Raforkuver
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég nefndi það þegar við ræddum þingsköp í tengslum við þetta frv. sl. mánudag að hér væri að koma fyrir í hv. þingdeild á allra síðustu starfsdögum þingsins, eins og áformað er, eitt langdýrasta frv. sem fyrir þingið hefur komið. Ekki aðeins á þessu þingi heldur mjög lengi og kannski í allri þingsögunni miðað við upphæðir þeirra fjárfestinga sem verið er að ráðgera með flutningi þessa máls. Hv. Nd. þingsins er hér ætlað af hæstv. ríkisstjórn að taka afstöðu til þessa máls á örfáum dögum, fyrsta skrefsins af tveimur eða þremur sem ráðgerð eru af þeim sem bera mál þetta fram. Með þessu frv. er í raun verið að taka afstöðu til þeirra áforma sem hæstv. iðnrh. hefur haft á döfinni í sambandi við erlenda stóriðju. Er hann þar í samfloti við hv. 1. þm. Reykv. sem gegndi starfi iðnrh. þegar athugun þessara mála hófst ( FrS: Er það ekki góður félagsskapur?) í þeim farvegi sem þau hafa verið í í meginatriðum síðan í júlímánuði 1988.
    Saga þessa máls liggur hins vegar mun lengra til baka. Upphaf hennar má rekja til haustsins 1983 þegar gert var bráðabirgðasamkomulag af hálfu ríkisstjórnarinnar við Alusuisse sem fól í sér hugmyndir um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík sem einnig kom fram í sambandi við frv. sem lögfest voru í tengslum við endurskoðun samninga við Alusuisse 1984 og 1985. Allar götur síðan hefur verið unnið að þessu máli, í meginatriðum út frá sömu forsendum og giltu þegar samningarnir við Ísal voru í gangi á 7. áratugnum, þ.e. að útlendingar reisi hér einir iðjuver, álbræðslu en Íslendingar sjái fyrirtækinu fyrir raforku. Þannig liggur þetta mál fyrir nú þegar við ræðum þetta frv. og það sem því tengist.
    Við hljótum að spyrja okkur við meðferð málsins hvort raunveruleg þörf sé á því, jafnvel út frá sjónarmiðum þeirra sem vilja koma máli þessu fram, að afgreiða frv. sem þetta á þessu þingi, á þeim fáu dögum sem lifa þessa þings.
Við hljótum að spyrja að því og ég mun koma að því síðar í mínu máli hvert er mitt mat í þeim efnum. Ég hefði kosið, virðulegur forseti, að við umræðuna hér, a.m.k. varðandi mitt mál, verði hæstv. forsrh. viðstaddur. Þetta mál er af þeim toga og það sem ég hef hér að segja er nauðsynlegt að mínu mati að hæstv. forsrh. hlýði á, a.m.k. fyrri hluta míns máls.
    Hvað er það sem efnislega felst í þessu tiltölulega stuttorða frv.? Verið er að leita eftir viðbótarvirkjanaheimildum vegna áforma um risastóra álbræðslu og breyta lögum um raforkuver með tilliti til þess. Í öðru lagi er verið að breyta lögum á þann veg að framvegis taki Alþingi ekki ákvarðanir um virkjanaröð, í hvaða virkjanir sem heimildir hafi verið veittar til verði ráðist hverju sinni, heldur verði það vald sett í hendur iðnrh. hverju sinni.
    Þetta er auðvitað afar mikil breyting á málsmeðferð varðandi virkjanaframkvæmdir frá því sem verið hefur og ég tel að Alþingi þurfi að hugsa sig vel um áður en það fer að veita framkvæmdarvaldinu svo rúmar

heimildir varðandi stórframkvæmdir eins og hér er um að ræða. Það mátti heyra að hv. 1. þm. Reykv. hafði ekki áhyggjur af þessu máli, af þessari breytingu, og hann nefndi að Alþingi kæmi að fjárveitingaheimildum varðandi virkjanir. Rétt er það, en upphafsskrefið er ákvörðun um í hvaða framkvæmd skuli ráðist. Hér er verið að leggja það til að almennum lögum um raforkuver og raforkumál verði breytt á þá lund að það verði á valdi iðnrh. hverju sinni að taka ákvörðun um slíkar framkvæmdir og að Alþingi þar með afsali sér valdinu.
