Raforkuver
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver o.fl., sem hér er verið að ræða er, eins og fram hefur komið í ræðum margra þingmanna, eitt af stærri málunum sem hér hafa verið lögð fram. Með því er verið að ákveða að stækka raforkuver á Íslandi með það í sjónmáli að byggja nýtt álver. Það hefur verið fróðlegt að hlusta á ræður margra þeirra þingmanna sem um þetta hafa rætt. Ég tek undir það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði um álver í Eyjafirði og er honum sammála um það að auðvitað á ekki að reisa neitt álver í Eyjafirði því að þrátt fyrir allt og alla nútímatækni þá mun vera einhver mengun af álveri. Veðurlag er með þeim hætti í Eyjafirði að hætt er við að þar geti orðið töluverð mengun með því og að sú slikja sem kemur úr álveri mundi leggjast yfir fjörð. Hins vegar er það svo að hér á suðvesturhorninu er sjaldan eða nær aldrei logn og þessi hætta því vart fyrir hendi.
    Í því sambandi er rétt að minna á það að þær virkjanir sem hér á að fara af stað með munu vera töluvert aflmiklar og auðvitað nauðsyn að virkja sem allra fyrst þessar orkulindir því það er lítið gagn í því að láta orkulindir landsins streyma til sjávar án þess að nota orkuna sem í þeim býr. Okkar auðæfi liggja í þeim orkulindum sem eru ónotaðar og við hljótum að reyna að virkja þær og nota þá orku til þess að byggja upp gott efnahagslíf í framtíðinni.
    Það kom fram í dag í skýrslu OECD um framvindu efnahagslífsins á Íslandi að ekki er gert ráð fyrir neinum hagvexti hér á Íslandi. Það er gert ráð fyrir að verðbólga verði töluvert meiri en ríkisstjórnin hefur áætlað og það þýðir auðvitað að lífskjör munu versna allmjög á næsta ári. Það sem getur snúið þessu við er bygging nýrra orkuvera, stækkun þeirra eldri og jafnframt að farið verði út í byggingu álvers á Reykjanesi. Það er nokkuð ljóst að það er
vafalaust hagstæðast fyrir þjóðina alla að byggja þar, en auðvitað á að byggja álver á þeim stað sem er hagstæðastur fyrir þjóðarbúið í heild.
    Í þessum umræðum hefur komið fram að það er bullandi ágreiningur í ríkisstjórnarliðinu. Það má segja að þeir tali hver í sína veru og hafi hver sína skoðun í þessu máli. Það sem er þess vegna mjög slæmt er að hér skuli vera lagt fram ríkisstjórnarfrv. í svona stóru máli sem ekki er eining um hjá ríkisstjórnarflokkunum. Það hlýtur að vera krafa að hæstv. iðnrh. svari því hér á eftir hvaða stjórnarflokkar standa að frv. og hvaða þingflokkar stjórnarliða samþykktu að það yrði lagt fram hér því að sá ágreiningur sem hefur komið fram í ræðum manna hér er það mikill að það kallar á svör. Það kallar á svör við því hvers vegna ríkisstjórnin er að leggja fram frv. sem hún er ekki sammála um og það kallar á þau svör hvort núverandi ríkisstjórn sé ekki komin að leiðarlokum. Mér sýnist ýmislegt benda til þess, bæði í þessu máli og í ýmsum öðrum málum núna á þinginu, að ríkisstjórnin sé að klofna. Það kæmi mér ekki á óvart þó að ríkisstjórnarliðið gæfist

upp við stjórnun landsins núna á næstu dögum, ef til vill í kvöld, ef til vill á morgun. Því sá ágreiningur sem er með stjórnarsinnum er svo áberandi í öllum málum og sá málflutningur sem þeir hafa hér í frammi í hinum ýmsu málum þar sem þeir brigsla hver öðrum á víxl með stóryrðum eins og kom fram í umræðum í dag. Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn er komin að leiðarlokum. Hún gæti þess vegna gefið upp öndina í nótt, hún gæti líka gefið upp öndina í fyrramálið. Hún er bara í öndunarvél þessa stundina og hún er í öndunarvél umhverfismálaráðuneytisins.
