Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Umræður um þetta mál hafa farið á víð og dreif, menn hafa rætt þetta frv. jafnhliða frv. um Hagræðingarsjóð og menn hafa verið afar fullyrðingasamir.
    Fram kom hjá hv. 14. þm. Reykv. að hann saknaði þess að alþýðuflokksmenn hefðu ekki tekið þátt í þessari umræðu. Ég vil hiklaust segja það að umræður um þetta mál fara vissulega fram víðar en hér í þessari hv. deild. Við alþýðuflokksmenn, eða meiri hluti þingflokks Alþfl. hefur samþykkt að styðja þetta frv. með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á því. Svo háttar málum að fulltrúi Alþfl. í sjútvn. er andvígur þessu frv. og hefur skýrt mjög greinilega frá því. Við höfum hins vegar haft mjög gott samstarf við hv. formann sjútvn. og komið okkar athugasemdum á framfæri. Við teljum að við höfum náð þýðingarmiklum árangri og við teljum nauðsynlegt að samþykkja frv. á þessu þingi, einkum vegna útgerðarinnar og sjómanna. Það sé ekki neitt vit í öðru. (Gripið fram í.) Ég bið hv. þm. að tala hér úr pontu, það er alveg nóg fyrir hann.
    Ég vil líka vekja athygli á því að hv. 14. þm. Reykv. talaði hér lengi en ég komst ekki að því að það væri nein brtt. í farvatninu. Ég hef ekki séð neina brtt. frá sjálfstæðismönnum í þessu máli. ( Gripið fram í: Frávísunartillögu.) Já, ég er ekki kominn að því. En sannleikurinn er sá að það skín í gegnum allan þeirra málflutning að þeir hafa enga skoðun á þessu frv. Það endurspeglar alveg landsfund þeirra þegar þeir ræddu sjávarútvegsmál, þar varð engin niðurstaða. Enda er það skjalfest að á sínum tíma þegar þeir voru í ríkisstjórn þá greiddu þeir atkvæði með kvótafrv. Ég held því fram að það kvótafrv. sem þá var til afgreiðslu hafi verið margfalt verra en það sem er í þeim búningi sem hér liggur fyrir. Þeir leggja til að málinu verði vísað frá. Það er vegna þess að þeir hafa engar tillögur. Þeir hafa enga skoðun á því hvað skuli gera. Hér eru upphrópanir og skætingur um málið og búið. Því miður er þetta hlutverk sjálfstæðismanna í hv. Ed. (Gripið fram í.) Þjóðin hlýtur að taka eftir því og taka mjög vandlega eftir því að Sjálfstfl. hefur enga skoðun á þessu máli. Hann vill fresta þessu máli --- til hvers? Það eru engar haldbærar skýringar á því. (Gripið fram í.) Þær tillögur sem Alþfl. hefur sett fram eru komnar í form brtt. við frv. og við erum mjög sáttir við frv. eins og það lítur út núna. (Gripið fram í.)
    Ég fullyrði að þetta frv. muni verða til mikilla bóta og treysti því að það verði samþykkt í þessari hv. deild. En það er áreiðanlegt að eftir situr sú skoðun hjá þjóðinni að stærsti stjórnmálaflokkur landsins hafði enga skoðun á þessu máli aðra en að fresta málinu.