    Ég varð var við það að við málsmeðferð í Ed. um þetta frv. var flutt brtt. af einum þingmanni Sjálfstfl. varðandi þetta atriði og það gagnrýnt alveg sérstaklega að fyrirhugað væri að gera þessa breytingu. Það eru því fleiri en ég sem hafa áhyggjur af því að slíkt stórfellt afsal á valdi verði gert af hálfu Alþingis með hugsanlegri afgreiðslu þessa máls.
    Í ákvæði til bráðabirgða í frv. er rætt um ákveðna röð virkjana, verði ráðist í álbræðslu með 200 þús. tonna ársframleiðslu. Verði ekkert úr þeim samningum eða breytist aðild að slíku máli þannig að þessi Atlantal-hópur verði ekki sá sem að því stendur, þá er einnig þessi röð virkjana fallin og valdið um virkjanaröð að öðru leyti komið í hendur iðnrh. Það er jafngott að Alþingi átti sig á því hvað hér er á ferðinni.
    Síðan í þriðja lagi felst það í efni þessa frv. að verið er að veita fjárveitingaheimildir umfram fjárlög og lánsfjárlög til Landsvirkjunar til að ráðstafa 300 millj. kr. á þessu ári til viðbótar því fjármagni sem fyrirtækinu er tryggt með samþykktum lögum. Það á að ráðstafa þessu fjármagni, að manni skilst, með hliðsjón af því hvernig samningaviðræðum miði á komandi mánuðum. Alþingi á að leggja það í hönd ríkisstjórnar og hæstv. iðnrh. að mylgra út því fjármagni til fyrirtækisins á komandi mánuðum. Ég hefði nú gaman af því að sjá að Landsvirkjun verði stöðvuð í að nota þetta fjármagn á næstu vikum og mánuðum til virkjanaframkvæmda og virkjanaundirbúnings, eins og frv. er að heimila, vegna þess að samningaviðræðurnar standi svona og svona. Ég á eftir að sjá það. Það er auðvitað eitt af því sem líta þarf á í sambandi við meðferð þessa máls.
    Menn hljóta að spyrja: Hver er samningsstaða þeirra aðila varðandi raforkuverð sem ganga fram með þeim hætti í sambandi við fjármögnun, eftir að hafa bætt enn frekar við undirbúning og framkvæmdir umfram það sem þegar er í raforkukerfinu, þar sem ærin orka er þó umfram markað sem stendur og á eftir að vaxa með gangsetningu Blönduvirkjunar innan ekki langs tíma? En ríkisstjórnin skuldbatt sig til að leggja fram frv. af þessum toga með undirskrift yfirlýsingar ásamt Atlantal-aðilunum 13. mars sl. þar sem m.a. segir: ,,Ríkisstjórnin hyggst leggja fyrir frv. til heimildarlaga um ákveðnar virkjanir.`` Það er það frv. sem við ræðum hér. Ríkisstjórnin undirgekkst skuldbindingu um að leggja slíkt frv. fram og tryggja því framgang með undirritun þeirrar yfirlýsingar.
    Í greinargerð með þessu frv. má lesa staðhæfingu

um það að burðugasti aðilinn, eða sá sem ætlar að axla mest af ábyrgð í sambandi við Atlantal-fyrirtækið, þ.e. Alumax, hafi aldrei gert samning um orkukaup fyrir álbræðslu án þess að orkuverið hafi þegar verið byggt. Þetta er staðhæfing sem forstjóri Landsvirkjunar hefur viðhaft og efnislega er hún tekin upp í greinargerð með þessu frv. Þetta eru merkileg vísindi og merkilegur rökstuðningur sem hér er hafður uppi til þess að knýja á um fjárfestingar af því tagi sem hér er um að ræða.
    Svo er auðvitað sagt að það liggi á að tryggja raforkusölu til álvers þegar á árinu 1994 til þess að koma raforku frá Blönduvirkjun í verð, raforku sem er aðeins lítið brot af þeirri orku sem þetta stóra álver þarfnast, en það er yfir 70% meira en það sem Landsvirkjun framleiðir nú af raforku sem þarna er á ferðinni fyrir 200 þús. tonna álver. En það er fleira hér í buðarliðnum því að nú þegar er til umræðu að Atlantal-aðilarnir áskilji sér rétt til þess að stækka slíkt álver, tvöfalda það að framleiðslugetu til upp í 400 þús. tonna ársframleiðslu.
