Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 4. minni hl. sjútvn. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegur forseti. Ég held að þessi umræða sé að mörgu leyti dæmigerð fyrir stöðu Alþingis í stjórnkerfi þjóðarinnar. Hér er á síðustu dögum þings verið að keyra í gegn það mál sem varðar mest lífsafkomu og stöðu íslenskrar þjóðar á næstu árum og áratugum og þá er málum stillt --- ég vildi að hæstv. umhvrh. sæti undir svona ræðum, hann hefði þörf fyrir það. Ég held að hann hafi gott af því að heyra það. Það vill svo til, hæstv. ráðherra, að það sem gerist í þessu húsi snýst um annað og meira en það hvort menn séu ráðherrar eða ekki. Það er ómerkilegt fyrirbrigði ef út í það er farið og ráðherrar koma og fara eins og strá fyrir vindi.
    Ég var að segja það, virðulegi forseti, að þessi umræða hér og það sem hér er að gerast væri táknrænt fyrir þá niðurlægingu sem framkvæmdarvaldið á Íslandi er búið að koma löggjafarvaldinu og Alþingi Íslendinga í. Hér erum við, hv. alþm., kosnir af þjóðinni til þess að fjalla um mikilsverð mál og þetta mál sem hér er til umræðu er það mikilsverðasta. Hér er raunverulega verið að taka afstöðu til þess hvernig lífsafkoma Íslendinga verður á næstu árum og áratugum. Við erum að reyna að komast að niðurstöðu um það hvernig á að skipta þeim auðæfum, þeim tekjum sem sjávaraflinn gefur íslenskri þjóð. Þá er málum þannig stillt upp af hálfu þeirra sem hafa mjög nauman meiri hluta á hinu háa Alþingi að þetta mál skuli keyrt í gegn á nokkrum dögum, örfáum klukkutímum, og hugsanlega með eins atkvæðis mun í þessari hv. deild.
    Nú eru kannski hv. þm. sem hafa setið lengi orðnir svo vanir því að svona vinnubrögð skuli viðhöfð, enda munu þau hafa verið tíðkuð af öllum flokkum í gegnum tíðina, illu heilli. Ég segi fyrir mitt leyti að það er orðið fullkomlega tímabært að hv. þingmenn taki það alvarlega sem þjóðin er að gefa stjórnmálamönnum til kynna núna síðustu mánuðina í gegnum svonefndar
skoðanakannanir. Það segir sína sögu, en er náttúrlega traustvekjandi fyrir Sjálfstfl. þar sem Sjálfstfl. hefur komið mjög sterkt út úr skoðanakönnunum, það segir sína sögu að mikill meiri hluti íslenskrar þjóðar er á móti núverandi ríkisstjórn og er búinn að vera það í rúmt ár. Hún hefur ekki traust á þeim mönnum sem fara með völdin og hún hefur hina mestu skömm á því hvernig þeir menn tryggja sér völd með því að, ég segi ekki að kaupa sér stuðning stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka en haga alla vega málum þannig að það hentar þeim sem völdin vilja hafa, og á það sérstaklega við um tvo flokka sem eru í núv. ríkisstjórn, þ.e. Framsfl. og Alþfl. Þar er höndlað þannig með hin mikilsverðustu mál, þar á meðal það mál sem hér er til umræðu, að það er ekki aðeins þingheimi til háborinnar skammar og íslenskum stjórnmálamönnum heldur mun það hugsanlega verða þjóðinni til mikils skaða. Og það sem verra er, að þetta á eftir að hafa mjög neikvæð áhrif úti í

strjálbýlinu, úti í byggðum landsins þar sem sjávarútvegur er einkum stundaður.
