Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 1. minni hl. sjútvn. (Stefán Guðmundsson):
    Virðulegi forseti. Vegna þess að mér heyrðist hv. 6. þm. Reykn. segja þegar ég fékk orðið: Hann ætlar sjálfsagt að lengja umræðuna --- vil ég taka fram að það er ekki rétt. Hins vegar er ekki óeðlilegt að ég komi hér upp sem formaður nefndarinnar og svari aðeins því sem fram hefur komið. Ég tók ekki óeðlilega langan tíma. Hér hafa aðrir talað fyrir sínum nál. og gert það á jafnvel meira en helmingi lengri tíma en ég tók mér til að kynna þær brtt. sem hér eru lagðar fram. Ég hef því ekki níðst á kvöldinu hjá ágætum þingmönnum
    Ég vildi aðeins víkja að því fyrst sem hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir gat um, að ekki hefði verið tekið mikið tillit til Kvennalistans og tillögur hans lítið skoðaðar. Því miður er þingmaðurinn ekki hér, en ég verð þó að segja það til þess að það komist þá í þingtíðindi að hér er ekki rétt farið með. Ég margfór yfir þær veigamiklu tillögur sem Kvennalisti lagði fram og ég sá það strax að þar er hyldýpi á milli skoðana í tillögum Kvennalistans sem þar voru kynntar. Ég er ófáanlegur til þess að standa að því að flytja 80% af aflanum plús 20%, sem á að fara í sérstakan sjóð, frá sjómönnum og útvegsmönnum. Ég er ófáanlegur til þess. Og þeir sem setja svona tillögur fram þyrftu eiginlega að gefa sér tíma til að skýra það mál. Hvernig má það gerast? Mér finnst það ótrúlega kaldar kveðjur frá Kvennalistanum. Og ég kannast ekki við annað en að Skúli Alexandersson, þingmaður Alþb., hafi verið með hugmyndir um að taka 40% af kvótanum frá sjómannastéttinni og útvegsmönnum og færa það til vinnslunnar í landinu. Mér finnst þetta býsna kaldar kveðjur til íslenskrar sjómannastéttar frá Skúla Alexanderssyni og Kvennalista. Ég mun aldrei styðja slíkt. Ég greip hér fram í í umræðunni í dag og ég mun aldrei styðja að slíkt geti gerst. (Gripið fram í.) Já, það er best að segja ekki of mikið, það er rétt, og þá talar maður líklega af reynslu í þeim efnum. En hér er ekki of mikið
sagt, hv. þm. Halldór Blöndal, við þetta mun ég standa. Ég er ófáanlegur til þess að hrifsa 40 og upp í 80% frá sjómannastéttinni. ( HBl: Ætlarðu að binda þig við 5%?) Við skulum tala um það seinna þegar kemur að því frv. sem hér verður á dagskrá á eftir. Það verður nægur tími til þess að ræða þau mál þá.
    Ég hef líka velt því fyrir mér hvernig þetta ágæta fólk hugsar sér að farið verði með veðrétt sem hvílir t.d. á skipastólnum og aðrar skuldbindingar eftir að menn eru búnir að taka frá útgerðarmönnum og sjómönnum 80% og allt upp í 100% af aflanum. Ég held að fólk þurfi að hugsa þetta til enda. Hvar stendur íslensk sjómannastétt í kjarabaráttu eftir að þetta hefur verið gert? Nei, hér er vægast sagt gáleysislega talað.
    Ég þarf ekki í mörgu að svara hv. þm. Karveli Pálmasyni. Hann flutti hér hógværa ræðu og ég þarf ekki miklu við hana að bæta. Hann gat þess að hér

væru margir minni hlutar og ég var á undan honum að segja það að þeir væru ótrúlega margir. En hann bætti því við, og það er það sem ég vil aðeins víkja að og mótmæla, að málið hefði fengið lélegan undirbúning. Því mótmæli ég mjög. Aðrir hafa tekið undir það með hv. þm. að málið hafi fengið lélegan undirbúning. Menn störfuðu í eitt og hálft ár í ráðgjafarnefndinni. Menn störfuðu þar með fullt umboð frá þingflokkum sínum, áttu að vera þar inni til þess að miðla öllum upplýsingum frá ráðgjafarnefndinni inn í sína þingflokka og það er að verða liðið hálft ár til viðbótar. Það er sem sé að nálgast tvö ár sem þetta mál hefur verið í vinnu og undirbúningi. Svo kvarta menn yfir því að það skorti undirbúning. Ég skil ekki svona. Það eru þá mörg málin sem hafa farið í gegnum Alþingi sem mætti segja það sama um.