    Það er alveg ljóst í sambandi við þetta mál að hér ríkir mikið óðagot af hálfu ríkisstjórnar. Hæstv. iðnrh. er í mikilli pólitískri kastþröng. Hann hefur frá því að hann tók við störfum haustið 1988 verið með fullyrðingar um það mánuð eftir mánuð að áformin um stóriðju, stórfellt átak á sviði stóriðju, séu í burðarliðnum, séu á næsta leiti. En það hefur gerst jafnoft að þeim áformum hefur seinkað og yfir þau hefur fennt og málið hefur verið í strandi og verið að koma upp með nýjum hætti í ögn breyttum búningi eins og það liggur hér fyrir. Allur er þessi málabúnaður lítt trúverðugur og ég hlýt að spyrja: Eru líkur á því að þetta upplegg sem nú liggur fyrir og hér er verið að bera fram í tenglsum við þetta frv. gangi upp? Að þessi áform gangi raunverulega upp? Að þeir aðilar sem skrifað hafa með ríkisstjórninni undir yfirlýsingu þar sem þeir lýsa áhuga sínum muni fylgja hæstv. iðnrh. á leiðarenda í þessum áformum? Ég er ansi hræddur um að hæstv. ráðherra hafi litlar tryggingar fyrir því og ekki harma ég það út af fyrir sig.
    Ég tel það algert óráð að leggja fram fé í virkjanaundirbúning og framkvæmdir við ríkjandi aðstæður meira en orðið er í þágu álbræðslu sem raunverulega ekkert naglfast liggur fyrir um hvað snertir undirbúning, hvað þá samninga um undirstöðuþætti. Ég hlýt að vekja athygli á því hver áhrif slík áform hljóta að hafa á samningsstöðu Íslands í þessu máli. Landsvirkjun hefur þegar teygt sig langt út á ystu mörk hins löglega, ef ekki fram yfir það, með þeim fjárfestingum sem lagt hefur verið í við nýja virkjun við Búrfell sem sumum hentar að kalla ,,stækkun Búrfellsvirkjunar``. Hef ég leyft mér að spyrjast fyrir um það hver sé skilgreining á virkjun samkvæmt lögum og reglum. Hversu langt geta menn teygt sig í þeim efnum hvað snertir virkjunarmannvirki og sameinað það undir einu og sama heiti? Ég hef vakið athygli á því að hæstv. iðnrh. hefur verið á tæpu vaði í því máli sem og

Landsvirkjun. Ríkisendurskoðun hefur fjallað um það mál og skilað um það sérstakri skýrslu til þingsins.
    Þá kem ég, virðulegur forseti, að þeim þætti sem ég tel þörf á að ræða hér sérstaklega. Það er með hvaða hætti hæstv. iðnrh. hefur leitast við að vinna þessu máli brautargengi, undir hvaða flaggi er þar gengið, með hvaða rökstuðningi. Ég held að þörf sé á því fyrir Alþingi að átta sig á því, og ekki aðeins fyrir Alþingi heldur fyrir þjóðina sem hefur mátt hlýða á ítrekaðar staðhæfingar hæstv. ráðherra á undanförnum missirum þess efnis að bygging 200 þús. tonna álbræðslu væri slíkur hvalreki fyrir íslenskan þjóðarbúskap að það jafngilti því að Íslendingar öfluðu 200 þús. tonnum meira af þorski, að eitt kg af þorski jafngilti sama magni af bræddu áli fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Á þessu hefur hæstv. iðnrh. klifað í fjölmiðlum, hér á Alþingi og borið fram fullyrðingar sem eru svo alvarlegs eðlis að það hlýtur að verða að taka til alveg sérstakrar skoðunar. Og ég bið hæstv. forsrh. alveg sérstaklega að fylgjast með því sem ég hef að segja um það mál. Til þess að vekja athygli á því hvernig hæstv. ráðherra hefur reynt að sannfæra þjóðina um ágæti þessara áforma er rétt að vitna aðeins í hans eigin orð. Ég leyfi mér að grípa hér niður á örfáum stöðum af mörgum sem finna má. Ég nota þar flokksmálgagn ráðherrans, Alþýðublaðið, og skrif hans og ummæli í því. Þar
segir hæstv. ráðherra með svofelldum orðum 24. okt. sl., ein lítil tilvitnun í langa grein:
    ,,Eitt tonn af áli frá álbræðslu hér á landi skilar álíka miklu í þjóðarbúið og eitt tonn af þorski upp úr sjó. Þegar málið er skoðað á þennan hátt sjá menn glöggt hversu mikilvæg viðbót við atvinnulífið stækkun álversins í Straumsvík getur orðið. Við þurfum þessa viðbót nú þegar draga þarf úr þorskafla til þess að vernda þorskstofninn.``
    Og hvar er hæstv. iðnrh. staddur um áramótin í áramótagrein sinni í Alþýðublaðinu?