    Það sem hér er að gerast er miklu meira og stærra í sniðum en það að menn geti hugsað um það hvernig hægt er að framlengja líf einnar ríkisstjórnar, hvort sem þar er um eitt eða fleiri ár að ræða. En það eitt er víst að þegar Íslendingum verður það ljóst, eftir þá umræðu sem fram hefur farið hér nú þegar í Ed. Alþingis og á eftir að fara fram í Nd., munu þeir ekki veita þeim flokkum brautargengi sem hafa staðið þannig að þessu lífshagsmunamáli sem við erum að fjalla um. Þeir munu ekki veita þeim mönnum brautargengi í næstu kosningum sem geta ekki gefið sér þriggja mánaða umhugsunarfrest til að fjalla um þá grundvallarbreytingu í stefnumörkun sem hefur orðið við það að samtengja frv. til laga um fiskveiðistjórn annars vegar og frv. til laga um Úreldingarsjóð hins vegar. Þar á ég við það sérstaklega að með þessu frv. er verið að fara inn á braut auðlindaskatts sem mun gjörbreyta ekki aðeins útfærslu íslenskrar útgerðar og fiskvinnslu heldur einnig eignastöðu og eignarhaldi Íslendinga sjálfra og hugsanlega andspænis auknum áhrifum erlendra aðila í sambandi við íslenska útgerð. Að þessu hefur ekki verið hugað, en ég vara hv. þm. við því og sérstaklega þá sem hugsa sér að greiða frv. atkvæði hér á eftir að afleiðingar þess og þess hvernig þingræðið er fótum troðið í mikilsverðustu málum þjóðarinnar geta orðið mjög alvarlegar, ég vil segja hrikalegar, fyrir landið og þjóðina, það fólk sem býr hér og vill búa. En mottóið er, því miður, allt skal gert fyrir völdin. Það kom skýrt fram, ekki aðeins í svörum þeirra sem eru talsmenn frv. sem er til umfjöllunar hér eða ýmissa hv. þm. sem hafa talið sig vera stuðningsmenn núv. ríkisstjórnar.
    Það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. þm. Skúla Alexanderssonar að það er ekki aðeins að stjórnarandstæðingar séu óvirtir, það er ekki aðeins að lífshagsmunir þjóðarinnar séu óvirtir, heldur eru sjónarmið þeirra þingmanna sem fylla þessa flokka, sérstaklega á ég þar við hv. þm. Skúla Alexandersson, sjónarmið og aðvaranir þessara manna, fótum troðin af hálfu þeirra manna sem vilja sitja við völd í skjóli þess að þeir hafa verið kosnir á Alþingi Íslendinga. Þeir hirða hvorki um heiður né skömm.
    Það er mjög athyglisvert að hlusta á það þegar jafnheiðvirður maður og hv. þm. Skúli Alexandersson er lýsir því hér yfir í þingræðu að hann hafi fengið
stuðning þingflokks Alþb., þ.e. þess flokks sem hann hefur starfað fyrir og veitt brautargengi til valda, þegar hann lýsir því yfir að þessi þingflokkur hafi tekið afstöðu með hans tillögum. Þessi þingflokkur samþykkir og herðir á afstöðu þessa hv. þm. og ráðherrarnir fara með þessa samþykkt inn á fund ríkisstjórnar. Og hvað gerist? Það sem gerist þar í einföldu máli er þetta, eins og hv. þm. lýsti: Allt það sem hann hefur lagt til, allt það sem þingflokkurinn hefur samþykkt og þar á meðal þeir ráðherrar sem báru skilaboðin inn í ríkisstjórnina, er hundsað, það skiptir engu máli. Svona vinnubrögð tíðkast ekki í

lýðræðisríkjum. Þau tíðkast í ríkjum þar sem örfáir valdamenn hafa tryggt sér valdastöðu og völd og gera það með öllum ráðum. Þetta eru aðferðir manna sem í skjóli valda lítilsvirða fólk og fótumtroða skoðanir annarra.
