Raforkuver
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Á síðasta fundi hv. deildar flutti hæstv. iðnrh. framsöguræðu sína fyrir lagafrv. um raforkuver o.fl. Þetta frv. og samþykkt þess er nauðsynleg forsenda þess að stjórn Landsvirkjunar geti ákvarðað um frekari undirbúning, rannsóknir og framkvæmdir sem þurfa að eiga sér stað ef samningar verða gerðir við nokkur erlend álfyrirtæki í sumar um byggingu nýs álvers hér á landi.
    Frv. er ekki flókið að gerð. Það hefur tekið lítils háttar breytingum í hv. Ed. Frv. fjallar annars vegar um þær virkjanir sem hæstv. iðnrh. er heimilt að veita nokkrum aðilum leyfi til að reisa og reka og hins vegar er um að ræða breytingu á 2. gr. laga nr. 60/1981. Sú grein var þannig orðuð að það þurfti þál. hv. Alþingis á hverjum tíma um virkjanaröð. Með þeirri breytingu sem lögð er til í 3. gr. frv. er ákveðið að röð framkvæmda við virkjanir, og reyndar aðrar framkvæmdir í raforkumálum, skuli ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar og að áður en iðnrh. ákveður röð framkvæmda skuli liggja fyrir greinargerðir Landsvirkjunar, Orkustofnunar og annarra aðila sem hann kveður til.
    Hér er sem sagt verið að leggja til að í stað þess að Alþingi ákveði virkjunarröð með þáltill. þá verði sú ákvörðun á vegum framkvæmdarvaldsins. En þess ber að geta að að sjálfsögðu þarf Alþingi að fjalla um málið vegna þess að slíkar framkvæmdir ná ekki fram að ganga nema samþykki Alþingis komi til á lánsfjárlögum eða fjárlögum.
    Það vekur nokkra athygli að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II þarf samþykki ríkisstjórnarinnar að koma til ef verja skal 300 millj. kr. á yfirstandandi ári til undirbúnings nokkrum rannsóknum og virkjunum. Þetta ákvæði virðist hafa komið inn á seinni stigum málsins og þýðir að áliti hv. alþýðubandalagsmanna að þeir geti, ef þeim sýnist svo, stöðvað frekari framgang málsins þar sem þeir telja að með þessu orðalagi sé sýnt að öll ríkisstjórnin verði að vera sammála um áframhald málsins. Nú skal ég ekki elta ólar við þetta orðalag. Ef um venjuleg lög hefði verið að ræða hefði hugtakið ,,ríkisstjórn`` einungis þýtt viðkomandi fagráðherra, en hér er hugtakið ,,ríkisstjórn`` notað jafnvel þótt annars staðar í lögunum sé talað um hæstv. iðnrh. Þetta ákvæði veldur þeim sem eru hlynntir framgangi þessa máls nokkrum áhyggjum vegna þess að í þessu orðalagi speglast það ósamkomulag sem virðist ríkja innan hæstv. ríkisstjórnar um þetta mál og hvernig framvindan eigi að vera í framkvæmdum við orkuver í tengslum við stóriðjuuppbyggingu á næstu missirum og árum.
    Ég vil láta þess getið að enda þótt frv. sé ekki komið til hv. iðnn. hefur formaður iðnn., hv. 2. þm. Austurl., þegar haldið einn langan fund um málið, fjögurra tíma fund í morgun þar sem fjöldi gesta kom og sagði sitt álit á fyrirhuguðum framkvæmdum frá ýmsum sjónarhólum. Þá er ljóst að vegna fjölda fyrirspurna frá hv. formanni iðnn. má búast við að enn sé eftir að vinna talsvert starf í nefndinni.

Vonandi lýkur því í fyrramálið fyrir kl. 10 því annars er hætta á að málið nái ekki fram á yfirstandandi þingi. Það þýðir í raun að ekki verður hægt að gera samninga við þá erlendu áhugaaðila sem vilja í samvinnu við okkur reisa og reka álver hér á landi.
    Það sem athygli vekur þegar þetta mál er rætt er að frv. virðist ekki vera betur unnið hjá hæstv. ríkisstjórn en svo að hv. stjórnarliðar, einstakir þingmenn stjórnarflokkanna virðast nú fyrst, þegar málið er komið til nefndar, þurfa að fá gífurlegt upplýsingamagn sem manni sýnist að hefði verið auðvelt að afla ef frv. hefði komið fram sem stjfrv. með eðlilegum hætti. Enda er það alsiða að stjórnarflokkar fjalli mjög ítarlega um frv. á borð við þetta áður en það er lagt fram á hinu háa Alþingi.
