Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Mér finnst það satt að segja hálfgerð lítilsvirðing við deildina af hæstv. sjútvrh., eftir að maður hefur setið hálft annað ár í nefnd sem starfað hefur undir stjórn ráðuneytisstjóra sjútvrn. og unnið heils hugar og í fullri, ég vil segja, einlægni með ráðuneytisstjóra hans að málefnum sjávarútvegsins og unnið að því að ná einhverjum sáttum við hagsmunaaðila um stjórn fiskveiða, og eftir að sjútvrh. hefur falið flokksbræðrum sínum í sjútvn. að sprengja upp þá samstöðu sem var í þessari ráðgjafarnefnd með tillögum sínum sem varða bæði frv. sem hér er til umræðu og þennan svokallaða Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, þá finnst mér það satt að segja hálfgerð ósvífni að hæstv. ráðherra skuli ekki standa upp hér í deildinni og gera grein fyrir því hvað hafi ráðið hans afstöðu. Hæstv. ráðherra er kunnugt að við sjálfstæðismenn vorum reiðubúnir til þess að vinna með Framsfl. að því að ná málinu í gegnum þingið á þeim grundvelli sem náðist í samráðsnefndinni undir forustu ráðuneytisstjóra sjútvrn. Ég vissi ekki betur en hæstv. sjútvrh. væri í aðalatriðum sammála þeirri niðurstöðu, a.m.k. í svo ríkum mæli að hann sá ekki ástæðu til á þeim tíma að gera mér eða Sjálfstfl. grein fyrir því að hugur hans stæði til að breyta þeim forsendum sem lágu til grundvallar þeirri niðurstöðu. Ég hlýt þess vegna, herra forseti, að vænta þess að að orðum mínum loknum geri hæstv. sjútvrh. grein fyrir sínu máli. Hvað hafi valdið því að hann hafi snúið svo gersamlega snældunni.
    Maður hefur farið að rifja upp hver staða hans hefur verið fram að þessu í sæti sjútvrh. Þegar svarta skýrslan kom og sjávarútvegurinn stóð frammi fyrir því haustið 1983 að nauðsynlegt væri að grípa til mjög róttækra ráðstafana til þess að tryggja að þorskstofninn gengi ekki til þurrðar gekk ráðherra mjög rösklega fram og hafði auðvitað Sjálfstfl. á þeim tíma sem bakhjarl. Staðreyndin er sú að þegar ráðherrann hefur staðið sig best í embætti sínu sem
sjútvrh. þá hefur hann vitað það að við sjálfstæðismenn stóðum á bak við hann. Ég vissi ekki betur en sjútvrh. hefði í sambandi við þessar erfiðu ákvarðanir sem hafa verið teknar til þess að reyna að tryggja skynsamlega nýtingu fiskstofna kunnað að meta þá samvinnu.
    Nú hefur hæstv. sjútvrh. kosið að ganga gegn samtökum sjávarútvegsins. Það eru auðvitað mikil þáttaskil í embættisferli hans og hefur raunar alls ekki verið skýrt til fulls hvernig á því stóð að sjútvrh. skyldi komast að þeirri niðurstöðu að sér tækist betur að gegna embættisskyldum sínum í andstöðu ekki aðeins við útgerðarmenn heldur einnig sjómenn, verkafólk og fiskverkendur, eins og fram kom á fundum sjútvn. Þetta er auðvitað gerbreytt staða hjá hæstv. sjútvrh. og maður freistast til að draga þá ályktun af þessari kúvendingu að nú sé kominn tími til þess að annar maður frískari taki sæti hans sem þorir að horfast í augu við þá erfiðleika sem sjávarútvegurinn á við að glíma og gerir sér jafnframt

grein fyrir því að ekki verður hægt að ná fram skynsamlegri nýtingu á fiskstofnum né skynsamlegri nýtingu á sjávarafla öðruvísi en í nánu samstarfi við útgerðarmenn, sjómenn og fiskverkafólk. Þetta hélt ég að hæstv. sjútvrh. væri ljóst og þess vegna er það ekkert leyndarmál að ég hef á liðnum árum oft látið orð falla á þá lund að mér félli vel hvernig hann ræki sitt embætti.
