Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég þakka fyrir tækifærið að segja örfá orð um umhverfismálin enn einu sinni. Ég gerði hér grein fyrir tilraun af minni hálfu til að ná samkomulagi um meðferð þeirra mála og lagði fram brtt. í því skyni. Ég neita því ekki að það olli mér miklum vonbrigðum að hv. 2. þm. Reykn. telur alls ekki fært að ganga nú til þess samkomulags og þó að ég geti tekið undir það með honum að ýmislegu í þeirri tillögu mætti vissulega haga á annan veg þá lagði ég hana fram eins og ég taldi að helst væri grundvöllur til samkomulags.
    Ég veit að hv. þm. og aðrir stjórnarandstæðingar og þeir aðrir sem hafa út af fyrir sig verið andsnúnir sérstöku umhverfisráðuneyti sætta sig að sjálfsögðu við það og er áreiðanlega, eins og mér, áhugamál að það ráðuneyti geti þá tekið til starfa af verulegum krafti þótt ekki komi allt þar undir strax sem við höfum ætlað okkur.
    Þess vegna vil ég nú enn leita leiða til samkomulags. Ég fyrir mitt leyti er tilbúinn að beita mér fyrir því, og vil láta það koma fram hér úr forsetastól, að felldar verði niður 6.--14. gr. sem er í tillögu hv. sjálfstæðismanna. Ég mun þá skipa strax milliþinganefnd til að undirbúa þau mál. Má þá segja að það sé í svipuðum farveg og brtt. mín nema þá fullnægt því, sem mér skilst að sé mikið kröfumál, að gildistöku sé ekki frestað heldur felld niður. Ég mun þá gera ráð fyrir því að það sem snýr að umhverfismálum í þessum málaflokkum komi fyrir Alþingi á haustmánuðum ásamt frv. um umhverfismálastofnun sem hæstv. umhvrh. er að undirbúa. Ef um þetta gæti orðið samkomulag þá dreg ég að sjálfsögðu brtt. mína til baka.
    Ég vil því mælast til þess héðan úr ræðustól að menn skoði þetta mál nú í dag og viti hvort samkomulag geti orðið um það. Ég tel mig þá vera búinn að teygja mig æðilangt sem flm. frv. til móts við vilja stjórnarandstæðinga, þ.e. þá þeirra sem ekki hafa getað sætt sig við, eins og orðað hefur verið, þann undirbúning sem liggur að baki flutningi ýmissa þessara stofnana til umhverfisráðuneytis og vil leggja mig fram í samráði við þá, með fulltrúum frá þeim í sumar að búa betur að þeim málum.