    Vinnubrögðin bera þess vegna vott um það að enn hafi ekki nægilegt samkomulag náðst í þessu máli á milli einstakra hv. þm. stjórnarflokkanna. Ég minni á það, hæstv. forseti, að á sínum tíma lýsti hæstv. iðnrh. því yfir að hann ætlaði sér að leggja fram á þessu þingi frv. til heimildarlaga til þess að geta gert samning við Atlantsálshópinn um byggingu og rekstur nýs álvers. Nú hefur verið horfið frá því ráði og samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum er ekki búist við að endanlegir samningar hafi náðst fyrr en síðar á þessu ári og ákvarðanir liggi jafnvel ekki fyrir fyrr en á næsta ári eftir fundi erlendu aðilanna. Allt kemur þetta fram í hinum ýmsu ítarlegu greinargerðum sem annars vegar fylgja með frv. og hins vegar er að finna í skýrslu sem dreift hefur verið að beiðni nokkurra þingmanna Sjálfstfl.
    Ég ræddi um það áðan að full ástæða væri til þess að hafa nokkrar áhyggjur af þessu máli vegna þess að þó að frv. nái fram að ganga og verði þannig til þess að Landsvirkjun geti hafist handa um undirbúning málsins og frekari rannsóknir þá virðast sumir hv. þm., aðallega úr Alþb., alls ekki sáttir við málið eins og það liggur fyrir. Að vísu hefur því verið haldið fram að ekki megi taka yfirlýsingar hv. þm. alvarlega. Þessi sjónarmið séu meira í nösunum á þeim, svo vísað sé til fréttaskýringar Morgunblaðsins, sem kom út í gær, um þetta mál. Þar er því haldið fram að í raun og veru sé ekkert að marka
yfirlýsingar hæstv. ráðherra Alþb. í Ed. vegna þess að þegar hafi verið samið um það á milli annars vegar formanns Alþb., sem sumir halda reyndar fram að sé landlaus um þessar mundir, og hins vegar stjórnarflokkanna annarra en Alþb. Ekki verður þó hjá því komist að minna á að í Ed. flutti hæstv. menntmrh. ræðu og rifjaði þar upp samþykkt þingflokks Alþb. þann 9. apríl sl. Í þeirri samþykkt kemur fram að Alþb. hefur alls ekki tekið endanlega afstöðu til þessa máls og gerir þar ýmsa fyrirvara. Mér finnst nauðsynlegt að þegar við 1. umr. þessa máls liggi það ljóslega fyrir að það frv. sem hér er til umræðu og þau gögn sem fyrir liggja í málinu, þær áætlanir sem fylgja á, þær samþykktir sem gerðar hafa verið, það samkomulag sem gert hefur verið á milli stjórnvalda hér á landi og erlendu fyrirtækjanna, allt þetta sé gert á vegum hæstv. ríkisstjórnar allrar en

ekki einungis á vegum sumra stjórnaraðilanna. Því ef svo er má búast við því að Alþb. hafi þann fyrirvara sem getur kostað það að málinu sé teflt í tvísýnu í sumar þegar taka þarf mikilvægustu ákvarðanir í málinu.
    Í þessu sambandi má t.d. benda á að það er forsenda af hálfu Alþb. að álverið verði ekki byggt á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort þetta sé einnig álit annarra, þar á meðal hæstv. ráðherra. Og þegar minnst er á höfuðborgarsvæðið, við hvaða svæði nákvæmlega er þá miðað? Nær það frá Straumsvík og norður á Kjalarnes eða er það umfangsmeira? Við vitum að oft þegar talað er um höfuðborgarsvæðið er átt við Reykjavík og Reykjaneskjördæmi saman. Það er því nauðsynlegt að fá úr því skorið við hvað sé miðað, en þó einkum og sér í lagi hvort hæstv. ráðherra sé sammála því sem kemur fram hjá Alþb. og virðist vera forsenda þess að Alþb. geti sætt sig við áframhaldandi aðgerðir í málinu, að næsta álver verði byggt utan höfuðborgarsvæðisins.
