Raforkuver
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál um það frv. sem hér liggur fyrir, aðeins örfá atriði sem ég vil koma inn á sem mér finnst skipta máli í sambandi við þetta stóra mál sem hér er til umræðu. Þess vegna ætla ég ekki að ræða efnislega sjálft frv.
    Ég geri mér fulla grein fyrir því að leggja verður fram frv. til laga um orkuver og taka ákvörðun í sambandi við stórvirkjanir í landinu miðað við þau áform að reisa hér stóriðju þar sem ný raforkuver eru alger forsenda þess að um slíkt sé hægt að tala. Þar af leiðandi eru þetta samtengd mál, stórvirkjanir og stóriðja eða stóriðjuáform og ég hef ekki athugasemdir við það fram að færa. Mér finnst það eðlilegur hlutur og mér virðist einnig ljóst að ákvörðun um orkuver, hversu stór og hvar þau eigi að vera, verður að vera nátengd ákvörðunum sem þarf að taka um slíka stóriðju. Við höfum dæmi fyrir framan okkur þar sem þetta var ekki gert. Þar á ég að sjálfsögðu við Blönduvirkjun sem kostar þjóðina nú einhvers staðar um 12 milljarða kr. Við ákvörðun um þá virkjun var ekki gert ráð fyrir staðsetningu eða dagsetningu á orkukaupanda. Þar af leiðandi þarf ég ekki að ræða frekar um það mál. Það kemur að sjálfsögðu til meðferðar á Alþingi þegar ákvörðun verður tekin um það hvort möguleikar eru á því að reisa hér þá stóriðju sem á að standa undir og nýta þá orku sem hér er verið að tala um að láta virkja.
    Það sem mig langar fyrst og fremst til að taka hér til umræðu í sambandi við þetta mál er þetta stóra vandamál að því er varðar jöfnun á orkuverði í landinu. Ég þarf ekki að lýsa hér úr þessum ræðustóli hvernig að þessu máli hefur verið staðið. Það hefur verið rætt um þetta í áraraðir á hv. Alþingi. Allir aðilar sem um það hafa rætt hafa í raun verið sammála um að þetta væri takmark og þetta væri nokkuð sem yrði að framkvæma. Ég minni á stefnu ríkisstjórnarinnar um þetta atriði. Hún er ótvíræð. Ég minni á stefnu stjórnmálaflokkanna sem raunar hafa allir í áraraðir og sumir jafnvel í
áratugi lýst yfir áformum um að ná fram því markmiði að allir íbúar landsins sætu við sama borð að því er varðar orkukaup og verðið yrði það sama við hliðstæða notkun. Ég minni á þáltill. og frv. um þetta og meira að segja á þessu þingi. Ég get vitnað hér í þáltill. um jöfnun orkukostnaðar frá þingmönnum Vesturlandskjördæmis sem var til umræðu ekki alls fyrir löngu. Í þeirri þáltill. er rifjuð upp saga þessa máls að nokkru leyti. Þar er vitnað í málefnasamning ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá september 1988 og þar eru dregin upp örfá atriði sem ég vil, með leyfi forseta, rifja upp. Þar segir:
    ,,Höfuðverkefni ríkisstjórnarinnar er að treysta grundvöll atvinnulífsins, stöðu landsbyggðarinnar og undirstöðu velferðarríkis á Íslandi.
    Að framfylgja árangursríkri byggðastefnu, sem komi betra jafnvægi á byggðaþróun í landinu.
    Gerðar verða ráðstafanir til jöfnunar á flutningskostnaði og kostnaði við síma, húshitun og

skólagöngu.``
    Í endurnýjuðum málefnasamningi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 10. sept. 1989 segir í inngangi að samkomulag hafi orðið um að geta einungis helstu áhersluatriða í sérstöku samkomulagi um stjórnarsamstarf, en vísa að öðru leyti til málefnasamnings fráfarandi ríkisstjórnar. Eitt af áhersluatriðunum er þetta:
    ,,Endurskoða verðmyndun á orku með það að markmiði að jafna orkuverð og efla innlendan orkubúskap.``
    Ég þarf ekki að vitna í ýmsar samþykktir sem stjórnmálaflokkarnir hafa gert. Þó vil ég aðeins nefna í þessu sambandi Framsfl. Þar stendur:
    ,,Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins verði sameinaðar í eitt orkuöflunar- og dreifingarfyrirtæki og raforkuverð verði það sama til allra dreifiveitna. Stefnt verði að því að raforkuverð í smásölu verði jafnað til sambærilegrar notkunar.
