Atvinnuleysistryggingar
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. meiri hl. heilbr.- og trn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þetta frv. Á fund nefndarinnar kom Dögg Pálsdóttir, deildarstjóri í heilbr.- og trmrn.
    Í nefndinni hefur komið fram það sjónarmið að fella beri burt það skilyrði í lögunum að réttur til atvinnuleysisbóta sé háður félagsaðild að stéttarfélagi, sbr. 1. gr. frv. Um þetta atriði er djúpstæður ágreiningur. Verkalýðshreyfingin leggur mikla áherslu á að þetta ákvæði haldist óbreytt. Því telur meiri hl. nefndarinnar ekki rétt að gera eða standa að tillögu sem byggir á slíku sjónarmiði.
    Í skýrslu sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um skýrslu Íslands um framkvæmd á ákvæðum í félagsmálasáttmála Evrópu á árunum 1986 og 1987 kemur fram gagnrýni á það fyrirkomulag að réttur til bóta úr atvinnuleysistryggingasjóði sé tengdur aðild að stéttarfélagi. Ágreiningur er þó innan embættismannanefndarinnar um túlkun sérfræðinganefndarinnar á 5. gr. sáttmálans. Hluti nefndarmanna (fulltrúar Bretlands, Danmerkur, Noregs, Íslands, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Svíþjóðar) telja að túlka beri ákvæðið þröngt þannig að það taki ekki til réttarins til að standa utan félaga. Hinn hlutinn (Austurríki, Frakkland, Ítalía, Kípur, Malta og Spánn) eru sammála sérfræðinganefndinni. Fulltrúar Grikklands og Írlands hafa verið í vafa og setið hjá. Afleiðing þessa er að ekki er tilskilinn meiri hluti að baki annarri hvorri skoðuninni á málinu í embættismannanefndinni.
    Svör og skýringar íslenskra stjórnvalda og Alþýðusambands Íslands á þessu fyrirkomulagi koma fram í skýrslu Íslands um framkvæmd sáttmálans á árunum 1988 og 1989 sem nú er unnið að. Í ljósi þess að álit sérfræðinganefndarinnar á skýringum íslenskra stjórnvalda liggur ekki fyrir fyrr en sumarið 1991 mælir meiri hl. nefndarinnar með því að réttur til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði verði áfram háður sömu skilyrðum og nú er krafist. Taki sérfræðinganefndin ekki tillit til skýringa íslenskra stjórnvalda og telji að óbreytt fyrirkomulag sé í andstöðu við félagsmálasáttmálann mælist meiri hl. nefndarinnar til þess að félmrh. og heilbr.- og trmrh. beiti sér fyrir viðræðum milli aðila vinnumarkaðarins um þetta efni með hliðsjón af afstöðu Evrópuráðsins til skýringa íslenskra stjórnvalda.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu að við 1. gr. komi einungis tæknileg breyting, orðalagsbreyting, að í stað orðanna ,,þeirra félaga`` komi: í þeim stéttarfélögum. Greinin mundi þá hljóða svo: ,,Ákvæði laga þessara taka til félagsmanna í þeim stéttarfélögum, sem við gildistöku þeirra eru aðilar að Atvinnuleysistryggingasjóði, svo og í þeim félögum, sem stjórn sjóðsins veitir síðan aðild að sjóðnum ...``
    Það láðist síðan í efnismeðferð að taka tillit til laga sem ætti að taka með í þeirri meðferð sem fjallað er um í 11. gr. frv. að sameina skuli og gefa út

sameiginlega. Gerð er tillaga um það í minnihlutaáliti og það er tillaga okkar að sú brtt. minni hl. verði samþykkt.
    Undir þetta meirihlutaálit heilbr.- og trn. rita Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Geir Gunnarsson, Guðmundur G. Þórarinsson með fyrirvara og Jón Sæmundur Sigurjónsson.