Raforkuver
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það er sagt að draumurinn um eilífðarvélina sé eitt af því sem hugvitsmenn fyrri alda glímdu við og náðu aldrei að smíða. En í vissum skilningi má segja að vatnsaflsvirkjanir nálgist það að gera þann draum að veruleika og vafalaust vilja allir Íslendingar að fallvötn landsins séu hagnýtt til þess að skapa hér auð eins og aldamótaskáldin ortu um. Það fer aftur á móti ekki á milli mála að það er með nokkuð sérstæðum hætti hvernig Íslendingar hafa staðið að því að byggja upp sitt raforkukerfi og sína eignaraðild á því fyrirtæki sem veittur hefur verið aðalvirkjunarréttur á öllu vatnsafli á Íslandi. Þar eru að vísu Vestfirðir undanskildir vegna tilkomu Orkubús Vestfjarða.
    Þannig standa þau mál að þær virkjanir sem hafa verið hannaðar og eru hvað stærstar eru nú þegar á virkjanaskrá hjá Landsvirkjun sem þeirra eign hvað vatnsréttindi snertir, en einnig eru eignarnámsheimildir til staðar, eignarnámsheimildir sem miða að því að hægt sé að taka önnur vatnsföll og afhenda þau Landsvirkjun. Þetta fyrirtæki er aftur á móti til helminga í eigu ríkisins og tveggja sveitarfélaga, höfuðborgarinnar Reykjavíkur og höfuðborgar Norðurlands, Akureyrar.
    Það er stundum talað um að atkvæðisrétturinn sé misjafn í þessu landi. Þó er nú svo komið að með því að allir flokkar þurfa að hafa jafnmörg atkvæði á bak við hvern þingmann, en hafa mjög misjafnt fylgi eftir því hvernig stefnuskrá þeirra er á hinum ýmsum svæðum landsins, liggur það ljóst fyrir að búið er að jafna þennan atkvæðisrétt að fullu. En snúist aftur á móti umræðan um atkvæðisréttinn gagnvart vatnsvirkjununum blasir það við að þar hafa þeir sem í Reykjavík búa og þeir sem búa á Akureyri umtalsverðan atkvæðisrétt umfram aðra menn í þessu landi.
    En það er fleira sem er athyglisvert við þetta kerfi sem við höfum búið til. Landsvirkjun er eitt af fáum fyrirtækjum á Íslandi þar sem þannig er um hnútana búið að það á ekki að geta tapað, það hefur einokunaraðstöðu. Í 13. gr. laganna sem nú eru í gildi er gengið út frá því hvernig gjaldskráin skuli upp byggð og vil ég, með leyfi forseta, lesa 13. gr.:
    ,,Sama gjaldskrá skal gilda um afhendingu rafmagns til almenningsveitna á afhendingarstöðum Landsvirkjunar.
    Stjórn Landsvirkjunar setur, að fenginni tillögu Þjóðhagsstofnunar, gjaldskrá fyrir Landsvirkjun. Í gjaldskrá skal raforkuverð við það miðað að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni sem á hverjum tíma er bundinn í rekstri fyrirtækisins. Einnig skal að því stefnt að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi til þess að það geti jafnan með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum næga raforku.
    Landsvirkjun gerir orkusölusamninga við almenningsrafveitur og iðjuver innan þeirra marka sem segir í 2. gr. Til orkusölusamninga til langs tíma, við

iðjuver sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess er fer með orkumál. Slíkir samningar mega ekki að dómi ráðherra valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið.
    Landsvirkjun gerir samrekstrarsamninga við aðra raforkuframleiðendur sem tengjast stofnlínukerfi fyrirtækisins.``
    Hverjir eru það þá sem bera áhættuna ef við byggjum nýtt álver? Ráðherrann þarf að heimila. Hann ber aftur á móti ekki ábyrgðina vegna þess að það yrði einfaldlega litið á það sem mannleg mistök ef í ljós kæmi að þeir samningar sem hann hefði gert hefðu ekki reynst jafnhagkvæmir og gert var ráð fyrir. Þá spyr maður: Eru það eigendurnir sem bera áhættuna? Svo er ekki. Eigendurnir bera ekki áhættuna heldur raforkunotendur í landinu. Og þá kemur upp sú sérstæða staða að raforkunotendurnir í þeim bæjarfélögum á Íslandi sem eru eigendur að Landsvirkjun eru hlutfallslega miklu minni kaupendur að rafmagni, hinn almenni maður, en þeir sem eru fyrir utan þau svæði. Hvers vegna? Jú, einfaldlega vegna þess að þar er heitt vatn notað til upphitunar og orkukaupin miðast því við almenn not til annarra hluta hjá viðkomandi aðilum. Þetta leiðir hugann að því að í dag höfum við í gildi þannig kerfi í gjaldskrármálum að við erum nánast búnir að koma því svo fyrir að það verkar eins og að vega salt, þ.e. við erum með samninga hjá stóriðjunni sem eru háðir verðlagningu á áli á hverjum tíma og eru kannski ekki óeðlilegir, en á hinum endanum erum við með þann aðila sem ber áhættuna, þ.e. raforkukaupendurnir. Ef álverðið lækkar þá hefur það þær afleiðingar að verðið hjá hinum almenna kaupanda sveiflast upp vegna þess að Landsvirkjun hefur markað sér þá stefnuskrá að á 20 árum skuli allar skuldir hennar miðað við núverandi framkvæmdir vera greiddar.