    Raforkutaxtar verði endurskoðaðir með tilliti til nýtingartíma og orkunotkunar.``
    Í samþykkt kjördæmisþings Alþfl. í Vesturlandskjördæmi frá því í september sl. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Kjördæmisráðið beinir því til iðnrh. að hann vinni ötullega að jöfnun orkuverðs í landinu, enda er það ein meginforsenda áframhaldandi búsetu fólks á landsbyggðinni. Sama orkuverð á að gilda um land allt án tillits til búsetu.``
    Þannig mætti lesa heila bálka samþykkta stjórnmálaflokka hér á landi, samþykktar þáltill. hér á Alþingi og ýmsar yfirlýsingar sem gefnar hafa verið í þessu mikilvæga máli. En því miður er ástandið þannig í dag, þótt eitthvað hafi miðað, það ber að viðurkenna, að kostnaður þeirra sem búa á hinum svokölluðu köldu svæðum og treysta á rafmagnsupphitun er 2 1 / 2 --3 sinnum meiri en á þeim svæðum sem búa við bestu aðstöðu í sambandi við hitaveitu.
    Fyrir Alþingi liggur einnig frv. til laga á þskj. 470, um breytingu á lögum um Landsvirkjun, sem hefur verið til meðferðar í Ed. Alþingis nokkuð lengi.
Þar er gert ráð fyrir vissum lagabreytingum sem eiga að leysa þetta mál að vissu marki. En því miður ber ekki enn á því að samkomulag sé um að heimila afgreiðslu á því máli og sagt er að stjórnvöld beiti áhrifum sínum gegn þessu. Þegar við erum hér að ræða um að taka ákvörðun um raforkuver sem eru af stærðargráðu margir tugir milljarða kr. og reisa stóriðju sem er e.t.v. af stærðargráðunni 50 milljarðar kr., þá tel ég að það sé fyllilega tímabært, a.m.k. fyrir okkur þingmenn sem eigum að gæta hagsmuna þeirra íbúa landsins sem búa við þetta óréttlæti og hafa búið við það í áraraðir, að gerð verði tilraun til að tengja þessi mál saman. Og það er mín skoðun, herra forseti, að áður en gengið er frá samþykktum um ný orkuver og ný stóriðjuver sé ekki úr vegi að ætlast til þess að fyrir liggi ákvörðun stjórnvalda eða Alþingis um það hvernig verður staðið að þessari jöfnun umfram það sem þegar hefur komið fram í umræðum hér á

Alþingi, sem er alls ekki fullnægjandi. Þess vegna tel ég að við þurfum að fá skýr svör við því hvaða leiðir er hægt að fara og áætlað er að fara af stjórnvöldum í sambandi við meðferð þessara stóru mála sem við erum að ræða hér sem eiga eftir að hafa áhrif á íslenskt efnahagslíf, væntanlega í næstu framtíð, það liggi fyrir hvernig eigi að ná fram þeirri kröfu að jöfnun orku til allra notenda í landinu verði að veruleika.
    Það þarf í raun og veru ekki að hafa öllu lengra mál um þetta. Það þarf ekki að rökstyðja það frekar, það vita allir hversu þýðingarmikið þetta mál er, hversu mikið réttlætismál það er að allir þegnar landsins fái notið á sambærilegu verði þeirrar miklu orku sem er til staðar í okkar landi og verður til staðar með nýjum stórvirkjunum. Ég held að því þurfi ekki að hafa öllu lengra mál um þetta. En ég óska eindregið eftir því við hæstv. iðnrh. að hann komi inn á þetta mál, og jafnvel hæstv. forsrh. einnig, því þetta er ekki lengur neitt smámál. Ég sagði hér á dögunum í umræðum um þáltill. um jöfnun orkukostnaðar að það væri kominn tími til að þingmenn dreifbýlisins hættu þessu poti hver í sínu horni. Við hefðum reynt það í gegnum þá aðstöðu sem við höfum einn og einn, bæði í gegnum aðild að ríkisstjórn eða í stjórnarandstöðu en okkur hefði ekki tekist betur en staðreyndir sýna. Það væri kominn tími til að við tækjum höndum saman. Ég hygg að við getum myndað meiri hluta hér á hv. Alþingi og knúið fram aðgerðir í þessu máli svo að viðunandi sé. Ég tel að í sambandi við þau stórmál sem nú eru fram undan sé ekki úr vegi að við tökumst á um þetta mál eða alla vega við fáum skýr svör um hvað ríkisstjórnin vilji gera í sambandi við þetta mál.