    Það vill svo til að í tvo áratugi hefur einn flokkur, Framsfl., verið við völd á Íslandi og hann hefur raunverulega haft ráð allra þingflokka í hendi sinni eftir því hvernig mál hafa skipast. Nú þykir það gott á þeim bæ, í Framsfl., að sitja ætíð að völdum. Það kom fram í ræðu hv. formanns sjútvn. áðan að vér einir eigum að vera við völd af því að vér einir getum leyst vandamál annarra. En það ætla ég að segja hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að svo er guði fyrir að þakka að meginþorri Íslendinga hefur ekki þurft á því að halda að leita á náðir Framsfl. né yfirleitt á náðir annarra stjórnmálaflokka því að Íslendingar hafa sem betur fer getað starfað og lifað í þessu landi án þess að þurfa að eiga allt sitt undir stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum, og ég segi guði sé lof. Ég mun víkja nokkuð nánar að því hér á eftir. Það sem skiptir hins vegar máli og þau skilaboð þurfa að komast til þjóðarinnar er þetta: Framsfl. hagar sér í einu og öllu eins og flokkur sem ætíð ætlar sér að vera við völd og það skiptir hann engu máli hvernig hann tryggir þessi völd. Þetta er kjarni málsins. Svo geta hv. þm. Framsfl. brosað og glott hér. Það er þeirra háttur. En það segi ég við ykkur, góðu herrar ( VS: Og konur.): Þið skuluð vara ykkur. Ég undanskil hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. ( Gripið fram í: Já. Á að hlífa henni?) Það þarf ekki að hlífa hv. 5. þm. Norðurl. e. því ég veit að hún er ekki framsóknarmaður þeirrar gerðar sem ég var að lýsa hér áðan. ( Gripið fram í: Nú lá þingmaðurinn í því.) Það vill svo til að þessi ágæti þingmaður er flokksbundinn í Framsfl. en það þýðir ekki að hún sé búin að framselja sig eða samvisku sína þeim flokki sem ég var að lýsa hér áðan. Hv. þm. hefur aðeins setið hér í þrjú ár á þingi og á eftir að sýna það og sanna í sínum verkum hér að hún mun ekki styðja slíkan flokk til frambúðar. Hún mun annaðhvort reyna að hafa áhrif til breytinga í þessum flokki þannig að Framsfl. átti sig á því að það að hann skuli ætíð vilja sitja að völdum hvað sem það kostar hæfir ekki samvisku manns eða þjóðar. Það mun hv. þm. skynja mjög fljótt og hefur gert nú þegar að mínu mati. Málflutningur hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur er allt annarrar gerðar heldur en hv. þm. Stefáns Guðmundssonar án þess að farið sé nánar út í það.
    En ég var að vekja athygli á því með hvaða hætti framsóknarmenn hafa tryggt sér völd á Íslandi, hvaða afleiðingar þetta hefur haft fyrir einstaka flokka, fyrir afgreiðslu mála og fyrir lífsstöðu og viðhorf og afkomu Íslendinga yfirleitt. Það er ekki neitt skemmtiefni fyrir okkur, þótt stjórnarandstæðingar séum, að hlusta á það að völd þessara manna, því þeir ráða ferðinni í sambandi við sjávarútvegsmál, eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson kom inn á hér áðan, að þeir skuli ganga svo langt í að tryggja sér völdin að jafnvel heiðvirðustu menn þurfa að horfa upp á

það að skoðanir þeirra og jafnvel lífsstarf, því að hér er um að tefla lífsstarf margra í sambandi við útgerð, skuli fótum troðin af flokksbræðrum þeirra til þess að tryggja það að útvaldir menn sitji að völdum á Íslandi. Þetta er kannski gamanmál fyrir þá sem eru í stjórnmálum fyrst og fremst til þess að tryggja sér og sínum völd á kostnað annarra, því að um það snýst þetta frv. m.a. eins og það er orðið eftir þær breytingar sem ráðherrarnir komu sér saman um að gera á frv. til laga um fiskveiðistjórnun og Úreldingarsjóð ... (Gripið fram í.) Þetta, virðulegi forseti, er dæmigert um framkomu framsóknarmanna að þegar þeir eru rökþrota, þegar umbúðalaust er talað við þá, ráðast þeir að mönnum fyrir það að hafa lifað og starfað óháð, sjálfstætt úti í þjóðlífinu, þá er farið að tengja það því starfi sem viðkomandi hefur haft. Það lýsir því vel hvernig framsóknarmenn hugsa. Þeir samtengja alltaf hagsmuni, flokkshagsmuni og aðra hagsmuni. Það gerum við hinir ekki.
    Hv. þm. Skúli Alexandersson kom hér inn á það hvernig þingflokkur Alþb. hefði tekið undir tillögur hans og hert á þeim. En síðan gerist það að unnið er með óhæfilegum hætti að framgangi þessara mála af hálfu ráðherra Alþb. Það er gert til þess að tryggja völd, þóknast sérstaklega Alþfl. og Framsfl., sem sagt framlengja völdin.