    Nú er það svo að nokkur óróleiki er orðinn á þessum stað, þ.e. á vegasaltinu, vegna þeirrar sveiflu sem er í álverði í dag. En hvernig haldið þið að sé að vera á þessu vegasalti ef við bætum nýju álveri við? Þá yrði sveiflan svo rosaleg að það er spurning hvort menn mundu tolla á því. Þetta leiðir hugann að því að það er vonlaust að 13. gr. geti verið óbreytt verði farið í nýja stóriðju. Það hlýtur að vera eðlilegt að eigendurnir sjálfir,
þ.e. Landsvirkjun sjálf, taki sveiflunum og geti ekki velt þeim út í raforkuverðið í jafnbeinu sambandi við sveiflurnar og þær eiga sér stað.
    Ég hygg að hæstv. iðnrh., ef hann sest niður og skoðar þessa sveifluþætti, átti sig á því að það er illásættanlegur kostur, en hefur þó verið þannig að merkilega mikill friður hefur verið um, að búa við þá sveiflu sem í dag stafar af því hvað álverðið sveiflast upp og niður. En komi nýtt álver til viðbótar með þau gífurlegu orkukaup þá hlýtur það að vera ljóst að sveiflujöfnunin getur ekki átt sér stað hjá hinum almenna notanda. Og þeim mun fáránlegra er það að aðalkaupendurnir að raforkunni, nú á ég við ef þetta er skoðað út frá einstaklingum, eru þeir sem búa á

hinum köldu svæðum landsins, eru þess vegna með undirvægi í atkvæðum í ákvarðanatöku Landsvirkjunar, litlir arðþegar af tiltækinu en tvímælalaust aðaláhættuhópurinn eins og gjaldskrárkerfið er byggt upp. Þess vegna vænti ég þess að hæstv. iðnrh. virði mér það til vorkunnar þó að ég óski eftir því að fá uppgefið hvert verður raforkuverð Landsvirkjunar til kaupenda til ársins 2010 miðað við að allar skuldir verði greiddar upp á 20 árum, þar á meðal skuldir Blönduvirkjunar. Ég tel óhjákvæmilegt að þetta liggi fyrir, menn átti sig á því að ef þetta er sett svona upp þá mun það gerast að raforkuverð í landinu mun stöðugt fara lækkandi næstu 20 árin.
    Það hlýtur að vera eðlilegt að spurt verði: Hver verður kúrfan miðað við þá samninga sem ætlunin er að gera þegar menn svo setjast niður og láta á það reyna í fullri alvöru hvaða verð muni fást fyrir raforkuna.
    Ég verð að segja eins og er að mér hefði þótt það mun betra hefði verið staðið þannig að þessum málum að um leið og ásættanlegir samningar um raforkuverð við stóriðjufyrirtæki hefðu legið fyrir þá hefði verið óskað eftir virkjunarheimildum því að tvímælalaust hefðu Íslendingar þá haft mun traustari samningsstöðu. Nú blasir það við að menn vilja fara af stað með fjármuni, 300 milljónir, í sumar og treysta því að það tiltæki verði til þess að samningar náist í haust um ásættanlegt álver. Auðvitað hefur hæstv. iðnrh. betri möguleika til að meta það en óbreyttur þingmaður hvort þeir valkostir séu inni í myndinni að ná hinu ásættanlega raforkuverði til álvers. Það má líka segja að við séum nú þegar búnir að setja verulega fjármuni í virkjanaframkvæmdir, sem ekki hafa skilað arði, með hinum miklu rannsóknum sem settar voru af stað á Austurlandi á sínum tíma til að meta hagkvæmni Fljótsdalsvirkjunar.
    Ég held aftur á móti að ekki sé hægt að víkjast undan því að þegar við ræðum þessa hluti erum við að ræða um hin stóru mál í þessu þjóðfélagi. Og ég verð að segja það eins og er að ég vorkenni ekki Alþingi Íslendinga að taka sér tíma til að ræða hin stóru mál. Auðvitað eru þinglausnir og slíkir hlutir alger aukaatriði í samanburði við það að menn gefi sér þann tíma sem nauðsynlegur er til að ræða svona mál og komast að skynsamlegri niðurstöðu.