    En nú er svo komið að ekki er lengur hægt að gefa hæstv. sjútvrh. þessa einkunn. Í staðinn fyrir að reyna að líta til einhverrar framtíðar í sambandi við stjórn fiskveiða hefur hann tekið þá ákvörðun að umgangast þetta mikilvæga mál sem einhvers konar dægurflugu. Og það sýnir lauslætið í vinnubrögðunum að við vorum að fá smábreytingar á tillögunum frá einum degi til annars. Það var gefið eftir hér og það var gefið eftir þar og það var svo sem ekki neitt í föstum skorðum.
    Þetta er í stuttu máli lýsingin á því sem formaður sjútvn. kallaði vönduð vinnubrögð. Það er alveg rétt hjá honum að við sátum í hálft annað ár í ráðgjafarnefndinni. Það er líka rétt að ég og formaður sjútvn. komumst í grófum dráttum að sömu niðurstöðu. En formaður sjútvn. getur ekki veigrað sér við því að viðurkenna að hann var víðs fjarri vettvangi þegar niðurstaðan fékkst um það hvernig ætti að sólunda þeirri vinnu sem hagsmunasamtökin höfðu lagt í þetta mál. Og hann kemst ekki hjá því að verða að viðurkenna að þegar ég spurði hann að því í nefndinni hvort eitthvað þýddi að hreyfa brtt. til þess að lagfæra eitt eða annað var svarið að það væri alveg tilgangslaust. (Gripið fram í.) Þingmaður Suðurnesja, Jóhann Einvarðsson, spurði hvort ég hefði einhver ákveðin mál sem ég vildi nefna. Ég nefndi í fyrsta lagi þá gerbreyttu rekstrarstöðu sem sóknarmarksskipin hafa á næsta ári og ég spurði hvort einhver möguleiki væri á því að orðfæra það við formann nefndarinnar að það yrði stigið milliskref og sóknarmarksskipin færu yfir á aflamark í áföngum. Því var svarað neitandi. Ég spurði jafnframt um það vegna þeirra radda sem heyrst hafa um að það sé hart aðgöngu að smæstu trillurnar megi ekki nýta þann litla afla sem þær fá, kannski 5 eða 10 tonn, fénýta þann afla á neinn hátt og sama svarið kom frá formanni sjútvn., að það mál þyrfti ekki að
ræða með einum eða neinum hætti. Það var því öldungis ljóst að meiri hlutinn hafði tekið ákvörðun um að efnistriði þessa frv. yrðu ekki rædd í sjútvn. Við nefndarmenn skyldum ekki með einum eða neinum hætti reyna að nálgast sjónarmið hvers annars. Formaður sjútvn. sagði að heimavinnan hefði ekki verið unnin. En sannleikurinn er sá að hann lét aðra menn vinna heimavinnuna sína og það vita þeir sem eru gamlir kennarar að slíkt hefnir sín þegar að prófinu kemur. Það er eins með formann sjútvn. og hæstv. sjútvrh., báðir féllu á prófinu. Báðir fóru vel af stað, báðir stóðu sig vel lengi vel, báðir stóðu á þeim grundvallarsjónarmiðum sem þeir vildu standa á lengi vel, en báðir brugðust á lokasprettinum.
    Við getum kannski aðeins vikið að því hvernig á

því stendur og byrjað þá fyrst á því að víkja að því hvaða álitamál olli því að Alþfl. gekk inn á það að styðja þetta frv. Hvert var álitamálið? Álitamálið var auðlindaskatturinn. Framsfl. gekk inn á auðlindaskattinn.
