983, lengi formaður stjórnarinnar. Árið 1950 var hann skipaður í verðgæslunefnd og í stjórn Skuldaskilasjóðs útgerðarmanna. Hann átti sæti í stjórn Útflutningssjóðs 1957--1960, í vörusýninganefnd og í bílaúthlutunarnefnd 1960--1961. Árið 1964 var hann skipaður í endurskoðunarnefnd laga um Stýrimannaskólann í Reykjavík og 1967 í nefnd til að semja drög að nýrri löggjöf um eftirlit með einokun, hringamyndun og verðlagi. Hann var í bankaráði Landsbanka Íslands 1965--1968 og í bankaráði Seðlabanka Íslands 1969--1984.
    Sverrir Júlíusson var af sjómönnum kominn og á æskustöðvum hans var atvinna fólks fyrst og fremst tengd sjávarútvegi. Ungur að árum fór hann að starfa við fiskvinnslu og veiðar og um 16 ára aldur var honum falið starf símstöðvarstjóra. Rúmlega tvítugur hóf hann útgerð og sinnti henni síðan nær ævilangt ásamt öðrum störfum. Auk athafna suður með sjó rak hann ásamt öðrum útgerð og fiskvinnslu austur á Fáskrúðsfirði og vestur á Súgandafirði. Hann var gjörkunnugur flestu því sem laut að íslenskum sjávarútvegi og var ungur að árum kvaddur til trúnaðarstarfa á þeim vettvangi. Hann var rúman

fjórðung aldar forustumaður í landssamtökum útvegsmanna sem efldust mjög á þeim áratugum. Á Alþingi sinnti hann einkum atvinnumálum og fjármálum. Starf hans fyrir íslenskan sjávarútveg var árangursríkt. Hann fór ekki fram með hörku, gat þó verið fastur fyrir, en með ljúfmennsku, sanngirni og traustri þekkingu vann hann farsællega að málum sjávarútvegsins á langri starfsævi.
    Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Sverris Júlíussonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]