    Þá hefur það komið fram, m.a. í þeirri samþykkt sem ég vísað til frá 9. apríl, að Alþb. telur að kanna þurfi betur en gert hefur verið hvernig Íslendingar gætu sjálfir átt aðild að rekstrinum og tryggt forræði sitt og hagsmuni þannig að viðunandi sé. Mér finnst eðlilegt að þegar við 1. umr. um þetta mál liggi það mjög skýrt og ákveðið fyrir við hvað er átt. Er átt við eignaraðild eða er eingöngu átt við forræði, eins og t.d. forræði í skattamálum, forræði í dómstólum, forræði í úrskurðarmálum o.s.frv.? Eins og við vitum hafa útlendingar átt við okkur samstarf með ýmsum hætti í gegnum árin og hefur stundum verið um það að ræða að til hafa komið alþjóðlegir úrskurðaraðilar en
í öðrum tilvikum er um að ræða forræði íslenskra dómstóla. Mér þykir ekki nægilega ljóst við hvað sé átt hér af hálfu Alþb., sem telur sig hafa stöðvunarrétt í þessu máli, og ég spyr: Er það forsenda af hálfu Alþb. --- ég veit að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mun tala hér á eftir --- er það forsenda af hálfu Alþb. að um eignaraðild Íslendinga sé að ræða? Eins og allir vita er samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum gert ráð fyrir því að eignaraðilar séu eingöngu þrír sem myndi með sér samlag um bræðslu hér á landi. Það er annars vegar fyrirtækið Alumax sem er stærsti aðilinn og hins vegar fyrirtæki sem hafa verið með í Alantsálshópnum frá upphafi, Hoogovens og Grangers.
    Þá vil ég rifja það upp að hæstv. menntmrh. gerði mikið veður út af raforkuverðinu í hv. Ed. og orðaði hugsun sína þannig, ef ég skildi orð hans rétt, að orkuframkvæmdirnar og sá kostnaður sem af þeim hlýst yrði að vera í samræmi við framleiðslukostnað nýrra virkjana. Eins og allir vita hafa áætlanir gert ráð fyrir því að miðað sé við flýtingarkostnað, sem er auðvitað miklu lægri kostnaður og skal ég ekki fara lengra út í þá sálma. Þessi atriði og önnur slík sem komu fram í hv. Ed. hlýtur talsmaður Alþb. að ræða hér í þessari umræðu því að ef það kemur í ljós að Alþb. ætlar sér að hafa stöðvunarrétt í þessu máli á

forsendum sem nánast er útilokað að fylgja, þá kann að vera nauðsynlegt að mynda nýjan meiri hluta um þetta mál hér á hinu háa Alþingi, meiri hluta sem tryggir það að hæstv. iðnrh. geti fylgt fram þeim áætlunum sem nú liggja fyrir og ég tel að þingmeirihluti sé fyrir. Að öðrum kosti er verið að tefla þessu máli í tvísýnu.
    Það er ljóst að talsverð skuldaaukning verður hér á landi vegna þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru, vegna framkvæmda við ný orkuver og vegna framkvæmda við álverið. Það ber þó að taka fram að það skiptir ákaflega miklu máli hvort þessi kostnaður er innlendur eða erlendur. Sé t.d. um að ræða kaup á vélum sem eigendur verksmiðjunnar koma til með að eiga og borga sjálfir, erlendir eigendur, þá hefur slíkt ekki áhrif á íslenskt efnahagslíf, ekkert frekar en það hefði áhrif á íslenskt efnahagslíf þótt mjög dýr flugvél lenti á Keflavíkurflugvelli eða afar dýrt skip legðist við höfn í Reykjavík, einfaldlega vegna þess að ekki verður innlendur kostnaður af þessu og Íslendingar þurfa ekki að standa skil á skuldum, lántökukostnaði og vöxtum heldur erlendu aðilarnir. Þess vegna ber að líta fyrst og fremst á innlenda kostnaðinn í þessu sambandi. Hann er ekki eins mikill og heildarkostnaðurinn og í raun langtum minni. Það ber einnig að líta á það að þær skuldir sem myndast vegna framkvæmda eru skuldir vegna fjárfestinga, eignarmyndunar sem á
að geta skilað verulegum arði eins og kemur fram í fyrirliggjandi útreikningum. Slíkar skuldir eru af allt öðrum toga en t.d. þær skuldir sem hæstv. ríkisstjórn hefur efnt til, til að mynda fyrir rúmu ári síðan þegar tekin voru erlend lán til þess að greiða með útflutningsframleiðslunni. Slík lán voru auðvitað ekki lán til fjárfestingar heldur lán sem fóru beinlínis í íslenska eyðslu og það ber auðvitað að varast að taka slík lán. Ég geri mikinn mun á þeim lánum og hinum sem tekin eru vegna arðbærra framkvæmda hér á landi. Þess ber þó að geta það er ekki nóg að stofna til þessara framkvæmda. Hæstv. ríkisstjórn verður að gæta þess á næstu árum að draga saman seglin þannig að þessar framkvæmdir leiði ekki til of mikillar þenslu og verðbólgu því þá kunna slíkar framkvæmdir að hafa slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf.