    Hv. þm., sem talaði hér áðan, flutti býsna langt mál og ætti nú að gjörþekkja málefni sjávarútvegsins. Hann gat þess sérstaklega og lagði þunga áherslu á, og það er í nál. þeirra félaganna, Halldórs Blöndals og Guðmundar H. Garðarssonar, að mjög ríka áherslu yrði að leggja á það að málefni sjávarútvegsins yrðu tekin úr höndum framsóknar. (Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt, það stendur í nál. En það hefur nefnilega lent á Framsfl. að þurfa að leysa vanda sjávarútvegsins. Og ekki bara sjávarútvegsins. Það hefur líka lent á ráðherrum Framsfl. að þurfa að taka á og leysa önnur vandamál, vandamál landbúnaðarins sem menn voru búnir að velta hér á undan sér árum saman og þorðu ekki að taka á. Og sama skeði í sjávarútvegsmálunum. Fyrst þegar þau komu til Framsfl. þorðu menn að taka á þeim og fara að stjórna þeim. Við skulum minna ykkur á það. Það er rétt að minna á hvað hefur gerst. Því á að víkja Framsfl. til hliðar? Eru menn búnir að gleyma því að aldrei hefur landhelgi Íslendinga verið færð út nema Framsfl. hafi átt aðild að þeirri ríkisstjórn og nær alltaf hefur hann leitt þær ríkisstjórnir þegar íslenska lögsagan hefur verið færð út. (Gripið fram í.) Víst í 200 mílur. (Gripið fram í.) Hann var aðili að þeirri ríkisstjórn. Öll hin skiptin leiddi hann ríkisstjórnir, en í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar hafði Framsfl. fulla aðild að þegar fiskveiðilögsagan var færð út hvorki meira né minna en 758 þús. ferkílómetra. Svo halda menn að Framsfl. eigi að víkja til hliðar. Grundvallarforsendan fyrir þeirri fiskveiðistefnu sem hér hefur verið byggð
upp var að færa út landhelgina. Það er von að þessir höfðingjar sem hér tala telji nauðsynlegt að víkja Framsfl. til hliðar.
    Einnig minntist hv. þm. á það, sem nokkrir aðrir hafa hér einnig minnst á, að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila. Hér hlýtur þingmaðurinn að hafa mistalað sig hastarlega eða farið vísvitandi með rangt mál. (Gripið fram í.) Víst með Úreldingarsjóðinn. Hagsmunaaðilar voru kallaðir fyrir nefndina til þess að svara fyrir í sambandi við Úreldingarsjóðinn. Ég gæti þess vegna lesið upp nöfn. (Gripið fram í.) Mótmæltu? Ég get líka bætt því við,

ágæti þm. Guðmundur H. Garðarsson og Halldór Blöndal sem blaðra hér mest með munninn fullan af yfirlýsingum, að þessir höfðingjar sátu báðir sem fulltrúar Sjálfstfl. í ráðgjafarnefndinni og skrifuðu undir nál. og minntust hvergi á eða gerðu athugasemdir við það sem stendur í 5. gr. frv. þar sem fjallað er um Úreldingarsjóð. (Gripið fram í.) Nei, mótmæltu því aldrei, hreyfðu aldrei andmælum við því sem stendur í 5. gr. frv.