    Í inngangi að því plaggi sem mér er sagt að sé frá hæstv. viðskrh. og hann hafi afhent á leynifundinum þar sem þeir voru staddir formaður sjútvn. Ed., formaður sjútvn. Nd. og ráðherrarnir, ég veit ekki hvaða ráðherrar. Í innganginum að því plaggi stendur að ganga eigi skammt fyrsta árið. Það sé stutt fiskveiðiár. Ekki sé aðalatriðið að taka strax 10% í kvótann á fyrsta árinu. ( Gripið fram í: Kemur skýrt fram.) Kemur skýrt fram þar svo að þeir láta duga að taka 5%. Það er í frv. um þennan svokallaða Hagræðingarsjóð, réttu nafni óhagræðingarsjóð. Þar á að taka 5% sem sjóðurinn má hafa á hverju ári og sem hann á að selja og má að vísu gefa pínulítið. Er það ekki 0,8% sem hann má gefa af þessum 5%? Með þessum tillögum ráðherranna er búið að tryggja sjóðnum um 400 millj. kr. í stofnfé. Það þarf að hækka um helming, ekki munar um það. Þær greiðslur sem fóru í Úreldingarsjóð eiga að hækka un 50%. Það á að hrifsa og hrifsa og fyrir utan það á að selja allt að 5% á ári hverju við markaðsverði til eins árs í senn. Þar erum við að tala um 600 upp í 750 millj. kr. núna til að byrja með. Og þegar menn hafa 600--750 millj. kr. og fá þar að auki heimild til þess í lögunum að þeir megi taka lán allt að 80% af kaupverði fiskiskips með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs til að taka til sín enn meiri kvóta sem á að seljast á markaðsverði og hæstbjóðanda, ef ég hef skilið tillögurnar rétt, innan fiskveiðiársins þá sjáum við undir eins að þarna erum við farnir að tala um verulegar tekjur. Og trúi því hver sem vill að þessir forsjárhyggjumenn, sem við búum nú við, þessir forsjárhyggjumenn, sem eru sjóðvitlausir í sjóði, muni láta við það sitja að allt þetta fjármagn verði bara þarna, útdeilist svo til einhverra byggðarlaga úti á landi eða til þess að kaupa fiskiskip og gefa síðan aflann. Auðvitað munu þeir hækka 5% í 10% á næsta ári eins og segir í tillögum Alþfl. Og svo munu þeir bæta 10 við og þá eru þeir komnir upp í 25 og þannig munu þeir halda áfram.
    Flokkur sem þykist vera á móti auðlindaskatti en samþykkir 5% af aflanum, slíkum flokki er ekki treystandi. Hann hefur brotið sín grundvallarsjónarmið með þeim hætti að alllangur tími mun líða áður en hægt er að taka alvarlega þau grundvallarsjónarmið sem þingmenn og ráðherrar Framsfl. þykjast hafa í sambandi við stjórn fiskveiða.
    Það var skemmtilegt að heyra lýsingu fulltrúa Sambands ísl. samvinnufélaga, sjávarafurðadeildar SÍS, þegar hann kom á fund nefndarinnar og var að lýsa viðhorfi sínu til þessarar nýju stjórnunar. Hann minnti á það að á sínum tíma þegar menn komu að nýju landi varð auðvitað fljótt landlítið og síðar landlaust og þá var það eignarrétturinn sem kom í veg fyrir að stöðugar deilur og róstur yrðu um skiptingu landsins. Menn komu sér saman um ákveðnar leikreglur. Hann

vildi halda því fram að með þessum hætti hefði tekist að tryggja nauðsynlegan afrakstur af jörðunum. Hann hafnaði fullkomlega þeirri forsjárhyggju sem lýsir sér í þessu máli eins og það lítur nú út ef við horfum bæði á frv. um stjórn fiskveiða og frv. um Úreldingarsjóðinn sem eina heild.
