Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Karvel Pálmason (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég spurðist fyrir um það hér í kvöld fyrir líklega þremur og hálfum tíma hjá hæstv. forseta hvað væri fyrirhugað með vinnubrögð hér í þinginu, bæði að því er varðaði þessa deild og hina. Ég vissi ekki annað í dag lengi vel en það hefði verið samkomulag um að ljúka hér umræðum um eða upp úr kvöldmatarleyti þannig að kvótamálið gæti farið yfir til Nd. Það er greinilegt eftir þeim ummælum sem hv. þm. Skúli Alexandersson flutti hér í kvöld að eitthvað hefur komið upp á og þar skiptir í reynd ekki neinu hvað hæstv. forsrh. segir hér og nú. Vel má túlka það svo að bæði sé stefnt að því að ljúka þingi hér á laugardaginn og það sé ekki gert því það liggi svo margt fyrir að það verði ekki gert á þessum tíma.
    Enn er ekkert samkomulag orðið um þessi mál hér, það er ljóst. Það væri ástæða til þess að spyrja hæstv. umhvrh. hvert hans álit er á þeim ummælum sem hv. þm. Skúli Alexandersson flutti hér í kvöld. Er samkomulag við hæstv. umhvrh. um breytingu frá því að þingi verði lokið á laugardag? Eru samningar í burðarliðnum að því er varðar umhverfisráðuneytið eða þarf það eina viku í viðbót?
    Ýmislegt af þessu hefur verið að gerast hér í dag þó að okkur, sem höfum verið að ræða hér kvótafrv., hafi í raun og veru verið talin trú um að samkomulag væri um málið. Það er greinilega ekki og það er því í mínum huga full spurning hvort nokkur ástæða sé til þess að halda hér áfram umræðum í ljósi þessa sem nú hefur gerst innan herbúða ráðherranna sjálfra. Ég held því að það þurfi frekari skýringar á þessu.