    Einnig sagði hv. þm. að hér væri stigið fyrsta skrefið til auðlindaskatts. Því mótmæli ég mjög og þarf ekki nú að eyða löngum tíma í það vegna þess að hér á eftir munum við tala um Úreldingarsjóðinn. Hér er ekki verið að tala um auðlindaskatt. Hér er verið að tala um skattlagningu sem aðeins er innan greinarinnar sjálfrar og tryggir það að arðsemin muni vaxa í greininni eftir því sem okkur tekst fyrr að úrelda skipin. Það er staðreyndin í málinu. Hv. þm. var að lesa hér upp þessar tillögur Alþfl. og hvað þeir vildu í þessum efnum og sagði: Á þessu eigum við von. En hann taldi ekki upp menn í öðrum flokkum sem hann ætti að þekkja betur og tala aldrei í sjávarútvegsmálum öðruvísi en að biðja um auðlindaskatt. Hann gleymdi því sá góði maður Guðmundur H. Garðarsson að geta um þá menn í Sjálfstfl. sem aldrei opna munninn þegar rætt er um þessi mál öðruvísi en að biðja um auðlindaskatt. Síðan bætti hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson við að það væri ekki hægt að vera með bæði auðlindaskatti og byggðastefnu. Það er út af fyrir sig alveg hárrétt og þetta frv. er því ekki byggt á auðlindaskatti, þingmaður góður. Það er nefnilega ekki byggt á auðlindaskatti heldur á auknum skilningi á byggðastefnu. Það er málið.
    Hv. þm. Skúli Alexandersson talaði hér mikið og lengi og ég er nú búinn að víkja aðeins að aðalinntakinu í hans tillögum sem fer mjög í mínar taugar, að flytja allt að 40% af aflaheimildum frá sjómannastéttinni. Ég þarf ekki að eyða fleiri orðum að því. Hann minntist einnig á það að þetta mál væri rætt í tímahraki og hefði oft svo verið. Það tek ég undir. Það er mjög miður að við skulum ekki hér á Alþingi einhvern tímann taka umræðu um sjávarútvegsmál. Við þurfum ekki endilega að vera að ræða beint um kvótafrv. Við ættum að taka okkur tíma í Alþingi til að ræða um þessa undirstöðuatvinnugrein og ekki þá í einhverju tímahraki.
    Hv. þm. Skúli Alexandersson sagði einnig að ekki hefði verið gerð tilraun í nefndinni til þess að sætta sjónarmiðin. Ég trúi því varla að hv. þm. meini þetta. Í upphafi málsins var mér það ljóst sem formanni nefndarinnar að hyldýpi var á milli okkar nefndarmanna þegar við mættumst á fyrsta fundi. Það held ég að menn geti tekið undir. Það var hyldýpi á milli skoðana okkar. Mér var það þegar ljóst að við næðum ekki allir samkomulagi.
    Hann vék einnig að því, og það hafa fleiri gert hér, að gera lítið úr því að ráðherrar hefðu hist ásamt mér, formanni sjútvn. Ed., og formanni sjútvn. Nd.

Það er ekkert launungarmál og það vita menn og var ekki farið í neinar felur með það. Eftir að ég hafði heyrt í mönnum í nefndinni, heyrt ofan í menn, verið í viðtölum með fjölda manna, eins og hér var lesið upp í dag, þá var mér það ljóst að ég þurfti að ræða við menn. Þess vegna settist ég niður með ráðherrum og biðst ekki afsökunar á því. Eftir að ég hafði gert það, sest niður með ráðherrum allra flokkanna sem að ríkisstjórninni standa, átt viðræður við þá, bað ég um fund með ráðherrum aftur og þeim aðilum sem í sjútvn. deildarinnar starfa og eru stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar. Ég var að reyna að fóta mig á því að reyna að finna leið og þreifa á mönnum hvort við ættum einhverja möguleika til þess að ná samstöðu. Þar voru málin rædd opinskátt. Þar var reynt að sætta sjónarmiðin en það var því miður ekki hægt.
    Ég þarf ekki að tala hér lengra mál. Hv. þm. vék að gæðamálunum, að enginn árangur hefði náðst þar. Það er rangt. Hið háa verð á erlendum mörkuðum fyrir íslenskar afurðir byggist að mörgu leyti og sjálfsagt að miklu leyti á því að verðmætin og gæðin hafa aukist. Hann sagði einnig að ég hefði farið með rangt mál um það að skipastóllinn hefði ekki vaxið. Ég sagði að skipastóllinn hefði minnkað og það er rétt. Árið 1984 voru 680 skip yfir 10 brúttólestir en nú eru þau 627. Þetta sagði ég í dag og ég endurtek þetta nú. (Gripið fram í.) Rúmlestirnar, Skúli, þú þekkir nú útgerðina þar og veist að ekki er um það sama að tala. Mörgu hefur verið hagrætt og bætt um borð í skipum og var ekki vanþörf á. En þetta eru staðreyndirnar, góðir þingmenn.