    Ég tel því að það hljóti að vera krafa að hæstv. ríkisstjórn sé samstiga þegar hún leggur fram slíkt stórmál, að hún sé sammála, en það er hún ekki. Og það verður að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann sé að leggja þetta frv. fram sem áróðursbragð, rétt áður en ríkisstjórnin springur, til þess að geta sagt að Alþfl. hafi lagt fram frv. til laga um byggingu orkuvera til að hægt sé að semja um álver. Manni býður óljóst í grun að þetta sé nú aðallega lagt fram vegna þess að ríkisstjórnin muni springa núna mjög fljótlega, ef ekki í kvöld þá á morgun. Ég tel því að þetta frv. sé fyrst og fremst lagt fram sem áróðursbragð hjá hæstv. ráðherra. Það liggur ekki ljóst fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir standi á bak við það.
    Að vísu veit hæstv. iðnrh. að frjálslyndir hægrimenn munu styðja það að farið verði út í virkjanir, þeir munu styðja það að byggt verði álver. Þeir munu ekki styðja það að láta auðlindir landsins renna ónotaðar til sjávar eða bulla í iðrum jarðar án þess að nota þær. Það hlýtur að vera mikilvægt að við notum þær auðlindir sem fyrir eru til þess að ná auknum hagvexti, til að ná betri kjörum fyrir fólk almennt í landinu. Og það er mikilvægt að nýtt álver verði byggt hér á Reykjanesskaganum sem allra fyrst því það er alveg ljóst að það er mikið atvinnuleysi á þessu svæði. Það er mikið atvinnuleysi á Suðurnesjunum, svo ég taki sem dæmi, það er mikið atvinnuleysi hér á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna hlýtur álver að verða byggt þar sem vinnuaflið er fyrir hendi, þar sem fólk vantar vinnu.
    Það er einnig alveg ljóst að hvað mengun varðar getur það svæði sem hér er um að ræða tekið á móti slíku álveri án þess að það hafi veruleg áhrif. Hér er í fyrsta lagi nánast enginn landbúnaður þannig að ekki er hætta gagnvart honum eins og er í Eyjafirðinum. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að Eyjafjörður er eitthvert blómlegasta landbúnaðarhérað landsins. Því er auðvitað stefnt í hættu. Allir vita veðurlagið á þessu svæði og menn ættu að gera sér það ljóst strax að þrátt fyrir nútímatækni og þrátt fyrir miklar framfarir í mengunarvörnum er ekki hægt að reka álver án þess að það sé mengun frá því. Þess vegna er það auðsær kostur að slíkt iðjuver sé reist á stað þar sem vindar blása og það er hér á suðvesturhorninu. Það má segja að afskaplega sjaldan sé logn og því sé þeirri mengun, þó hún sé ekki mikil, blásið í burtu þegar í stað. En við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að það

verður einhver mengun af slíku álveri.
    Það álver sem hér er verið að ræða um er vafalaust afskaplega mikilvægt fyrir framvindu efnahagslífsins eins og ég kom hér að áðan og það hlýtur að vera þjóðhagslega mikilvægt að landsframleiðslan verði aukin til þess að hún geti staðið undir frekari efnahagslegum framförum. Við sjáum að ef svo fer sem horfir nú þá vantar fjármuni, þá vantar framleiðslu til að standa undir meiri mannfjölda hér á Íslandi svo að hægt sé að ráða það fólk sem kemur út á vinnumarkaðinn á næstu árum til starfa á hinum ýmsu sviðum. Ef við aukum ekki framleiðsluna þá verður engin aukning landsframleiðslu og þá rýrna lífskjörin. Þess vegna hlýtur það að vera mikilvægt að fara sem fyrst út í slíkar framkvæmdir að því tilskildu að þeir sem ætla að reisa slíkt álver séu tilbúnir að borga það verð sem er hagstætt fyrir okkur. Þá kem ég að því sem hefur verið hreyft við í fjölmiðlum og víðar, en fregnir hafa borist um það að ríkisstjórn Íslands, samkvæmt því sem hæstv. forsrh. hefur látið liggja að, ætli sér að greiða niður byggingu álvers verði það reist t.d. við Eyjafjörð.
Og ég hlýt að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann muni standa að því að greiða niður kostnað við byggingu nýs álvers aðeins til þess að flytja það í Eyjafjörð. Ég hlýt að spyrja að því.