    Ég ætla að víkja að hinum þættinum sem ekki síður er umhugsunarefni og það er hvar stóriðjuver yrði staðsett í landinu. Nú má segja sem svo að það sé tvennt sem fyrst og fremst ber að hafa í huga við staðarval fyrir stóriðju. Annars vegar hvaða aðstæður eru á viðkomandi stað sem skapa þá hagkvæmni í byggingu álversins, vegalengdir frá virkjunum og þeir hlutir allir, ásamt umhverfismálum. Og hitt atriðið er hvaða áhrif það hefur á þróun efnahagsmála innan lands og þá á ég m.a. við búferlaflutninga í landinu. Nú vill svo til að gagnvart búferlaflutningum mælir allt með því að álverið verði ekki byggt hér suðvestanlands. Segja má að þeir staðir sem fyrst og fremst koma til greina gagnvart legu virkjananna séu Austurland, Norðurland og Vesturland. Út frá

sjónarmiði þess að æskileg stærð byggðar þarf að vera yfir vissum lágmarksmörkum til að vit sé í að setja þar niður álver, fer það ekki á milli mála að úti á landi er Eyjafjarðarsvæðið æskilegasti valkosturinn. Hitt er svo annað mál að út frá náttúruverndarsjónarmiðum er Eyjafjörður ef til vill óæskilegasti kosturinn. Það er lítið úrkomusvæði. Ekki má gera ráð fyrir því að mjög mikið af því sem berst með lofti frá verksmiðjunni berist á haf út heldur má gera ráð fyrir að verulega mikið af því magni lendi á þurrlendi og þetta er nú einu sinni eitt aðallandbúnaðarhérað landsins. Það má því segja að við séum í verulegum vanda staddir.
    Ég held þess vegna að samningar um mengun hljóti að vera mjög stórt mál ef við byggjum álver á stöðum sem tvímælalaust mega ekki við því að taka á móti miklu af skaðlegum efnum í gegnum úrkomu. Og ég hvet menn til að hugleiða það í fullri alvöru að mjög ólík sjónarmið þarf að sameina í þessum efnum. Besta staðsetning á álveri gagnvart mengunarsjónarmiði er tvímælalaust að hafa það þannig staðsett að sú loftmengun sem frá því kemur fari að miklu leyti á haf út og straumar sjái um að gera hana óskaðlega. Ég er aftur á móti ekki viss um að við eigum þá valkosti sem ég er hér að tala um og það gerir þess vegna þetta mál vissulega flókið. Hins vegar þýðir ekki að horfa fram hjá því að ef við tækjum okkur nú til og byggðum þetta álver hér á Reykjanesi þá væri það trúlega fljótvirkasta aðferðin til þess að hraða mjög byggðaþróun frá dreifbýlinu til þéttbýlisins. En jafnframt óvíst --- og það bið ég menn að hugleiða í fullri alvöru --- hvort Reykjavík hefur búsetulega til að bera þann styrkleika að hún geti keppt við borgir á meginlandi Evrópu um þann
fólksflótta sem gæti brostið á. Það blasir við í dag að hún á í vök að verjast í þessum efnum.
    Ég held þess vegna að það væri miklu æskilegra ef menn gætu fundið þann flöt á að álverið væri byggt úti á landi án þess að þar yrði mengunarhætta slík sem ég minntist hér á áðan og hagsveiflan innan lands kæmi jafnara inn í þjóðfélagið, styrkti að sjálfsögðu með því móti búsetu bæði í þéttbýli og dreifbýli í landinu. Því það fer ekki á milli mála að hvar sem álver yrði byggt í landinu þá mundi það skapa mörg störf hér á höfuðborgarsvæðinu í gegnum þjónustu. Mér finnst aftur á móti að við séum því miður með allt of marga lausa enda í þessu máli og óneitanlega erum við að færa gífurlegt vald til hæstv. iðnrh. og leggja á hann mikið traust með því að hleypa máli sem þessu áfram miðað við þá hina mörgu óljósu þætti sem eru til staðar. En ég vænti þess að hann geri sér fulla grein fyrir því að eitt af þeim atriðum sem óumflýjanlegt er að taka til endurskoðunar er uppbygging gjaldskrárkerfisins í 13. gr. sem geri það þá að verkum að það verði eigendur Landsvirkjunar sem taki áhættuna, en ekki þeir aðilar sem minnstan eignarhlut eiga í virkjuninni en yrðu samkvæmt núgildandi gjaldskrárkerfi að vera þeir aðilar sem mesta áhættu tækju, þ.e. raforkunotendurnir á hinum köldu svæðum þessa lands.