    ,,Eitt tonn af áli frá álbræðslu hér á landi skilar álíka miklu í þjóðarbúið og eitt tonn af þorski upp úr sjó. Það þarf í raun ekki fleiri orð til þess að lýsa því hversu mikilvæg viðbót við atvinnulífið í landinu öllu aukin álframleiðsla gæti orðið.``
    Og enn kveður hæstv. iðnrh. og nú 17. mars 1990. Það er tilvitnun í Alþýðublaðið, grein hæstv. ráðherra í Alþýðublaðinu:
    ,,Til að gefa hugmynd um hversu mikilvægt er að í þetta verði ráðist, þá stappar nærri þegar verðið á álinu er í góðu meðallagi að eitt tonn af áli sé jafnmikils virði sem innlegg í þjóðarbúið og eitt tonn af þorski.``
    Þetta læt ég nægja af fjölmörgum ummælum hæstv. iðnrh. til að vinna þessu máli brautargengi meðal þjóðarinnar, ekki aðeins hér á Alþingi. Þetta er markaðssetningin á hugmyndinni. Með hliðsjón af þessu hljóta menn að hafa kippst við, þeir sem hafa lagt trúnað á þennan málflutning hæstv. iðnrh., þegar það er upplýst af hæstv. ráðherra að Alantal-aðilarnir hyggist nú gera gott betur en fjárfesta í 200 þús. tonna bræðslu. Þeir ætli að stefna á 400 þús. tonna

bræðslu. Þá eru menn komnir hér með hvalreka sem gerir gott betur en veiðar á öllum þorski á Íslandsmiðum. Ætli það fari ekki hátt í að vera til jafns við allan botnfiskaflann sem þarna er á ferðinni og reyndar gott betur? Hvernig í ósköpunum stendur á því að Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnin hafa ekki uppgötvað þennan stórasannleik fyrir lifandi löngu og það skuli þurfa fyrrverandi þjóðhagsstjóra til þess að setjast í stól iðnrh. til þess að finna upp púðrið til að koma auga á gullið? Svona er það. En það vildi nú til að maðurinn fannst sem reiðir fram þennan sannleika hér og ber fram þetta mál hvernig leysa eigi framtíð íslenskrar þjóðar, leysa hér atvinnumálin og koma hreyfingu á hlutina, láta renna upp gullöld og gleðitíð í landinu með byggingu þessarar álbræðslu.
    Ég hef leyft mér að vara við þessum staðhæfingum hæstv. iðnrh. og reyndar talið þær vera hina mestu fjarstæðu. Það þarf nú kannski ekki mjög mikið hyggjuvit til þess að sjá að eitthvað vantar upp á röksemdafærslu. Svo gerðist það hér í vikunni leið að blaðamaður í fjöllesnu dagblaði tók sig til að slá reiknistokki á þetta og miða við forsendur sem lesa má m.a. út úr greinargerð með þessu frv. frá Þjóðhagsstofnun, þar sem hæstv. iðnrh. eitt sinn var húsbóndi. Og hver var niðurstaðan hjá blaðamanni Dagblaðsins í grein sem birtist þar sl. fimmtudag? Var hún staðfesting á orðum hæstv. iðnrh. um jafngildi eins tonns af áli fyrir íslenskt þjóðarbú og eins tonns af þorski? Nei. Niðurstaðan hjá blaðamanninum varð sú að hæstv. iðnrh. væri nífaldur ósannindamaður í þessu efni. Ekki það að hann hefði skreytt svolítið, ekki það að hann hefði tvöfaldað, heldur að hann væri nífaldur ósannindamaður í þessu máli. Markaðssetningin á þessu álveri af hálfu ráðherrans, hin pólitíska markaðssetning væri undirbyggð með þeim hætti. Og ég vil, virðulegur forseti, óska eftir því að hæstv. forsrh. sé viðstaddur hér þegar ég ræði þessi mál því þetta er ekkert smámál.