    Í þessu sambandi kemst ég ekki hjá að rifja upp mjög nýlegar umræður hér á hinu háa Alþingi um jarðgangagerð á Vestfjörðum. Þar til að mynda var verið að flýta framkvæmdum verulega með því að taka stórt erlent lán á þeim tíma sem framkvæma átti og vinna að jarðgöngunum. Einmitt slíkar framkvæmdir kunna að þurfa að bíða ef menn ætla að fara út í stórframkvæmdir á borð við uppbyggingu álvers og þær virkjanaframkvæmdir sem því fylgja. Nú er ég ekki að tala um að ég leggist gegn jarðgöngum á Vestfjörðum, það mál virðist nú sigla hraðbyri í gegnum þingið og er ekkert við því að segja, en með því að samþykkja slíkt mál verða menn að átta sig á því að það kann að verða bið á öðrum framkvæmdum, ekki síst öðrum opinberum framkvæmdum, á næstu 4--5 árum til þess að koma í

veg fyrir að bygging álvers og þá einkum bygging raforkumannvirkja leiði ekki til þenslu og verðbólgu og hafi þar af leiðandi slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf.
    Í þessu sambandi vil ég einnig geta þess að það hlýtur að vera stærsta verkefni hæstv. ríkisstjórnar að koma í veg fyrir áframhaldandi halla í ríkisrekstrinum því að það er nánast brjálæði að fara út í framkvæmdir á borð við þessar nema menn haldi í við opinberar framkvæmdir og opinbera eyðslu á meðan framkvæmdatíminn stendur yfir. Í framhaldi af honum mun ríkið að sjálfsögðu fá í sinn hlut heilmikið fjármagn með sköttum, ekki einungis sköttum af fyrirtækinu heldur einnig sköttum af þeim tekjum sem myndast hjá þeim sem koma til með að vinna annars vegar við uppbyggingu mannvirkjanna og hins vegar við reksturinn þegar fram líða stundir. Í því sambandi hefur komið fram að gera má ráð fyrir að á núvirði fái hver fjögurra manna fjölskylda 160 þús. kr. meira í ráðstöfunartekjur á ári eftir að framkvæmdatímanum lýkur, þ.e. þegar reksturinn í hinu nýja álveri er farinn af stað. Er þá gert ráð fyrir því að meðalráðstöfunartekjur fjögurra manna fjölskyldu hér á landi séu núna rúmlega 3 millj., líklega 3,2 millj. kr., en aukningin sem verður vegna reksturs álversins er um það bil 5%.
    Ég vil minna á það enn einu sinni að álver og álversrekstur er ekki mannaflsfrekur iðnaður. Ástæðan fyrir því að Íslendingar hafa valið þann kost að eiga samvinnu við erlenda aðila um álver er fyrst og fremst sú að álver er orkufrekur iðnaður en ekki mannaflsfrekur. Hins vegar gerist það við uppbyggingu mannvirkjanna, bæði álversins og orkuveranna, að talsverðan mannskap þarf til þeirra framkvæmda og það myndast ákveðnir toppar á vissum árum. Þeir eru þó ekki meiri en svo að viðbótarmannaflinn á markaðnum mun fullnægja þeirri þörf og rúmlega það. Hins vegar hlýtur það að vera viðfangsefni hæstv. ríkisstjórnar, og reyndar allra landsmanna, að koma málum þannig fyrir að í landinu verði atvinnutækifæri þegar þessum framkvæmdum lýkur því mannaflsþörfin við uppbyggingu orkuveranna og álversins er mun meiri en mannaflsþörfin við rekstur álversins, jafnvel þótt tekið sé tillit til svokallaðra margföldunaráhrifa.