    Við höfum oft rætt um að það væri sjálfsagt skjótvirkast að ná árangri með því að breyta lögum um Landsvirkjun. Eins og lögin um Landsvirkjun eru í dag er þetta óframkvæmanlegt. Það má vel vera að fyrsta skrefið sem væri hægt að stíga með skjótum hætti væri slík lagabreyting. Oft hefur verið rætt um það að sameina ætti Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins í eitt orkuöflunar- og orkudreifingarfyrirtæki. Út af fyrir sig hef ég ekki neitt á móti því að það væri skoðað. En ég hygg að langt sé í land með að ná samstöðu hér á hv. Alþingi um að leggja á orkuskatt eða orkujöfnun á nýjan leik sem leysi þetta mál svo viðunandi sé. Þó má það vel vera, en ég hygg að í sambandi við þessi mál nú sé eðlilegt að spurt sé og við áttum okkur á því hvort það er ekki hægt að finna hér lausn eða ákveða lausn sem landsmenn geti sætt sig við. En ég endurtek það hér að mér finnst það vera ákaflega erfitt, a.m.k. fyrir okkur sem höfum af þessu miklar áhyggjur vegna þeirra upplýsinga sem við höfum frá okkar umbjóðendum, að ganga hér eins og ekkert hafi í skorist að því að samþykkja nýjar stórvirkjanir upp á marga tugi milljarða kr. og samþykkja stóriðju upp á marga tugi milljarða kr. án þess að við sjáum lausn á þessu mikla vandamáli.
    Herra forseti. Ég gæti að sjálfsögðu talað langt mál

að öðru leyti um það frv. sem hér liggur fyrir en ég ætla ekki að gera það frekar við þessa umræðu. Ég sagði í upphafi að auðvitað er það ljóst að ef við ætlum að nýta þá miklu orku sem við eigum í fallvötnum Íslands og jarðhita þá er það náttúrlega ekki hægt nema því aðeins að hafa jafnframt orkukaupendur sem í þessu tilfelli er stóriðja. Ég er ekki svo harðsvíraður að mér detti í hug að halda því fram að það sé ekki eðlileg þróun og það sé ekki eðilegt að vinna að þessu saman. Og mér dytti aldrei í hug að segja að ég vilji ekki stuðla að því að hér séu reist álver, eða einhver álíka stóriðjuver, það finnst mér alveg sjálfsagður hlutur.
    Ég ætla ekki að ræða um staðsetninguna. Það eru margir staðir á Íslandi sem vissulega koma til greina og það er eðlilegt að mínu mati að þeir sem stjórna stórum byggðarlögum og ekki síst úti á landi, heilum landsvæðum, skoði það í alvöru sem eðlilegan kost að staðsetning slíkrar stóriðju væri athuguð á þeirra svæðum. Það er alveg ljóst að með því móti kemur nýtt líf í atvinnumálin á þessum svæðum. Ég er búinn að kynnast því af eigin raun hvernig er t.d. hér uppi í Hvalfirði. Ég man þegar níðstangir voru reistar á Grundartanga gegn því að reist væri sú verksmiðja sem þar er og menn spáðu auðn og dauða í byggðum í kringum það svæði. En reynslan er sem betur fer allt önnur. Þetta er ein af mikilvægum lyftistöngum á þessu svæði í atvinnulífi og
um leið fyrir þjóðarbúið í heild. Og sama er að segja um Sementsverksmiðjuna á Akranesi. Þess vegna lýsi ég því yfir að ég er alveg laus við fordóma á þessu sviði um leið og ég fullyrði að auðvitað verður að gera þær ströngustu kröfur sem nútíminn býr yfir í sambandi við uppbyggingu á slíkum stóriðjuverum.
    Herra forseti. Ganga mín hér upp í ræðustól nú var einvörðungu til að vekja athygli á þessu máli sem við höfum verið að reyna að berjast fyrir á undanförnum árum, þ.e. jöfnun orkuverðs í landinu fyrir íbúana hvar sem þeir eru. Það er mál númer eitt, tvö og þrjú í mínum huga og ég vil tengja það afgreiðslu þessa stórmáls.