Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég tel rétt að segja nokkur orð við þessa umræðu um stjórn fiskveiða þar sem að mér hefur verið vegið í þessari umræðu um það að ég hafi verið keyptur til liðs við þetta frv. Áður en ég svara þeirri fullyrðingu vil ég rekja formálann að þessu.
    Ég sat ekki í þeirri ráðgjafarnefnd sem var sett á stofn. Ég átti ekki aðild að nefndinni, hins vegar átti ég þar áheyrnaraðild á síðari stigum. Ég taldi því rétt að kynna mér málin mjög vel áður en ég tæki ákvörðun í þessu afdrifaríka máli sem varðar alla þjóðina mjög miklu.
    Ég hef á því tímabili sem ég sat í ráðgjafarnefndinni ekki lýst skoðun minni á einu né neinu í þessu sambandi heldur áskilið mér allan rétt til að taka ákvörðun, hver sem hún mundi verða. Um síðustu helgi var komið að þeim tímapunkti að ég þurfti að vera með eða móti. Niðurstaðan varð sú að ég tók ákvörðun um að styðja þetta frv. og skal ég rökstyðja það nokkrum orðum.
    Í fyrsta lagi var það vegna þess að ég taldi mig hafa náð því mikilvæga atriði inn í frv. að eftirlit og úrskurðarvald væri ekki í höndum sama aðila. Um það efni hafði ég lagt fram bréf eða minnisblað í sjútvn. Ed. Það er hið eina sem frá mér hefur komið í þessu máli. Undir það sjónarmið sem þar kemur fram hefur verið tekið. Þess vegna m.a. taldi ég að ég gæti stutt þetta frv.
    En það eru fleiri ástæður sem liggja þarna að baki. Ég hafði um helgina samband við fjölmarga aðila, bæði hér í Reykjavík og úti á landi, og allir voru sammála um eitt. Það var að mikil nauðsyn væri á því að afgreitt yrði frv. hér á Alþingi um þetta mál á þessu þingi. Að vísu voru margir efins um það hvort þetta væri hið rétta eða hvort það ætti að hafa stjórn fiskveiða með öðrum hætti. Undir þau sjónarmið get ég tekið að það er engin eilífðarlausn á vanda okkar að geta ekki veitt eins mikið af fiski og við hefðum viljað. En þar sem þetta er það frv. sem samstaða er um, alla vega á meðal meiri hlutans, þá held ég að ég mundi ekki getað axlað þá ábyrgð að vera aðili að því að fella frv.
    Að vísa málinu til ráðgjafarnefndarinnar er ein helsta krafa þeirra sem hér hafa talað og talið það vera hina mikilvægu lausn í málinu. Mér finnst furðu sæta að þeir sem hér hafa talað, fulltrúar Sjálfstfl. og fulltrúar hinna ólíku sjónarmiða, Karvel Pálmason, Skúli Alexandersson o.fl. ( GHG: Allt menn sem hafa starfað í sjávarútvegi.) telja að hagsmunaðilar eigi að ráða því hvernig við nýtum fiskstofnana. Til hvers erum við að hafa hér Alþingi ( GHG: Ekki til þess að láta blýantanagara gera það.) ef við ætlum að láta hagsmunaaðilana ráða því hvernig við ætlum að fara með hina sameiginlegu auðlind? Til hvers er verið að kjósa á þing? Það er fyrst og fremst pólitísk ákvörðun hvernig við högum þessum málum en ekki ákvörðun þröngs hóps undir forustu Kristjáns Ragnarssonar. Ég skil ekki þá menn sem halda því fram, eins og hér hefur komið fram, að niðurstaðan verði önnur verði

þetta mál borið undir ráðgjafarnefndina. Eftir sem áður stöndum við sem erum fulltrúar þjóðarinnar hér á Alþingi frammi fyrir því að taka þá pólitísku ákvörðun hvort við ætlum að samþykkja frv. eða ekki. Við erum komin að endapunktinum í þessu máli og verðum sem fulltrúar að taka ákvörðun. Það er það sem ég hef lagt áherslu á.
    Og annað hitt sem ég vil að komi hér skýrt fram út af því að þeir sem hér hafa talað á undan mér hafa ýjað að því a.m.k. að ég hafi verið keyptur til liðs við þetta frv. (Gripið fram í.) Ég bið Skúla Alexandersson afsökunar, það var ekki hann. ( GHG: Ég óska eftir að hann endurtaki þetta ...) Ég get bent ykkur á það, hvað hefði verið sagt hefði ég tekið ákvörðun um að greiða atkvæði á móti frv.? ( GHG: Þú hefðir verið maður að meiru.) Þá hefði verið sagt: Hann er genginn til liðs við íhaldið. Hvað borgaði íhaldið fyrir? ( KP: Vill hv. þm. endurtaka það sem hann sagði áðan?) ( Forseti: Ég verð að biðja hv. deildarþingmenn að vera rólegir.) ( HBl: Ég hélt að umhvrh. mundi nú telja sig til hægri við íhaldið.) Í pólitík er sem sagt, miðað við þessar forsendur, ekki gert ráð fyrir því að hinn almenni þingmaður geti tekið sjálfstæðar og málefnalegar ákvarðanir. Ber þetta vott um þann spillta hugsunarhátt sem því miður virðist ríkja hér í pólitíkinni. Þetta vildi ég sagt hafa þegar ég geri grein fyrir þeirri afstöðu minni, sem ég hef lýst, að ætla að greiða atkvæði með þessu frv.