Raforkuver
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Ég skal stilla ræðutíma mínum hér í hóf. Það er orðið heldur áliðið þessa dags og ekki ástæða til þess við 1. umr. að lengja hana mikið. Þó neyðist ég til þess að taka til máls vegna þess að ýmsum skeytum hefur verið beint til mín, bæði nú af hæstv. ráðherra svo og af a.m.k. einum ræðumanni, hv. 6. þm. Norðurl. e.
    Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þær viðbótarskýringar sem hann hefur gefið. Ég sakna þess reyndar að hæstv. forsrh. hefur ekki tekið til máls í þessum umræðum þrátt fyrir það að hann hafi verið beðinn um að sitja undir sumum ræðum og til hans hafi verið beint spurningum.
    Það sem situr fyrst og fremst eftir eftir 1. umr. er að eini talsmaður Alþb. í umræðunni, helsti sérfræðingur flokksins í orku- og iðnaðarmálum, hv. 2. þm. Austurl., formaður iðnn. Nd., hefur talað afdráttarlaust gegn þessu frv. Hann hefur meira að segja gengið svo langt að tala um fölsun og falskar forsendur.
    Í Ed. ræddi hæstv. menntmrh. um að ekki mætti gera neina nýja ,,Ísal-samninga`` og í öðru lagi væri það lykilatriði um frekari framvindu málsins að álver yrði reist utan höfuðborgarsvæðisins. Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir, oftar en einu sinni, að hann telji að stefna eigi álverinu út á land, m.a. með því að bjóða viðsemjendum íslenskra stjórnvalda upp á lægra orkuverð um tímabundið skeið. Hann hefur líka nefnt það á fundi norður á Akureyri að hugsanlegt sé að hafa skattana lægri um tímabundið skeið.
    Ef við hugleiðum aðeins þetta atriði þá hefur hæstv. forsrh. sagt að það eigi að lækka orkuverðið í ákveðnum tilgangi en hæstv. ráðherra Alþb. hefur sagt að ekki megi semja um lágt orkuverð. Við fáum ekki úr því skorið í þessari umræðu hvað menn eiga við þegar þeir tala svona. Ég hef bent á og skal benda á það enn einu sinni og benda hæstv. ráðherra á, að þegar ég var að tala um uppboðsstefnu um staðarvalið þá var ég ekki síst að tala um þá stefnu
að byrja á því að spila út hugmyndum eins og þeim að segja okkar viðsemjendum að við séum tilbúnir að slá af í stað þess að láta þá borga sem því munar að setja álverið niður á öðrum stað en þeim sem er reikningslega hagstæðasti staðurinn. Þetta er engin skipulagshyggja. Í raun og veru er þetta eðlileg kænska gæti ég sagt, eðlilega staðið að samningsgerðinni, að bíða eftir því hverju viðsemjendurnir spila út áður en maður gefur þeim fyrir fram vitneskju um hvað maður er tilbúinn að ganga langt, en því miður hefur hæstv. forsrh. gert það.
    Ég fagna því hins vegar að hæstv. iðnrh. hefur sagt að að síðustu þá sé þetta auðvitað samningsatriði. Ég skil hann svo að hann sé ekki tilbúinn til að skrifa undir hugmyndir hæstv. forsrh. um að það beri að spila út lægra orkuverði til þess að fá álverið staðsett á einhverjum ákveðnum stað á landinu. Það hlýtur að vera eðlilegt fyrir okkur í stöðunni að krefjast þess að

viðsemjendurnir borgi fyrir það að setja álverið niður á þann stað sem þeir óska ef það er ekki hagstæðasti staðurinn. Um þetta snýst málið og að blanda einhverri skipulagshyggju inn í það er auðvitað byggt á einhverjum misskilningi.