    Blaðamaður DV segir í sinni grein um þetta að staðhæfingar iðnrh. gefi ekki alveg rétta mynd af málinu. Og í niðurstöðunni: ,,200 þús. tonna álver verður þannig ekki jafnmikilvægt og 200 þús. tonna viðbót við þorskaflann, heldur álíka og rúmlega 22 þús. tonna viðbót. Á sama hátt ...`` ( Gripið fram í: 22?) Já. Ekki jafnmikilvægt og 200 þús. tonna viðbót, heldur álíka og rúmlega 22 þús. tonna viðbót. ,,Á sama hátt yrði 400 þús. tonna álver jafnvirði um 45 þús. tonna viðbótar við þorskaflann.`` --- Virðulegur forseti. Er hæstv. forsrh. ekki viðlátinn? ( Forseti: Hæstv. forsrh. situr nú fund með formönnum þingflokka stjórnarandstöðu, mjög mikilvægan fund. Hæstv. iðnrh. er hér í salnum og hlýðir á ræðu hv. ræðumanns. Ég vænti þess að hv. ræðumaður geti sætt sig við það að hæstv. iðnrh. komi spurningum hans og athugasemdum á framfæri við hæstv. forsrh. sem mun koma í salinn jafnskjótt og hann er búinn á þessum fundi.) Virðulegur forseti. Ég á bara ekkert vantalað við hæstv. iðnrh. um þetta mál. Ég á vantalað við hæstv. forsrh. Þess vegna óska ég eftir hans nærveru. ( Forseti: Hæstv. forsrh. getur ekki

verið á tveimur stöðum í einu, það er ljóst. Ef hv. ræðumaður telur sig ekki geta haldið áfram ræðu sinni án viðveru hæstv. forsrh., þá neyðist forseti til að fresta þessum fundi.)
    Virðulegur forseti. Mér finnst það vera mjög sérkennilegt að hér er verið að ræða mál sem borið er fram af ríkisstjórninni, sem lögð er áhersla á af hálfu ríkisstjórnarinnar að fái afgreiðslu, sem hæstv. iðnrh. segir vera forgangsmál
númer eitt á sínum málalista, sem ágreiningur er um, einnig innan ríkisstjórnarflokkanna að fram hefur komið, og hæstv. forsrh. telur sig ekki geta verið viðstaddan umræðu um málið. Ég hlýt að óska eftir því að þeim boðum verði komið til forsrh. að hans nærveru sé hér óskað. Síðan verður hæstv. forsrh. að gera það upp við sig hvort hann kemur í salinn til þess að vera hér viðstaddur.
    En hér segir áfram í niðurstöðum greinar DV á fimmtudaginn var: ,,Á meðan álverið nýja er að greiða niður fjárfestingarkostnað sinn og virkjana Landsvirkjunar verður því að framleiða um níu kg af áli til að skapa jafnmikinn gjaldeyri og fæst úr einu kg af þorski upp úr sjó. Síðar meir mun samanburðurinn breytast álinu í hag. Það verður hins vegar ekki fyrr en virkjanirnar verða að fullu greiddar upp og ef eigendur álversins ráðstafa hagnaði sínum hérlendis, að álið skapar gjaldeyri í líkingu við þorskinn.`` Þ.e. að álverið væri í íslenskri eigu, við fengjum hagnaðinn eða honum yrði ráðstafað hér innan lands, eftir að búið er greiða virkjanirnar upp að fullu, eftir mannsaldur eða svo. Hér eru náttúrlega svo alvarlegir hlutir á ferðinni að ráðherra sem staðinn verður að slíkum málflutningi hlýtur að verða að spyrja sjálfan sig: Hvar er hans sómi? Ætlar hann, eftir það sem fram kemur og ekki hefur verið hrakið enn sem komið er, að sitja eins og ekkert sé í ríkisstjórn Íslands? Ætlar forsrh. landsins að láta eins og ekkert sé eftir að búið er að vinna að máli sem ekki kostar nú minna fyrir íslenskt þjóðarbú, eins og það frv. sem hér er og það sem því fylgir, að halda áfram undir sama flaggi og sömu merkjum með þetta mál eftir að það er fram komið og hefur ekki verið hrakið að hæstv. ráðherra hefur gerst hér margfaldur ósannindamaður varðandi afraksturinn af þessu fyrirtæki? Það kann að vera að það séu veilur í þessum útreikningum og það er sjálfsagt að skoða það. ( Iðnrh: Skoðaðu það.) Já, það er sjálfsagt að skoða það. Það kann að vera ( Iðnrh.: ... margfalda yfirlýsingu um ósannindi mín.) Hæstv. iðnrh. gerist eitthvað ókyrr. ( Iðnrh.: Já, ég uni ekki svona orðalagi.) Það kann að vera að erlend aðföng í sjávarútvegi séu einhverjum prósentum hærri en þarna er reiknað með. Það kann að vera. En ég er ansi hræddur um að það breyti ekki grundvallarstöðunni í sambandi við þetta mál og þann málflutning sem þarna er viðhafður.
