Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég held að það verði að fá einhvern botn í þessi mál sem hér eru að gerast. Þeir komast nú ekki upp með það ráðherrar að segja hver sitt um það hvað fyrirhugað sé með þinghaldið. Hv. þm. Skúli Alexandersson upplýsti fyrir tiltölulega fáum mínútum að hæstv. ráðherra umhverfismála hefði tjáð honum að þing verði áfram í næstu viku. Og hæstv. ráðherra nikkar til mín og annarra um að þetta er rétt eftir honum haft. Þ.e. einn ráðherra segir: Þing verður í næstu viku. Og síðan kemur forsrh. og segir að vísu: Enn þá er stefnt að því að ljúka þingi á laugardag. Hann er að halda einhverjum gáttum opnum, kannski til að svíkja, það eigi að svíkja --- kannski okkur sem erum hér með góðum vilja að vinna verk og koma málum áfram. Kannski skýrist það nú. Ég veit ekki hvað fyrir mönnum vakir. Hæstv. forsrh. segir: Það er úr lausu lofti gripið að fyrirhuguð sé breyting á þessu, þ.e. að þingi ljúki á laugardag.
    Ég held að þingið geti ekki látið bjóða sér það að þessari umræðu utan dagskrár, eða hvað menn vilja kalla það, verði haldið áfram þangað til botn fæst í þetta. Hvor segir rétt og satt frá? Verður þing í næstu viku eða verður það ekki? Við eigum heimtingu á því þingmenn og þjóðin öll að fá að vita hvaða laumuspil hér er á ferðinni. Okkur býður kannski í grun hvað það sé, en ekki er hægt að gera alla menn að fíflum í þessu húsi með þessum hætti. Hæstv. ráðherra umhverfismála segir það og jánkar að hafa sagt það við hv. þm. Skúla Alexandersson að þing verði hér í næstu viku. Hæstv. forsrh. segir ekki. Menn verða nú að koma hreint til dyranna og svara jafneinföldum spurningum og þessari. Það er ekki hægt að hafa neinn starfsfrið í þessu húsi á meðan menn haga sér þannig að ekki er hægt að treysta einu einasta orði sem sagt er.