    Það var næsta spaugilegt að heyra formann sjútvn. tala um það að við hefðum verið að fjalla um Úreldingarsjóð í ráðgjafarnefndinni. Hann leggur nú sjálfur til að leggja þann sjóð niður. Í tillögu hans er talað um að þetta eigi að heita Hagræðingarsjóður vegna þess að formaður sjútvn. gerir sér grein fyrir því að ekkert þýði að sigla undir fölsku flaggi. Það er ekki lengur tilgangur þessa sjóðs að úrelda. Til þess eru tekjurnar allt of miklar. Tilgangurinn er auðvitað sá til lengri tíma litið að draga fé í ríkissjóð í gegnum þennan sjóð, skattleggja sveitarfélögin úti á landi, byggðirnar úti á landi, skattleggja sjómennina og útgerðina. Svo geta þeir haldið áfram að sannfæra sjálfa sig um það í bili ef þeim sýnist svo, framsóknarmönnunum, að það muni draga fiskveiðiheimildir norður á Hofsós eða draga fiskveiðiheimildir austur á Breiðdalsvík frá Granda eða Útgerðarfélagi Akureyringa að setja fiskveiðiheimildirnar á opinbert uppboð eins og stefnt er að. Ég tala nú ekki um hvernig fer ef þessi fyrirtæki, sem illa eru stödd mörg hver, eiga ekki aðeins að standa undir þeim skuldbindingum sem þau hafa á sig tekið heldur eiga til viðbótar að greiða verulegt gjald í ríkissjóð fyrir aflaheimildir. Það á að taka nákvæmlega eftir orðanna hljóðan þannig að þar er hvergi hægt
undan að víkjast og væri fróðlegt að spyrja hv. þm. Stefán Guðmundsson hvað hann kallar það að taka 6000 þorskígildistonn af flotanum til að selja sömu mönnum aftur. Ef þetta heitir ekki auðlindaskattur þá veit ég ekki hvað er auðlindaskattur. Það er verið að selja útgerðarmönnum og sjómönnum fiskinn í sjónum við opinberu verði. Þetta er svona einfalt, algerlega ljóst, en á hinn bóginn hálfbroslegt að heyra það frá formanni sjútvn., og ég hlakka til að heyra það af munni hæstv. sjútvrh., að það sé eðlilegt að reikna með því að Úreldingarsjóður kaupi fiskiskip fyrir 600--750 millj. á ári, eitthvað svoleiðis, eigum við að segja 700 millj. til að segja nærri lagi, árlega fyrir 700 millj. til að úrelda. Auðvitað sjá allir að það er algerlega óhugsandi og auðvitað fara þessar 700 millj. upp í milljarð þegar við tölum frekar um sölu á aflaheimildunum. Hér er auðvitað verið að efna til þess að draga fé í ríkissjóð frá sjómönnum og útgerðarmönnum og byggðarlögum úti á landi.
    Það má líka spyrja: Segjum nú svo að maður trúi andartak því sem formaður sjútvn. segir og sem sjútvrh. ætlar væntanlega að segja --- ja, hvað hefur sjóðurinn til ráðstöfunar á næsta ári ef við tökum almanaksárið? Ætli það sé ekki undir öllum kringumstæðum einn milljarður í fé sem má þá verja til að kaupa fiskiskip? Og svo má fá 80% af kaupverðinu að láni með ríkisábyrgð til viðbótar. Hvað hugsa þeir sér að keypt séu fiskiskip fyrir mikið

á ári til að úrelda? Einn togari, tveir togarar, þrír togarar, fjórir togarar, fimm togarar? Hvað ætlar sjútvrh. að láta úrelda mikið á næsta ári? Það er verst að hafa ekki formann sjútvn. hér inni. Eiginlega væri nauðsynlegt að ná í hann. Ég var að biðja um formann sjútvn. Kannski mætti gera hlé á fundinum í svona hálftíma. ( Forseti: Ég vænti þess að hv. formaður komi fljótlega.) Ég þakka fyrir það.
