Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Friðrik Sophusson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki taka þátt í þessu einvígi þeirra tveggja hv. þm., Sighvats Björgvinssonar og Páls Péturssonar. Ég vil bara staðfesta það að hv. varaforseti deildarinnar sendi formanni nefndarinnar bréf, og þar með öllum nefndarmönnum, í framhaldi af þingskapaumræðum sem urðu um þetta fyrir skömmu síðan. Ég vil einnig staðfesta að það er rangt hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að málið hafi verið tekið fyrir í 7 sekúndur. Ef ég man rétt þá var málið á dagskrá nefndarinnar í hér um bil eina mínúta eða þar um bil, ekki miklu meira, kann að vera eitthvað rétt innan við það. En það er skrök sem kom hér fram að þetta hafi verið 7 sekúndur því ég er viss um að það var um það bil ein mínúta. Á þessari einu mínútu gafst okkur sjálfstæðismönnum tækifæri til þess að segja frá því að við værum tilbúnir til þess að afgreiða málið með þeim breytingum sem þarf að gera á frv. og hv. fjvn. veit hverjar eru. Sá vandi er okkur á höndum að í morgun voru þrír hv. nefndarmenn á fundi í iðnn., þar á meðal hv. formaður nefndarinnar, í fjóra klukkutíma, allan morguninn kl. 8--12. Og í fyrramálið hefur aftur verið boðaður fundur í iðnn. sem mun standa kl. 8--10, en þá er ráðgert að fundir hefjist í neðri deild Alþingis. Ef menn vilja afgreiða þetta mál, sem ég tel mjög eðlilegt, út úr nefndinni svo og önnur mál sem eru til afgreiðslu í hv. fjh.- og viðskn. þá beini ég þeim eindregnu tilmælum til hæstv. forseta að hann sjái til þess að hægt sé að halda nefndarfundi. Það getur ekki gerst nema breyta fundartíma deildarinnar þannig að tími gefist til þess í nokkrar mínútur a.m.k. að taka fyrir mál sem eru til umræðu og meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. Ég beini eindregnum tilmælum til hæstv. forseta að hann fundi með formönnum þessara tveggja nefnda og finni lausn á þessu máli.