    Það er eitt atriði, virðulegur forseti, sem ég tel að þurfi að ræða sérstaklega við þessa umræðu og fá frekari upplýsingar um frá hæstv. iðnrh. Það varðar staðarvalið. Ég hef lýst því yfir oftar en einu sinni að mér þykir það ekki vera mikil stjórnviska af hálfu Íslendinga að búa til einhvers konar uppboðsmarkað um staðarvalið. Ég tel að það sé fyrst og fremst reikningskúnst hvar sé hagstæðast að setja niður álver. Ef þeir erlendu aðilar sem við viljum eiga samstarf við eru ekki tilbúnir að setja álver niður þar sem það er hagstæðast eigi þeir að greiða muninn. Nú hefur það hins vegar gerst --- og það væri vissulega þörf á því, hæstv. forseti, að fá hingað í salinn hæstv. forsrh. sem hefur látið sig þetta mál miklu skipta til þess að hann fái að hlýða á mál mitt. Það hefur nefnilega

gerst að ekki einungis einn og ekki einungis tveir heldur a.m.k. þrír ef ekki fleiri hæstv. ráðherrar hafa lýst skoðun sinni á staðarvalinu. Hæstv. iðnrh. hefur í raun gengið svo langt að hann hefur í samvinnu við þessa erlendu aðila skrifað nokkrum sveitarfélögum bréf með ýmsum spurningum, spurst fyrir um það hvað viðkomandi sveitarfélög séu tilbúin til þess að leggja fram, t.d. í lægri aðstöðugjöldum eða með öðrum hætti. Með þessu hefur hæstv. ráðherra gefið fjölda sveitarfélaga í skyn að til greina komi að byggja álver víðs vegar um landið. Auðvitað kunna slíkar upplýsingar að hafa gildi fram í tímann, ekki síst ef áfram verður haldið á þeirri braut að byggja upp stóriðju hér á landi, en maður spyr sig að því
hvers vegna þessi uppboðsstefna sé farin þegar ljóst er að það hlýtur að vera á valdi erlendu fyrirtækjanna fyrst og fremst hvert staðarvalið verður.
    Enginn hefur þó gengið lengra í þessum efnum en hæstv. forsrh. sem beinlínis hefur lýst því yfir að hann telji Eyjafjörð vera það svæði sem eðlilegast sé að setja niður álver á. Ég ætla ekkert að mótmæla því að svo kunni að vera, en allar líkur benda til þess að reikningslega sé það ekki ódýrasti kosturinn. Hins vegar kann að vera að af ýmsum öðrum ástæðum, t.d. vegna byggðaáhrifa, sé æskilegt að þessir erlendu aðilar setji niður verksmiðju á Dysnesi við Eyjafjörð. Það er auðvitað fagnaðarefni ef þeir vilja gera það. En þá tel ég að þeir eigi að gera það þannig að þeir borgi þann mun sjálfir sem er á því að setja niður verksmiðju þar miðað við að setja hana niður einhvers staðar annars staðar.
    Hæstv. forsrh. hefur gengið svo langt að í viðtali við Morgunblaðið sem kom fram í grein sem birtist í gær segir hann orðrétt, með leyfi forseta: ,,Ef ríkisvaldið meinar eitthvað með þessu byggðatali, þá kemur t.d. smálækkun á raforkuverðinu til greina, svona í ákveðinn aðlögunartíma.`` Ég tel, hæstv. forseti, að æðsti maður þjóðarinnar, hæstv. forsrh., sem sýknt og heilagt tekur fram fyrir hendur á sínum samráðherrum beri skylda til þess hér við þessa umræðu að gerast nokkuð skýrmæltari en hann er í þessu ákveðna viðtali.
    Hvað er hann að tala um? Hvað er smálækkun á raforkuverði og hvað er ákveðinn aðlögunartími? Er það eitt ár, tvö ár, þrjú ár, fjögur ár, fimm ár eða hve langur er slíkur aðlögunartími? Hæstv. forsrh. verður að venjast því að a.m.k. meðal erlendra þjóða er það þannig að það er tekið mark á orðum hæstvirtra forsætisráðherra og þegar hæstv. forsrh. spilar út trompi eins og þessu hljóta viðsemjendur okkar að álíta sem svo að innan hæstv. ríkisstjórnar hafi verið fjallað um þetta mál, menn hafi rætt það nákvæmlega hverju þeir vilja spila út í byggðahagsmunaskyni. Það hlýtur að vera krafa okkar hv. alþm. að vita við hvað hæstv. forsrh. á. Með tali eins og þessu gefur hann viðsemjendum okkar í skyn að hann sé tilbúinn að slá af okkar ýtrustu kröfum.