    Ég ætlaði að spyrja formann sjútvn. hvernig hann reiknaði ef sjóðurinn fær 400 millj. í stofnfé og við skulum segja að sjóðurinn hafi á næsta ári 800 millj. til ráðstöfunar og hvað hefur hann í lánsheimildum? Hvað hugsar formaður sjútvn. að hann kaupi mörg skip fyrir það? (Gripið fram í.) Hvað á að gera við þetta uppsafnaða fé sem ella kemur þarna? Til hvers er þessi leikur? Af hverju er verið að skattleggja útgerðina um þetta? Þetta er innan greinarinnar sjálfrar, segir formaður sjútvn. voðalega glaður. Það er verið að skattleggja til sjóðsins innan greinarinnar sjálfrar. Með því er hann að reyna að gefa í skyn að þetta eigi þá að fara aftur til greinarinnar. Hvað ætla þeir að kaupa skip fyrir mikið á næsta ári fram til 1. ágúst? ( StG: Hefur hv. þm. ekki lesið frv.?) Ég hef lesið frv., jú, en hvað ætlið þið að kaupa mikið af skipum og hvernig stendur á því að formaður sjútvn. og sjútvrh. eru, um leið og þeir eru að efna til svona öflugs sjóðs til þess að kaupa fiskiskip til þess að úrelda, að setja það inn í frv. að sveitarfélögin eigi að hafa forkaupsrétt til þess að ekkert skip fari úr byggðarlaginu? Með því að láta sveitarfélögin hafa forkaupsrétt eru þeir væntanlega að reyna að stuðla að því að skipin séu til eða hvað. Það hlýtur að vera sú hugsun á bak við það að þeir vilji hafa skipin í þeim sveitarfélögum þar sem þau eru. Og af hverju eru þeir þá að skattleggja sjávarútveginn svona til þess að kaupa skipin frá sveitarfélögunum sem eiga að hafa forkaupsréttinn? Það hefur ekkert svar komið við því. Það má líka spyrja báða tvo. Hvert er svar þeirra við erindi Sambands ísl. sveitarfélaga að sjóðurinn láni sveitarfélögunum upp að 80% með ríkisábyrgð til þess að staðirnir geti haldið sínum skipum? (Gripið fram í.) Þetta kom fram. Hann hefur kannski ekki verið viðstaddur þegar formaður sveitarfélaganna var á fundi hjá okkur og spurði um það hvort til stæði að
sjóðurinn lánaði sveitarfélögunum til þess að þau gætu stuðlað að því að skipin yrðu kyrr. Hann skildi ekki alveg við hvað var átt með forkaupsréttinum. Þegar ég útskýrði fyrir honum að það væru jarðalög kviknaði pínulítið á perunni, jarðalög um fiskiskip. Það má kannski vísa frv. öllu til landbn., heldur en til sjútvn., og hefði kannski verið skynsamlegra eins og allt er í pottinn búið.
    Auðvitað er þetta þannig að fyrst komast menn að þessari niðurstöðu að nauðsynlegt sé nú að öll fiskiskip séu til og þess vegna er búið til eitthvert apparat sem heitir forkaupsréttur sveitarfélaga til að tryggja að ekkert skip fari frá neinum stað og ekkert skip úreldist. Síðan þegar búið var að gera það hugsa þeir sér með sér: En það er nú ómögulegt að vera að samþykkja einhver lög án þess að til séu sjóðir,

sjóðvitlausir í sjóði alltaf hreint. Og svo er búinn til sjóður. Og þá er að finna fínt nafn: Hagræðingarsjóður, gott nafn, Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins. Ekki er það dónalegt. Mér fannst þingmaður Snæfellinga segja að þetta hljómaði vel í eyrum félagshyggjumanna. Ekki efast ég um það. Óhagræðingarsjóður, segi ég, en þarna er til sjóður og þá verður einhvern veginn að fá peninga í sjóðinn. Já.
    Við skulum segja að tekin séu 12 þús. tonn, þorskígildistonn, af flotanum. Það er nú svolítið mikið. Nú, seljum þeim helminginn til baka á opinberu markaðsverði. Við verðum að hafa eitthvað til skiptanna og svo byrjar þetta fallega. Fyrsta útgáfan sem við fengum var sú að það ætti að selja hin 6 þúsundin til sveitarfélaganna. Svo var það nú ekki nógu gott svona til