    Hv. þm. Guðmundur Ágústsson, sem því miður er ekki hér í salnum, hagaði sínum málflutningi hér áðan, virðulegi forseti, með þeim hætti að hann þyrfti að vera hér til að hlusta á það hvernig honum er svarað. Hv. þm. réðist m.a. að meiri hl. sjútvn. Ed. fyrir það að vilja gefa fulltrúum útgerðar,
sjómannastéttarinnar og fiskverkafólks tækifæri til að fjalla um stefnuna í fiskveiðistjórnun í ljósi gjörbreyttrar afstöðu núv. ríkisstjórnar til útfærslu þessara mála. Hv. þm. Guðmundur Ágústsson taldi það ekki ómaksins virði að vísa því til þessa fólks, þ.e. til samráðsnefndarinnar, ráðgjafarnefndarinnar, til frekari umfjöllunar. Hann taldi það ekki ómaksins virði að fjalla í samráðsnefndinni, með hagsmunaaðilum eða fulltrúa þeirra, um hugmyndir og framkvæmd núv. ríkisstjórnar í sambandi við auðlindaskatt í áföngum. Hann taldi það ekki ómaksins virði að ræða um þau miðstýringaráform sem yrðu auðvitað til bráðabirgða því að það liggur í augum uppi að eftir því sem skattlagning ykist á grundvelli auðlindaskatts, þá mundi auðvitað miðstýringin fjara út. Það vildi hv. þm. ekki fjalla um eða láta fjalla um í ráðgjafarnefndinni.
    Ég ætla ekki að ræða um þau skeyti sem hann beindi að Sjálfstfl. Þau eru ekki svaraverð. En eitt ætlaði ég að segja við þennan hv. þm.: Hann hefur hugsanlega ekki athugað það að af þeim fjórum, þ.e. meiri hl. í sjútvn. Ed., af sjö sem leggja til að vísa þessu máli aftur til ráðgjafarnefndarinnar eru þrír sem hafa haft lífsframfæri sitt af störfum í sambandi við útgerð og fiskvinnslu. Þetta eru aðilar sem hafa öðlast reynslu og þekkingu á þessum málum og ég vil segja umfram aðra hv. þm. þó að ég ætli ekki að gera lítið úr þeirra skoðunum né þeirra viðhorfum því að ég

geri ráð fyrir að þeir styðjist við góða ráðgjöf í sambandi við málefnalega afstöðu þeirra til þessa máls. En ég held að hv. þm. Guðmundur Ágústsson hefði getað sparað sér stóryrðin í sambandi við afstöðu einstakra þingmanna til málsins og þess að vísa frv. báðum til ráðgjafarnefndarinnar.
    Ég vil síðan, virðulegur forseti, beina orðum mínum til formanns sjútvn. Ed., hv. þm. Stefáns Guðmundssonar. Hann sagði að búið væri að fjalla nægilega mikið um fiskveiðistjórnunarmálin í ráðgjafarnefnd. Það er eins og hv. þm. vilji ekki skilja það eða vilji ekki ræða það að ráðherranefndin og till. ríkisstjórnar og þær brtt. sem ráðherrarnir eru með gjörbreytir forsendum frv. til laga um fiskveiðistjórnun. Það er eins og hv. þm. Stefáni Guðmundssyni sé fyrirmunað að skilja að þarna hefur orðið á grundvallarbreyting. Hann vill ekki skilja það vegna þess að það skiptir hann engu máli. Hans markmið eða framsóknarmanna er ekki að ganga frá lögum um fiskveiðistjórnun sem þjóna hagsmunum útgerðar og fiskvinnslu eða þeirra sem þar starfa. Það er verið að ganga frá frv. til laga sem þjóna betur valdahagsmunum þeirra sem eru í forustu fyrir Framsfl., Alþfl. og Alþb. Þeim er algerlega sama um það hvort það skerðir eitthvað hagsmuni eða afkomu fólksins í útgerð. Það er framlenging valdanna sem er númer eitt og tvö og tilfærslan í sambandi við útgerð og fiskvinnslu til frambúðar sem skiptir þessa menn höfuðmáli. Það sem þeir eru raunverulega að reyna að gera hér með atkvæðum Borgfl. er að tryggja völd þriggja manna ef þeir ná kosningu inn á þing á ný. Það er hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, það er hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson og það er hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson. Þetta er liður í því að reyna að tryggja og framlengja völd þessara manna eftir næstu alþingiskosningar. Það er ekki verið að gæta eða hugsa um hagsmuni útgerðar, fiskvinnslu eða þess fólks sem starfar í þessari atvinnugrein. Það er fyrst og fremst verið að tryggja það að þessir menn geti hagað málum þannig eftir næstu kosningar að þeir framlengi sín völd. En það er líka gert á kostnað íslensku þjóðarinnar og sérstaklega þeirra sem starfa í sjávarútvegi og fiskiðnaði.
