Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég kann nú ekki við þann tón sem hv. 5. þm. Vestf. hefur tamið sér. Það getur vel verið að þetta hræri hjörtu manna í fjvn., það hrærir ekki mitt hjarta. Hótanir, svigurmæli og dólgsháttur gera það ekki.
    Hvað varðar tilvitnanir hans í hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson, að þetta mál hafi ekki fengist rætt á þingflokksfundum, þá er það ekki rétt. Þetta mál var rætt á þingflokksfundum í Framsfl. og meira að segja tekinn um það alveg sérstakur fundur. Mér kemur mjög á óvart ef Sighvatur Björgvinsson veit betur hvað gerist þar en ég.
    Svo er það eftir öðrum ósannindum þessa þingmanns að þetta mál hafi ekki verið rætt nema 7 sekúndur á fundi fjh.- og viðskn. En þetta er út af fyrir sig ekkert óvenjulegt þegar um hv. 5. þm. Vestf. Sighvat Björgvinsson er að fjalla. Hann er dálítið --- ja, ég segi nú ekki skröksamur, en hann freistast til að lita frásögn sína. M.a. greindi ég frá því á þessum fundi að hæstv. varaforseti deildarinnar, Geir H. Haarde, hefði skrifað mér bréf út af málinu og óskað eftir að það yrði afgreitt úr nefndinni sem ég stefni að að gert verði.
    Ég vísa sem sagt bæði þessum og öðrum ósannindum Sighvats Björgvinssonar á bug og því sem hann á eftir að segja hér því að ég geri ráð fyrir að hann verði alltaf við sama heygarðshornið.