    Við skulum aðeins líta á þessar tölur að því er snertir afrakstur af þessari álbræðslu, samkvæmt þeim forsendum sem gefnar eru með frv. Þar er talið að brúttógjaldeyristekjur af álbræðslunni verði 20--21

milljarður kr., 20,5 milljarðar kr., skulum við segja. Aðföngin, hin erlendu aðföng sem greiða þarf, eru áætluð upp á 10,7 milljarða kr. Afgangurinn sem eftir stendur er þá 9,8 milljarðar. Afborganir og vextir af fjárfestingunum eru metnir á 5,9 milljarða kr. Hvað stendur þá eftir af brúttógjaldeyristekjunum? Það standa eftir 3,9 milljarðar kr. Og síðan á að borga einhver vinnulaun handa þessum 645 mönnum sem eiga að starfa við þetta fyrirtæki þegar allt er komið í gang og 36 að auki eiga að starfa við virkjanirnar. Það er reiknað á 1,3 milljarða kr. Þá standa eftir 2,6 milljarðar og það er eftir að borga raforkuna til Landsvirkjunar sem fer nú ansi langt með það að éta upp þetta sem þarna vantar á. Það eru í rauninni vinnulaunin, 1,3 milljarðar kr., sem er nettóhagnaðurinn upp úr þessu dæmi, ekki langt frá því, og það á að segja þjóðinni og það er sagt af hæstv. iðnrh. mánuð eftir mánuð, í grein eftir grein og viðtali eftir viðtal að þessi afrakstur fyrir íslenskt þjóðarbú upp á 1--2 milljarða kr. jafngildi 200 þús. tonna ársafla af þorski á Íslandsmiðum.
    Ég hlýt að spyrja hæstv. iðnrh. að því hversu hátt hann verðleggi sinn sóma, að flytja mál með þessum hætti, að reyna að koma fram þessari hugmynd og fá stuðning við þessar fjárfestingar og þessa álbræðslu með málflutningi af þessum toga. Ég er auðvitað reiðubúinn til þess að líta á þessar tölur og ég hef óskað eftir því í þingnefnd, sem þegar er farin að skoða þetta mál, að það verði lýst á þetta samhengi, það verði farið ofan í þetta samhengi. En ég er ansi hræddur um að það verði ekki mikið eftir af staðhæfingum hæstv. ráðherra þegar það hefur verið gert.
    Ég hygg að það sem hér er um að ræða, svona með allri sanngirni, það sem hangir á spýtunni og má tengja við hagnað fyrir íslenskt þjóðarbú hvað snertir nettógjaldeyristekjur væri eitthvað svipað og 10% aukning, 10--20% ef rúmt er reiknað, á þorskafla á ári eða eins og ein góð Grænlandsganga í besta falli. Nú er ég ekki að segja að slík aukning í þorskafla liggi á borðinu eða við getum stefnt að því óhikað á næsta ári, en það er þó markmið okkar Íslendinga að reyna að halda þannig á málum sjávarútvegs að hægt sé að fá meiri afrakstur af sjávarafla og þar á meðal af þorskinum á Íslandsmiðum. Það ber að vekja athygli á því að ekki þarf mikla fjárfestingu til viðbótar til þess að sá afli verði arðgæfur fyrir íslenskan þjóðarbúskap því að sáralítið þarf, ef nokkuð, að bæta við í fjárfestingu í þjóðarbúinu til þess að nýta slíkan afla, slíkan hvalreka. Hins vegar er haldið þannig á málum af hæstv. iðnrh. og fleirum í ríkisstjórn Íslands að það er smátt skammtað þegar um er að ræða rannsóknir á íslenskum miðum, á íslensku fiskstofnunum og umhverfi þeirra. Þar er ekki hægt að sjá af nokkrum tugum milljóna til þess að koma málum í sæmilegt horf. Þar
er skorið við nögl og skammtað smátt þar sem raunverulega er arð að sækja ef rétt er á málum haldið og Íslendingar byggja upp þekkingu sína á því sem þeir hafa yfirráð yfir í sjónum.