lengdar, ekki yfir nóttina. Næsta útgáfa var sú að sumt mætti selja með pínulitlum afslætti. Svo þegar þeir voru búnir að horfa á það smástund, eina nótt í viðbót, þá kom þriðja boðið: Við skulum gefa sumum aflann. Þá eiga sumir að fá aflann gefins, sumir eiga að fá hann við hálfvirði, sumir eiga að fá hann fullu verði og sumir eiga ekki að fá neitt. Eins og gengið er frá lögunum er aldeilis útilokað að Vestmannaeyjar geti fengið sporð. ( Gripið fram í: Aldrei neitt.) Aldrei neitt. Útilokað að Höfn í Hornafirði geti fengið sporð. ( Gripið fram í: Aldrei neitt.) Egill er ekki ánægður með það, vinur minn á Seljavöllum. ( GHG: Eða Ísfirðingar.) Ísfirðingar ekki sporð, ekki Akureyringar eða Eyjafjörður. (Gripið fram í.) Einhverjir fá kannski aðrir. Það var einhver sem spurði mig og var að reyna að gleðja mig með því að segja að kannski gæti Kópasker fengið sporð og vissulega er það rétt að þar er mjög alvarlegt atvinnuástand. ( Gripið fram í: Suðureyri.) En nú skulum við hugsa okkur að einhver staður fái sporð. Nú skulum við vera ósköp elskulegir og bregða okkur til Austfjarða og hugsum okkur að það hittist svo undarlega á að fyrsta gjafasendingin fari til Austfjarða. ( Gripið fram í: Til Vopnafjarðar.) Ég veit ekki hvort ég á að þora að nefna án þess að ég þekki nokkuð til, t.d. Stöðvarfjörð, af því að það eru þarna staðir báðum megin. Ja, Breiðdalsvík er kannski betra, Breiðdalsvík fái kannski úr sjóðnum 1 þús. þorskígildistonn og segi svo við þá frá Fáskrúðsfirði og Eskifirði og Djúpavogi: Ef þið komið nú og leggið upp hjá mér skal ég láta ykkur fá tonn á móti hverju tonni sem þið fáið. Þá er ég búinn að tvöfalda hjá ykkur kvótann á bátunum. Þá verða þeir mjög glaðir, og þá segja þeir: Þá leggjum við ekkert upp heima hjá okkur. Þá leggjum við upp á þeim stað sem er búinn að fá gefins fisk úr fína Hagræðingarsjóðnum hans Halldórs Ásgrímssonar ( GHG: Allt fyrir atkvæðin.) og Halldór Ásgrímsson er búinn að bjarga þeim, þó ekki um þúsund tonn heldur tvö þúsund. Og þá eru góð ráð dýr og þá fara þeir nú að klóra sér í höfðinu í nefndinni og í stjórninni. Æ, vantar nú fisk á Fáskrúðsfjörð og vantar nú fisk á Djúpavog. Og svo fær Djúpivogur fisk. Og þá fara þeir að missa fiskinn á Höfn í Hornafirði því að það er nefnilega þannig

þegar búið er að skammta fiskinn og þegar það er takmarkað sem menn mega veiða, þegar fer vaxandi sá afli sem fluttur er óunninn úr landi og þegar við sitjum uppi með ríkisstjórn sem hefur enga stefnu í fiskvinnslumálum, þegar við sitjum uppi með viðskrh. og utanríkisviðskiptaráðherra sem báðir eru kratar, þá dugir lítið þó einn framsóknarmaður sé sjútvrh., satt að segja, og það hallar á ógæfuhliðina og það er ekki hægt að standa við samninga um útflutning á saltfiski. Og einhvern veginn fækkar þessum sporðum sem eru verkaðir hér á landi. En það má færa þá svona til á milli staða, færa atvinnuleysið til með opinberum sjóði. Og sumir eiga að borga fullt verð og sumir eiga að borga hálft verð og sumir eiga ekki að borga neitt og sumir fá alls engan sporð, ekki einu sinni við tvöföldu verði. Og þetta er nýi Hagræðingarsjóðurinn hjá Framsfl. og þetta er það sem þeir eru að bjóða upp á, félagshyggjupostularnir. Ég er hér um bil viss um að minn gamli og góði vinur Stefán Valgeirsson hristir hausinn, jafnvel hann, yfir þeirri vitleysu sem við sjáum og horfum hér á. ( StG: Ræðumaður á að úthluta úr sjóðnum.) Ég á ekki að úthluta úr sjóðnum. ( StG: Ójú, jú.) Ónei, nei. ( StG: Þú sást nú fyrir því.) Nei, nei. ( StG: Ójú.) Ónei.