    Og í því bili gengur hæstv. forsrh. í salinn og þá langar mig til að spyrja hann hvort hann treysti sér til þess, hér við 1. umr. þessa máls, að gerast nokkuð

skýrmæltari en hann hefur verið í viðtölum við blöð að undanförnu og í ræðum sínum, þar á meðal norður á Akureyri sl. haust og tekið var upp í dagblaðinu Degi, um það hvað hann eigi við þegar hann vill gefa okkar viðsemjendum um uppbyggingu stóriðju ívilnun ef þeir eru tilbúnir að setja niður álver annars staðar en á höfuðborgarsvæðið. Hvað á hæstv. ráðherra við þegar hann talar um að hugsanlega mætti gera það í skattamálum? Er hann að tala um skatta til ríkisins eða er hann að vísa þessu til sveitarfélaganna með því að tala um að það megi gera í aðstöðugjöldum, sem er auðvitað mjög ódýrt ef hæstv. ráðherra ætlar sér að taka þetta út úr sjóði sveitarfélaganna. Eins tel ég fulla ástæðu til þess að hæstv. ráðherra segi okkur hvað hann meinar með því þegar hann segir að t.d. komi til greina smálækkun á raforkuverðinu, svona í ákveðinn aðlögunartíma. Hvað er aðlögunartíminn langur? Hefur hæstv. ráðherra hugsað þetta? Hefur hæstv. ríkisstjórn rætt þetta? Er hægt að gefa hv. Alþingi frekari upplýsingar en koma fram í þessu viðtali eða má eingöngu skilja þetta sem svo að hæstv. ríkisstjórn sé að segja við viðsemjendur okkar: Ef við setjum álverið annars staðar niður en þar sem hagstæðast er þá skulum við borga mismuninn? Þessu verður hæstv. forsrh. að svara vegna þess að hann hefur tekið sér það vald að tala svona í nafni hæstv. ríkisstjórnar og tekið þannig fram fyrir hendur hæstv. iðnrh.
    Virðulegur forseti. Það var ekki ætlun mín að flytja hér langa ræðu um þetta mál. Það hefði vissulega verið ástæða fyrir mig til að rifja upp aðdraganda málsins þó ekki væri nema vegna þess að ég hafði tækifæri til þess þegar ég var í iðnrn. að vinna nokkuð að þessu máli. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með það að hæstv. iðnrh. skuli hafa fetað í fótspor fyrirrennara sinna í þessu máli og tel að hann hafi staðið sig mjög vel í erfiðu hlutverki eftir að stjórnarskipti urðu --- já, já, ég gef hæstv. forsrh. leyfi til þess að
skreppa í símann, það er alveg sjálfsagt. Ég veit að fingramál kemst ekki til skila í ræðuritun, virðulegi forseti.
    Ég hef hins vegar ekki talið ástæðu til að fara frekar út í aðdraganda málsins. Ég hef áhyggjur af því að ekki hafi verið nægilega gengið frá málinu áður en það var lagt fram og mér sýnist af nefndarstörfum sem þegar eru hafin í hv. iðnn. að málið hafi ekki fengist fullrætt í stjórnarherbúðunum. Það kann þó að breytast ef hv. 2. þm. Austurl. kemur hér í ræðustól og lýsir yfir fyllsta stuðningi við þetta frv. Ég á auðvitað von á því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson geri það og sanni þá kenningu sem birtist í Morgunblaðinu í gær, að í raun og veru sé andóf Alþb. einungis í nösunum á þeim, enda sé formaður flokksins, hæstv. ráðherra Ólafur Ragnar Grímsson, fyrir löngu búinn að semja um þetta mál. Allt andóf hæstv. samráðherra hæstv. fjmrh. sé einungis til málamynda, sé andóf ,,pro forma`` til þess að gera hv. þm. Hjörleif Guttormsson ánægðan með afgreiðslu málsins í Ed. Það sé auðveldara fyrir hv. þm. að

kyngja
þessu máli þegar það kemur til afgreiðslu í Nd., ekki síst vegna þess að hv. þm. er formaður þeirrar nefndar sem hefur málið til meðferðar.
    Að svo mæltu, hæstv. forseti, vil ég lýsa því yfir fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna að við teljum ekki einungis ástæðu til þess að lýsa yfir stuðningi við þetta frv., við teljum það nauðsynlega forsendu fyrir framhaldinu að frv. verði samþykkt á yfirstandandi þingi.