    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. komi áður en umræðunni lýkur, þ.e. mínu máli. Ég ætla að reyna að haga mínu máli þannig að ég ljúki
ræðu minni fyrir kl. 4. Ég hef að vísu mjög margt að segja um þetta mál en ég ætla ekki að koma í veg fyrir að aðrir fái hér sæmilegan tíma til þess að tjá sig í þessu máli. Ég er að vinna að þessu máli í þingnefnd sem ég á sæti í og þangað sem málinu verður væntanlega vísað að lokinni umræðu. Ég mun reyna að vanda þá vinnu eftir bestu föngum miðað við þann mjög nauma tíma sem hér er skammtaður, en hjá því verður ekki komist vegna stærðar málsins og alvöru að það sé rætt hér á Alþingi Íslendinga áður en menn misstíga sig með því að samþykkja þetta frv. og ég tala nú ekki um önnur sem eiga eftir að fylgja ef hugmyndir hæstv. ráðherra ganga upp.
    Ég hlýt, virðulegur forseti, að greina hér frá afstöðu minni, sem ég gerði grein fyrir í þingflokki mínum þann 7. apríl, til þessa máls og hef greint frá opinberlega, en geri einnig hér úr þessum virðulega ræðustóli. Mín bókun varðandi þetta mál og tillaga, sem ekki var samþykkt af meiri hluta í mínum flokki, var svohljóðandi, virðulegur forseti:
    ,,Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð haustið 1988 var það eindregin stefna Alþb. að hafna kröfum um erlenda álbræðslu sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafði samið um könnun á við svonefndan Atlantal-hóp. Þingflokkur Alþb. hafði eindregna afstöðu til málsins og forsrh. gaf út yfirlýsingu um að frv. sem tengdust nýrri álbræðslu yrðu ekki lögð fram gegn vilja einhvers aðila að ríkisstjórninni. Alþb. hefur ætíð talið að orkufrekur iðnaður komi fyllilega til greina sem þáttur í atvinnulífi í landinu, enda eigi íslenskir aðilar öll orkuver að fullu og meiri hluta í orkufrekum iðnfyrirtækjum. Flokkurinn hefur hins vegar ítrekað lýst eindreginni andstöðu við uppbyggingu orkufreks iðnaðar í höndum útlendinga og talið algera forsendu að íslenska ríkið eigi meiri hluta í stóriðjufyrirtækjum. Með eignarhaldi útlendinga á 200 þús. tonna álveri, til viðbótar við þau ítök erlendra aðila sem fyrir eru, yrði stökkbreyting á áhrifum erlendra auðhringa í atvinnurekstri hérlendis.
    Ég er andvígur fyrirætlunum um álbræðsluna þegar af ofangreindum forsendum en margt fleira veldur því að ég get ekki fallist á fyrirliggjandi frv. iðnrh. um raforkuver vegna álbræðslunnar. Bygging álvers og tilheyrandi virkjana mun hafa stórfelld áhrif á efnahags- og atvinnustarfsemi í landinu á meðan á framkvæmdum stendur. Um er að ræða hátt í 100 milljarða kr. fjárfestingu sem mundi koma til á 3--4 árum og valda gífurlegri þenslu nema aðrar framkvæmdir í þágu opinberra aðila og atvinnuvega yrðu stórlega skornar niður á sama tíma. Þessi áform stangast því á við núverandi stefnu stjórnvalda og viðleitni til að ná stöðugleika í efnahagsmálum.