    Það er svo enn eitt sem sýnir fumið og fátið í kringum þetta, gleymskuna, um leið og búið er að leggja niður Úreldingarsjóðinn og gera þetta svona að einum útdeilingarsjóði í viðbót. Magnús Jónsson, sá gamli ráðherra, sagði stundum að framsóknarmenn gætu ekki stjórnað án þess að geta gert mönnum greiða. Menn yrðu að fá að fara suður til að fá greiða. Og þarna er nú sjóðurinn kominn til að menn geti látið menn fá pínulítið af óveiddum fiski, fiskveiðiheimildum. En hvernig skyldi standa á því úr því að verið er að bjarga fiskvinnslunni, af hverju má þá ekki fiskvinnslan eiga stjórnarmann? Af hverju má ekki fiskverkafólkið eiga stjórnarmann? Af hverju er gengið fram hjá þeim? Hvað hefur Fiskveiðasjóður með að gera hvernig á að deila fiski milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur? Þetta er auðvitað eitt með öðru. Kannski sjútvrh. hafi betri tök á formanni Fiskveiðasjóðs en Alþýðusambandinu eða Verkamannasambandinu. Ég veit ekki hvernig á þessu stendur en þetta er svolítið skrýtið, mjög undarlegt, og í rauninni mjög kaldar kveðjur til sjómannastéttarinnar sem lýsir sér í því að nú eigi að taka 5% á þessu fiskveiðaári sem ekki er allt eftir uppskrift kratanna eins og hún birtist og síðan er áætlunin um að taka 10% á ári. Um aldamótin er þetta komið upp í 95%. Það munar ekki svo miklu. Kannski má hugsa sér svona fyrst til að byrja með að taka bara 5% á ári, eitthvað svoleiðis, eitthvað lítið fyrst, því að þannig er nú frá þessu gengið að til þess að koma málinu í gegn næst þarf ekki nema bara breyta einni tölu, bara breyta 5% í 10% eða 15%. Það er ekki svo mikið. Kannski 1% á mánuði, eitthvað svoleiðis. Það munar ekki svo mikið frá einum mánuði til annars, 10%, 11%, 12%, 13%, 14%, en fikra sig svona áfram þangað til menn treysta sér ekki lengur til þess að gera út á gamla mátann. Og hvaða menn skyldu það

svo vera sem standa sig best þegar við spyrjum um uppboð á aflaheimildum? Það er verið að tala um byggðirnar, smáu byggðirnar, dreifðu byggðirnar út um allt landið.
Ég þori að veðja. Eigum við að bjóða upp 100 tonn? Annars vegar er Bakkafjörður og hins vegar Útgerðarfélag Akureyringa. Hvor skyldi vinna? ( StG: Hvað segir stjórnarmaður Byggðastofnunar?) Hvor skyldi vinna? Eigum við að taka einhverja aðra staði? Hver skyldi vinna? Ætli Bakkfirðingar mundu bjóða betur heldur en Útgerðarfélag Akureyringa? Sennilega. Sennilega eru þeir svo stæltir á Bakkafirði að þeir hafi ekki roð við þeim hjá Útgerðarfélaginu.
    Út frá þessu var þess vegna náttúrlega mjög undarlegt að formaður sjútvn. skyldi hafa verið að skamma fulltrúa Alþb. fyrir að vilja hrifsa frá sjómönnum og útgerðum um 40%. Hvaða munur er það í raun og veru hvort það eru hrifsuð 5% eða 40% í fyrsta skipti? Er ekki bara Skúli hreinskilnari, hv. þm. þeirra frá Rifi? Þeir þarna undir heiðríkjunni fyrir vestan og undir hinum kalda jökli eru vanir að vera hreinskilnir. 40%, hvað er það? Þrjú og hálft ár, fjögur og hálft ár, að komast í það eftir framsóknarleiðinni. (Gripið fram í.) Þeir segja alltaf að það eigi að fara hægt, svona varlega, taka þetta í þrepum og læðast svolítið. Þetta tekur ekki mjög langan tíma. Og ég veit að formaður sjútvn. mun standa sig vel núna í haust þegar þeir segja við hann: Þetta var ekki nóg með 5%. Nú átti að bæta pínulitlu við. Það er svolítið gat í fjárlögunum. Ef við hækkum 5% í 10%, getum við þá ekki náð í einn milljarð í fjárlögin? Ég þykist vita að ... ( Gripið fram í: Hvenær taka lögin gildi?) Lögin taka gildi um áramót. (Gripið fram í.) Nú, hefur hann ekki lesið heima? Á þetta ekki að byrja á næsta ári?