    Við þingmenn Reykn. höfum litið svo á að það ætti að reisa álver á þeim stað sem hagstæðast væri og þau fyrirtæki sem stæðu að því ættu að fá að ráða því sjálf án áhrifa frá ríkisstjórn Íslands. Þá erum við nokkuð vissir um að það yrði reist á Reykjanesi, t.d. á Suðurnesjunum eða í Hafnarfirði. En það hlýtur líka að vera krafa að einstök bæjarfélög fari ekki að undirbjóða og bjóða slíku fyrirtæki að greiða niður skatta og skyldur, eins og heyrst hefur að Akureyrarbær muni vilja gera. Ætla að borga fyrirtækinu af skattfé til þess að fá það norður. Það hlýtur að vera krafa að slíkt fyrirtæki fái raunverulega sömu stöðu hvar sem það er byggt. Það er mikilvægt að staðan verði sú að það fái enga sérstaka fyrirgreiðslu, hvort sem það er byggt á Norðurlandi, Austurlandi eða Suðurlandi, þá sé engin sérstök fyrirgreiðsla sem því verði veitt. Menn verði því að meta hvar sé hagstæðast að reisa slíkt og það verður þá þjóðhagslega hagkvæmast þegar lengra er litið fram í tímann.
    Það er alveg ljóst að þeir draumórar sem hafa verið mjög ríkjandi hjá ýmsum byggðarlögum um byggingu álvers eru náttúrlega ekki raunhæfir. Til þess að álver rísi verða að vera til staðar atvinnugreinar sem valda því að veita þjónustu sem slíkt álver þarf. Ég efast um að Eyjafjörður hafi slíkan iðnað við höndina. Ég tel líka að það hljóti að verða að líta til þess, eins og ég kom hér áðan inn á, að það er töluvert atvinnuleysi núna á Suðurnesjum og á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er því alveg ljóst að það á að reisa þetta álver á þessu svæði. Og það verður að vera vinnumarkaður sem getur þjónað slíku fyrirtæki.
    Ég vil einnig minnast á það að álver er og hefur

starfað nálægt Hafnarfirði. Komið hefur í ljós að sú þjónusta sem slíkt álver þarf er þar fyrir hendi. Þar eru undirverktakar sem kunna til verka og vita hvernig á að vinna í samvinnu við slíkt stórfyrirtæki. Ég vil einnig minnast á það að framkvæmd eins og hér er rætt um, og kemur reyndar vel fram í þeirri greinargerð sem frv. fylgir, hefur auðvitað mikil áhrif á meðan verið er að byggja orkuverin og álverið. Skammtímaáhrifin eru því meiri en langtímaáhrifin að þessu leyti. Í töflu sem fylgir þessu sést vel að mannaflaþörfin við byggingu og rekstur álvers er töluverð og gert er ráð fyrir að mest verði þörfin 1993.
    Mér sýnist miðað við þær tölur að svæði eins og Eyjafjörður muni ekki valda þessu verkefni. Svo einfalt er það. Gert er ráð fyrir því hér að 1993 verði mannaflaþörfin við slíkt 1793 menn. Ég er ekki búinn að sjá það að byggðarlag eins og Akureyri og Eyjafjörður valdi þessu verkefni nema með verulegri þenslu, verulegri hækkun á íbúðarhúsnæði, verulegri hækkun á allri þjónustu og erfiðleikum í rekstri á mörgum öðrum sviðum. Mér býður svo í grun að sá fjöldi sem þarf til þess að byggja og reka álver á þessum tíma muni verða til þess að ýmis iðnaðarfyrirtæki á Akureyri hrynji endanlega, og var nú ekki á það bætandi.
    Hér hefði auðvitað verið nauðsynlegt í þessu sambandi að ræða stöðu iðnaðarins á Akureyri almennt. Og það minnir mig á það að ég var að fletta í
dagblaði þeirra Akureyringa, Degi, í kvöld og við mér blasti mynd af hæstv. forsrh. Það er út af fyrir sig ekki merkilegt þó mynd af honum sé birt í málgagni hans á Akureyri. Það sem var merkilegt við þetta, og hæstv. iðnrh. ætti nú aðeins að íhuga út af hverju þessi myndbirting var, jú, hún var út af því að Samband ísl. samvinnufélaga, sem allir vita að er afskaplega gott fyrirtæki, hefur á undanförnum árum unnið iðnaðarvörur á Akureyri, svokallaða mokkajakka, og selt víða um heim. En á myndinni er sýnd þróunin í þessum iðnaði. Hæstv. forsrh. þáði að gjöf mokkajakka frá ítölsku fyrirtæki sem hafði unnið hann úr hráefni frá Akureyri, þeir höfðu selt þeim gærurnar óunnar. Þannig er nú komið fyrir þessu stolti Akureyringa um árabil, stolti KEA að framleiða fullunna vöru. Núna senda þeir bara hráefnið úr landi, það fer lítið fyrir því, og forsrh. klæðir sig síðan í ítalskan mokkajakka, að vísu úr íslensku skinni. Þannig er nú komið fyrir iðnaðinum á Akureyri.