    Stjórnarformaður Landsvirkjunar boðaði á ársfundi fyrirtækisins 6. apríl sl. að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir í skipulagningu opinberra framkvæmda, t.d. með því að Vegagerð ríkisins og sveitarfélög fresti

framkvæmdum á byggingartíma álbræðslunnar. Ég vara við slíkum hugmyndum og bendi auk þess á að bygging álbræðslu mundi bitna á nauðsynlegri endurskipulagningu í sjávarútvegi og draga þróttinn úr nýsköpun í öðrum greinum, svo sem ferðaþjónustu. Staðsetning álbræðslunnar hefur ekki verið ákveðin og er gefið í skyn af stjórnvöldum að erlendir eignaraðilar bræðslunnar eigi að hafa síðasta orðið í þeim efnum. Sýnir fátt betur afleiðingar þess að fela forræði í slíku fyrirtæki í hendur útlendinga. Sveitarfélögum og einstökum landshlutum hefur verið att út í keppni um fjárfestinguna sem leitt hefur til þess að einstök byggðarlög eru farin að bjóða niður framkvæmdakostnað í þágu útlendinganna. Fráleitt er með öllu að reisa stórfyrirtæki af þessu tagi á höfuðborgarsvæðinu, en jafnframt er ljóst að það leysir ekki atvinnuvanda landsbyggðarinnar nema staðbundið og í takmörkuðum mæli. Þegar stefnir í óefni með raforkuver til álbræðslunnar og svo er að sjá sem forusta Landsvirkjunar sé reiðubúin til að teygja sig afar langt í afslætti á raforkuverði. Fjármagn til virkjanaframkvæmda verður að langmestu leyti tekið að láni og m.a. vegna óvissu um þróun raunvaxta ætti að vera ástæða til að tryggja raforkuverð vel yfir framleiðslukostnaði nýrra virkjana.
    Annað er eftir þessu. Ekki hefur einu sinni verið gengið frá því sem forsendu fyrir álbræðslunni að hún lúti að fullu íslenskum skattalögum eða að lögsaga í deilumálum sé í höndum íslenskra dómstóla. Það virðist jafnframt eiga að verða samningsatriði hvort álbræðslan eigi að vera búin fullkomnustu mengunarvörnum. Ég hlýt að gagnrýna harðlega hvernig staðið hefur verið að undirbúningi þessa máls á vegum iðnrh. og geri kröfu til þess að allar forsendur málsins verði teknar til rækilegrar endurskoðunar nú þegar. Ég tel að ekki eigi að koma til greina að Alþingi veiti við þessar aðstæður heimildir til nýrra virkjana eða fjárskuldbindinga til undirbúnings og framkvæmda við virkjanir í þágu álbræðslu á þessu ári.``
    Þetta er mín tillaga um málið í þingflokki Alþb. og mín bókun við málið og hef ég margt að segja um hvern einstakan þátt en það verður ekki gert að sinni. Ég óskaði eftir því, hæstv. forsrh., að þú værir viðstaddur þessa umræðu vegna þess hversu málið er stórt sem við ræðum hér og vegna þess að hér er ágreiningur af minni hálfu, mikill ágreiningur, við ríkisstjórn sem ég hef stutt að mynduð var þó að ég hafi gagnrýnt hana í mörgum greinum og greiddi atkvæði gegn því að Borgfl. væri tekinn inn í það stjórnarsamstarf á sl. hausti. Ég hef vakið athygli á því að reynt hefur verið af hálfu hæstv. iðnrh. að vinna pólitískt fylgi við þetta mál með þeim hætti að það er vægt til orða tekið ámælisvert. Og ég hef sagt sem svo: Hver er sómi hæstv. iðnrh. eftir að hafa staðið þannig að máli, eins og hann hefur gert, í sambandi við fullyrðingar um hvað þessi álbræðsla gæfi í íslenskt þjóðarbú? Og ég hlýt að spyrja: Telur hæstv. forsrh. að það sé frambærilegt í nafni ríkisstjórnar Íslands að bera slíkt á borð fyrir þjóðina

og bera fram mál af þessum toga með þeim fölsunum og margföldum ósannindum sem fram hafa komið af hálfu ábyrgðaraðila þessa máls í ríkisstjórn og sem eru til þess fallin að rugla íslenska þjóð í ríminu í stórmáli með hætti sem er þannig að við allar venjulegar aðstæður, miðað við allar eðlilegar kringumstæður, þá hlytu þeir aðilar sem hafa slíkan málflutning í frammi að afsala sér ábyrgð ef þetta reynist rétt sem ég hef hér verið að rekja og sem fleiri hafa rennt stoðum undir. Hæstv. forsrh. hlýtur að íhuga hvort fært er að halda málinu áfram undir slíkri forustu og hvort ekki er ráðlegt að draga þetta frv. þegar í stað til baka og láta það liggja, eins og eðlilegt og sæmst væri. Enda ber enga nauðsyn til að samþykkja þetta mál hér, jafnvel ekki af hálfu þeirra sem hafa áhuga á því að reisa hér risaálbræðslu af því tagi sem um er rætt. --- [Fundarhlé.]