    Ég held að málið sé svona einfalt. Málefnin voru tekin úr höndum sjútvn. Þeir þingmenn sem lengst höfðu unnið að málinu voru settir til hliðar. Í staðinn var kallað á hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. og þeir voru enga stund að kokka nýja fiskveiðistefnu. Og auðvitað datt þeim ekki í hug að bera þessa nýju fiskveiðistefnu undir hagsmunaaðila því að hæstv. sjútvrh. vissi að það þýddi ekki neitt svo að hann bara fór hina leiðina. En ég veit ekki hvort hann gerði sér grein fyrir því þá að um leið hefur staða hans sem sjútvrh. breyst í grundvallaratriðum. Hann er ekki á sama stað og áður í sínum stól. Hann hefur kosið að fara aðra leið en hagsmunasamtökin kusu og hann er kominn í hreina andstöðu við útgerðarmenn, fiskverkendur, sjómenn og fiskverkafólk. Það er nú kjarni málsins.
    Formaður sjútvn. sagði að það væri hyldýpi á milli okkar nefndarmanna þegar við hittumst. Það er líka rangt. Formaður sjútvn. hefði vel getað myndað meiri hluta með fulltrúum Sjálfstfl. á þeim grundvelli sem við unnum á í samstarfsnefndinni, ráðgjafarnefndinni. Það er því algjörlega rangt að það hafi verið hyldýpi milli manna. Staðreyndin er sú að formaður sjútvn. vildi ekki mynda meiri hluta á þeim grundvelli sem við unnum á í ráðgjafarnefndinni. Þetta er kjarni

málsins. Og þess vegna er komið sem komið er. Þess vegna er þetta mikla hagsmunamál í mínum huga hætt að vera langtímamál, orðið að dægurmáli, flugu, og maður hefur ekki hugmynd um það milli 2. og 3. umr. nema formennirnir hafi komið sér saman um eitthvað allt, allt annað. Það gengur hér á göngunum að meira að segja sé þetta mál hér notað sem verslunarvara í umfjöllun um önnur mál í stjórnarmeirihlutanum. Ég geri t.d. ráð fyrir því, herra forseti, að hæstv. umhvrh. detti ekki í hug, það hvarfli ekki að honum, að gera neina grein fyrir því á hvaða forsendum hann geti fylgt því frv. sem hér liggur fyrir á eftir og greitt atkvæði með því á eftir. Hvaða efnislegar ástæður skyldu liggja til þess? Og hvernig stendur á því að viðskrh. sem bjó til kaflann um auðlindaskattinn situr ekki fyrir svörum hérna inni hjá okkur? Svarið er auðvitað þetta: Þingið varðar ekkert um þetta. Við skiptum engu máli hér inni. Þegar við töluðum um orkuskattinn kom það tvisvar fyrir að orkuráðherrann hljóp í sjónvarpið hér niðri í Kringlunni og gaf þar yfirlýsingar í staðinn fyrir að gefa þær hér uppi af því að hann vissi að það mundi enginn svara í sjónvarpinu. Hann mundi ekki heyra til þeirra sem voru heima hjá sér að horfa á þetta og blöskraði. Og aumingja iðnrh. hélt að allir væru sammála sér af því að hann heyrði ekki í einum einasta manni. Og eins fer fyrir þeim núna. Þeir tala í sjónvarpið. Þeir heyra ekki að sjómennirnir eru að reiðast, að útgerðarmenn skilja ekki hvað er að gerast, að fiskverkendur sjá fram á mikla erfiðleika, tala í sjónvarpið og halda að allir séu sammála þeim. En það er ekki þannig.
    Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Málið liggur svona fyrir. Við áttum gott samstarf, ég og ráðuneytisstjóri sjútvrn. og starfsmenn sjútvrn. í ráðgjafarnefndinni, og ég vissi ekki betur en í grundvallaratriðum væru sjónarmið mín hin sömu og formanns sjútvn. Ed. Þegar að því kom að velta því fyrir sér hvort skipti meira máli, heilbrigð stefna í sjávarútvegsmálum eða óheilbrigð ríkisstjórn, kom það í ljós að í huga formanns sjútvn. skipti ríkisstjórnin meira máli en sjávarútvegurinn. Og formaður sjútvn. gerði enga tilraun til þess að ná efnislegri niðurstöðu með þingmönnum Sjálfstfl. Það er nauðsynlegt að þetta komi fram vegna þeirra ósönnu ummæla formanns sjútvn. að hyldýpi hafi verið milli allra nefndarmanna. Hafi hyldýpið verið hefur það verið í því fólgið að fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni hafa ekki sjónarmið sín til sölu þegar þeir eru að tala um stefnu í sjávarútvegsmálum.