    Þegar maður sér þróunina í þessu þá mun auðvitað með sömu þróun sá litli iðnaður sem er eftir á Akureyri deyja út. Það verða vandræði á vinnumarkaðinum þar því svo mikið vinnuafl eins og hér er talað um er ekki fyrir hendi á Akureyri og nágrenni. Þess vegna vil ég enn þá einu sinni taka undir það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði hér áðan um þessi mál. Ég held að hann hafi haft hárrétt fyrir sér enda vel kunnur staðháttum á Norðurlandi eystra þannig að ég held að það sé rétt hjá honum að það eigi ekki að reisa álver í Eyjafirði.

    Það hlýtur að vera krafa um það að svæði eins og hér á Suðurnesjum þar sem 28 þús. tonna kvóti hefur verið seldur burtu, til Norðurlands eystra að mestu, á undanförnum árum fái í staðinn iðnað. Það hlýtur að vera krafa um það. Hér er verið að samþykkja kvótalög sem stuðla að því að þessi kvóti festist í Norðurlandi eystra. Við þingmenn Reykn. hljótum að gera kröfu um það að í staðinn fáum við álver. Það hefur líka verið talað um það, og má vel vera að svo verði, að umsvif varnarliðsins verði minni á næstu árum. Það verður auðvitað að koma til móts við það fólk sem býr á Suðurnesjunum og býr hér á Reykjanesi. Það er ekki hægt að draga alla atvinnustarfsemi og vinnu í burtu frá þessum svæðum.
    Menn tala hér um byggðastefnu. Það hlýtur að vera krafa um að þessi byggðarlög hafi forgang um slík stórverkefni vegna þess að hér er bæði iðnaður sem veldur þessu, hliðariðnaður, vinnuafl til staðar og landsvæði sem hentar fyrir slíkt. Það hlýtur að vera krafa um það. Og ef við lítum á töflur sem fylgja frv. um vinnuafl á höfuðborgarsvæðinu þá sjáum við auðvitað að hér er til staðar sá hliðaratvinnurekstur sem þarf til þess að hægt sé að reka álver. Og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er ekki möguleiki á því að reisa slíkt fyrirtæki á stað eins og Akureyri.
    Ég vil líka undirstrika það að samgöngulega er Reykjanessvæðið sjálfgefið svæði fyrir nýtt álver. Þegar maður lítur á Eyjafjarðarsvæðið, hvort sem er með tilliti til mengunar, vinnuafls eða samgangna, þá liggur það ljóst fyrir að Reykjanessvæðið hefur yfirburði yfir það. Og ef það er svo rétt sem við höfum heyrt fleygt að það eigi að greiða niður byggingu álvers verði það reist í Eyjafirði, þá hljótum við að líta það mjög alvarlegum augum, í þjóðfélagi þar sem ríkisstjórninni hefur tekist að setja nýtt skattamet og hefur komist í þær mestu hæðir sem um getur í álagningu skatta þannig að núna eru skattarnir komnir í 27% af vergum þjóðartekjum, hafa vaxið um 19% síðan 1985 sem er mesta aukning í skattlagningu á hinum almenna borgara frá upphafi sögualdar. Jafnvel þegar tíundin var sett á á sinni tíð var það léttvægt miðað við það sem er núna verið að leggja á fólk. Fólk unir því ekki lengur að það eigi að skattleggja það til þess að fjármagna heimskulegar framkvæmdir hingað og þangað undir stjórn núv. ríkisstjórnar. Það hlýtur að vera krafa að ekki verði lögð króna fram til þessa verks til þess að mismuna stöðum. Það er algjör krafa. Ég held því að það hljóti að verða krafa til hæstv. iðnrh. að hann svari því hér hvort það muni vera ætlun ríkisstjórnarinnar að greiða niður álver, sé það byggt utan Reykjanessvæðisins. Það hlýtur að vera krafa.