    Hér sagði hv. þm. Stefán Guðmundsson áðan: Framsókn hefur þurft að leysa vanda sjávarútvegs eins og framsókn hefur þurft að leysa vanda landbúnaðar. --- Já, hv. þm. hneigir sig til samþykkis. Hver er staða íslensks landbúnaðar? Íslenskur landbúnaður hefur verið í tröllahöndum í áratugi, í hnappeldu Framsfl. í því kerfi sem Framsfl. hefur ofið og búið til í kringum íslenska bændur. Það veit alþjóð. Það vita allir að Framsfl. hefur gætt þess sérstaklega að hagsmunagæslumenn þeirra hafa verið í öllum helstu embættum hins opinbera sem snúa að landbúnaði. Framsóknarmenn hafa með sinni landbúnaðarstefnu tryggt sér völd, ég vil segja á kostnað samvinnuhreyfingarinnar, á kostnað samvinnuhugsjónarinnar hafa þeir í gegnum kaupfélögin tryggt það að kaupfélögin og samvinnuhreyfingin hefur gjörsamlega innrammað

íslenska bændastétt í kerfi sem hefur gert hana fátækari. Þetta er sú stefna sem framsóknarmenn ætla að framkalla og innleiða í íslenskum sjávarútvegi.
    Nei, hv. þm. Stefán Guðmundsson. Framsfl. leysir ekki vanda annarra en Framsfl. byggir upp múra og lokar inni stéttir og hagsmuni sjálfum sér og sínu valdi til þess að tryggja það að þeir geti alltaf annaðhvort samið til vinstri eða hægri en ætíð setið að völdum. Þessi þröngi, sterki valdakjarni Framsfl.
    Nú er röðin komin að sjávarútvegi. Nú ætlar Framsfl. að bjarga sjávarútveginum. Ég mundi orða það þannig: Nú ætlar Framsfl. endanlega að hlekkja sjávarútveginn í viðjar framsóknarvaldsins, skömmtunarvaldsins, þess valdakerfis sem mun leiða til hinnar mestu ógæfu fyrir alla þá sem aðild eiga að þessu máli. Þetta er sú framsóknarstefna sem Íslendingar vilja ekki.
    Þessi tvö frv., frv. til laga um fiskveiðistjórnun og frv. til laga um Hagræðingarsjóð, eru dæmigerð framsóknarstefna um það hvernig Framsfl. ætlar að tryggja sér og sínum yfirráð yfir sjávarútvegi Íslendinga í framtíðinni. Það þarf ekki annað en að skoða frv. til að sjá það hvernig sjútvrh. á að hafa algert vald yfir því hvernig sú stefna á að vera útfærð í sambandi við þann kvóta sem byggðarlög eiga að fá til ráðstöfunar. Það verður nefnilega á valdi ráðherrans, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að ákveða hverjir skuli fá hluta af þessum kvóta sem keyptur verður, eða seldur réttara sagt, eða ekki seldur, þá er það á valdi ráðherra hverjir skuli fá hann frítt. Ef ekki hefur verið afhent mikið vald til eins manns til ákvörðunar þá skil ég ekki íslenskt mál. Staðreyndin er sú að í skjóli auðlindaskatts eru þessir tveir flokkar sérstaklega, Framsfl. og Alþfl., ef Alþfl. lifir af næstu kosningar, að tryggja að þeir geti samið við aðra flokka um það hvernig þeir geti hagað sínum valdaferli áfram langt fram í framtíðina. Þessi frv. eru veigamikill þáttur í þeirri valdaútfærslu. Það fer ekki á milli mála. Þess vegna verður að gefa fulltrúum hagsmunaaðila og íslensku þjóðinni kost á að fjalla frekar um þessi tvö frv. Vegna þess að það er vitað, en hæstv. sjútvrh. vill ekki láta koma fram, að fari þessi mál aftur inn í samráðsnefndina mun þeirri stefnu verða hiklaust og ákveðið hafnað af þeim aðilum sem þar eru til staðar.
