Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég hef auðvitað ekki á móti því að atkvæðagreiðsla verði hér við 2. umr. en ég geri ráð fyrir því að hæstv. forseti hafi hlé á fundum þegar atkvæðagreiðslu er lokið og þá fáum við fréttir af því ef það er rétt að við höfum nógan tíma til þess að meta stöðuna eftir atkvæðagreiðslu. Þá er það auðvitað mjög fróðlegt og þá er í fyrsta lagi alveg út í hött að draga okkur hér inn í hliðarherbergi áðan, eins og lægi á, út af tillögu sem átti að koma fram við 3. umr. Það eru ýmis álitamál uppi sem nauðsynlegt er þá að athuga nánar og þá liggur líka alveg ljóst fyrir að það verður ekki þingfundur á morgun því það eru eldhúsumræður annað kvöld. Það er því mjög nauðsynlegt að fá upplýsingar um þetta ef svo er. ( Gripið fram í: Er ekki hægt að fá forsrh. til þess að gefa skýringar?) Við erum að vísu vanir því að fá ólíkar fréttir svona eftir því við hvern við tölum úr stjórnarherbúðunum og stendur kannski ekki allt ýkja lengi sem sagt er.
    Við tókum umræðuna um Úreldingarsjóðinn létt, nema formaður sjútvn., vegna þess að við vildum greiða fyrir því að það samkomulag gæti tekist um þingstörfin sem okkur hafði verið sagt að væri fyrir hendi. Það hefur ekkert gerst í dag eða í kvöld sem breytir gangi þingmála. Umræður um raforkumálin voru ekki lengri en menn vissu að þær yrðu, nema menn séu eitthvað utan við sig og viti ekki í þennan heim né annan. Allt hefur því farið eftir áætlun og þess vegna væri fróðlegt að fá svar. Ég veit t.d., af því að ég sé að hæstv. iðnrh. er hér, að hann mun hafa stytt mál sitt mjög í Nd. til þess að greiða fyrir málum um það frv. eins og við allir erum að reyna að gera.