Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég ætla að svara hér nokkrum fsp. sem hv. 4. þm. Vestf. beindi til mín og nota tímann meðan menn eru að átta sig á hlutunum. Hv. þm. beindi til mín nokkrum spurningum sem ég skal reyna að svara þó að þau svör geti e.t.v. ekki verið alveg fullnægjandi.
    Í fyrsta lagi spurði hann mig að því hvað fengi mig til að flytja annað eins frv. og hér er til umræðu. Því er fljótsvarað. Það var ákveðið með þeim lögum sem sett voru í ársbyrjun 1988 að löggjöfin skyldi tekin til endurskoðunar með tilteknum hætti og það er árangur þess starfs.
    Hv. þm. spurði hvort ekki væri hægt að koma á sóknarstýringu eftir almennum reglum. Ég svara þeirri spurningu neitandi. Það er ekki hægt að mínu mati en ég heyri það á máli hv. þm. að hann telur einmitt að slíkt sé mögulegt. Ég á ekki von á að við getum orðið sammála um það í þessari umræðu og gæti ég fært fyrir því ýmis rök en ætla ekki að endurtaka allt það sem fram hefur komið í þessu máli.
    Í þriðja lagi spurði hv. þm. að því hvort kvótakerfið væri góð aðferð þar sem farið hefði verið margfalt fram úr tillögum fiskifræðinga. Í fyrsta lagi er rétt að taka það fram að eitt er tillögur fiskifræðinga og annað ákvarðanir stjórnvalda á hverjum tíma. Síðan er það svo að ákvæði um bæði sóknarmark og smábáta hafa verið þess eðlis að ekki hefur verið hjá því komist að nokkuð hefur verið farið fram úr þeim ákvörðunum sem stjórnvöld hafa tekið á hverjum tíma. Einnig má benda á margvíslegan sveigjanleika sem hefur verið í kvótakerfinu fram að þessu en tilgangurinn m.a. með þessu frv. sem hér hefur verið til umræðu er sá að koma á meiri festu í þessum málum með því að afnema sóknarmarkið og með því að taka upp svipaða skipan að því er varðar smábáta og önnur skip.
    Að því er varðar spurningu hv. þm. um stærð flotans vísa ég til þess þingskjals sem hér hefur verið vísað til, þskj. 698, þar sem fram kemur hver hefur verið þróunin í flotanum, ekki aðeins er varðar stærð skipanna heldur jafnframt fjölda þeirra, en það er einmitt einna mikilvægasti tilgangurinn með frv. að koma því til leiðar að ekki sé áhugi fyrir því að stækka flotann.
    Ég vil síðan í lok þessarar umræðu þakka hæstv. sjútvn. fyrir mikil og góð störf að þessu máli. Ég tel að þær breytingar sem hafa orðið á þessu frv. hér í meðferð Alþingis séu bæði eðlilegar og skynsamlegar og eiga á engan hátt að koma á óvart gagnvart þeim aðilum sem að þessu máli hafa unnið án þess að ég ætli að rökstyðja það frekar. Ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem hafa komið að þessu máli, hver með sínum hætti.