Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 5. minni hl. sjútvn. (Skúli Alexandersson):
    Herra forseti. Ég hef áhuga fyrir því að hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefán Guðmundsson, form. sjútvn., væri hér. Er hann hér? Já. Hann nefndi það í seinni ræðu sinni að við sem höfum fjallað um þetta frv. hefðum látið í það skína og jafnvel haldið því fram mjög ákveðið að málið hefði verið illa undirbúið. Ég vil vísa þessu til föðurhúsanna eins og öðru því sem málsvarar þessa frv. hér, og þá fyrst og fremst hann, maður hefur nú lítið heyrt í öðrum, hafa haldið fram við umræðuna. Þessu var alveg öfugt farið. Ég hef undirstrikað það að sú vinna sem átti sér stað í ráðgjafarnefndinni, og síðan hvernig þessu máli var skilað til sjútvrn., var öll af því góða og það var mjög vel unnið. Og einmitt út af því er það alveg hörmulegt hvernig komið er nú við afgreiðslu málsins.
    Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni lá það alveg ljóst fyrir þegar málið kom hér til umfjöllunar í hv. deild 23. febr. hver afstaða stjórnarflokkanna var til málsins. Þar var ekki verið að leyna einu eða neinu. En þeir sem réðu ferðinni við vinnuna hér á hv. Alþingi virtust ekki gera sér grein fyrir þeirri stöðu. Og það var ekki gerð nein tilraun, eins og ég sagði hér áður, til að samræma sjónarmið ríkisstjórnarflokkanna. Kannski í öryggi þess að hvernig sem færi þá væri þó alltaf meiri hluti með Sjálfstfl., eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var að benda á hér áðan, að þeir sjálfstæðismenn hefðu boðið upp á að standa að meiri hluta með ... (GHG: Við buðum aldrei upp á það.) Þú nefndir hér, hv. þm., að það hefði legið ljóst fyrir. ( GHG: Við buðum ekki upp á það.) Þið buðuð ekki upp á það. Þá hef ég misskilið hv. þm. En einhvern veginn voru nú hlutirnir á þann veg að ekkert var gert í málinu fyrr en 21. apríl.
    Það er tímabilið frá því að málið kemur hér inn í þing og þar til að ráðherrarnir fara að þreifa á möguleikum til þess að ná samstöðu sem er látið
fara forgörðum. Það eru vinnubrögð sem ég hef verið að deila á. Ekki á formann sjútvn., hann stóð sig þar með mikilli prýði. Ég hef gleymt að nefna það líka að starfsmaður ráðuneytisins, Kristján Skarphéðinsson, sem sat alla eða flesta fundi sjútvn., stóð sig með mikilli prýði og veitti okkur allar þær upplýsingar sem við báðum hann um af sérstakri ljúfmennsku og sýndi okkur mikla þolinmæði. Ég sagði það á nefndarfundi að Kristján var alveg sérstakur miðað við það sem sumir fulltrúar ráðuneyta hafa verið. Þeir hafa sumir hverjir komið fram eins og það væru þeir sem ættu að ráða því hvernig málin yrðu í lokin. En það er af og frá að ráðuneytisfulltrúinn Kristján Skarphéðinsson hafi sýnt eitt eða neitt í þeim dúr. Hann var fyrst og fremst til aðstoðar og vann sitt verk mjög vel fyrir okkur í nefndinni.
    Hitt vil ég svo undirstrika að málið var vel undirbúið. Og það var alveg óþarfi að láta hlutina fara á þann veg sem núna blasir við, ef þingtími verður ekki framlengdur, að hv. Nd. fái ekki nema einn eða

tvo sólarhringa til að fjalla um þetta mikilsverða mál. Það er ekki því að kenna að málið hafi ekki verið rætt og ekki hafi legið ljóst fyrir þegar það kom hér inn í þingið hvernig það stóð.
    Annað málefni nefndi hv. þm. Stefán Guðmundsson, en það var það að ég hélt því fram að á tímabili þeirrar fiskveiðistjórnunar sem við búum við núna hefði gæðum hráefnisins frekar hrakað en hitt. Ég held þessu enn fram. Hitt er svo annað mál að verðmæti sjávarafla hefur hækkað og er enn að hækka en það er ekki vegna þess að afurðir okkar séu að batna. Því miður er það ekki á þann veg. Það er vegna þess að skortur er á fiski, síminnkandi afli annarra þjóða veldur því að verð á þessari vöru fer mjög hækkandi.
    Skýrsla OECD sem okkur var sagt frá í fréttum í dag upplýsir okkur raunverulega um þessa stöðu. Hún upplýsir okkur um þá stöðu hvað fiskverðmætin okkar hafa því miður ekki skilað okkur því sem þau ættu að gera. Þar er sagt að framleiðsla þjóðarinnar hafi ekki aukist sem skyldi og það er fyrst og fremst vegna þess að við höfum ekki getað notfært okkur þessar miklu hækkanir á afurðunum vegna þess að við höfum ekki skilað nógu góðri vöru. Undir þessari fiskveiðistjórn hefur gæðum hráefnis verið að hraka. Ekki eingöngu á þann veg að fiskurinn sem við höfum flutt að landi hafi ekki batnað, við skulum segja að það hafi verið óbreytt ástand, heldur á hinn veginn að sá fiskur sem við höfum verið að flytja að landi, það er þorskurinn sem ég á við þar og jafnvel ýsa, hafi verið smækkandi fiskur. Við vitum öll sem hér erum og þarf ekki að upplýsa neinn um það að því smærri sem fiskurinn er, því minna verðmæti fáum við fyrir hann á erlendum mörkuðum og því dýrara er að vinna hann, því meiri kostnaður. Þetta er ein afleiðing þeirrar fiskveiðistefnu sem við höfum búið við. Okkur hefur ekki tekist að byggja upp þorskstofninn sem skyldi, eins og við ætluðum okkur. Okkur hefur mistekist sá þáttur og okkur hefur mistekist það að færa að landi verðmætara hráefni en við gerðum áður. Það hefur farið á hinn veginn.