    Ég vil svo, virðulegur forseti, ítreka enn á ný þátt Alþfl. í þessu örlagaríka máli. Hv. þm. Stefán Guðmundsson sem talaði hér á vegum Framsfl. vildi gera lítið úr því hvernig ráðherrum Alþfl. tókst að koma inn ákvæði í sambandi við auðlindaskatt. Það er rétt sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan, það skiptir ekki máli hvort hér er um 2%, 5% eða 10% að ræða, það er búið að viðurkenna þetta prinsipp og það verður ekki aftur tekið verði þessi tvö frv. að lögum. Því til staðfestingar að þessi skilningur er réttur hjá okkur, þ.e. skilningur okkar á því hverju alþýðuflokksmenn hafa áorkað, vil ég lesa upp úr bókun þingflokks Alþfl. um frv. til laga um stjórn fiskveiða. Hún er dagsett 23. apríl 1990. Þar segir svo, með leyfi forseta:

    ,,Það er skoðun þingflokksins að á næstu árum eigi að stefna að því í áföngum að rjúfa tengslin milli skipa og veiðiheimilda þannig að Aflasjóður`` --- sem heitir nú Hagræðingarsjóður --- ,,fái aukna veiðiheimild til ráðstöfunar. Þingflokkurinn telur eðlilegt að ákvæði frv. til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa verði felld inn í frv. um stjórn fiskveiða enda eiga þau þar heima eftir eðli máls.`` Eftir eðli máls. Hér er það staðfest ótvírætt. En það er nú svo, hv. þm., eins og hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan, það er til lítils hugsanlega, og þó, að ræða hér málefnalega um þessi frv. vegna þess að þeir sem eru ákveðnir í því að vera við völd hlusta ekki á aðra. Þeir ætla að láta tímann eyða áhrifum þess að hér á hinu háa Alþingi hafi verið þingmenn sem hafi leyft sér að benda á hvert væri verið að stefna, þ.e. þeir sem hafa stefnu og skoðun sem hentar ekki valdhöfunum. Þeir treysta á tímann og valdið. En ég segi fyrir mitt leyti að sem betur fer á ég von á því að það takist ekki vegna þess að fleiri en við hv. þm. sem höfum fjallað um þetta með gagnrýni, eins og meiri hl. sjútvn. Ed. hefur gert, eigum miklu fleiri fylgismenn við þessa skoðun en núv. hæstv. ríkisstjórn vill viðurkenna. Íslendingar munu sjálfir koma í veg fyrir það að þessi áform takist í næstu alþingiskosningum.
    Ég vil síðan, virðulegur forseti, undirstrika þá skoðun okkar sjálfstæðismanna að í því frv. til laga um fiskveiðistjórnun sem kom út úr samráðsnefndinni var um það að ræða í meginatriðum að þar hefði verið hægt að ná sátt um ákveðin meginatriði frv. þó við sjálfstæðismenn hefðum áskilið okkur að leggja til ákveðnar breytingar á einstökum atriðum. Því var hafnað af hæstv. núv. sjútvrh. að vilja nálgast þau sjónarmið sem bæði honum og öðrum hv. þm. sem tóku þátt í störfum samráðsnefndar var kunnugt um. Því var hafnað að við gætum afgreitt eitt og sér frv. til laga um fiskveiðistjórnun með þeim hætti að öllum þeim hagsmunum sem ég hef lýst bæði í minni ræðu nú og í fyrri ræðu væri ekki teflt í hættu. Þessu var hafnað. Því var hafnað fyrir samstarf við flokka sem hafa það yfirlýst á stefnuskrá sinni að þeir vilji skattleggja íslenskan sjávarútveg. Þetta eru flokkar sem vilja í skjóli stjórnmála og valds ráða yfir Íslendingum, þrátt fyrir það að meginþorri þjóðarinnar hafi margsinnis lýst yfir andstöðu sinni við útfærslu þeirra valda sem þessir flokkar hafa tekið sér.