    Við höfum séð að byggð hafa verið iðjuver á þessu svæði hér, alveg upp í Hvalfjörð. Sú verksmiðja sem er á Grundartanga hefur nokkurn veginn staðist það álag sem hún hefur valdið á vinnumarkaðinum en þó sér maður vankantana á þeirri verksmiðju með því að þeir aðilar hafa óskað eftir því að gerð yrðu jarðgöng undir Hvalfjörð svo hægt væri að nálgast

vinnumarkaðinn hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Auðvitað væri hægt að byggja álver þar með því að jarðgöng væru komin og þar með meiri nálægð við vinnumarkaðinn hér. Það liggur alveg ljóst fyrir.
    Síðan sést af þessu frv., eins og ég hef komið inn á, að ekkert liggur fyrir um álit ríkisstjórnarflokkanna. Það hefði einnig verið nauðsynlegt, hæstv. forseti, að hæstv. umhvrh. léti uppi álit sitt á umhverfisþáttum þessa frv. Ég tel að það hefði auðvitað verið, bráð nauðsyn.
    Þegar við lítum á heildardæmin væri gaman að vita hvað Akureyringar segja þegar þeir fara að borga sömu eignarskatta og við hér á suðvesturhorninu, hvort það heyrist ekki hljóð úr horni þegar íbúðarverðið hækkar þar. Það er
e.t.v. það sem þeir vilja. --- Ég sé að hæstv. umhvrh. er kominn í salinn. Ég vona að hann láti í sér heyra í þessu máli og segi okkur frá umhverfisþáttum þessa frv. og hvort það sé óhætt að byggja álver t.d. í Eyjafirði út af mengunarhættu.
    Það er eitt í þessu frv. sem er skondið ef maður lítur á samhengið í þeim frv. sem eru til umræðu á Alþingi. Í þessu frv. er gert ráð fyrir mörgum milljörðum eða tugum milljarða sem eigi að fara í uppbyggingu á þessum framkvæmdum. En í röksemdum með frv. til verðjöfnunar sem hér liggur fyrir frá hæstv. sjútvrh. er gert ráð fyrir að draga svona eins og einn milljarð á ári út úr þjóðarveltunni og ávaxta það í erlendum banka. E.t.v. er það bankinn sem forseti ASÍ var að boða að hann ætlaði að stofna í Lúxemborg á næstunni vegna þess að ekki væri nógu góð ávöxtun á fé hér. Það eigi að draga
einn milljarð með þeim hætti út úr landinu til þess að stjórna efnahagslífinu. Svo er aftur þessi fjárfesting upp á nokkra tugi milljarða, svo maður segir við sjálfan sig hvort þessar röksemdir í frv. til verðjöfnunar --- og það hefði verið gaman að heyra álit hæstv. iðnrh., sem er maður fróður um efnahagsmál, á því hvort það hefði nokkur áhrif þó við drægjum einn milljarð út úr sjávarútvegi en fjárfestum í staðinn fyrir svona 30 milljarða á öðrum sviðum, hvort það hafi í rauninni einhver efnahagsleg áhrif. Það verður alveg jafnmikil verðbólga fyrir því.
    Ég hef ástæðu til að ætla að það sé nauðsyn að fara út í þessar framkvæmdir, einfaldlega vegna þess að það hlýtur að vera hagstætt að virkja mengunarlausa orku sem núna streymir óbeisluð til sjávar eða niðar í jörðu niðri og auka þannig á landsframleiðsluna sem hlýtur að vera grundvöllurinn fyrir því að við getum veitt fleiri íbúum vinnu. En það er hins vegar verra ef ríkisstjórnin veit ekki hvort hún er með eða á móti þessu frv., hvort hún styður það eða ekki eða hvort það er svo að hún hafi gert ráð fyrir því að við í stjórnarandstöðunni mundum lyfta þessu frv. í gegn.
    Í þessu frv. eru ýmsir þættir sem hefði verið áhugavert að ræða frekar en það mun ég ekki gera við þessa umræðu þó að full ástæða hefði verið til þess. Þetta stórmál hefði átt að koma hér í þingið í byrjun þings, og fleiri stórmál, því það er auðvitað

ekki nokkurt vit í því að mál eins og bygging 200 þús. tonna álvers og orkuvera til þess að fullnægja orkuþörf slíks álvers sé tekið til umræðu með svo skömmum fyrirvara og eigi að afgreiðast í einum flýti.
    Ég vil, hæstv. forseti, að sinni ekki segja meira um þetta en gæti átt til að taka eina umferð síðar í kvöld um þetta mál.