    Það sem skiptir auðvitað mestu máli hér er að átta sig á því: Hefur Alþb. neitunarvald? Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að það skipti engu máli hvað hv. 6. þm. Norðurl. geri. Ef hann kjósi ekki að styðja ríkisstjórnina í þessum efnum þá skipti það engu máli. Hann sagði nánast: Farið hefur fé betra, í umræðum sem hér urðu um daginn. En nú blasir það við eftir ræðu helsta talsmanns Alþb. að það verður að fá það hér skýrt, ef ekki í þessari umræðu þá í þeirri næstu, hvort Alþb. fellir sig við þær áætlanir sem fyrir liggja. Ef Alþb. gerir það ekki þá er lagafrv. óvarlega orðað þegar þar stendur að ríkisstjórnin þurfi að veita viðkomandi heimild, eins og segir í öðru bráðabirgðaákvæðinu. En eins og allir vita var því breytt úr því að vera iðnaðarráðherra í það að vera ríkisstjórn, sem er mjög sérkennilegt í lögum þar sem í öðrum greinum segir að það skuli vera iðnaðarráðherra sem veiti tilteknar heimildir.
    Ég ætla ekki að fara frekar út í þessa sálma hér, það gefst kannski tækifæri til þess síðar. En ég ætla að víkja í örstuttu máli að ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. Ég fagna því að hann skuli lesa það sem ég hef skrifað um þessi mál. Ég get staðið við allt sem stendur í þeirri grein sem hann vitnaði til, sérstaklega varðandi það hvernig okkur hefur tekist að borga upp mannvirkin við Búrfell og reyndar öll mannvirkin sem tengjast Ísal með sölu á raforku til álversins í Straumsvík. Það eru staðreyndir sem er auðvelt að reikna út og liggja fyrir. En hv. þm. sagði að ég hefði talað gegn jarðgangagerð á Vestfjörðum. Ég vil enn á ný ítreka að það voru ekki mín orð. Ég tók skýrt fram að ég væri ekki gegn slíkum göngum. Það sem ég var hins vegar að benda á var að allar aðgerðir og allar framkvæmdir sem miðast að því að auka útgjöld ríkissjóðs á næstu árum eru fallnar til þess að auka á þensluna á meðan hér situr ríkisstjórn sem treystir sér ekki til þess að takast á við ríkisfjárlögin og ríkisfjármálin með þeim hætti að jafnvægi sé í niðurstöðum í
ríkisfjármálunum. Það eru einmitt þau atriði sem skipta langmestu máli. Hafi hv. þm. lesið þá grein sem
hann vitnaði til þá er einmitt vikið að því í lok greinarinnar, þar sem segir að það skipti langmestu máli að framkvæmdirnar valdi ekki verðbólgu og efnahagslegum óstöðugleika. Þær þurfa ekki að gera það ef hæstv. ríkisstjórn sinnir því hlutverki sínu að sjá til þess að dregið verði úr öðrum framkvæmdum þau örfáu ár sem þessar framkvæmdir standa yfir. --- Þetta er aðalatriði málsins.
    Í lok þeirrar greinar bendi ég á atriði sem kannski er ástæða til þess að rifja enn á ný upp. Á næstu tímum munum við eiga þess kost að fjárfesta erlendis, ekkert síður en hérlendis. Sú þróun getur orðið okkur til gagns, ef okkur tekst á sama tíma að fá erlenda

aðila til að fjárfesta hér á landi. Það gerist hins vegar ekki nema með öflugri markaðssókn og það er ekkert sem bendir til annars en að við getum boðið orku á samkeppnishæfu verði í fyrirsjáanlegri framtíð. Næstu skrefin í þá átt að auðvelda samstarf við erlenda aðila hljóta að verða þau að setja almenn lög um fjárfestingar, eignarhald og réttarstöðu þeirra hér á landi og gera skattlagningu fyrirtækja sambærilega því sem gerist í öðrum Vestur-Evrópulöndum. Það verður Alþingi að takast á við fyrr en síðar. --- Þetta voru lokaorðin í þeirri grein sem hv. þm. heiðraði mig með því að lesa upp úr áðan og vitna til.
    Hæstv. forseti. Ég lofaði því að vera stuttorður og ég vonast satt að segja til þess að þessi orð mín kveiki ekki frekari umræður. Það var nauðsynlegt fyrir mig að svara þeim athugasemdum sem komu fram í ræðum fyrr á þessum fundi þar sem í vissum tilvikum voru mér gerðar upp skoðanir.